Sex skólar berjast um Grenndargralið 2011

 

Leitin að grenndargralinu 2011 hefst mánudaginn 5. september. Er þetta í fjórða skiptið sem nemendur berjast um að verða fyrstir til að finna Grenndargralið. Gaman er að segja frá því að þrír skólar hafa bæst í hóp þeirra þriggja sem fyrir voru og verða þátttökuskólarnir því sex í vetur. Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli hafa tilkynnt þátttöku sína og bætast þar í hóp með Glerárskóla, Giljaskóla og Síðuskóla. Ég vil bjóða nemendur og starfsmenn nýju þátttökuskólanna velkomna til leiks um leið og ég þakka umsjónarmönnum Leitarinnar í skólunum sex fyrir þeirra vinnuframlag. Án þeirra væri Leitin að grenndargralinu aðeins svipur hjá sjón.

Undirbúningur fyrir Leitina hefur staðið yfir frá því í júlí þegar vinna við þrautagerð hófst. Eins og ávallt þegar slíkt grúsk á sér stað kemur margt spennandi fram í dagsljósið. Þátttakendur munu gera athyglisverðar uppgötvanir er varða sögu heimabyggðar í gegnum vettvangsferðir og vefleiðangra.

 

Ekki þarf að fjölyrða um kosti þess fyrir Leitina að hafa heimasíðu. Sífellt er verið að leita leiða til að auðvelda aðgang áhugasamra að upplýsingum um verkefnið. Nú má finna frekari upplýsingar á facebook en þar verða birtar stuttar tilkynningar og myndir auk þess sem fólk getur tjáð sig um málefni sem snerta Leitina.

Enn á eftir að ganga frá nokkrum lausum endum áður en kapphlaupið hefst mánudaginn 5. september. Frekari fréttir af því og öðru munu birtast á næstu dögum hér á heimasíðunni.

 

Vonandi mun Leitin að grenndargralinu 2011 auka áhuga á sögu heimabyggðar, stuðla að nýrri þekkingu og síðast en ekki síst gleðja þá sem taka þátt.

 

Brynjar Karl Óttarsson verkefnisstjóri Leitarinnar að grenndargralinu.

 

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd