Gleðilegt ár

Vetrarnótt

Sé eg inn frá Súlutindi

silfurkrýndan fjallahring,

eins og til að verjast vindi

verðir standa fjörðinn kring.

Sína mynd í sænum skoða

svanhvít Vaðlaheiðarlönd,

vestari álinn reifa roða

rjóð í austri skýa-bönd.

Blærinn þegir, blunda vogar.-

Breiða yfir land og sæ

norðurljósa nætur-logar

náttúrunnar helgiblæ.

Friður hvílir foldu yfir,

faðmar nóttin skygðan lög;

að eins heyrir alt sem lifir

andardrátt og hjartaslög.

Dýrðlegt er að sjá á sveimi

segulljósið stilt og rótt:

yfir landi út í geimi

undursýn er skreytir nótt.

Hjartað fyllir himins friður

hylling þegar fyrir ber,

og hinn mikli myndasmiður.

málverk fagurt sýnir þér.

                       B.E.

 

Ljóðið birtist í mánaðarriti sem gefið var út á Akureyri í upphafi síðustu aldar. Ritið hét Nýjar Kvöldvökur, útgefandi var Félag á Akureyri.  Ljóðið birtist í ritinu árið 1909 og því liðin 110 ár um þessar mundir frá birtingu þess. 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd