Varðveislumenn gengu í fótspor frúarinnar á Hólum
Fjórir vaskir Varðveislumenn fóru á dögunum í leiðangursferð í Blönduhlíð í Skagafirði. Við lögðum af stað snemma morguns frá Akureyri, tilbúnir í miðaldaævintýri á söguslóðum. Í Skagafirði hófst ævintýrið á því að við tókum hús á Sigurði Hansen í Kakalaskála þar sem hann jós úr viskubrunni sínum um Jón Arason biskup og Helgu Sigurðardóttur fylgikonu hans. Þaðan keyrðum við heim í hlað á höfuðbólinu Flugumýri norðan við Kakalaskála.
Flugumýri er landnámsjörð Þóris dúfunefs. Þórir þessi átti fótfráu hryssuna Flugu sem bærinn tekur nafn sitt af. Á Flugumýri klæddum við okkur í fjallgönguskóna og tókum stefnuna á fjallið ofan bæjarins. Rétt áður en við lögðum af stað hittum við húsfreyjuna á bænum, Ástu Kristínu Sigurbjörnsdóttur og áttum við hana gott spjall. Hún sýndi okkur áttavilltum göngugörpunum hvar best væri að hefja gönguna og hvert stefna skyldi. Við höfðum jú aldrei áður komið á áfangastað, Húsgilsdrag í Glóðafeyki, og vissum því ekki alveg í hvorn fótinn við áttum að stíga þegar við hófum gönguna.
Veðrið var prýðilegt, eins og best verður á kosið fyrir fjallgöngu. Fljótlega eftir að við kvöddum Ástu á bæjarhlaðinu, komum við að svokölluðum Virkishól rétt ofan við bæinn. Í hólnum er talið að finna megi rústir virkis frá Sturlungaöld. Áfram héldum við upp hlíðina og inn Flugumýrardal. Eftir rúmlega tveggja klukkustunda göngu sáum við glitta í 300 metra langt Húsgilsdragið. Þegar á endastöð var komið settumst við niður á þessum afskekkta og fáfarna stað og fengum okkur hressingu. Við vorum komnir á slóðir Helgu Sigurðardóttur. Þar sem við vorum úti í guðsgrænni náttúrinni, reifuðum við örlög biskupsins á Hólum og sona hans tveggja haustið 1550 og hlutskipti fylgikonu hans og móður bræðranna sumarið eftir.
Eins og flestum er kunnugt var Jón Arason Hólabiskup hálshöggvinn ásamt tveimur sonum sínum 7. nóvember árið 1550. Vorið 1551 komu dönsk herskip til landsins með her manna sem ætlað var að handsama Jón og syni hans og sigla með þá til Danmerkur. Fréttir af andláti þeirra höfðu ekki borist til Kóngsins Kaupmannahafnar. Eftir komu dönsku herskipanna voru feðgarnir dæmdir landráðamenn. Dómurinn var felldur á Oddeyri við Eyjafjörð. Á meðan á Oddeyrardómi stóð fékk Helga fréttir af komu herskipanna og hóf að undirbúa flótta upp til fjalla frá Hólum í Hjaltadal. Með í för var sonardóttir Helgu og Jóns. Helga drap niður fæti í Húsgilsdragi, sló upp tjaldbúðum og hafðist þar við ásamt fríðu föruneyti í tvo mánuði sumarið 1551 í felum. Sagan segir að hún hafi jafnvel haft með sér silfur úr Hólakirkju sem hún vildi ekki fyrir sitt litla líf að kæmist í hendur konungs.
Eftir kaffisopa og spjall okkar Varðveislumanna um rúmlega 470 ára gamla atburði í Íslandssögunni röltum við um svæðið í sannkölluðum Guðs friði. Ekki bærðist hár á höfði í Draginu og hljóðeinangrunin var einstök. Við reyndum að sjá fyrir okkur sögusviðið sumarið 1551, tjöldin og útbúnað útilegufólksins. Helgu spígsporandi í grasi gróinni fjallshlíðinni, umkringd klettabeltum á allar hliðar undir bláum himni. „Skyldi hún hafa misst silfrið úr vasa sínum?“
Við renndum málmleitartækjum yfir hluta svæðisins en létum þar við sitja. Allt var gert með samþykki heimamanna og ekkert jarðrask af hálfu okkar Varðveislumanna, aðeins kannað hvort tækin gæfu frá sér merki. Við sendum dróna á loft yfir svæðið sem tók yfir 100 ljósmyndir af svæðinu í góðum gæðum. Við eigum eftir að rýna betur í myndirnar til að kanna hvort þær sýni mögulega útlínur eða annað sem gætu bent til mannaferða á svæðinu fyrr á tímum. Annars er Húsgilsdrag fáfarinn staður og hefur alla tíð verið að sögn þeirra sem þekkja til á staðnum.
Eftir nokkurra klukkustunda dvöl í fjallinu skrifuðum við nöfnin okkar í gestabók sem búið er að koma fyrir í vatnsheldum kassa og bolta fastan í stóran stein. Síðan héldum við niður fjallið. Á bakaleiðinni virtum við fyrir okkur þverdal sem skerst úr Flugumýrardal til norðausturs og við höfðum fyrir augunum alllanga stund. Um dalinn er gömul gönguleið yfir í Hjaltadal. Kannski kom Helga ríðandi þaðan þegar hún yfirgaf Hóla. Að lokinni göngu skoðuðum við Flugumýrarkirkju áður en við brunuðum í Varmahlíð í síðbúinn kvöldverð. Góður dagur var á enda kominn og þrátt fyrir silfurskort í Húsgilsdragi héldu Varðveislumenn minjanna heim á leið reynslunni ríkari.
Brynjar Karl Óttarsson.
Sjá má myndir frá fjallgöngunni á facebooksíðu Varðveislumanna minjanna.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd