Breskur herhjálmur finnst á Lónsbakka

Grenndargralið greindi á síðasta ári frá starfi Varðveislumanna minjanna við að bjarga stríðminjum á Lónsbakka í Hörgársveit. Braggar breskra setuliðsmanna stóðu þar á hernámsárunum. Framkvæmdir hafa staðið yfir á svæðinu í nokkurn tíma en tilheyrandi jarðrask hefur dregið ýmsa áhugaverða smágripi úr fórum setuliðsmanna fram í dagsljósið eftir 80 ár. Varðveislumenn tóku upp þráðinn nú á dögunum þar sem frá var horfið síðastliðið haust. Meðal þess sem þeir hafa fundið í þessari lotu er merkilegur breskur diskur (WW2 British Army Plate) sömu gerðar og breskir hermenn höfðu í bakpoka sínum á ferðalögum.

Nýjasti gripurinn sem VM hafa endurheimt úr jörðu á framkvæmdasvæðinu norðan Akureyrar er breskur herhjálmur. Flestir sem eitthvað þekkja til seinni heimsstyrjaldarinnar kannast við gripinn. Ófáar ljósmyndirnar hafa birst í gegnum tíðina af breskum og bandarískum hermönnum með hjálm sem þennan, bæði í fyrri heimsstyrjöldinni sem þeirri seinni. Eins hafa þeir birst ótal sinnum í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Hjálmar af þessari gerð kallast „Brodie Helmets“ en þeir komu fyrst á markað árið 1915 í London. Hönnuður hjálmsins hét John Leopold Brodie.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd