Níunda Leitin að hefjast – allir geta tekið þátt

Þátttakendur í Leitinni árið2015 Leitin að Grenndargralinu er valgrein fyrir nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar. Full ástæða er til að minna á að Leitin er engu að síður í boði fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna. Allir geta tekið þátt. Aðeins þeir sem skráðir eru í valgreinina hafa rétt til að leita að Gralinu í lokin, þ.e. leysa lokavísbendinguna og fara á staðinn þar sem Gralið er falið. Aðrir ljúka keppni þegar þeir hafa ráðið lokavísbendinguna.

Allt sem þarf að gera er að hefja leik þegar fyrsta þraut fer í loftið, fara eftir fyrirmælum, leysa þrautina og skila lausnum til umsjónarmanns með tölvupósti. Fyrir réttar lausnir sendir umsjónarmaður bókstaf til baka sem notaður verður til að mynda lykilorðið. Þetta er endurtekið næstu níu vikurnar eða svo eða þar til kemur að lokavísbendingunni. Þá er Grenndargralið innan seilingar. Einfaldara getur það ekki orðið.

 

Nokkur praktísk atriði vegna Leitarinnar 2016:

  • Leitin að Grenndargralinu er valgrein í grunnskólum Akureyrar (8. – 10. bekkur). Allir mega taka þátt, líka þeir sem ekki völdu Leitina sem valgrein.
  • Ein þraut á viku í 10 vikur. Þrautirnar birtist á föstudögum á www.grenndargral.is undir liðnum Leitin að Grenndargralinu efst á forsíðunni.
  • Lausnum  er skilað til umsjónarmanns með tölvupósti (brynjar@akmennt.is).
  • Þátttakendur  fá bókstaf fyrir hverja rétta lausn. Þeir safna saman bókstöfum. Eftir 10 vikur reyna keppendur að finna hvert lykilorðið er með því að raða þeim saman.
  • Keppendur láta umsjónarmann vita þegar lykilorðið er fundið. Þá hefst baráttan um að finna Gralið. Keppendur fá lokavísbendingu sem vísar á Gralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær.
  • Grenndargralið er falið einhvers staðar á Akureyri.
  • Farsælast er að leysa þrautirnar jafnt og þétt. Leyfilegt er þó að skila lausnum inn síðar en að viku liðinni. Þá má einnig skila inn lausnum við fleiri en einni þraut samtímis.
  • Hægt er að hefja leik hvenær sem er eftir að Leit hefst.
  • Þeir sem klára fyrstu 5 þrautirnar og skila inn réttum úrlausnum áður en 6. vika hefst öðlast rétt til að leita að Karamellukrukkunni. Hún er falin innan bæjarmarkanna og þeir sem finna hana eignast hana og innihald hennar.
  • Aðrir en nemendur í 8. -10. bekk mega taka þátt með því að leysa þrautirnar. Þegar kemur að endalokunum eru það eingöngu nemendur á unglingastigi sem mega freista þess að finna Gralið.
  • Lokamarkmið: Verða fyrstur til að finna Grenndargralið og fá það til varðveislu í eitt ár.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd