Ætlaði að synda undan skipinu upp á ísjaka
Aðfaranótt laugardagsins 21. júlí árið 1984 fellur sennilega seint úr minni skipverjanna um borð í togaranum Harðbaki EA 303 frá Akureyri. Togarinn var á veiðum um 47 sjómílur suðvestur af Horni á svokölluðu Strandagrunnshorni. Mikil þoka var á svæðinu, skyggni lítið og hafís allt um kring. Undir miðnætti þegar Harðbakur var að toga sást skip á radarnum nálægt þeim stað sem Harðbakur var að veiðum og virtist sem það stefndi beinustu leið á togarann. Skipið færðist nær þrátt fyrir þokulúðra og aðrar aðvaranir. Skyndilega birtist stefni þess úr þokunni. Nokkrum augnablikum síðar skall sovéska skemmtiferðaskipið Estonia á Harðbak af svo miklu afli að stefnið, merkt hamri og sigð á rauðri stjörnu, gekk á annan metra inn í hlið togarans. Estonia var fimm þúsund tonn að stærð. Sex metra langt gat kom á bakborðshlið Harðbaks en vegna þess hversu ofarlega það var komst sjór ekki um borð í togarann. Höggið var slíkt að Harðbakur skall u.þ.b. 60-70 gráður á hliðina en náði að rétta sig af. Mikil mildi þykir að ekki fór verr. Ekki varð manntjón við áreksturinn en skemmdir á Harðbaki voru miklar. Estonia skemmdist einnig töluvert og eldri borgurum sem voru í meirihluta þeirra sem voru um borð var illa brugðið. Þegar Harðbakur komst á réttan kjöl aftur hífðu skipverjar inn trollið og sigldu til Akureyrar í samfloti með hinu sovéska skemmtiferðaskipi. Þangað komu skipverjar á Harðbaki seinni part laugardagsins, sennilega dauðs lifandi fegnir því að fá fast land undir fótum eftir svaðilfarirnar. Fjallað var um málið í dagblöðum dagana eftir áreksturinn. Síðan þá hefur lítið farið fyrir umfjöllun um áreksturinn og hættuástandið sem skapaðist úti á opnu hafinu. Einn af skipverjunum 24 um borð í Harðbaki hið örlagaríka kvöld var Svanur Zophaníasson. Svanur er giftur, fjögurra barna faðir og starfar í dag sem tölvuumsjónarmaður í grunnskólum Akureyrar. Svanur, sem var 18 ára þegar atburðirnir áttu sér stað, féllst á að rifja upp atburðarásina á Strandagrunnshorni fyrir rúmum 34 árum síðan með Grenndargralinu.
Höfðum ekki grun um hvað við áttum í vændum
Manstu eftir aðdragandanum að árekstrinum, hvar þið eruð að veiðum og hvað þú ert að gera áður en höggið skellur á ykkur?
„Ég man nákvæmlega hvað gerðist þetta föstudagskvöld. Við vorum á Halanum að toga innan um mikinn ís. Við vorum búnir að vera u.þ.b. viku á sjó og vorum komnir með 170 tonn. Aflinn átti eftir að koma sér vel þar sem hann hefur sennilega átt sinn þátt í því að skipið náði að rétta sig af. Það var þoka en alveg blankalogn. Þegar ís er þetta nálægt eins og var í þessu tilfelli og alveg blankalogn þá myndast mistur. Það myndaðist svartaþoka og hún getur orðið mjög þétt. Stundum sást glitta í bláan himin því við aðstæður sem þessar þá er í rauninni heiðskýrt en þokan byrgir manni sýn. Skyggni var því lítið sem ekkert. Fjöldi annarra skipa var að toga í grennd við okkur því veiðin var búin að vera fín þarna á þessum slóðum. Ég man að einhverra hluta vegna náðist sjónvarpsmerkið þetta kvöld. Við náðum RÚV sem var mjög sjaldgæft. Við sem vorum á vakt vorum í borðsalnum að horfa á bíómynd. Hinir voru sofandi. Við höfðum því ekki grun um hvað við áttum í vændum. Skipstjórinn, Sigurður Jóhannsson, var farinn að átta sig á því í hvað stefndi því hann var búinn að vera að fylgjast með þessu skipi í radar. Hann sá þetta allan tímann gerast. Þetta atvikast samt allt svo hratt og aðdragandinn var stuttur. Þegar Sigurður áttaði sig á alvarleika málsins brást hann við með því að bakka alveg á fullu. Fyrir honum vakti að bakka úr aðstæðum og forða þannig árekstri. Þarna áttuðum við hinir okkur á því að ekki væri allt með felldu. Okkur datt reyndar ekki í hug sú sviðsmynd sem síðar átti eftir að blasa við okkur. Við höfðum einfaldlega ekki hugmyndaflug í það. Við héldum að við hefðum fest trollið í botni og þess vegna værum við að bakka. Fyrstu viðbrögð voru þau að við fórum allir að bölva. Lætin eru svo mikil þegar verið er að toga og svo allt í einu er þrykkt í bakk. Það titraði allt og nötraði. Eftir á að hyggja er ljóst að þessi ákvörðun skipstjórans varð til þess að bjarga því að ekki fór verr. Þrátt fyrir hinar ýmsu tilraunir til að vara skipstjóra sovéska skipsins við hélt hann ótrauður áfram í áttina til okkar. Þarna lá ég á bekk, grunlaus um að andartaki síðar ætti skemmtiferðaskip eftir að keyra á okkur og ýta okkur á hliðina.“
Hugsaði um það eitt hvernig ég ætlaði að bjarga mér.
Geturðu lýst atburðarásinni þegar Estonia keyrir inn í hliðina á Harðbaki?
„Jú sjáðu til, öll lætin sem urðu þegar við bökkuðum var aðeins byrjunin. Í kjölfarið kom feiknarlegt högg. Áreksturinn kom mér algjörlega í opna skjöldu. Ég vissi ekki hver djöfullinn gekk á þegar höggið kom. Það vissi enginn hvað hafði gerst. Fyrsta hugsunin var hvort við hefðum keyrt á ís. Það voru jú stórir borgarísjakar þarna á víð og dreif. Það er svo merkilegt að þrátt fyrir lætin sváfu sumir þau af sér. Þeir vöknuðu þegar skipið byrjaði að halla. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þeir áttuðu sig á því að þeir voru komnir upp við vegg. Svo opnuðu þeir dyrnar allir sem einn, gægðust fram á gang og kölluðu í kór; „hvað er í gangi?“ Þá lágu þeir bara á gólfinu, hallinn var svo mikill. Ég sé ennþá fyrir mér kokkinn þar sem hann stóð í dyrunum með bakka fullan af veitingum þegar halli var kominn á skipið. Þetta augnablik situr fast í minningunni. Annað er mér minnisstætt. Um borð var einn maður sem var svo latur að hann nennti ekki fram úr rúminu til þess að athuga hvað hafði gerst og hélt áfram að sofa þó skipið væri byrjað að halla. Hann snéri sér bara á hina hliðina. Hann hefði sennilega sokkið með skipinu vegna þess hversu latur hann var. Á meðan við hinir reyndum að fóta okkur í öllum látunum sagði hann hinn rólegasti „Ég hélt við hefðum keyrt á ísjaka“. Í þessum sérstöku aðstæðum var eitthvað sem sagði mér að henda mér út úr borðsalnum og á nærliggjandi vegg. Þá var hallinn orðinn slíkur að ég hljóp eiginlega á veggnum og náði einhvern veginn að klóra mig áfram eftir ganginum, í gegnum dyr í átt að blóðgunarkörum. Þarna var ekkert sem benti til annars en að skipinu væri að hvolfa. Það var svo gott sem komið á hliðina. Ég hljóp að körunum sem voru á hliðinni rétt eins og annað um borð, stökk upp á stiga sem var þarna fyrir framan mig og náði að klifra á höndunum upp stigann. Þarna hugsaði ég um það eitt hvernig ég ætlaði að bjarga mér og varð hugsað til ísjakanna. Ég hugsaði leið til að synda undan skipinu og upp á einn ísjakann. Ég ætlaði að bjarga mér. Ég ætlaði ekki að drukkna. Þetta var fyrir tíma flotgallanna svo ég var á peysunni einni og hefði því sennilega drepist fljótlega í ísköldum sjónum.“
Sá alla ævina fyrir mér.
Laskaður togari úti á rúmsjó, hættuástand, engir flotgallar og þú stendur andspænis því að fara niður með skipinu, einn og yfirgefinn.
„Já þarna var ég einn. Ég var ungur ólíkt sumum um borð. Þeir komust ekki eins hratt yfir eins og ég. Ég var langfyrstur þarna upp stigann. Á þessu augnabliki komst aðeins eitt að; hver bjargar sér sjálfur. Það var bara þannig. Í aðstæðum sem þessum er tíminn svo lítill til að bregðast við. Við vissum allir hvað það þýddi ef skipinu myndi hvolfa. Þá þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. Sjálfsbjargarviðleitnin var því ofar öllu. Ég upplifði mjög einkennilegt augnablik þarna þar sem ég leitaði að leið út úr þessum ógöngum. Á þessum stutta tíma meðan ég reyndi að bjarga mér, að ég hélt frá sökkvandi skipi, sá ég alla ævina fyrir mér. Þetta er eiginlega svo skrítin lífsreynsla að það er ómögulegt að reyna að útskýra hana með góðu móti. Ég man alveg nákvæmlega hvernig ég hugsaði, 18 ára gamall gutti hlaupandi um á hallandi skipi úti á ballarhafi. Þá varð umsnúningur því í miðjum hamaganginum fór skipið að rétta sig af. Eftir stóð samt spurningin hvort gat var komið á skipið neðan sjólínu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað leið langur tími frá því að skipið fór að halla og þangað til það rétti sig af. Í minningunni finnst mér eins og það gætu hafa verið 5-10 mínútur, ofboðslega hægar mínútur.“
Sjokkið kom eftir á.
Það hlýtur að hafa verið mikill léttir þegar þér verður ljóst að skipið er farið að rétta sig af. Hvað tekur þá við?
„Já, það var vissulega mikill léttir. Við hlupum um allt, niður í lest og fram og aftur. Blessunarlega var ekkert gat fyrir neðan sjólínu svo við hífðum inn trollið. Við tókum til við að gera björgunarbátana klára því við vissum ekki hvert ástand skipsins var og vorum því við öllu búnir. Við nánari eftirgrennslan kom gat í ljós ofan sjólínu og það í tveimur klefum skipsins, hjá skipstjóranum og Steinþóri Ólafssyni vélstjóra. Hann var sofandi inni í klefanum þegar áreksturinn varð. Þegar hann vaknaði var stefnið á Estoniu það fyrsta sem mætti honum þar sem það hafði rifið sig leið inn í klefann hans. Þar sat Steinþór fastur í dágóðan tíma fyrst eftir áreksturinn, komst hvorki lönd né strönd. Hann var í afleysingum sem var kannski heppilegt því sá sem hann leysti af var kominn um sjötugt. Steinþór var ungur og hraustur og því mögulega betur undir þetta búinn. Nokkru seinna, um það leyti sem skipið hafði rétt sig af rölti Steinþór í klefann og kíkti út um gatið. Við honum blasti hópur sovéskra eldri borgara sem störðu á hann gapandi af undrun en þó fyrst og fremst skelfingu lostnir. Rússarnir buðust í framhaldinu til að senda lækni yfir til okkar. Þeir héldu að einhverjir úr okkar hópi hefðu slasast sem var þó ekki raunin. Á meðan öllu þessu stóð gafst enginn tími til að átta sig á áfallinu sem þessu öllu fylgdi. Sjokkið kom eftir á, þegar var orðið ljóst að okkur yrði ekki meint af. Ekki síst þegar manni varð ljóst hvað mátti litlu muna. Alger tilviljun réði því að Harðbakur fékk stefnið á Estoniu þar sem styrkurinn var mestur, á horninu á brúnni. Alveg með ólíkindum. Hefði stefnið komið örlítið framar og ekki lent á brúnni, hefði það haldið áfram og skorið sig í gegn. Hefði það komið aftar væri ég ekki hér til frásgnar frekar en félagar mínir.“
Mikið fjör á leiðinni í land
Skipin tvö sigla svo saman til Akureyrar, ekki satt?
„Jú, þegar við vorum búnir að hífa var ákveðið að við myndum fylgja Estoniu til Akureyrar. Viðbragðsaðilar voru tilbúnir ef ske kynni að við þyrftum aðstoð. Skipin í kringum okkur voru búin að hífa upp trollin og voru í startholunum. Þar sem tjónið var ofan sjólínu var tekin ákvörðun um að við myndum sigla hjálparlaust og Rússarnir lulluðu á eftir okkur. Eftir hálftíma siglingu vorum við komnir út úr þokunni og ísnum. Siglingin til Akureyrar gekk vel en tók auðvitað töluvert lengri tíma en undir eðlilegum kringumstæðum. Það kannski hljómar einkennilega núna en það var mikið fjör hjá okkur á leið í land eftir aðeins vikulangan túr en fínan afla. Við notuðum tímann á leiðinni til að þrífa og ganga frá. Þrátt fyrir óþægilega „náin kynni“ við Estoniu og Rússana um borð, átti ég engin samskipti við þetta fólk, hvorki kvöldið sem áreksturinn varð né á eftir þegar skipin tvö sigldu saman í land. Aldrei nokkurn tímann hef ég heyrt hina hliðina á málinu og ekki veit ég hvað varð um Estoniu. Mér finnst þó eins og ég hafi heyrt um komu skipsins til Akureyrar einhverjum árum síðar. “
Fengum aldrei tjónið bætt
Þegar rykið settist og mönnum gafst tími til að fara yfir atburðarásina, fékkst þá ásættanleg niðurstaða í málinu um hvað raunverulega gerðist þessa nótt?
„Sjópróf fóru fram lögum samkvæmt. Ég hef aldrei séð þau. Það var einhver umfjöllun um þetta í fjölmiðlum fyrst á eftir en svo datt allt í dúnalogn. Ég man ekki eftir að hafa séð nokkrar niðurstöður birtar, engin almennileg málalok að mér fannst. Meira svona þögn. Ef svona lagað myndi eiga sér stað í dag er ég hræddur um að eftirfylgnin yrði meiri og umfjöllunin einnig. Það var aldrei nokkur vafi á því að rétturinn var okkar megin því við vorum með veiðarfærin úti. Ég hef stundum velt því fyrir mér, í ljósi þess að við vorum í 100% rétti, hvers vegna við í áhöfninni fengum aldrei tjónið bætt sem við urðum fyrir. Við vorum jú í landi í 4-5 vikur á meðan skipið var í slipp og urðum fyrir tekjumissi. Við fengum engin laun á meðan skipið var í viðgerð. Ég get ekki ímyndað mér annað en útgerðin hafi fengið greitt alveg upp í topp og fengið veiðitapið bætt sem af þessu hlaust. Þetta óvænta frí varð reyndar til þess að ég komst í Atlavík um verslunarmannahelgina þar sem ég sá Ringo Starr troða upp með Stuðmönnum. Við gerðum ekkert í þessu á sínum tíma, maður var kannski bara svo ungur og vitlaus. Þá finnst mér ég aldrei almennilega hafa fengið svör við því hvað rússneska skipstjóranum gekk til. Áður en áreksturinn verður er togari frá Skagafirði að lóðsa skemmtiferðaskipið út úr ísnum og hafði gert það í einhvern tíma. Svo virðist sem skipstjórinn hafi án nokkurs fyrirvara ákveðið að hætta að þiggja leiðsögn togarans. Hann snéri skipinu við og stefndi beint á okkur! Þetta er svo galið að það nær ekki nokkurri átt. Enginn okkar skildi hvað skipið var að gera svona langt úti. Skipstjórinn hefði ekki þurft annað en sigla örfáar mílur nær landi og þá hefði hann komist út úr þokunni. Þá hefði hann verið á auðum sjó. Þetta var mjög óvenjulegt. Radartæknin sem skip á þessum tíma þurftu að reiða sig á var vissulega með þeim hætti að skip og ísjakar runnu saman í eitt. Það gat því verið erfitt að greina þarna á milli. Það má því hugsa sér að Rússinn hafi haldið að Harðbakur væri ísjaki en ekki skip. Það breytir ekki því að ákvörðunartaka hans er í hæsta máta undarleg því honum á að vera ljóst að einhver fyrirstaða er. Harðbakur var þúsund tonna skip og hefði ekki átt að fara svo auðveldlega framhjá honum. Ég verð þó að segja að þessir atburðir hafa ekki ásótt mig í seinni tíð. Mér finnst hins vegar merkilegt hvað þeir eru fastir í minningunni ennþá og jafnvel smáatriði eins og hvar félagar mínir um borð voru staddir þegar ósköpin dundu yfir.“
Þetta var risastórt slys
Hvernig horfir þessi reynsla við þér í dag nú þegar rúm 34 ár eru liðin?
„Atburðirnir urðu ekki til þess að ég hætti á sjó, ég hélt áfram og við allir sem gengum í gegnum þessa raun. Ég fór í Stýrimannaskólann eftir þetta. Satt best að segja hef ég lítið hugsað um þessa reynslu í rúma þrjá áratugi. Jú, auðvitað þegar ég hugsa til baka sé ég að þetta var risamál. Þetta var risastórt slys og á þessum tíma bauðst manni engin áfallahjálp. Eitthvað sem ég geri ráð fyrir að boðið yrði upp á í dag. Það var bara bitið á jaxlinn og ekki verið að blása hlutina út. Gott dæmi um þetta er hvernig við ungu strákarnir um borð reyndum að slá öllu upp í grín eftir áreksturinn. Við töluðum um að fyrst þetta þurfti að gerast og engum varð meint af þá hefði úr því sem komið var bara verið best að Harðbakur sykki. Við hefðum gúmmíbáta til að koma okkur yfir til Rússanna og þar gætum við þá allavega drukkið okkur fulla á leiðinni í land. Það er svo skrítið hvað getur flogið í gegnum huga manns á ögurstundu sem þessari. En það eina sem skiptir máli í dag er að enginn slasaðist í þessum hildarleik, ekki svo mikið sem marblettur. Það er ekki síst Sigurði skipstjóra að þakka. Ákvörðun hans um að bakka þegar hann sá sovéska skipið nálgast varð okkur til lífs.“
Sjópróf vegna árekstursins fóru fram eftir að skipin tvö komu í land. Ef marka má blaðaskrif þessa tíma leiddu prófin m.a. í ljós að skipstjóri Estoniu taldi sig ekki hafa komið auga á Harðbak á radar. Þrátt fyrir fullyrðingu skipstjórans þar að lútandi er ekki annað að sjá af umfjöllun blaðanna en að mönnum hafi láðst að kanna ástand radarsins þegar sjópróf fóru fram. Estonia hafði verið á siglingu innan um ís í 12-14 klukkustundir áður en það rakst á togarann. Skipstjóri togarans Skafta frá Sauðárkróki sem var á svæðinu, bauð sovéska skipstjóranum stýrimann sinn til að lóðsa skipið út úr ísnum. Sá sovéski þáði ekki boðið. Þess í stað sendi hann sinn eigin stýrimann um borð í Skafta til að skoða sjókort og þiggja ráðleggingar. Í framhaldinu fylgdi Estonia skagfirska togaranum í einhvern tíma. Við sjópróf bar mönnum ekki saman um hvað gerðist í kjölfarið. Skýring skipstjóra Estoniu var sú að skipið hefði verið að elta Skafta þegar Harðbakur birtist þeim skyndilega og þá hafi árekstur verið óumflýjanlegur. Skipstjóri Harðbaks taldi þessa skýringu ekki halda vatni. Hann taldi víst að Estonia hefði beygt af leið, frá Skafta og í átt að Harðbaki. Ósamræmi málsaðila var því mikið í þessu lykilatriði málsins. Sigurður Eiríksson stjórnandi sjóprófanna lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu þann 25. júlí 1984 að „líklega væri sökin sovéska skipsins.“
Jón Gunnar Guðmundsson
Þvílíkt bull sem er haft eftir þessum dreng !!!! Ég var 1. stýrimaður á Harðbak þennann túr og man þetta allt eins og gerst hafi í gær.
Comment — December 3, 2018 @ 17:59