Önnur gömul smámynt finnst í Hlíðarfjalli

Grenndargralið sagði í ágúst frá fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls. Áhugaverðir munir fundust svo sem skothylki, leifar af sprengjum, flöskur, eldhúsáhöld o.fl.

Einn hlutur skar sig nokkuð úr en það er gömul íslensk mynt sem sennilega er slegin árið 1926. Peningurinn (2 aurar) lá á miðjum sléttum steini, eins og honum hafi verið komið þar haganlega fyrir líklegast fyrir tæpum 80 árum síðan.

Í rannsóknarleiðangri sem farinn var nú á dögunum á slóðir setuliðsins fannst önnur gömul smámynt. Peningurinn er nokkuð minni en sá sem fannst fyrr í sumar. Um er að ræða 10 aura en erfitt er að sjá hvaða ár myntin er slegin vegna þess hversu máð bakhliðin er.

Athyglisvert er að aurarnir tíu fundust aðeins nokkrum sentimetrum frá þeim stað sem fyrri myntin fannst í sumar. Vegna erfiðra veðurskilyrða reyndist ekki mögulegt að rannsaka svæðið nánar þar sem peningarnir tveir fundust. Án nokkurs vafa fer Grenndargralið á stúfana þegar tækifæri gefst. Hver veit nema meira klink eða aðrar gersemar úr eigu setuliðsmanna leynist í hlíðum Hlíðarfjalls?

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd