Giljahverfi – sparkvöllurinn

Ég bý í Giljahverfi sem er tiltölulega nýlegt hverfi á Akureyri. Hér er einn grunnskóli, Giljaskóli, tveir leikskólar og stórt íþróttahús þar sem aðallega eru stundaðir fimleikar. Við Giljaskóla er staðsettur upplýstur sparkvöllur með gervigrasi, það tel ég vera minn uppáhaldsstað hér í hverfinu og þar eyði ég mörgum stundum, þó aðallega á sumrin.

Sparkvöllurinn er vel nýttur af íbúum í hverfinu. Þangað koma krakkar á öllum aldri til þess að spila fótbolta og því verður völlurinn oft líflegur samkomustaður okkar utan skólatíma. Sparkvöllurinn er auðvitað líka notaður mikið á skólatíma. Bekkirnir skipta með sér að nota hann í frímínútum með sérstöku skipulagi svo að allir komist að. Völlurinn er sérstaklega vinsæll á sumrin. Þá má segja að hann sé í notkun frá morgni til kvölds. Mér þykir til dæmis gott að geta skroppið á völlinn hvenær sem ég vil og æft mig í fótbolta, hvort sem ég er einn eða að spila við aðra.

Þó að kostirnir við það að hafa góðan sparkvöll í hverfinu séu tvímælalaust fleiri en gallarnir þá eru nokkur atriði sem mér finnst að mættu betur fara. Í fyrsta lagi eru mörkin helst til of lítil miðað við stærð vallarins. Í öðru lagi vill það koma fyrir að fullorðnir einstaklingar yfirtaka völlinn sem er algjörlega andstætt öllum reglum. Á vellinum stendur á skilti að börn og unglingar séu í forgangi þegar kemur að notkun vallarins og því er það mjög leiðinlegt að sjá fullorðna einstaklinga reka börn af vellinum svo þeir geti notað hann sjálfir. Reyndar er búið að spreyja yfir skiltið svo að erfiðara er að lesa sér til um reglurnar og mætti endilega laga það. Í þriðja lagi vil ég nefna ljósin á vellinum, en mér finnst þau vera slökkt alltof snemma á kvöldin eða um 21:00. Þetta er mjög þreytandi, sérstaklega með tilliti til þess að útivistartími 13-16 ára barna er til kl. 22:00 og væri gott að geta notað allan þann tíma á vellinum ef þannig bæri undir.

Ef þessar endurbætur yrðu gerðar á vellinum, það er að mörkin yrðu stækkuð lítillega, reglur vallarins væru sýnilegar og virtar af fullorðnum og að ljósin fengju að lýsa aðeins lengur á kvöldin, yrði það til þess að góður völlur yrði enn betri og aðstaða barna hér í Giljahverfinu til útveru og fótboltaiðkunar myndi batna enn frekar.

Kári Þórðarson 8. SKB

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd