Átt þú skafinn kálfshaus í safninu þínu?

Haustið 1925 komu ný frímerki á markað hér á landi, alls 5 talsins. Frímerkin höfðu mismunandi verðgildi, myndefnið var fjölbreytt og litirnir einnig. Ekki voru allir á eitt sáttir með útkomuna. Pistlahöfundur Dags á Akureyri úthúðaði nýju frímerkjunum á forsíðu blaðsins þann 29. október, sagði þau vera „eins og meðalábreiður á stærð og ósmekkleg í alla staði. Ber þessi frímerkjagerð ekki vott um mikinn smekk hjá forráðamönnum og tekur lítið fram frímerkjagerðinni hér um árið þegar gefin var út mynd af Jóni Sigurðssyni.“

Hér vísar höfundur líklega í frímerki sem Friðrik VIII Danakonungur samþykkti árið 1910 að framleidd yrðu ári síðar í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli sjálfstæðishetjunnar. Merkið var skreytt prófílmynd af Jóni. Frímerkið, sem er merkilegt af þeirri ástæðu að það er hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem manneskjan á frímerkinu er hvorki þjóðhöfðingi né konungsborin, féll svo sannarlega ekki í kramið hjá pistlahöfundi blaðsins. Hann segir myndina af Jóni Sigurðssyni vera „miklu líkari því, að þar væri skafinn kálfshaus en mynd af manni.“

Eins og flestum er kunnugt ganga gömul frímerki kaupum og sölum þar sem háar fjárhæðir koma við sögu í sumum tilfellum. Gaman er að velta fyrir sér verðgildi „kálfshaussins“ í dag. Líklega nær það ekki sömu hæðum og yf­ir­stimplaða fimm aura frí­merkið íslenska frá ár­inu 1897 sem metið var á eina milljón króna þegar það var boðið upp í Bandaríkjunum árið 2008. Í frétt Morgunblaðsins á sínum tíma um uppboðið kom fram að umrætt eintak af frímerkinu væri hið eina sem eftir væri í heiminum sem vitað væri um. Í kjölfar fréttarinnar gaf maður í Eyjafirði sig fram sem taldi sig mögulega eiga eintak í safninu sínu.

Grenndargralinu ekki kunnugt um hvort Eyfirðingurinn datt í lukkupottinn árið 2008. Gaman væri að fá fréttir af því og eins því hvort einhverjir lumi á Jóni Sigurðssyni í líki kálfshöfuðs í frímerkjabókunum sínum.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd