Gralið fer í Naustaskóla
Það voru Sóley Björk Gísladóttir og Heiðrún Ásta Torfadótir úr Naustaskóla sem fundu Grenndargralið þetta árið. Þær eru því sigurvegarar í Leitinni að Grenndargralinu árið 2012.
Síðasta þraut birtist á heimasíðunni kl. 18:00 föstudaginn 16. nóvember og þá fór allt af stað. Þátttakendur reyndu að finna rétt svör og gerðu það í kapphlaupi við tímann. Þær Sóley Björk og Heiðrún Ásta voru ekki lengi að leysa lokaverkefnin þrátt fyrir að Heiðrún væri veðurteppt á Egilsstöðum en þær voru í símasambandi allan tímann. Sóley var mætt að heimili Ingunnar Vigdísar Sigmarsdóttur, bókasafnskennara og ljóðskálds, tæpri klukkustund síðar þar sem hún tók við Grenndargralinu.
Sannarlega glæsilegur árangur hjá vinkonunum sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Í vissum skilningi eru þessir krakkar allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þau öðrum mikil fyrirmynd.
Naustaskóli er fjórði skólinn til að vinna Leitina að Grenndargralinu. Áður hafa Giljaskóli, Síðuskóli og Glerárskóli unnið Gralið.
Við óskum Sóleyju Björk og Heiðrúnu Ástu sem og Naustaskóla til hamingju með sigurinn.
Umsjónarmenn Leitarinnar að Grenndargralinu 2012
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd