The Hólms fundu gralið

Úrslit í Grenndargrali fjölskyldunnar liggja fyrir. The Hólms fór með sigur af hólmi eftir harða baráttu við níu önnur lið. Liðsmenn The Hólms mega því fara að rýma til í stofuhillunni því gripurinn sem barist var um er nú kominn í hendur eigenda sinna.
Tíu lið, að mestu skipuð fjölskyldum, kláruðu þrautirnar þrjár og tryggðu sér þar með réttinn til að leita að gralinu. Leitin fór fram laugardaginn 25. ágúst .Hún hófst með því að forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Geir Kristinn Aðalsteinsson,  afhenti fulltrúum liðanna umslag sem innihélt lokavísbendinguna sem vísaði á gralið.  Afhendingin fór fram í Hofi klukkan 14:30. Nokkrum augnablikum síðar kom hópur fólks hlaupandi út úr Hofi með umslag í höndunum en fyrir utan biðu aðrir liðsmenn í bílum tilbúnir að rjúka af stað. Næstu mínútur fóru í að keyra milli staða í bænum til að sækja bókstafi og tölu til viðbótar við bókstafi sem voru í umslaginu. Þátttakendur þurftu að raða saman stöfunum og tölunni til að komast á slóðir gralsins. Innan við klukkustund eftir að lokavísbendingin var afhent í Hofi höfðu liðsmenn The Hólms áttað sig á hvert stefna skyldi. Liðið endaði á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð þar sem gralið beið þeirra. Aðeins örfáum mínútum síðar höfðu þrjú lið bæst í hópinn en þau gripu í tómt. Önnur lið ýmist komu á áfangastað seinna eða hættu leit þegar ljóst var orðið að gralið væri fundið. Á Hlíð var tekið á móti þátttakendum með kleinum og safa undir ljúfum harmonikkutónum svo allir færu nú glaðir heim, jafnt sigurvegarar sem aðrir.

Grenndargrali fjölskyldunnar lýkur  föstudagskvöldið 31. ágúst þegar gralið verður afhent sigurvegurunum formlega í Lystigarðinum. Öll liðin tíu fá viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna.

The Hólms með gralið fyrir utan Hlíð. Á myndinni eru Heimir Kristinsson, Linda Björk Óladóttir, Ingibjörg Rannveig Rósenbergs,  Kamilla Ósk Heimisdóttir og Karen Lind Helgadóttir.  Myndina tók liðsmaður The Hólms, Helgi Rúnar Bragason.

 

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd