Æskuslóðirnar mínar

 

Í Hrísey

Ég ólst upp í Hrísey á sjöunda og áttunda áratugnum. Það var að sönnu ævintýralegt – eins og ég býst við að umhverfi flestra barna á flestum tímum sé. Uppeldisárin mörkuðust töluvert af sérstöðu eyjasamfélagsins; nokkurri einangrun og fremur einhæfum starfsháttum heimamanna. Líf barnanna var þó aldrei einhæft, þar ríkti sjálfræði og frelsi. Leikvöllurinn var stór og margt við að vera: Landaparís niðri á Sandi, draugagangur undir Plani, feluleikur í risastórri og yfirgefinni Síldarverksmiðjunni. Það var skottast í eggjatöku upp á ey, krækiber seld í bréfpokum á tröppum Gamla hússins, kanínu- og dúfnakofar byggðir og sullast um á gonnum í höfninni. Sundlaugin var opin á sumrin og þá var farið í skyldusund að morgni, leiksund síðdegis og sundæfingu eftir kvöldmat. Á veturna var yfirleitt snjóþungt og börnin byggðu margra herbergja snjóhús og lýstu upp hvern kima með logandi kertum. Skemmtilegast var að stökkva ofan af húsum í snjóskaflana. Öll hlökkuðum við líka til þess að slá köttinn úr tunnunni á Öskudaginn („kötturinn“ var nú reyndar hrafn eða jafnvel múkki). Allir komu saman vestan við frystihús í heimagerðum búningum og hengdu öskupoka aftan á þá sem ekki uggðu að sér.  Loks gengu skólabörnin öll saman í hvert einasta hús í eynni og sungu „Nú er frost á fróni“ og fleiri napra vetrarsöngva. Í ferð með var baukur sem áheyrendur lögðu smápeninga í til söfnunar fyrir skólaferðalag vorsins. Í lok sönggöngunnar fengu börnin lítinn poka af gotti hjá Ottó í búðinni. Þar lágu dísætar grænar Freyju-karamellur, perubrjóstsykur, súkkulaðivindlar, möndlur og krembrauð. Kannski Lindubuff eða Rjómatoffí. Namm.

Svo var það Barnaskólinn. Þar fengu börnin að kynnast nýjum, skrítnum kennurum á hverju skólaári. Þeir héldust aldrei lengi við í starfinu – þetta voru oft ungmenni með ævintýraþrá, í mesta lagi nýskriðin úr menntaskóla, nú eða undarlegir kvistir sem fengu hvergi annars staðar vinnu. Sennilega hefur ekki þótt fýsilegt að eyða vetrum á svona stað, í fámenni og jafnvel rafmagnsleysi svo dögum skipti. Sæstrengurinn átti til að fara í sundur í vetrarveðrum. Fyrir börnin var það nú bara spennandi tími. Í ljósleysinu var ýmislegt brasað. Ég átti forláta lukt (vasaljós) sem gagnaðist mér ágætlega  við bóklestur í myrkrinu. Þannig las ég Mein Kampf eftir sjálfan Adolf Hitler. Nei, nei, ég var ekkert lítill nasisti enda fannst mér bókin atarna alveg þrautleiðinleg. Málið var að Lestrarfélag Hríseyjar var til húsa í litla skólanum okkar og þar var hægt að skoða bækur á hverjum degi. Satt best að segja var ég bara búin að lesa allar barnabækurnar í safninu (Enid Blyton-bækurnar ótal sinnum) og þá tóku fullorðinsbókahillurnar við. 

En aftur að kennurum (kennarar hafa svo gaman af skólasögum). Ekki voru allir lærifeðurnir undarlegir aðkomumenn. Og þó, kannski þegar vel er að gáð. Sá allra skemmtilegasti var einmitt presturinn, séra Kári Valsson. Hann kom upprunalega frá Tékkóslóvakíu og átti ótrúlega sögu að baki þegar hann hóf prestsstörf í Hrísey, t.d. úr fangabúðum í seinni heimsstyrjöldinni. Kári vildi endilega að bráðung einkadóttirin lærði dönsku löngu áður en að því kom í skólanum en hún var nú ekki ýkja hrifin af þeirri hugmynd. Hann sannfærði því jafnaldrana um að takast á við verkefnið með henni. Kári hafði framúrstefnulegar aðferðir við dönskukennsluna. Löngu síðar fór ég í máladeild í menntaskóla og lagði stund á ein fimm tungumál en ekkert í þeim skóla líktist aðferðum Kára. Hann hefur kannski komist í skrif snillingsins Dewey þó sá merki kennimaður yrði ekki vinsæll meðal Íslendinga fyrr en áratugum síðar. Málið var að hann kenndi í verki og gegnum leik. Við börnin fengum að leika með orðin, þreifa og bragða á tungumálinu; bókstaflega! Eftirminnilegastir eru tímarnir þegar við lærðum orðaforðann um mat því þá fengum við að smakka ýmislegt framandi – Kári borðaði fífla og hvítlauk sem þá þótti stórfurðulegt – við supum á límonaði úr gostappa sem gekk á milli og sögðum flissandi til skiptis „limonade“. Við lærðum hvað „spøgelse“ þýddi þegar hann sveif um og baulaði draugalega undir hvítu laki. Einu sinni dró hann upp gömlu gleraugun sín til kenna okkur orðatiltækið „gå i stykker“. Án þess að orðlengja það frekar fleygði hann „brillerne“ í gólfið og stappaði kröftuglega ofan á þeim! Mest hlógum við þó þegar presturinn mætti með risastórar blúndunærbuxur af eiginkonunni og kenndi okkur að segja „trusser“. Það var mér nánast um megn. Orðið var eiginlega of líkt orði sem var harðbannað að láta sér um munn fara. Við lyppuðumst bara niður í hláturkasti.  Kári var samt glaðastur allra og greinilega hefur kennslufræðin hans virkað því orðin man ég enn.

Árný Helga Reynisdóttir

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd