main image

Fullorðnir borga börnum fyrir afnot af vellinum

Á öllum þessum árum sem gervigrasvöllurinn er búinn að vera hjá Giljaskóla er ég búinn að taka eftir bæði kostum og göllum við hann. Ég ætla aðeins að tala um gallana við hann hér í þessari grein.

Á hverjum degi fara margir krakkar á völlinn, bæði krakkar í leikskóla og krakkar á öllum stigum í grunnskóla. Farið er á hann á öllum tímum dagsins t.d. í frímínútum, eftir skóla og á kvöldin. Þannig að það þarf að passa hann vel. Gallarnir við hann eru eftirfarandi: Hann er t.d. of lítill þannig að það er alltof létt að skjóta útaf honum. Þá þarftu að ná í boltann og það tekur sinn tíma og er eiginlega alltaf leiðinlegt. Það er t.d. hægt að stækka hann og breikka. Svo á veturna er völlurinn alltaf fullur af snjó því það er ekkert sem er yfir vellinum til að hlífa honum fyrir úrkomu líkt og rigningu og snjó. Það væri alveg hægt að láta eitthvað yfir hann t.d. eins og bárujárnsþak, tjald eða eitthvað álíka. Svo þarf líka að hita gervigrasið meira því að hitinn sem er núna ræður ekki við allan snjóinn á Íslandi. Það getur tekið völlinn góða viku að losa sig við snjóinn ef það snjóar mikið. Til að laga þetta er t.d. hægt að auka hitann. Svo eru það blessuðu ljósastaurarnir. Á haustin dimmir í kringum sex leitið og það kviknar á ljósastaurunum kl 20, þannig að á milli 18 til 20 sér maður ekki neitt. Það eykur auðvitað slysahættu og ekki viljum við að krakkarnir, sem ætla kannski að hitta vini til að leika sér eða æfa sig í fótbolta, slasi sig vegna lélegrar birtu? Það er hægt að laga þetta með því að kveikja á þeim fyrr. Svo vil ég líka að það sé takmarkaður aðgangur á völlinn. Ég vil að völlurinn sé meira fyrir krakkana í Giljaskóla, því það er svo leiðinlegt að vera á vellinum þegar einhverjir fullorðnir unglingar/karlmenn koma og taka völlinn af manni! Ég hef orðið vitni að því þegar það komu karlmenn um þrítugt á völlinn þegar það voru litlir krakkar á honum. Karlarnir vildu fá völlinn þannig að þeir borguðu bara krökkunum pening fyrir að fara útaf. Mér finnst þetta ekki í lagi!

Nokkrir gallar eru við gervigrasvöllinn fyrir utan Giljaskóla. Hann er of lítill og gerir það að verkum að það er létt að skjóta útaf. Það er ekkert sem ver hann fyrir úrkomu. Hann er of lítið upphitaður og of lítil birta á honum! Og munið að þessi völlur var byggður fyrir krakkanna í skólanum en ekki fyrir fullorðna!

Alexander Örn Pétursson 8. RK

Umferð í Giljahverfi

Bílanotkun hefur aukist mikið síðustu árin sem hefur leitt til þess að hreyfing margra barna og unglinga hefur minnkað mikið. Þessi aukna bílanotkun hefur auk þess áhrif á marga aðra þætti eins og mengun og aukna hættu á umferðaróhöppum auk þess sem það er mun meiri umferð á morgnana sem getur valdið töfum fyrir fólki sem þarf að mæta í vinnu.

Giljahverfi er ekki stórt hverfi og því ekki langt að labba í skólann eða á milli staða. Flestir krakkar sem labba í skólann verða miklu hressari og ferskari þegar þeir koma í skólann og á það að sjálfsögðu líka við um fólk sem er að fara í vinnu. Í þessu litla hverfi eru nokkrir stórir vinnustaðir eins og t.d. Giljaskóli og leikskólarnir Tröllaborgir og Kiðagil. Síðan er nýbúið að byggja nýtt sambýli þar og einnig er fimleikafélagið með aðstöðu í íþróttahúsinu við Giljaskóla. Með alla þessa stóru vinnustaði í ekki stærra hverfi en Giljahverfi er, getur myndast mikil umferð þarna í skólabyrjun og við skólalok.

Ég held að með því að efla og hvetja börn og fullorðna til þess að ganga meira í skóla eða vinnu muni það koma til með að skila sér í aukinni orku og ánægju. Á Akureyri er líka frítt í strætó og því ættu bæði börn og fullorðnir að nýta sér þá leið til að fara á milli staða frekar en að fara á einkabílum. Kostnaðurinn við að reka bíl er mikill svo líklega gætu margir sparað sér nokkra þúsundkalla með því að rölta, hjóla eða taka strætó í vinnuna eða skólann.

Eins og við vitum þá búum við á þeim stað í heiminum þar sem mikill snjór er mestan hluta ársins sem veldur því að oft á tíðum safnast mikill snjór á gangstéttir. Til þess að auðvelda þeim sem kjósa að ganga eða hjóla á milli staða yfir vetrartímann þyrftu bæjaryfirvöld að vera dugleg að ryðja göngustíga snemma á morgnana.

Þar sem margir vinnustaðir eru í Giljahverfi segir það sig sjálft að það er mikið af fólki sem vinnur á þessu litla svæði og getur þar af leiðandi skapast mikil umferð í byrjun og við lok vinnudags. Með því að auka umræðu um þetta mætti mögulega draga úr umferð sem myndi þar af leiðandi spara fólki þann pening sem fer í bensínkostnað. Mér finnst það þó ekki vera mesti kosturinn heldur hreyfingin sem fólk fær með því að rölta í skóla og vinnu.

Lilja Björk Ómarsdóttir 8. RK Giljaskóla.