main image

Þyrilfluga vakti athygli Akureyringa í kalda stríðinu

Þyrlur koma nokkuð við sögu í fréttamyndum af eldgosinu á Reykjanesskaga. Núorðið þykir ekkert tiltökumál þótt hér sjáist til þyrlu í háloftunum en þannig hefur það ekki alltaf verið. Um miðja 20. öldina sást þyrla í fyrsta skipti á Akureyri. Heimsókn amerísku þyrlunnar – þessarar mikilfenglegu uppfinningar mannsins – hefur án vafa fyllt margan bæjarbúann stolti. Á sama tíma og farartækið sveimaði yfir bænum, var undirbúningur á lokastigi fyrir tímamótaflug tveggja þyrlna frá Bandaríkjunum yfir Atlantshafið, með viðkomu á Íslandi. Stoltið yfir hugviti og kröftum mannsandans var ekki minna úti í hinum stóra vestræna heimi.

Átök austurs og vesturs voru greinileg sumarið 1952 þegar skip úr bandaríska flotanum lá við bryggju á Akureyri. Bandaríkjamenn voru að undirbúa vetnissprengju í tilraunaskyni sem sprengja átti á Marshall-eyjum í nóvember og fyrstu vopnuðu átök Kalda stríðsins geysuðu í Kóreu. Um borð í flutningaskipinu var framandi loftfar sem notað var við leit að heppilegum stöðum til að koma upp ratsjám. Allt var þetta hluti af því að koma vörnum landsins í sem besta horf gagnvart hinu illa úr austri. Dagur greindi frá heimsókn fyrstu þyrilflugunnar til Akureyrar þann 14 júlí.

Hér kom fyrir helgina amerískt flutningaskip, tilheyrandi sjóhernum, og hafði meðferðis þyrilflugu (helicopter). Hóf flugan sig upp af þilfari skipsins hér við Torfunefsbryggju á mánudagsmorguninn og flaug síðan hér umhverfis bæinn. Er þetta í fyrsta sinn, sem slík flugvél sést á flugi hér. Flugvélin settist jafnauðveldlega á þilfar skipsins, stanzaði í loftinu í nokkurri hæð og seig síðan hægt niður á þilfarið.

Daginn eftir að bæjarbúar virtu fyrir sér þyrlu hið fyrsta sinn, hófu tvær Sikorsky-þyrlur sig til flugs frá Bandaríkjunum áleiðis til Þýskalands. Flugmenn þyrlanna Hop-A-Long og Whirl-O-Way freistuðu þess að verða fyrstir til að fljúga þyrlum austur yfir Atlantshaf, til meginlands Evrópu með viðkomu á nokkrum stöðum, m.a. á Íslandi. Markmiðið var að kanna burði þyrlnanna til langflugs. Flugið gekk stóráfallalaust fyrir sig. Þyrlurnar lentu í Keflavík þann 29. júlí en fluginu lauk í Wiesbaden þann 4. ágúst eftir 20 daga ferðalag.

Auk Keflavíkur, lentu Sikorsky-þyrlurnar í Narsarsuaq á Grænlandi og Prestwick í Skotlandi á leið þeirra yfir Atlantshafið í júlí 1952. Fjölmiðlar víða um heim fylgdust með ferð þeirra og fólk flykktist á flugvellina til að berja þær augum. Þyrilflugan sem heillaði Akureyringa í sama mánuði kom víða við á flugi sínu um Norðurland. Hún lenti m.a. í Grímsey og á íþróttavellinum á Siglufirði og vakti óskipta athygli. Nú er öldin önnur. Þyrilflugurnar sveima um eins og hverjar aðrar flugur og lenda í grennd við gosstöðvarnar. Heimsbyggðin lætur sér fátt um finnast en fyllist aðdáun yfir ógnarkröftum náttúrunnar.

 

Heimildir:

Ekki á að ganga af Grímsey. (1952, 25. júlí). Siglfirðingur, bls. 4.

Ivy Mike. (2021, 5. mars). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Ivy_Mike

Vinnie Devine. (2014, nóvember). Sikorsky Product History. Sótt af https://www.sikorskyarchives.com/S-55.php

Þyrilfluga yfir Akureyri. (1952, 16. júlí). Dagur, bls. 8.

Þyrilfluga á íþróttavellinum á Ísafirði. (1952, 19. júlí). Morgunblaðið, bls. 12.

Þyrilvængjum flogið í fyrsta sinn austur yfir Atlantshaf. (1952, 1. ágúst). Alþýðublaðið, bls. 7-8.

Menningarverðmæti fundust í safninu hans pabba

„Ég fann þetta bréf þegar ég fór í gegnum dótið hans pabba og skemmti mér vel yfir lestrinum. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta lenti hjá honum en pabbi var mikið í því að skipta bókum í dánarbúum og fékk yfirleitt greitt í bókum og pésum. Mér finnst ekki ólíklegt að bréfið hafi ratað til hans með þeim hætti þó ég hafi ekki hugmynd um það.

Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að bréfið sé skrifað af Benedikt sjálfum eða er ég kannski með eintak sem einhver annar hefur skrifað upp eftir honum? Hvert var tilefni þessara skrifa? Hver/hverjir áttu að lesa eða var þetta bara skrifað af því bara?

Ég lofaði pabba því að ég skyldi aldrei lána, gefa eða selja nokkuð úr safninu hans. Mér þykir endalaust vænt um það og mun gæta þess vel. Það á ekki síst við um þetta tiltekna bréf sem pabbi hafði merkt sem fágæti.“

Svona hefst tölvupóstur sem Grenndargralinu barst ekki alls fyrir löngu ásamt myndum af gul-lituðu og snjáðu 19. aldar bréfi. Ónefndur einstaklingur í heimabyggð veltir fyrir sér tilgangi skrifanna og hvort Benedikt sá er vísað er til, sé Benedikt Gröndal náttúrfræðingur og skáld (1826-1907), sonur hins þekkta Pereat-rektors Lærða skólans, Sveinbjörns Egilssonar. Bréfið er nokkurs konar vottun eða staðfesting Benedikts á frelsi Vilborgar nokkurrar Sigurðardóttur til að ferðast óhindrað milli landshluta. Þegar bréfið var skrifað hafði Benedikt misst eiginkonu og tvær dætur. Hann lagðist í alvarlegt þunglyndi og sinnti illa starfi sínu sem kennari við Lærða skólann í Reykjavík. Honum var vikið úr starfi árið 1883. Næstu árin vann hann ýmis störf til að hafa í sig og á. Titill bréfsins er Fararbrjef handa stúlku. Árið er 1886.

Hjer með kunngjörist að stúlkan Vilborg Sigurðardóttir ætlar vistferlum hjeðan úr bænum, norður í Húnavatnssýslu, og er hún til þess fullkomlega frjáls, hvort hún vill heldur fara í norður, vestur, austur eða suður og eftir öllum strikum kompássins, hvort hún vill heldur ganga eða hlaupa, stökkva, klifra, skríða, fara á handahlaupum, sigla eða fljúga.

Áminnast hjer með allir karlmenn um að fikta ekkert við Borgu fremur en hún sjálf vill leyfa, og engar hindranir henni að gera, ekki bregða henni hælkrók, nje leggja hana á klofbragði, heldur láta hana fara frjálsa og óhindraða og húrrandi í loftinu, hvert á land sem hún vill, þar eð hún hefur hvorki rænt né drepið mann, ekki logið nje stolið, ekki svikið né neitt gjört, sem á verður haft.

Lýsist hún því hér með frí og frjáls fyrir öllum sýslumönnum og hreppstjórum, böðlum og besefum, kristnum og ókristnum, guðhræddum hundheiðnum, körlum og konum, börnum og blóðtökumönnum.

Heldur áminnast allir og umbiðjast, að hjálpa nefndri Borgu og greiða veg hennar, hvort heldur hún vill láta draga sig, aka sjer, bera sig á háhesti, reiða sig á merum eða múlösnum, trippum eða trússhestum, gæðingum eða graðungum, í hripum eða hverju því sem flutt verður á.

Þetta öllum til þóknanlegrar undirrjettingar, sem sjá kunna passa þennan. Enginn sóknarprestur þarf að skrifa hjer upp á.

Reykjavík 5. maí 1886.

Benedikt Gröndal.

Árið 1913 birtist grein í Verkamannablaðinu undir yfirskriftinni Passi. Þar er bréf Benedikts Gröndal birt í heild ásamt skýringum á hlutverki þess.

Það vóru lög fyrrum, að menn urðu að fá sér vegabréf hjá yfirvaldi til þess að geta ferðast frjálsir inn í annað lögsagnarumdæmi. Slík vegabéf eru enn í góðu gengi á Rússlandi, en munu nú vísast horfin annars staðar um hinn svonefnda siðaða heim. Þetta vegabréf eða passa, sem hér fer á eftir, gaf Ben. Gröndal vinnukonu sinni, sem fluttist vistferlum frá honum og orðar hann auðvitað á sína vísu. Afskrift af passa þessum mun vera í fárra manna höndum, en eftirsjá að hann glatist, svo einkennilegur sem hann er og líkur Gröndal.

Verkamannablaðið svarar þannig ágætlega þeirri spurningu eiganda bréfsins, hver tilgangur skrifanna var. Þá getum við svo gott sem fært til bókar að textinn í bréfinu kemur upphaflega frá umræddum Benedikt Gröndal, náttúrufræðingnum, skáldinu og rithöfundinum. Eftir stendur spurningin hvort þetta tiltekna eintak sem Grenndargralið fékk fyrirspurn um sé „orginall“, skrifað og undirritað af skáldinu sjálfu.

Þó ekki sé hægt að fullyrða nokkuð um það, verður líklega að teljast ólíklegt að svo sé. Til þess eru líkindin ekki nægilega mikil með undirskriftinni á bréfinu og undirskrift sem ótvírætt er runnin undan rifjum Benedikts. Eins getur Verkamannablaðið þess að afrit (ft) af bréfinu hafi verið til sem gefur til kynna mögulega fjölritun og þá ekki endilega frá rithöfundinum sjálfum. Þá er orðalag bréfsins sem hér er til umfjöllunar örlítið frábrugðið textanum sem birtist í Verkamannablaðinu.

Hvað sem öllu líður er ljóst að bréf sem hafði mikið varðveislugildi árið 1913 sökum þess hversu fá eintök voru til, hefur ekki minna gildi nú rúmum 100 árum síðar. Menningarlegt gildi fararbréfs Benedikts Gröndal handa stúlku frá árinu 1886 er þannig ótvírætt. Gott er að vita af þessari gersemi í sögu og menningu heimabyggðar í góðum höndum í safninu hans pabba.

Heimildir:

Lestu ehf. (e.d.). Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal. Lestu.is. https://lestu.is/safn/Benedikt%20Sveinbjarnarson%20Grondal/index.html

Passi. (1913, 1. maí). Verkamannablaðið, bls. 4.

Safnið – Vinir okkar í Murmansk

Grenndargralið rótar í safninu og glæðir gamla hugmynd lífi á Covid-tímum. Hugmyndina um nánara samstarf við vini okkar í Murmansk má rekja til kreppuára í kjölfar efnahagshruns í upphafi aldarinnar.

Af hverju eflum við ekki tengslin við vini okkar í Murmansk í Rússlandi? Er Murmansk einungis vinabær Akureyrar að nafninu til? Til hvers eru vinabæir? Já ég veit, kannski er eitthvað að gerast á bak við tjöldin sem hinn venjulegi Akureyringur veit ekki um. Hafa Akureyringar hugsanlega farið í opinbera heimsókn til Murmansk og skoðað heimahöfn eina flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta í öllum heiminum? Hafa aðilar frá sædýrasafninu í Murmansk mögulega komið til Akureyrar og miðlað af reynslu sinni? Kannski er menning okkar einfaldlega of ólík til að íbúar Akureyrar og Murmansk geti ræktað eðlilegt vináttusamband án þess að upplifa menningarsjokk. Kannski er bara betra heima setið en af stað farið.

Víst er að ekki er margt í umhverfinu sem minnir okkur á vináttutengslin við Murmansk og raunar aðra vinabæi okkar vítt og breytt um heiminn. Maður er reglulega minntur á sambandið við Randers í Danmörku með komu jólatrésins í desember og einhver samskipti hefur bærinn okkar átt við Álasund í Noregi. Í Svíþjóð er það Västerås, Narsaq í Grænlandi, Vagur í Færeyjum og Lahti í Finnlandi. Einhvern veginn finnst manni að það hljóti að vera til bókanir í fundargerðum fyrri ára um eflingu tengsla við þessa bæi. Þó ekki sé nema vegna landfræðilegra og menningarlegra tengsla landanna. En við eigum líka vinabæi sem eru lengra í burtu svo sem Gimli í Kanada og Denver í Bandaríkjunum. Og svo Murmansk.

Hvað eigum við svo að sækja til Murmansk? Getur það gagnast okkur að í Murmansk búa rúmlega 300.000 manneskjur? Já, án efa. Kemur það okkur til góða að vera vinabær borgar sem er með 86 grunnskóla og 56 framhaldsskóla? Svari hver fyrir sig. Ef við viljum efla tengslin, hvar eigum við þá að byrja? Mér skilst að í Murmansk sé öflugur bandýklúbbur. Hvað með að hefja samstarf við FC Sever Murmansk en svo heitir knattspyrnufélag borgarinnar? Liðið spilar í 2. deild í Rússlandi. Mætti ekki senda leikmenn héðan til reynslu í Murmansk og öfugt? Kaldur mottumars gæti verið góður tímapunktur til að fyrirbyggja menningarsjokk. Brettum upp ermar og sendum skeyti til Murmansk áður en motturnar hverfa og sól hækkar á lofti. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 6. Niðurstaða

Sumarið 1942, rétt um hálfu ári eftir komu Ethel Hague Rea til landsins, voru fjórar stúlkur úr ameríska Rauða krossinum í Reykjavík sendar til Akureyrar. Verkefni þeirra var að kanna möguleika á opnun tómstundamiðstöðvar á Akureyri fyrir setuliðsmenn þar og í nágrenni bæjarins. Jane Goodell, Doris Thain, Betsy Lane og Cam voru valdar til verksins.

Jane Goodell segir frá dvölinni á Akureyri í bókinni They Sent Me To Iceland. Erfitt er að meta út frá frásögn hennar hvort þær hafi skemmt setuliðsmönnum í ferðinni. Það kann vel að vera. Hvort sem er, þá þykir mér sennilegt að þarna sé komin skýring á því hvernig nótnahefti Ethel komst til Akureyrar og síðar í hendur Ingimars Eydal. Ég tel í það minnsta líklegra að Jane Goodell hafi haft með sér heftið til Akureyrar en Kathryn Overstreet þegar hún kom hingað til að spila fyrir bæjarbúa í janúar 1944.

Vissulega er ekki hægt að fullyrða nokkuð um hvernig eða hvenær nótnahefti í eigu starfsmanns ameríska Rauða krossins á hernámsárunum komst í hendur Ingimars Eydal. Ég get ekki horft framhjá ýmsum möguleikum öðrum en þeim sem tengjast ferðalögum Rauðakross-kvenna norður yfir heiðar á stríðsárunum. Gæti einhver hafa skilið heftið eftir á Hótel KEA á sjöunda áratugnum? Færði einhver Ingimari heftið að gjöf þegar hann fór suður til að skemmta á níunda áratugnum? Ómögulegt að segja.

Eftir að Ásta Sigurðardóttir vakti máls á dularfulla nótnaheftinu, þótti mér eðlilegt að kanna hvort ég fyndi eitthvað sem styddi það að heftið hefði komið til Akureyrar á stríðsárunum. Fyrir fram hefur nú líklega talist harla ólíklegt að ég hefði erindi sem erfiði. Ég gladdist því yfir fréttum af ferðalagi Kathryn Overstreet til Akureyrar. Ég upplifi hins vegar ákveðna sigurtilfinningu núna þegar ég veit að Jane Goodell kom í bæinn – konan sem sigldi til Íslands með Ethel í janúar 1942 og starfaði með henni innan ARC hér á landi við að skemmta setuliðsmönnum. Hún var stödd á Akureyri sumarið 1942 á meðan Ethel var ennþá við störf hér á landi.

Einhvers konar niðurstaða er komin í málið og ég finn vissan létti þegar ég les síðasta hluta bókarinnar hennar Goodell. Jane, Doris, Betsy og Cam hafa yfirgefið Akureyri og tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið við að koma tómstundaaðstöðu setuliðsmanna í Reykjavík í skikkanlegt horf.

Ég les lýsingar Jane á því hvernig starfskröftum Rauðakross-kvenna var dreift á ólík svæði; „Mary vann hörðum höndum við að koma nýju miðstöðinni í gagnið, Cam hjálpaði til í skólahúsnæðinu, Betty Clark undirbjó komu nýrra Rauðakross-kvenna og Ethel Hague Rea hafði verið send til að vera viðstödd opnun nýju tómstundamiðstöðvarinnar á Akureyri“!!

Skýrara getur það varla orðið. Ethel Hague Rea kom til Akureyrar á stríðsárunum. Og ekki orð að finna um það meir, ekki í bók Jane Goodell og ekki í dagblöðum þessa tíma, hvorki íslensku blöðunum né blöðum sem gefin voru út af setuliðinu. Ég finn ekkert um opnunina sem Jane vísar í og yfirhöfuð ekkert um tómstundamiðstöð setuliðsins á Akureyri. Aðeins þessi tólf orða málsgrein sem hripuð er niður af Jane Goodell; „Ethel Rea had been sent to open the new center at Akureyri.“

Kæra Ásta. Rannsókninni er lokið – í bili. Þó ekkert sé hægt að fullyrða nokkuð um hvernig Ingimar eignaðist heftið, hallast Grenndargralið að því að skemmtikrafturinn og Rauðakross-starfsmaðurinn Ethel Hague Rea hafi komið með heftið sitt í ferð sinni til Akureyrar seinni hluta árs 1942. Hún hafi ekki í eigin persónu afhent það hinum sex ára gamla Ingimari Eydal, sem þó var á þessum tíma hænuskrefum frá því að glamra á píanó á skólaskemmtunum. Hún hafi ekki haft það með sér þegar hún fór aftur til Reykjavíkur – gleymt því, skilið það viljandi eftir eða gefið einhverjum hér. Seinna, eftir að Ingimar var farinn að láta að sér kveða fyrir framan flygilinn hafi nótnahefti sópransöngkonunnar með einhverjum hætti komist í hans hendur – heftið sem framleitt var í Boston 1937 og inniheldur yfir 150 sálma og ættjarðarlög, ferðaðist yfir hafið með SS Borinquen árið 1942 til Íslands ásamt hundruðum hermanna og ellefu Rauðakross-konum og kom um sumarið til Akureyrar með eiganda sínum Ethel Hague Rea. Gersemi í sögu og menningu heimabyggðar.

Brynjar Karl Óttarsson.

Amerískir setuliðsmenn á skemmtun Rauða krossins þar sem Jane Goodell kom fram, hugsanlega á Akureyri sumarið 1942. Myndin er úr bók Goodell They sent me to Iceland.

 

Heimild:

Goodell, J. (1943). They sent me to Iceland. Ives Washburn Inc.

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 5. Píanósnillingurinn

Sífellt fjölgar í hópi Rauðakross-kvenna sem verða á vegi Grenndargralsins í tengslum við „rannsóknina“ á nótnahefti sópransöngkonunnar frá hernámsárunum. Heftið dúkkaði upp á Akureyri ekki alls fyrir löngu og fjölmargar spurningar vöknuðu í kjölfarið. Ég er kominn með nokkuð glögga mynd af heftinu og ég hef undir höndum upplýsingar um Ethel Hague Rea, sópransöngkonuna sem átti heftið og dvöl hennar á Íslandi. Aðalspurningunni er þó enn ósvarað – hvernig komst heftið til Akureyrar og í eigu Ingimars Eydal?

Samhliða lestri bókarinnar They sent me to Iceland eftir Jane Goodell, fletti ég gömlum dagblöðum á netinu. Ég rek augun í grein í Alþýðublaðinu frá júlí 1943 þar sem segir: „Einn af beztu yngri píanóleikurum Ameríku, Miss Kathryn Overstreet, dvelur nú hér á landi og ætlar að leika í ameríkska útvarpið á hverjum sunnudegi nokkrar næstu vikur. Hún er hér í þjónustu ameríkska rauða krossins og vinnur við eitt af skemmtiheimilum hans hér, eins og hinar stúlkurnar í gráu einkennisbúningunum.“ Mér finnst ég kannast við nafnið svo ég legg bókina hennar Goodell frá mér. Eitt augnablik hvarflar að mér að Overstreet tengist mögulega skemmtun sem ameríski Rauði krossinn hélt á Akureyri á hernámsárunum. Þannig var að ég rakst á frétt í gömlu blaði um skemmtunina síðastliðið sumar á meðan ég vann að gerð hlaðvarpsþátta um veru setuliðsins í Hlíðarfjalli og þóttist muna að þar hefði kona verið nefnd til sögunnar sem skemmtikraftur.

Ég finn upplýsingar um Kathryn Overstreet og hljómleika hennar fyrir setuliðsmenn á vegum ameríska Rauða krossins (ARC) og leiksýningar sem hún tók þátt í. Allt bendir til að hún hafi nær eingöngu skemmt setuliðinu og að Íslendingar hafi lítið sem ekkert notið píanóhæfileikanna fyrir utan flutning hennar í útvarpinu. Pínu bömmer. Ég er við það að missa veika von um geta tengt hana við nótnaheftið þegar ég rekst á fréttir um tvenna hljómleika hennar í Reykjavík í lok árs 1943. Það sem meira er, ég finn tilkynningu um að hún ætli sér að skemmta Akureyringum í upphafi nýs árs. Bingó. Tengingin komin.

Staðarblöð fjalla um tvenna hljómleika Kathryn Overstreet á Akureyri í janúar 1944 á vegum ARC og Tónlistarfélags Akureyrar. Fyrri hljómleikarnir í Samkomuhúsinu voru fyrir styrktarmeðlimi Tónlistarfélagsins og gesti þeirra. Degi síðar spilaði hún fyrir nemendur Gagnfræðaskólans og Menntaskólans.

Getur verið að nótnahefti og söngbók Ethel hafi komið til Akureyrar með Kathryn þegar hún kom hingað í ársbyrjun 1944 til að skemmta ungum sem öldnum? Já, klárlega er það möguleiki. Kathryn var píanóleikari og Ethel var söngkona. Þær störfuðu báðar hjá ARC í Reykjavík á þessum tíma. Ekki þarf að hafa mörg orð um mögulega notkun píanósnillingsins á nótnaheftinu á hljómleikunum á Akureyri. Svo virðist sem öll vötn renni til Dýrafjarðar.

Þá kemur skellurinn. Þegar ég rýni í tónsmíðarnar í nótnaheftinu sé ég að nær eingöngu er um sálma, þjóðræknislög og annað í þeim dúr að ræða. Ef marka má staðarblöðin var efnisskrá hljómleikanna helguð tónskáldum á borð við Bach, Chopin, Brahms, Debussy og Lizt svo einhverjir séu nefndir. Mér þykir þannig ólíklegt að nótnaheftið hafi nýst Overstreet á hljómleikunum hér á Akureyri þó vissulega sé ekki hægt að útiloka neitt í því sambandi.

Ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið í They sent me to Iceland og legg Kathryn Overstreet til hliðar. Allt virðist vera á réttri leið hjá þeim Rauðakross-konum í Reykjavík ef marka má bók Goodell. Fyrsta tómstundamiðstöðin á vegum ameríska Rauða krossins komin í gagnið og hugmyndir um að opna fleiri miðstöðvar. Fyrr en varir er ég farinn að lesa um ferð fjögurra Rauðakross-kvenna til Akureyrar. Leynist lausnin á ráðgátunni um nótnahefti sópransöngkonunnar kannski í bókinni hennar Jane Goodell?

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 4. Íslandsdvölin

Framhald…

Kathryn Overstreet (1913 – 1963)

 

Heimildir:

A. (1944, 6. janúar). Hljómleikar Miss Kathryn Overstreet. Dagur, bls. 7.

Goodell, J. (1943). They sent me to Iceland. Ives Washburn Inc.

Mrs. Kathryn Overstreet. (1943, 17. desember). Íslendingur, bls. 2.

Þekktur píanóleikari í ameríkska rauða krossinum hér. (1943, 17. júlí). Alþýðublaðið, bls. 2.

Mynd af Kathryn Overstreet: Fálkinn 49. tbl. 3.12. 1943. Skjáskot af bls. 3.