Leiðangur til bjargar stríðsminjum í Hlíðarfjalli

Þrír leiðangursmenn á vegum Grenndargralsins og Sagnalistar, þeir Arnar Birgir Ólafsson, Brynjar Karl Óttarsson og Níels Ómarsson, hafa lokið störfum í haust við að bjarga stríðsminjum frá seinni heimsstyrjöldinni úr hlíðum Hlíðarfjalls. Þeir félagar lögðu af stað í leiðangur fimmtudaginn 19. september, vopnaðir myndavélum, korti, skóflu og öðrum verkfærum, bakpokum og sérútbúnum kössum fyrir smáhluti og ýmsa viðkvæmari muni. Að höfðu samráði við Minjastofnun og Minjasafnið á Akureyri var ákveðið að koma minjunum sem Brynjar fann fyrr í sumar í öruggt skjól, með varðveislu í huga.

Mikið magn smámuna fannst í leiðangrinum sem nú bætist við þá sem áður höfðu komið fram í dagsljósið. Myndin af dvöl setuliðsmannanna við rætur Hlíðarfjalls skýrist smám saman með nýjum munum og svæðið þrengist. Þó er mörgum spurningum ennþá ósvarað. Leiðangurinn fann t.a.m. skothylki á mun stærra svæði en fyrri leiðangrar. Þónokkur hylki fundust hátt upp í sjálfri fjallshlíðinni, töluvert ofan við þann stað sem flest hylkin hafa hingað til fundist á. Þá vekur mikill fjöldi kolamola og grófra hraunmola sem líta út eins og úrgangur úr bræddu málmgrýti vítt og breytt um svæðið upp spurningar.

Aðstæður til leitar voru góðar, talsverður lofthiti, þurrt og bjart. Eftir rúmlega fjögurra klukkustunda leit og kaffipásu var haldið af stað niður hlíðina með stríðsgóssið. Athygli vakti að á niðurleið fannst skothylki steinsnar frá skíðahótelinu.

Nú á aðeins eftir að stilla mununum upp, flokka þá, mynda og skrá áður en þeim verður komið fyrir í geymslu. Hvað verður um þá eftir það getur tíminn einn leitt í ljós.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd