Leitin tæplega hálfnuð

Fjórða vika er hafin í Leitinni að grenndargralinu 2011. Þátttakendur hafa komið víða við fyrstu vikurnar. Í þeirri fyrstu þurftu þeir að kynna sér árásina á Goðafoss 1944. Í annarri þraut var farið á slóðir Nonna. Í þriðju þraut fóru þátttakendur í vefleiðangur á netinu til að kynna sér sögu Charles Thorson. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa skapað frægar teiknimyndapersónur í Hollywood. Í þraut þessarar viku heldur sagan um Charles áfram. Munu krakkarnir komast að raun um að  tengsl eru milli hans og Akureyrar. Kemur þá í ljós skemmtileg tenging við þraut annarrar viku.

 

Þegar Leitin er hálfnuð keppast krakkarnir við að finna Karamellukrukkuna. Um er að ræða krukku sem hefur að geyma óvæntan glaðning og er falin innan bæjarmarkanna. Allir þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst, öðlast réttinn til að leita að krukkunni góðu. Nánari fréttir í tengslum við leitina að karamellukrukkunni munu birtast síðar.

 

Leitin er löng og ströng og það er ekki allra að klára tíu þrautir á jafnmörgum vikum. Enn sem komið er hefur enginn heltst úr lestinni af þeim sem hófu leik í fyrstu viku. Það er jákvætt. Vonandi halda sem flestir áfram, leysa þrautirnar tíu og öðlast þannig rétt á að gera atlögu að gralinu.

 

Sex skólar á Akureyri berjast um að finna Grenndargralið þetta árið. Þrír skólar hafa fundið gralið á jafnmörgum árum og verður spennandi að sjá hvort sá fjórði bætist í hópinn í ár.

 

Aðeins eitt lið mun þó standa með pálmann í höndunum í nóvember.

 

 

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd