main image

Fyrstu krukkurnar af Grenndargralsmúslí tilbúnar!

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá íbúar Hörgársveitar og aðrir sem mættu á samverukvöldstund á Möðruvöllum á föstudagskvöldið. Tilgangur samkomunnar var að sýna samstöðu vegna kalskemmda í vetur og heylítils sumars síðastliðið ár.  Á heimasíðu Hörgársveitar segir um dagskrá samkomunnar; Bjarni Guðleifsson reifaði fyrri kalár með gamansömum hætti, Doddi í Þríhyrningi rifjaði upp störf sín sem forðagæslumaður, sagði frá þeim aðferðum sem beitt var þegar tún kól fyrir hálfri öld og fór yfir sjúkrasögu nokkurra þeirra sem lágu með honum á deild í aðgerð sem hann fór í nýlega. Gestum þóttu sjúkrahússögurnar hin besta skemmtun, hversu alvarlegar sem þær nú annars kunna að vera. Sr. Sunna Dóra flutti hugvekju, Stefán í Fagraskógi fór með ljóð og Snorri Guðvarðarson klykkti út með því að fá alla til að syngja með sér jólalag við nýtt lag – og það um hásumar. Eftir dagskrána var kaffispjall í Leikhúsinu. Mæting var með ágætum og heppnaðist dagskráin afar vel.“

Þegar áföllin dynja yfir er fátt mikilvægara en vita af stuðningi samferðamanna. Við ráðum ekki við náttúruöflin en við getum alltaf sýnt samstöðu og stutt hvert annað. Það gerðu íbúar Hörgársveitar með því að koma saman yfir kaffisopa og fara yfir stöðu mála. Flott hjá þeim.