Deila sjúklings við ráðherra endaði með brottrekstri

Eitt af einkennilegri málum sem upp komu á fyrstu árunum eftir að Kristneshæli tók til starfa var deila milli sjúklings á Hælinu og ráðherra. Yfirskyn ágreiningsins var meint ónæði sjúklingsins í garð annarra sjúklinga en í raun var ágreiningurinn af pólitískum toga. Jakob Árnason og Jónas Jónsson deildu nokkuð heiftúðlega á síðum dagblaðanna. Jafnframt mátti skynja þungt andrúmsloftið innan veggja Hælisins á meðan deilu þeirra tveggja stóð þar sem aðrir sjúklingar, starfsfólk og yfirmenn Hælisins komu við sögu. Hér skal gripið niður í bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli sem Grenndargralið gaf út árið 2017.

Í nóvember 1930 stóðu nokkrir heimilismenn [Kristneshælis] að stofnun pólitísks félags á Hælinu, svokallaðs Jafnaðarmannafélags. Félagið hélt nokkra fundi sem fóru friðsamlega fram að sögn forsvarsmanna þess. Meðal þess sem félagið ákvað á fundi á fullveldisdaginn þetta sama ár var að útbúa yfirlýsingu sem fól í sér gagnrýni á störf þingmanns Framsóknarflokksins og þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu. Svo virðist sem óánægja hafi verið með fundahöldin úr röðum hjúkrunarkvenna Hælisins, þó ekki í þeim mæli sem Jafnaðarmannafélagið vildi vera láta. Óánægjan beindist ekki að dagskrá fundanna heldur frekar truflun sem af einum þeirra hlaust þar sem t.a.m. bíósýning fyrir vistmenn féll niður.

Hriflu-Jónas birti harðorða grein í Tímanum fyrir jólin þar sem hann talaði um æsing og læti á fundunum og sakaði „kommúnista um  að draga sjúklingana inn á vígvöll æsinganna“. Ennfremur að æsingurinn hefði framkallað blóðspýting hjá sjúklingi, slík hefði geðshræringin verið á einum fundinum. Og einmitt þarna virðist komin fram helsta átylla ágreinings vistmanns á Hælinu og dómsmálaráðherra eða deilu kommúnista og framsóknarmanna eins og látið var í veðri vaka – deilu sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Svo virðist sem Jónas hafi fært í stílinn svo um munar þegar hann nefndi afleiðingar fundarins. Sá vistmaður í Jafnaðarmannafélaginu sem lét mest af sér kveða í deilunni hét Jakob Árnason. Hann sakaði Jónas um lygar og líkti honum við rómverska keisarann Neró. Jakob átti síðar eftir að stýra skrifum á síðum Verkamannsins, málgagni Verkalýðssambands Norðurlands, þar sem hann fór ófögrum orðum um Jónas og fylgismenn hans í umræddu máli.  

Tvö sjónarmið tókust á í deilu Jakobs og Jónasar. Annars vegar meint hætta sem sjúklingum stafaði af æsingnum sem Jafnaðarmannafélagið stuðlaði að með fundahöldum sínum. Hins vegar meintir einræðistilburðir og afskiptasemi ráðherra af málefnum sem komu honum ekki við. Stjórnarnefnd Kristneshælis greip til þess ráðs að leggja bann við pólitískum félagsskap á Hælinu á þeim forsendum að æsingur sem þess háttar félagsstarfsemi fylgdi gæti spillt fyrir bata. Jakob var sannfærður um að ákvörðun þessa efnis hefði verið tekin einhliða af dómsmálaráðherra og að aðkoma stjórnenda Hælisins væri eingöngu til að hylma yfir einræðistilburði hans. „Þér hafið heft frelsi okkar meira en hvíti dauði,“ lét Jakob hafa eftir sér um Jónas Jónsson frá Hriflu, einn helsta hvatamann að byggingu heilsuhælis á Norðurlandi. Jakob lét bannið ekki stöðva sig heldur stofnaði jafnaðarmannafélag öðru sinni á Kristneshæli í óþökk Jónasar og mögulega stjórnenda Hælisins. 

Meira um deilu Jakobs og Jónasar í bókinni Í fjarlægð. Kristnesbækur Grenndargralsins (Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi) eru nú á tilboði fyrir jólin, bæði í verslunum Eymundsson sem og hjá útgefanda. Nánari upplýsingar á facebook-síðu Grenndargralsins og í síma 821 5948.

Brynjar Karl Óttarsson.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd