De Beauvoir og Sartre flugu til hinnar drungalegu Akureyrar
Hún hafði nýlega gefið út eina áhrifamestu bók 20. aldar þegar hún kom til Akureyrar. Bókin hét Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) en í henni vakti umrædd kona athygli á kúgun kvenna. Hún kom út árið 1949. Bókin varð strax umdeild en hefur að sama skapi skipað sérstakan sess í kvennabaráttu og femínískum fræðum. Höfundur bókarinnar, Simone de Beauvoir (1908-1986) var franskur heimspekingur og rithöfundur sem hafði um skeið stundað nám við Sorbonne-háskólann í París.
Hann er af mörgum álitinn merkasti hugsuður 20. aldarinnar. Jean Paul Sartre (1905-1980) er höfundur hinnar svokölluðu tilvistarstefnu eða existensíalismans sem var ein helsta heimspekistefna aldarinnar. Hann var, rétt eins og Beauvoir, heimspekingur og rithöfundur. Sartre ávann sé frægð fyrir skáld- og leikverk sín. Má nefna bók hans Les Jeux sont faits (Teningunum er kastað) sem kom út árið 1947 og leikverkið Les séquestrés d’Altona (Fangarnir í Altona) frá árinu 1953. Kvikmynd var gerð eftir leikritinu árið 1962 með hinni ítölsku Sophiu Loren í aðalhlutverki. Árið 1964 var Sartre veitt bókmenntaverðlaun Nóbels. Hann afþakkaði pent af persónulegum ástæðum.
Þau Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre kynntust á námsárunum í París og felldu þau hugi saman. Ástarsamband þeirra olli umtalsverðu fjaðrafoki á sínum tíma. Þótti mörgum sambandið fullfrjálslyndislegt þar sem aðrir elskhugar komu við sögu og af sama kyni – í það minnsta í tilfelli de Beauvoir.
Simone de Beauvoir gaf út æviminningar sínar á sjöunda áratugnum (La force des choses). Þar segir hún frá eftirminnilegri tíu daga ferð til Íslands árið 1951 þar sem hún lýsir landi og þjóð með ákaflega skemmtilegum og lifandi hætti. Koma þar m.a. við sögu tveir „huldumenn“ á Akureyri sem hittu frönsku maddömuna. Hér á eftir fer lausleg þýðing úr æviminningum Simone de Beauvoir sem birtist í Dagblaðinu Vísi-DV árið 1984.
„Engar járnbrautir var að finna þarna [á Íslandi] og ákaflega fáa vegi; í flugvélum var maður ekki bara samferða bændum með kjúklingabúr í fanginu heldur og íslensku sauðfé sem skipti um haga eftir árstíðum loftleiðis. Bændurnir líktust meira amerískum kúrekum en hinum venjulegu evrópsku bændum: vel klæddir og vel skæddir, búa i húsum með öllum nútímaþægindum og ferðast um á hestbaki.“
Skötuhjúin dvöldust á Hótel Borg. Á hótelinu voru fleiri erlendir gestir sem eðlilega veittu hinu heimsfræga pari athygli. Á meðan dvöl þeirra stóð í Reykjavík urðu ýmsir minna þekktir einstaklingar á vegi þeirra, t.a.m. franski landkönnuðurinn Paul-Emile Victor:
„Hann sagði okkur frá eskimóunum, frá leiðöngrum sínum og reynslu sinni af fallhlífarstökki. Þarna voru líka tveir kvikmyndagerðarmenn — annan þeirra hafði ég hitt í Hollywood en hinn var fastagestur á Flore—sem voru að gera heimildarmynd. Við hittum líka son landkönnuðarins Scotts sem var að veiða villt dýr og Íslending sem var að safna steinum.“
Eftir að hafa dvalist í Reykjavík um nokkurra daga skeið fóru að kvisast út sögur um að þau Simone og Jean-Paul myndu heimsækja höfuðstað Norðurlands. Dagblaðið Dagur á Akureyri birti frétt á forsíðu þar sem spurt var hvort Sartre og Beauvoir væru væntanleg til bæjarins. Sennilega hefur blaðið ekki fengið fregnir af komu þeirra til Akureyrar því frekari skrif urðu ekki um málið af hálfu blaðsins. Engum blöðum er þó um það að fletta að hin franska de Beauvoir kom til Akureyrar ásamt Sartre. Skyldu þau hafa komið í myrkri?
„Við fórum í flugvél til hinnar drungalegu Akureyrar og þaðan fór ég með flugbáti eftir hinni yndislegu norðurströnd allt til lítillar hafnar sem er alveg nyrst á eynni. Einu ferðafélagar mínir voru tveir skeggjaðir strákar: „Við erum á puttaferðalagi kringum Ísland,” sögðu þeir mér.“
Hverjir voru hinir skeggjuðu strákar sem ferðuðust með Madame de Beauvoir á flugbáti frá Akureyri?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd