main image

Rúmlega 200 ára gamalt kort af Akureyri til í Kaupmannahöfn

Ein dýrmætasta heimild sem til er um Akureyrarkaupstað er kort frá árinu 1809. Þar er landslagið dregið upp með afar nákvæmum hætti og gerð grein fyrir mannvirkjum af öllu mögulegu tagi.  Á kortinu má m.a. sjá hús, girðingar, torfgarða, götuslóðir, vörður, örnefni og allskyns kennileiti í náttúrunni. Heiðurinn að þessum elsta og merkilegasta uppdrætti kaupstaðarins eiga tveir Akureyringar.  Þeir voru reyndar af norskum uppruna og þar að auki landmælingamenn og lautenantar í danska hernum. Vera þeirra á Akureyri var liður í metnaðarfullu verkefni hersins í að gera siglingar út af Íslandsströndum hættuminni. Í því skyni var umræddum mönnum ætlað að ferðast víða um land og halda áfram við strandmælingar landsins sem staðið höfðu yfir í nokkur ár.

Lautenantar koma til Akureyrar

Það var á köldum haustmánuðum 1807 að þreyttir og veðurbarðir ferðalangar komu í kaupstaðinn með farangur sinn í kistum og koffortum. Ferðalagið frá Kaupmannahöfn hafði gengið afar illa. Hafís lá við landið með þoku, kulda og stórhættulegum siglingarskilyrðum. Hafís hafði reyndar legið við ströndina mörg undanfarin sumur og ástandið í landinu víða orðið afar bágborgið. Grasspretta lítil, skepnur horaðar og landsmenn óttuðust yfirvofandi hungursneyð. Við þetta bættist svo stríð í Evrópu sem gerði siglingar hingað stopular. 

Burt séð frá því þá höfðu nú bæst við tvær nýjar fjölskyldur í kaupstaðinn. Annarsvegar voru það lautenant Hans Frisak 34 ára og kona hans Magdalene Borckgrevik 28 ára.  Hins vegar voru það lautenant Hans Jacob Scheel 28 ára og kona hans Anna Rebecca Elisabet Sandberg 19 ára.  Koma þeirra hefur vafalaust verið mikið gleðiefni fyrir íbúa Akureyrar því á þeim tíma bjuggu aðeins um 40 sálir á eyrinni, þrátt fyrir að Akureyri væri á þeim tíma meðal stærsta þéttbýlisstaða Norðurlands. Þau fengu leigt yfirgefið verslunarhúsnæði og settust þar að með farangur sinn, tæki sín og tól.

Nýju heimkynnin.

Fyrsti veturinn á Akureyri var langur, harður og kaldur. Frisak var vanur þessum íslensku aðstæðum því hann hafði starfað í mörg ár áður við mælingar hér á landi. Þetta var hins vegar fyrsta ferð Scheels og þá má gera sér í hugarlund að konum þeirra hafi nú litist misvel á sín nýju heimkynni. Á grárri eyrinni stóðu örfáar þyrpingar veðurbarðra timbur- og torfhúsa en fyrir ofan báru hálfgrónar brekkur við himin með girðingarstubbum hér og hvar ásamt nokkrum görðum. Aðeins var búið í örfáum húsanna á eyrinni. Hitt voru mannlausar vörubúðir, geymslur og skemmur af ýmsum toga. Engar bryggjur voru uppsettar en nokkrar bátakænur lágu uppi á strandbakkanum.

Landmælingarmennirnir voru báðir hæfileikaríkir. Frisak drátthagur, vandvirkur og góður samverkamaður. Scheel sprenglærður frá Osló og hafði lagt sérstaka stund á stærðfræði og mælingar. Þeir félagar höfðu verið valdir sérstaklega hingað til starfa vegna þekkingar sinnar á fjallalandslagi, eitthvað sem kollegar þeirra í Danmörku þekktu minna til.  Frisak og Scheel stunduðu allskyns rannsóknir á Akureyri. Þeir skráðu á hverjum degi niður ítarlegar upplýsingar um veðurfar, s.s. hitastig, vindafar, snjókomu og loftþyngd. Þá stunduðu þeir einnig stjörnuathuganir, hnattstöðumælingar og rannsökuðu skekkjur segulnála svo eitthvað sé nefnt

Fyrsta kortið af Akureyri

Á árunum 1808 – 1809 mældu þeir Frisak og Scheel Akureyri og nágrenni og bjuggu til afar vandaðan uppdrátt. Til þess að allar mælingar yrðu sem nákvæmastar slógu þeir saman fjöldamargar vörður úr timbri á brekkubrúnunum ofan kaupstaðarins og víðar til að setja upp mælinet sitt. 

Efst á kortinu hafa þeir teiknað inn Rögnvaldarhól, hæð eina í Naustahverfi þar sem nú er Klettatún. Í miðjum Rögnvaldarhól teikna þeir þríhyrning með punkt í miðju en þannig voru mælipunktarnir táknaðir.   Það gæti verið skemmtileg dægradvöl fyrir íbúa Naustahverfis að ganga á hólinn (þegar snjólétt er) því mælipunkt þennan er þar enn að finna. Þetta er lítill járnbolti múraður fastur niður í klappirnar en ofan á honum er þríhyrningsmerki með punkti í miðjunni, alveg eins og kortið sýnir. Rétt norðanundir Rögnvaldarhól eru hinar gríðarstóru mógrafir þar sem almenningur sótti eldsneyti sitt um aldir. Á kortinu sést hvernig Búðarlækur rennur inn í miðjar mógrafirnar en hann kemur ofan úr Naustatjörn. Lækurinn heldur síðan áfram í beygjum og sveigjum niður brekkurnar. Á leið sinni sker hann skurði og gil í landslagið og dregur efnið með sér til sjávar.  Á þeim stað þar sem lækurinn rennur í Eyjafjörðinn hefur Akureyrin hlaðist upp með tímanum.  Kortið frá 1809 sýnir þessa landmótun ágætlega og mun betur en við getum lesið úr nýjum kortum enda hefur landslagið á Akureyri umbreyst þó nokkuð á síðastliðnum 205 árum.

Á kortinu sést einnig hvernig þeir hafa dregið upp bæina Eyrarland og Naust með útihúsum sínum og túngörðum, sitt hvoru megin Búðargilsins. Frisak og Scheel létu heldur ekki nægja að draga upp hús kaupstaðarins heldur gerðu þeir jafnframt grein fyrir efnivið þeirra. Vínrauði liturinn táknar t.d. timburhús en græni torfhús. Þá hafa þeir samviskusamlega dregið upp glænýja kartöflugarða Levers  kaupmanns norðan við Búðarlækinn rétt ofan eyrinnar en strandlínan sem sést á kortinu er hér um bil þar sem Hafnarstræti liggur í dag.

Hörmuleg tíð

Eins og komið hefur fram var ástandið hér á landi hörmulegt á þessum árum. Veturinn 1808-1809 var þar engin undantekning, bæði kaldur og leiðinlegur. Hafís allstaðar við ströndina og skipakomur til Akureyrar heyrðu nú alveg sögunni til. Í Evrópu geysaði áfram stríð sem aldrei fyrr og það fréttist seint og síðar meir að Englendingar væru nú búnir að sundursprengja Kaupmannahöfn og ræna af þeim öllum skipaflota sínum. Frisak og Scheel fengu nú engin frekari fyrirmæli frá Danaveldi. Sem landmælingamenn voru þeir orðnir einir og yfirgefnir á Íslandi og hálfgerðir strandaglópar. Nú valt allt á þeim sjálfum hvernig framhaldið yrði. Í Eyjafirði voru eintóm harðyndi og bændur voru farnir að skera fé sitt til að missa það ekki úr alveg úr hor. Frisak og Scheel ákváðu að láta hér ekki staðar numið og héldu strax og veður leyfði út á land til frekari mælinga. Þeir kvöddu konur sínar og börn og héldu af stað frá Akureyri þegar liðið var á júní 1809. Það mátti heita að komið væri sumar en tíðin var samt hin versta, rigningarsöm og köld.

Innrás á Akureyri

Sumarið leið hægt og tilbreytingarlaust áfram í litla kaupstaðnum. Það breyttist þó allt einn dag um miðjan júlí þegar bæjarbúar sáu einkennilegan hóp ríðandi manna nálgast eyrina. Fremstur í flokki sat vígalegur maður á hesti sínum vopnaður pistólu og höggsverði en á eftir honum riðu vopnaðir grænklæddir hermenn í bláum hempum. Hersveitin átti erindi við þorpsbúa. Kort Frisak og Scheels skyldu gerð upptæk en ýmislegt fleira hékk á spýtunni. Meira um það síðar.

Arnar Birgir Ólafsson.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í mars 2014.

Leitin að Grenndargralinu hættir

Vegna breytinga á fyrirkomulagi valgreina í grunnskólum Akureyrar mun Leitin að Grenndargralinu ekki verða í boði fyrir grunnskólanemendur haustið 2018.

Upphaf Leitarinnar að Grenndargralinu má rekja aftur til ársins 2008 þegar fyrst var leitað að Gralinu. Leitin hefur verið í boði fyrir grunnskólanemendur á Akureyri í áratug, samtals 10 skipti, með þátttöku sjö skóla.

Fyrir hönd Grenndargralsins þakka ég samstarf við hina ýmsu aðila í gegnum árin, ekki síst alla þá skemmtilegu krakka sem leitað hafa Gralsins í heimabyggð.

Grenndargralið mun áfram fjalla um sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna.

Brynjar Karl Óttarsson

verkefnisstjóri Grenndargralsins

Toto og Big Country í Saurbæjarhreppi

Rokkhljómsveitin Guns N´Roses er á leiðinni til landsins. Fréttir þess efnis bárust á dögunum. Ef rétt reynist mun hljómsveitin spila á Laugardalsvelli þann 24. júlí nk. Fregnir herma að tónleikarnir verði hinir stærstu sem haldnir hafa verið á íslenskri grundu – ljósin og hljómkerfið flutt sérstaklega til landsins sem og 65 metra breitt sviðið! Til samanburðar má nefna að stærsta svið sem hingað til hefur litið dagsins ljós hér á landi vegna tónleikahalds var 24 metrar að breidd.

Án nokkurs vafa eru fréttir af komu Axl Rose, Slash og hinna goðsagnanna á rökum reistar. En er þar með sagt að tónleikarnir verði að veruleika? Í ár eru 30 ár liðin frá fyrirhuguðum stórtónleikum heimsþekktra tónlistarmanna hér á klakanum. Sumt er keimlíkt með þessum tveimur málum. Árið 1988 náðust samningar við Reykjavíkurborg og aðila í London til að tryggja áður óséða og óheyrða upplifun tónleikagesta og gera þannig tónleikana að einhverjum þeim stærstu í Íslandssögunni.  

Nokkrir ungir ofurhugar á Akureyri tóku sig saman og ákváðu að standa fyrir útihátíð um verslunarmannahelgina árið 1988. Ein með öllu ´88 á Melgerðismelum í Eyjafirði. Fréttaflutningur af hátíðinni byrjaði heldur betur með látum. Lesendur Dags vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þann 5. maí þegar við þeim blasti frétt um að „nær öruggt“ væri að ameríska stórhljómsveitin Toto myndi spila á Melgerðismelum. Stefnt hafði verið að því að meðlimir hljómsveitarinnar tækju beint flug frá Bandaríkjunum til Akureyrar. Í sömu frétt kom fram að fleiri listamenn hefðu komið til greina sem skemmtikraftar á hátíðinni en að af komu þeirra yrði ekki. Huey Lewis and the News, Bruce Springsteen og Michael Jackson voru nefndir til sögunnar. Aðeins átti eftir að skrifa undir samning við Toto þegar bárust fréttir frá Ameríku um að hljómsveitin kæmi ekki til Eyjafjarðar.

Þann 20. júní birti DV frétt á baksíðu blaðsins sem mögulega gladdi vonsvikna Toto-aðdáendur. Blaðið taldi sig hafa öruggar heimildir fyrir því að búið væri að semja við skosku stórhljómsveitina Big Country um að koma og spila í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Í júlímánuði var upplýst um frekari fyrirætlanir hljómsveitarinnar. Ekki einungis ætlaði hún að troða upp við gamla herflugvöllinn á Melgerðismelum heldur voru uppi áform um að kvikmyndatökulið frá sjónvarpsstöðinni Channel 4 í London fylgdi hljómsveitinni til að taka tónleikana upp. Ætlunin var að taka upp myndband við lag á óútkominni plötu sveitarinnar Peace in our time. Platan kom út mánuði eftir fyrirhugaða tónleika á Melunum. Áfram bárust reglulega fréttir af gangi mála og og oftar en ekki jákvæðar.

Samningar náðust milli hljómsveitarinnar og aðstandenda útihátíðarinnar um að pantaður yrði tækjabúnaður að utan til að gera tónleikana sem stærsta. Þá var samið við Reykjavíkurborg um leigu á hljómflutningskerfi borgarinnar, samtals um 25.000 watt að styrkleika. Svo virtist sem einungis formsatriði væri að staðfesta komu skosku sveitarinnar.

„Þeir spila þrælskemmtilegt, kraftmikið rokk og ætli maður skelli sér ekki bara norður til að sjá kappana.“                                                                                                 

Pétur Kristjánsson söngvari

Sennilega hafa einhverjir orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sátu með kaffibollann sinn og lásu Dag föstudaginn 15. júlí. „Big Country kemur ekki“ var fyrirsögn fréttatilkyningar. Skýringin var óhóflegar kröfur hljómsveitarinnar þegar kom að tækjabúnaði. Þegar á reyndi óskuðu forsvarsmenn hljómsveitarinnar eftir því að henni yrði tryggt 90.000 watta hljómflutningskerfi, 30 sinnum sterkara en það sem akureyrska gleðisveitin Skriðjöklar notaðist við á þessum tíma en þeir voru einmitt hluti af skemmtidagskrá hátíðarinnar. Kröfurnar voru óraunhæfar svo vægt sé til orða tekið en þær stóðu óhaggaðar. Samningum var því rift.

Þrátt fyrir skort á heimsfrægum, erlendum hljómsveitum skemmtu nokkur þúsund ungmenni sér vel á Melgerðismelum, helgina 29. – 31. júlí. Ýmsar hljómsveitir, sumar „heimsþekktar“ á Íslandi tróðu upp auk þess sem ein erlend hljómsveit skemmti hátíðargestum. Viking band frá Færeyjum hélt uppi heiðri útlendinganna.

Nú vonum við bara að kaffiþyrstir lesendur dagblaðanna og aðdáendur Guns N´Roses verði ekki fyrir vonbrigðum í sumar.

Með því að smella á myndina má sjá meðlimi Big Country flytja eitt af þeirra vinsælustu lögum, The Teacher

 

 

Vatnsfatan bjargaði lífum þegar Kong Trygve sökk

Þann 19. mars árið 1907 lagði flutningaskipið Kong Trygve af stað frá Akureyri austur fyrir land og áleiðis til Reykjavíkur þaðan sem ætlunin var að sigla til Kaupmannahafnar.  Mikill hafís var fyrir öllu Norðurlandi og slæmt veður svo skipið lá í vari við Hrísey fyrstu nóttina. Daginn eftir hélt skipið för sinni áfram en á leið sinni sigldi það ítrekað á ísjaka. Það kom þó ekki að sök vegna þess hve skipið fór hægt yfir. Næstu tvo sólarhringa eða svo rifust skipstjóri og stýrimaður Kong Trygve um hvort halda ætti förinni áfram eða snúa við. Að lokum var tekin ákvörðun um að halda áfram og átti það eftir að reynast örlagarík ákvörðun.

Um þrjúleytið aðfaranótt 23. mars rakst skipið á stóran ísjaka með þeim afleiðingum að það byrjaði að leka. Þá var skipið statt u.þ.b. 100 mílur út af Langanesi. Fjórum klukkustundum síðar var skipið sokkið en skipverjar og farþegar, 32 að tölu, komust í þrjá björgunarbáta. Á meðal farþega voru nokkrir Akureyringar. Einn þeirra var kona að nafni Sveinbjörg Jóhannsdóttir. Hún kom sér fyrir í stærsta björgunarbátnum ásamt átta íslenskum farþegum og sex úr áhöfn. Í þeim hópi var m.a. sjálfur skipstjórinn sem var fyrstur allra til að koma sér í björgunarbát.

Af einhverjum ástæðum greip Sveinbjörg með sér vatnsfötu úr hinu sökkvandi skipi. Fatan átti eftir að koma að góðum notum því rétt eins og Kong Trygve rakst björgunarbáturinn á ísjaka og varð fyrir skemmdum. Bátinn tók að leka og varð þannig þessi undarlega ákvörðun Sveinbjargar, að grípa með sér fötuna, bátsverjum til lífs.  Báturinn kom að landi við Borgarfjörð eystri fyrri part dags 24. mars. Þá hafði hann rekið stjórnlaust í sjónum í 30 klukkustundir. Einn lést um borð í bátnum en það var danskur háseti. Sveinbjörg og hinir þrettán bátsverjarnir komust lifandi frá þessum hildarleik. Það var ekki síst Sveinbjörgu og fötunni hennar að þakka. Af hinum bátunum tveimur er það að segja að annar komst í land tveimur sólarhringum eftir að bátur Sveinbjargar rak að landi. Einhverjir létu lífið á leiðinni og var líkunum varpað fyrir borð.

Á meðal þeirra sem komust af voru mæðgur frá Akureyri en það voru þær María Guðmundsdóttir og Jónína Magnúsdóttir dóttir hennar. Þær sýndu mikið hugrekki. Móðirin söng til að stytta öðrum stundina og dóttirin lét aldrei bugast þrátt fyrir ömurlegar aðstæður. Í þriðja bátnum, sem jafnframt var lítill og ótraustur, var einn Íslendingur. Hann hét Jósep Jósepsson og var kaupmaður á Akureyri. Hann hafði til að byrja með verið í sama bát og mæðgurnar en gaf eftir plássið sitt til handa ungri stúlku sem var í litla bátnum. Þar með bjargaði hann lífi stúlkunnar á eigin kostnað. Jósep fórst með bátnum sem og sjö aðrir.

Gleðilegt sumar

 

Höfundur ljóðs er Halldór Friðriksson. Halldór var fæddur 23. maí 1902 í Nesi, Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Hann var bóndi í Leyningi og Nesi 1929-1933, í Hleiðargarði 1933-1966 og verkamaður á Akureyri frá árinu 1966. Halldór lést árið 1973.

Halldór var hagmæltur og samdi ófá ljóðin. Ljóðið Vorvísur fannst fyrir tilviljun á Héraðsskjalasafninu á Akureyri árið 2011.

Herra Higgins furðaði sig á borðvenjum Akureyringa sumarið 1862

Akureyringar minntust þess sumarið 2012 að 150 ár voru liðin frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Sjálfsagt hafa Akureyringar fagnað kaupstaðarréttindunum þann 29. ágúst árið 1862 þó lítið hafi verið fjallað um málið í staðarblaðinu Norðanfara á þeim tíma.

Á meðan Akureyringar undirbjuggu aðskilnað frá Hrafnagilshreppi sumarið 1862 ferðaðist 28 ára gamall maður frá Exeter í Englandi um Ísland. Einn af áfangastöðunum var Akureyri. Á meðan ferðalaginu stóð skráði hann það sem fyrir augu bar. Afraksturinn kom út árið 1863 í bókinni Iceland: Its scenes and sagas. Maðurinn hét Sabine Baring-Gould.

Gould og Browne sigla til Íslands

Sabine Baring-Gould sigldi frá Skotlandi þann 10. júní áleiðis til Íslands. Skipið hét Arcturus, var smíðað 1857 og var í eigu dansks skipafélags. Með í för var Bandaríkjamaður að nafni John Ross Browne. Á milli þeirra átti eftir að myndast góður kunningsskapur. Báðir voru þeir ævintýramenn, ferðuðust víða um heiminn og skráðu ferðasögur. Arcturus kom til Reykjavíkur 16. júní og þá skildu leiðir.

Eftir að hafa skoðað Reykjavík og keypt hesta af Íslendingum lagði Gould af stað í hestaferð um gjörvallt Ísland að kvöldi fimmtudagsins 19. júní. Með í för voru þrír samlandar hans, þrír íslenskir leiðsögumenn og tuttugu hestar. Seint um kvöldið komu þeir til Þingvalla þar sem þeir tjölduðu í kirkjugarðinum. Þar dvöldust þeir um nóttina áður en þeir héldu áfram morguninn eftir. Á Þingvöllum hittust þeir Gould og Browne aftur en það var jafnframt í síðasta skipti sem leiðir þeirra lágu saman á Íslandi. Browne hafði aðeins ætlað að staldra við á Íslandi í nokkra daga og var á leiðinni til baka til Reykjavíkur þaðan sem hann ætlaði að sigla til Persíu. Browne var þekktur blaðamaður og rithöfundur í heimalandi sínu. Hinn kunni rithöfundur Mark Twain var góðkunningi John Ross Browne.           

Tvö tré á Akureyri vekja athygli Gould                                              

Sabine Baring-Gould var á Akureyri dagana 5. – 7. júlí. Þaðan hélt hann áleiðis til Mývatnssveitar en kom svo aftur við á Akureyri um miðjan mánuðinn. Í bók sinni  segir Gould nokkuð ítarlega frá kynnum sínum af Akureyringum og bænum sjálfum. Hann nefnir kirkjuleysi bæjarbúa. Þegar hann kemur til Akureyrar blasir við honum vísir að fyrstu kirkju bæjarins og gefur hann lítið fyrir arkitektúrinn – segir Íslendinga ekki átta sig á möguleikunum sem timbur hafi þegar kemur að fagurfræði byggingarlistar. Hann talar um afþreyingu bæjarbúa yfir vetrartímann sem sé helst sú að spila á spil og dansa við gítarundirspil og að einn stærsti viðburðurinn í bæjarlífinu sé fyrsta skipakoma ársins frá Kaupmannahöfn. Skipið flytji langþráða vor- og sumarkjóla, húsgögn og annað sem bæjarbúar hafi beðið eftir mánuðum saman.

 

Sabine Baring-Gould lýsir húsnæði kaupmannanna á Akureyri og segir þau notaleg þar sem myndir af Kaupmannahöfn og danska kónginum hangi á veggjum. Hann segir af kynnum sínum af kaupmanninum Jóhann G. Havsteen sem tók á móti honum þegar hann kom í bæinn laugardaginn 5. júlí. Havsteen sýndi af sér mikla gestrisni, bauð Gould velkominn og boðið var upp á kaffi og kökur að hætti danskra kaupmanna. Eftir kaffidrykkju hjá Havsteen heimsótti Gould prentara tímaritsins Norðra í litla trékofann hans eins og Gould orðar það (small wooden cottage). Eftir heimsóknina beið hans vel útilátinn kvöldverður hjá Havsteen kaupmanni. Á borðum var m.a. reyktur lax, bjúgu, skinka, kindakjöt með bláberjasósu og kartöflum, hákarl, hvalur og selur. Þá var Bavarian öl, þýskt vín og koníak til að skola öllu niður með. Gould virðist nokkuð undrandi yfir borðvenjum Akureyringa. Ekki tíðkist að fara með borðbæn fyrir eða eftir málsverð. Hins vegar takist fólk í hendur eða kyssist eftir matinn og segi; „Tak for mad“. Gould minnist á tré í garðinum hjá Havsteen og segir það vera stærsta tré landsins. Á heitum sumardögum snæði fjölskyldan undir trénu og líki þannig eftir dönskum garðveislum. Þá nefnir hann annað tré fyrir utan annað hús í bænum (Laxdalshús ?). Þessi tvö tré séu eitthvað það allra merkilegasta sem bærinn bjóði upp á! Eftir kvöldverðinn gekk Gould um fjöruna þar sem hann rakst á enskt skipsflak í flæðarmálinu sem hann segir Akureyringa endurnýta sem byggingarefni.  Gould eyddi sunnudagsmorgninum í sólbaði við kirkjubygginguna áður en hann heimsótti Svein Skúlason, ritstjóra Norðra. Sveinn sýndi honum nokkur fornhandrit þ.á.m. Sturlunga sögu.

Mánudaginn 7. júlí yfirgaf Sabine Baring-Gould Akureyri en staldraði við í bænum að nýju um miðjan mánuðinn. Kurteisi bæjarbúa er honum ofarlega í huga. Í seinni heimsókninni til Akureyrar keypti hann fornhandrit af fátækum manni í bænum. Maðurinn sá sér þann kost vænstan að selja þau til að eiga fyrir salti í grautinn.  Gould lét það ekki aftra sér þrátt fyrir að maðurinn skyldi afhenda honum handritin með tárin í augunum. Mánudaginn 14. júlí yfirgaf Gould Akureyri og hélt ferð sinni áfram um landið. Þann 9. ágúst 1862 var Sabine Baring-Gould kominn til Liverpool, tveimur mánuðum eftir að hann lagði af stað frá Skotlandi til Íslands. Tuttugu dögum síðar fengu Akureyringar kaupstaðarréttindi.

Er Sabine Baring-Gould fyrirmyndin að Henry Higgins?

Sabine Baring-Gould fæddist 28. janúar 1834. Hann fékkst við hin og þessi störf um ævina. Hann var kennari, prestur, þjóðminjavörður og rithöfundur. Ógrynni af textum ýmiskonar liggja eftir Gould en hann var einn afkastamesti rithöfundur síns tíma í Englandi. Þekktastur er hann sennilega fyrir tvo sálma sem hann orti árið 1865, þremur árum eftir að hann var staddur á  Akureyri. Þetta eru hinir kunnu sálmar Now The Day Is Over og Onward, Christian Soldiers (Áfram Kristsmenn, krossmenn í íslenskri þýðingu séra Friðriks Friðrikssonar). Þá kannast margir við jólasálminn Gabriel´s message en sálminn þýddi Gould úr basknesku yfir á ensku.

Árið 1868 giftist Gould 16 ára gamalli stúlku, Grace Taylor en saman áttu þau 15 börn. Grace lést árið 1916. Einn af góðvinum Sabine Baring-Gould var írski rithöfundurinn og nóbelsverðlaunahafinn George Bernard Shaw. Sagan segir að ástarsamband þeirra Gould og Taylor hafi orðið kveikjan að sögu hans, Pygmalion. Shaw hlaut óskarsverðlaun fyrir handrit að samnefndri kvikmynd árið 1938. Út frá handritinu varð síðar til Hollywood-kvikmyndin My Fair Lady með þeim Rex Harrison og Audrey Hepburn í aðalhlutverkum. Sabine Baring-Gould og Grace Taylor urðu þannig fyrirmyndin að herra Higgins og fröken Doolittle. Sabine Baring-Gould er sennilega einn fárra af holdi og blóði sem hafa hitt sjálfan Sherlock Holmes. Árið 1998 kom út glæpasagan The Moor eftir ameríska rithöfundinn Laurie R. King. Bókin fjallar um spæjarana Mary Russel og Sherlock Holmes. Í bókinni hitta þau prest sem biður þau um aðstoð við að leysa ráðgátu. Presturinn er „Akureyrarvinurinn“ Sabine Baring-Gould.  

Stóran hluta ævinnar eyddi Gould í endurbætur á heimili sínu í Lew Trenchard í Devonsýslu í Suðvestur-Englandi. Sabine Baring-Gould lést þar þann 2. janúar árið 1924. Hann er jarðaður við hlið konu sinnar til 48 ára, Grace Taylor.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í nóvember 2013.

Filippus prins í Lystigarðinum á Akureyri

Í júlíbyrjun 1964 kom Filippus prins til Akureyrar. Hann kom fljúgandi frá Reykjavík með Gullfaxa, Dakotaflugvél Flugfélags Íslands, í hellirigningu ,,einhverja þá mestu sem gert hefur á Akureyri í sumar” eins og segir í Morgunblaðinu. Frá flugvellinum lá leiðin í Lystigarðinn þar sem mikill mannfjöldi beið þess að bera Filippus augum. Vel lá á prinsinum. Hann flutti stutta ræðu og skoðaði sig um í garðinum, lengur en gert hafði verið ráð fyrir. Hann blandaði geði við bæjarbúa og spjallaði við mann og annan.

Myndin birtist í Morgunblaðinu. Þekkir þú fólkið sem spjallar við hertogann af Edinborg?

Æskuvinirnir horfðu á Hælið brenna

Eftirfarandi umfjöllun er byggð á frásögnum tveggja æskuvina  sem ólust upp saman í Kristnesi í Eyjafirði á fyrri hluta 20. aldar. Bjarni Jónasson Rafnar var sonur Jónasar Rafnar en hann var yfirlæknir á Kristneshæli. Bjarni bjó á meðal berklasjúklinga með foreldrum sínum og systkinum þar til hann flutti í sérstakan læknisbústað sem reistur var í kjölfar bruna sem varð á Hælinu í janúar árið 1931. Þormóður Helgason var fæddur og uppalinn á sveitabænum Kristnesi þar sem hann bjó með móður sinni og afa. Þeir félagarnir urðu vitni að brunanum. Frásögn þeirra má finna í bókinni Lífið í Kristnesþorpi – Frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu sem og frásagnir fleiri sem búið hafa á landnámsjörð Helga magra síðustu 90 árin. Grenndargralið gaf bókina út árið 2016.

Að kvöldi miðvikudagsins 7. janúar 1931 varð bruni á þaki Kristneshælis. Slökkviliði frá Akureyri tókst að koma í veg fyrir að eldurinn teygði sig niður á neðri hæðir byggingarinnar auk þess sem steypt gólfplatan hélt aftur af eldinum. Þegar slökkvistarfi lauk hafði eldurinn kraumað í u.þ.b. fjórar klukkustundir. Engum varð meint af brunanum nema hjúkrunarkonu einni sem freistaði þess að bjarga eigum sínum. Hún brenndist illa. Þormóður og Bjarni segja svo frá:

Þrátt fyrir ungan aldur man ég vel eftir brunanum á Hælinu 1931. Þá sátum við heima í rólegheitum. Ég var þriggja eða fjögurra ára. Allt í einu birtist Grímsi gamli afabróður minn. Við vorum að hlusta á grammafón hjá afa, á nýjar plötur sem voru teknar af karlakórnum Geysi árið 1930. Þær voru að koma út um þetta leyti. Við vorum að trufla þarna samsæti, við krakkarnir. Við strákarnir vorum algjörlega snar að hlusta á þessar plötur. Það var verið að spila þær þegar Grímur kom í dyrnar og sagði Hælið vera að brenna! Við hlupum í norðurherbergið og þar blasti þetta við manni. Annar endinn var alelda en svo færðist eldurinn yfir. Menn héldu að hann myndi stöðvast við stafninn í miðjunni en það var ekki aldeilis. Hann hélt áfram hægt og rólega. (Þormóður)

Ég man svo vel eftir hælisbrunanum. Þegar allt þakið logaði. Fólk var ekki beint í hættu. Það voru allir fluttir af efstu hæðinni, eða efri hæðinni, og niður. Jú auðvitað var í sjálfu sér hætta, þetta var í norðangolu að vetri til í myrkri. Ég man eftir því að við krakkarnir fórum út fyrir Hælið til að sjá þetta. Ég gerði mér nú eiginlega ekki alveg grein fyrir því hversu voðalegt ástand þetta var. Þá logaði allt þakið, á allri byggingunni. Þarna brann bara allt sem brunnið gat. Þetta var voðalegt að sjá þetta. En svo var þetta bara byggt upp mjög fljótt eftir það. (Bjarni Rafnar)

 

Sagt er frá brunanum í Morgunblaðinu 8. janúar 1931. Þar kemur fram að þrjátíu slökkviliðsmenn voru á staðnum með útbúnað til slökkvistarfa. Vegna erfiðleika við að tengja stærri slöngur við vatnslása urðu slökkviliðsmenn að notast við kraftlitlar garðslöngur sem hægði umtalsvert á slökkvistarfinu.

Það voru ábyggilega allir verkfærir menn komnir þangað til að hjálpa til. Ábyggilega ekki staðið á því að bera fólkið niður, að færa það niður af efstu hæðinni. Ég sofnaði út frá þessu. Það var mikið gert grín að slökkvibílnum. Hann var sagður svo lélegur að hann hefði ekki haft sig upp hælisveginn. Ég veit ekki hvort sagan var login eða sönn. Vegirnir voru náttúrulega ekki merkilegir. En þetta gekk. (Þormóður)

Skemmdir urðu töluverðar. Þak og ris brann til kaldra kola og allir innanstokksmunir. Persónulegir munir sjúklinga og starfsfólks svo sem fatnaður og peningaseðlar sem voru geymdir í koffortum, urðu eldinum að bráð. Nokkurt tjón varð á 2. hæð, sprungur í veggjum og skemmdir á sængurfatnaði.

Svo var verið að gera sér grein fyrir því hvað þakið hefði þolað. Hvort það þyrfti að steypa nýja plötu. Það var prófað þannig að fyrst var það mælt hvað mikið af sandi var hægt að setja upp á loftið. Þetta var ótrúlegt. Fötur voru hífðar þarna upp og settar sandhrúgur hér og þar á þakið og mælt svo hvort það hefði sigið nokkuð. Það sýndi sig að það var hvergi neinn veikleiki í því. Þetta er mér afskaplega minnisstætt. (Bjarni Rafnar)

 

Þakhæðin var endurreist á vordögum og í kjölfar brunans var hafist handa við að byggja læknisbústað norðan  við Hælið. Miklar vangaveltur urðu um orsök eldsvoðans. Opinber skýring var biluð rafmagnsleiðsla. Fleiri möguleikar voru þó nefndir til sögunnar.

Mikið var talað um hvað olli brunanum og einhver þóttist  vita að það hefði einhver í ógætni hent sígarettustúf í ruslafötu þarna uppi á loftinu. Það var mikið um þetta rætt og talað og það var ein kona sem brann dálítið mikð hár af. Ég held að hún hafi nú samt ekki verið þarna uppi á þakinu. En þarna misstu sjúklingarnir…þarna voru geymslur, dótið þeirra og þarna var mikið af dóti sem pabbi átti, bækur og annað. Það brann allt saman. (Bjarni Rafnar)

Um mitt sumar 1931 birtist auglýsing í Verkamanninum þar sem óskað var eftir tilboðum vegna byggingar læknisbústaðarins. Hafist var handa og unnið hratt og örugglega þannig að byggingu bústaðarins var svo gott sem lokið um áramótin. Læknisbústaðurinn reis í landi Reykhúsa, nokkrum metrum norðan við landamerki Reykhúsa og Kristness. Kristneshæli fékk landspilduna til umráða árið 1933. Íbúð yfirlæknis á Hælinu var nú ætlað nýtt hlutverk, að hýsa sjúklinga og þannig draga úr þrengslum. Í dagbók Jónasar Rafnar, frá febrúar 1932, má finna færslu þar sem segir frá vistaskiptum hans, Ingibjargar konu hans og barnanna yfir í nýja læknisbústaðinn. Með þeim flutti hluti af starfsfólki Hælisins.

Læknisbústaðurinn er fyrsta íbúðarhúsnæðið sem byggt er samfara starfsemi Kristneshælis. Þar með hefst þéttbýlismyndun á landnámsjörð Helga magra í tengslum við þá þjónustu sem Kristneshæli var ætlað að veita hinum sjúku.

Gekk yfir hálendið í vikutíma blautur og hrakinn

Aldamótin 1900, samgöngur erfiðar og fjarskipti með öðrum hætti en nú þekkist. Er hægt að lifa af heila viku að hausti uppi á hálendi Íslands, villt(ur), fáklædd(ur) og matarlaus við slíkar aðstæður? Slíkt yrði álitið mikið þrekvirki. Svarið við spurningunni er já því við lok 19. aldar vakti saga ungs Eyfirðings mikla athygli þegar hann villtist á hálendinu en lifði af við mjög erfiðar aðstæður.

Kristinn Jónsson var 22 ára þegar hann, ásamt félögum sínum, lagði af stað í göngur frá heimili sínu í Eyjafirði seint í septembermánuði árið 1898. Kristinn bjó að bænum Tjörnum sem er innsti bær í Eyjafirði, u.þ.b. 45 km frá Akureyri. Ferðinni var heitið skammt upp fyrir búfjárhaga og síðan beinustu leið heim aftur. Kristinn var því frekar illa klæddur, í þunnum jakka og ekki með trefil um hálsinn. Fjótlega skall á þoka og þar með hófst raunasaga þessa unga manns. Þokan stóð yfir í nokkra daga og þegar henni loks létti var Kristinn kominn upp á hálendi Íslands. Sjálfur gerði hann sér ekki grein fyrir því hvert hann var kominn. Næstu daga gekk hann um, jafnt að degi sem nóttu, í leit að einhverju sem gæti vísað honum leiðina til byggða. Aldrei snjóaði á hann og aðeins frysti eina nóttina. Hins vegar rigndi töluvert og oft varð Kristinn gegndrepa. Þá nærðist hann nánast eingöngu á vatni. Á fimmta eða sjötta degi kom hann að á og ákvað að ganga meðfram henni og reyna þannig að komast til byggða.

Á sjöunda degi var Kristinn orðinn svo örmagna og aðframkominn að hann ákvað að leggja sig í skógarrjóðri í Búrfelli við Þjórsá. Hann reiknaði ekki með að vakna aftur og horfðist í augu við þá staðreynd að þarna myndi hann sennilega bera beinin. Daginn eftir fór bóndi einn úr Gnúpverjahreppi í Árnessýslu ríðandi á hesti sínum í skógarferð í Búrfell. Hann staldraði við á einum stað en þegar hann ætlaði að halda för sinni áfram sá hann eitthvað hreyfast í rjóðrinu. Hann athugaði hvers kyns var og sá þá Kristin, fáklæddan, hrakinn og aðframkominn af hungri. Bóndinn gaf honum að borða, klæddi hann í föt af sér og flutti hann á hestinum að bænum Ásólfsstöðum þar sem hann dvaldist meðan hann náði aftur heilsu. Hrakningarsaga Kristins Jónssonar vakti svo mikla athygli að dagblaðið Ísafold hóf söfnun fyrir hann m.a. til að standa undir lækniskostnaði og kostnaði við að flytja hann aftur heim í Tjarnir.

Já, allt er gott sem endar vel.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í janúar 2014.

Vissi héraðshöfðingi Eyfirðinga um hið heilaga gral Krists?

Allir þekkja söguna um hið heilaga gral. Bikarinn sem Jesús drakk af þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum. Bikarinn sem geymdi blóð hins krossfesta Krists. Ekki hefur tekist að sanna tilvist gralsins en ljóst er að trúin á sannleiksgildi sögunnar, og að gralið sé til enn þann dag í dag, á sér fylgjendur um allan heim. Allt frá miðöldum hafa komið fram tilgátur um hugsanlega felustaði gralsins og hafa staðir eins og London og Pýreneafjöll gjarnan verið nefndir í því sambandi. Ljóst er að fundur gralsins yrði stórkostleg uppgötvun og í raun ekki sambærilegur við aðra fornleifafundi, hvorki fyrr né síðar. Ísland er nú komið á kortið yfir líklega staði þar sem gralið er geymt og teygir sagan anga sína til Eyjafjarðar.

Blóðbaðið í Jerúsalem 7. júní 1099

Til að átta sig á mögulegum flutningi gralsins til Íslands þurfum við að fara rúm 900 ár aftur í tímann. Þann 7. júní árið 1099 réðust þúsundir kristinna riddara inn í Jerúsalem. Ætlun þeirra var að ná aftur borginni úr höndum múslima sem þá höfðu safnast þar saman. Í rúman mánuð börðust þessar tvær fylkingar í borginni þar sem riddararnir myrtu 40.000 manns. Fjöldamorðin í Jerúsalem eru talin meðal grimmilegustu hermdarverka veraldarsögunnar. Þau marka upphaf Krossferðanna en svo kallaðist stríðið milli kristinna manna í Evrópu og múslima í Austurlöndum nær. Stríðið stóð yfir í tvær aldir og gætir jafnvel áhrifa þess enn í dag. Tuttugu árum eftir atburðina í Jerúsalem varð til kristin riddararegla í Frakklandi sem kallaðist Musterisriddarar. Verkefni hennar voru margvísleg en öll þó í þágu kristinnar trúar. Eitt af því sem Musterisriddararnir gerðu var að koma dýrgripum úr musterinu í Jerúsalem í öruggt skjól en þeir höfðu verið teknir frá eftir blóðbaðið mikla. Í hugum kristinna manna var um ómetanleg menningarverðmæti að ræða og þar á meðal hið heilaga gral.

Gralið flutt til Íslands 1217

Ítalskur verkfræðingur og dulmálssérfræðingur að nafni Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur manna hafi komið til Íslands árið 1217 og haft gralið með sér. Gralið hafi þeir falið á hálendi Íslands með aðstoð heimamanna. Mörgum kann að þykja kenningin fjarstæðukennd en Gianazza hefur ásamt teymi fræðimanna eytt miklum tíma í rannsóknir á þessum ævintýralega möguleika. Í þeim rannsóknum hefur margt áhugavert komið fram. Sumt af því má frekar búast við að sjá í bíómyndum en í raunveruleikanum og sem dæmi um það má nefna Síðustu kvöldmáltíðina, eitt frægasta málverk Leonardo da Vinci (1452-1519). Gianazza vill meina að í málverkinu megi sjá falið kort sem sýni felustað gralsins á Íslandi. Ef kenning hans er rétt var í það minnsta einn maður í Eyjafirði sem vissi hvar hið heilaga gral Jesú Krists var falið.

Sturlunga geymir mikilvægar upplýsingar

Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254) Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.

Musterisriddarar á Íslandi?

Norðmenn sem heimsóttu Ísland á miðöldum gengu gjarnan undir nafninu Austmenn sem og aðrir sem sigldu til landsins úr austri. Snorri Sturluson var vissulega mikill höfðingi og naut mikillar virðingar en velta má fyrir sér hvers vegna hann var með 80 manna erlendan her með sér auk nokkurra hundruða íslenskra reiðmanna sem honum fylgdu á Alþingi sumarið 1217. Hvaða erlendi her var þetta? Hvaðan kom hann? Hvað var hann að gera hér á landi? Gianazza telur að þarna sé um 80 menn úr hópi Musterisriddaranna að ræða og að þeir hafi komið hingað fyrst og fremst til að fela verðmæti úr frumkristni, þ.á.m. hinn heilaga kaleik Krists. Að för þeirra með Snorra á Alþingi vegna deilumála hans við Magnús goða hafi einungis verið sett á svið til að beina athygli manna að öðru en því sem þeir voru raunverulega að gera hér. Var það tilviljun að Skotinn Herburt kom þessari atburðarás af stað þegar hann hóf deilurnar við Hjaltinn árið áður? Ekki verður þessum spurningum svarað hér frekar en öllum þeim spurningum sem Giancarlo Gianazza hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár vegna rannsókna hans á tengslum Íslands og bikars Krists.

 

Hvílir leyndarmálið í vígðri mold í Eyjafjarðarsveit?

Einn úr fylgdarliði Snorra á Alþingi sumarið 1217, þegar 80 erlendir vopnaðir menn voru með í för, bjó á Grund í Eyjafirði um 23 ára skeið (1215-1238). Hann var einn helsti höfðingi Sturlunga á fyrri hluta 13. aldar og var jafnframt héraðshöfðingi Eyfirðinga og Þingeyinga um tíma. Leiða má líkur að því að maðurinn hafi verið í hópi fárra Íslendinga sem vissu um raunverulegar fyrirætlanir huldumannanna 80. Hér er að sjálfsögðu átt við Sighvat Sturluson, bróður Snorra. Sighvatur féll í Örlygsstaðabardaga árið 1238. Hann er talinn hvíla í sérstökum Sturlungareit í kirkjugarðinum að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Ef kenning Gianazza er byggð á sandi má í það minnsta hafa gaman af henni. Ef hún er á rökum reist er gaman til þess að vita að í heimabyggð hvíli maður sem mögulega vissi um hið heilaga gral Krists. Sennilega fáum við aldrei úr því skorið hvort Sighvatur vissi um gralið. Hann tók leyndarmálið með sér í gröfina fyrir 780 árum síðan.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í september 2013.