,,Kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin”

Senn líður að jólum, hátíð ljóss og friðar. Jólin eru einnig tími samverustunda. Ekki búa allir svo vel að geta notið samvista við ástvini á jólum. Í bókinni Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli segja vistmenn frá upplifun sinni af dvöl á Hælinu um jól og áramót, fjarri fjölskyldu og vinum á tímabilinu 1927 – 1960. Ekki verður annað séð af frásögnum og opinberum gögnum um rekstur Hælisins en að ávallt hafi verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum til að hafa ofan af fyrir vistmönnum á tyllidögum. Þannig voru afþreying, dægradvöl og góðar veitingar fastir rekstrarliðir á hátíðum á Kristneshæli allt frá upphafsárinu 1927. Og jólin voru þar engin undantekning. Grípum niður í bókina Í fjarlægð þar sem vistmenn segja frá jólahaldinu á Hælinu á sitt hvoru tímabilinu. Fyrra brotið er úr bréfi frá vistmanni til vinkonu, dagsett 28. desember 1927. Seinna brotið er dagbókarfærsla vistmanns, dagsett í desember 1956.

Ég sendi Diddu minni ögn af gottelsi. Ég hef eignast svo mikið af því um jólin að ég get sent þeim öllum svona kassa, ég veit það gleður þau. Það var talsvert mikið um að vera hér um jólin, fimm stór jólatré, eitt í dagstofunni fyrir okkur fótaferðarsjúklinga og fjögur inná stofum fyrir þá sem ekki máttu eða gátu klætt sig. […] Það var kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin og á meðan lifði á þeim. Það er að segja meðan lifði í dagstofum. Gengum við öll í kringum tréð og allir sungu sem gátu og var spilað undir á orgel. Svo messaði séra Friðrik Rafnar hér á annan og kirkjusöngflokkurinn frá Akureyri kom og söng.

desember 1956 

    Kæra dagbók. 

Að undanförnu hefur verið ófært hingað frameftir vegna snjóa. Erfitt hefur reynst að sækja vörur til Akureyrar. Ófærðin hefur haft áhrif hérna. Óli ber sig illa yfir ástandinu. Hann er umboðsmaður vöruhappdrættis SÍBS svo sennilega hefur snjórinn eitthvað verið að þvælast fyrir honum, blessuðum. Ég heyrði hann á tali við Eirík í dag. Þeir voru að tala um þvottahúseignir hælisins á Akureyri og 40 ára afmæli Framsóknarflokksins. Ég var ekkert að blanda mér í þá umræðu. Skemmtinefndin er dugleg að hafa ofan af fyrir okkur í vetrarríkinu, það er fyrir öllu. Það er alltaf eitthvað við að vera. Við horfðum á skemmtilega dans og söngvamynd í kvöld. Hún hét Ástarglettur og var í litum. Vinur minn á tvistinum skemmti sér vel yfir sýningunni. Ég skil orðið betur af hverju hann gengur undir nafninu Eplakinn. Í gær var skemmtisamkoma með söng og leik. Á miðvikudagskvöld var sýnd mynd með Doris Day. Hún hét Calamity Jane. Frú Guðrún var á vakt en horfði á eins og hún gat. Ég hlakka líka til jólanna en fyllist þó söknuði um leið. Mér finnst erfitt að vera hérna á jólum, í burtu frá fjölskyldunni. Hér er yfirleitt fámennt og rólegt því margir fá leyfi til að fara heim. Allt er gert til að okkur líði sem best á hátíð ljóss og friðar. Við fáum að skreyta salinn með starfsfólkinu og búa til okkar eigið skraut fyrir stofurnar okkar eins og á páskum. Hér er reiknað með að jólin kosti pening og mér skilst að þannig hafi það alla tíð verið. Alltaf reiknað með útgjöldum á jólum. Maturinn er betri og við fáum jólaöl til að skola honum niður. Svo ekki sé nú talað um fallegt jólatréð sem við göngum í kringum og kertaljósin. Hver veit nema við stöllurnar læðumst inn í eldhús á  jólanóttina eins og síðustu jól, hitum okkur kaffi og höldum okkar prívat veislu. 

Kristnesbækur Grenndargralsins (Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi) eru nú á tilboði fyrir jólin, bæði í verslunum Eymundsson sem og hjá útgefanda. Nánari upplýsingar á facebook-síðu Grenndargralsins og í síma 821 5948.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd