Lítil saga af vináttu setuliðsmanna og fjölskyldu í Hörgársveit

Myndin er tekin á Öxnhóli í Hörgársveit árið 1940. Efri röð til vinstri: Heimilishundurinn Tryggur, breskur hermaður, Elísabet Haraldsdóttir húsfreyja á Öxnhóli, lést 1993 og breskur hermaður. Miðröð: Hulda Aðalsteinsdóttir húsfreyja á Syðri-Bægisá, lést 2020, Hákon Aðalsteinsson fv. skrifstofustjóri Olís á Akureyri og breskur hermaður. Fremsta röð: Hreiðar Aðalsteinsson fv. oddviti og bóndi á Öxnhóli, lést 2021.

Laufey Hreiðarsdóttir skráir upplýsingar um meðfylgjandi mynd, byggðar á frásögn Elísabetar föðurömmu hennar, Hreiðari föður hennar og Hákoni bróður hans.

Breskir hermenn héldu til að Vöglum og Skógum á Þelamörk og einnig í Bægisárgili. Þeir fóru alltaf 3-4 saman í bíl, tvisvar til þrisvar sinnum í viku, ferðuðust um sveitina og fóru á sveitabæina. En aðallega þá bæi þar sem þeim var boðið inn í veitingar.

Þeir hermenn sem tíðastir voru hjá föðurömmu minni Elísabetu og afa Aðalsteini Sigurðssyni bónda á Öxnhóli (lést 1971) komu frá bækistöðvunum að Bægisá og sóttu þeir mikið til heimilisfólksins. Höfðu þau mikla samúð með þessum kornungu hermönnum sem margir hverjir voru einungis um tvítugt og jafnvel yngri. Menn, óravegu frá fjölskyldum sínum og heimahögum í framandi landi.

Gerðu þau alltaf vel við þá í mat og drykk eins og hægt var á þessum tíma og voru þeir alltaf velkomnir inn á þeirra heimili. Hermennirnir fundu það og greinilegt var að þeir nutu samvistanna við heimilisfólkið. Þeir voru oft mættir eldsnemma að sunnudagsmorgni til að eyða deginum með heimilisfólkinu.

Þegar þess þurfti að beiðni hermannanna, létu þau þá alltaf hafa egg, brauð, smurt og ósmurt, kartöflur, kjötafurðir, grænmeti og sultur svo dæmi séu nefnd án endurgjalds. Einnig ullarvettlinga, ullarsokka og ullarhúfur er tók að hausta. Bresku hermennirnir gáfu börnunum súkkulaði og brjóstsykur en ömmu og afa stundum sígarettur sem amma gaf alltaf á tombólur Kvenfélagsins í sveitinni.

Er þeir vissu að vera þeirra var senn á enda var greinilegt að þeir kviðu mjög vistaskiptum enda ekkert skrítið í ljósi sögunnar. Kom það fram og sást glöggt í þeirra síðustu heimsókn og kveðjustund á Öxnhóli.

Fjölmargar sögur eru til af setuliðsmönnum sem fengu ullarvettlinga og ullarsokka að gjöf frá Íslendingum sbr. frásögn Laufeyjar. Ekki alls fyrir löngu fundu Varðveislumenn minjanna ullarvettling ásamt öðrum stríðsminjum í ruslahaug setuliðsins á Akureyri (sjá mynd).

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd