main image

Grenndargral fjölskyldunnar bíður eiganda síns

Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér rétt til að komast í hóp þeirra sem munu berjast um Grenndargral fjölskyldunnar. Þrautirnar þrjár sem þarf að leysa til að fá lokavísbendinguna sem vísar á gralið verða í boði fyrir áhugasama fram að föstudeginum 24. ágúst. Aðeins þeir sem skila inn réttum lausnum við þrautunum þremur fyrir föstudaginn 24. ágúst fá lokavísbendinguna sem vísar á gralið.

Síðustu daga hafa fjögur lið bæst í hóp þeirra sem fyrir voru. Það eru Grallararnir, Hrafnsungarnir, Stóri heili og Valdi magri. Níu lið berjast því þessa stundina um gripinn góða. Liðunum gæti enn átt eftir að fjölga þar sem ennþá er tími til að hefja leik.

Ingvar Engilbertsson sá um að hanna og smíða gralið. Til þess notaði hann stofn Randers-trésins frá síðustu jólum. Ákveðið var að nýta tréð, ekki síst vegna tengsla Akureyrar við danska kaupmenn og Danmörku fyrr á tímum. Stefanía Fjóla Elísdóttir sá um að klæða gralið í sparibúninginn með því að setja á það myndir og áletrun. Útkoman er einstaklega glæsilegur gripur. Hér er án efa á ferðinni einhver skemmtilegasti minnisvarði um 150 ára afmæli bæjarins enda er hann einstakur – í bókstaflegri merkingu 🙂

Grenndargral fjölskyldunnar verður til sýnis í Eymundsson frá og með þriðjudeginum 21. ágúst til og með föstudeginum 24. ágúst.