main image

Gralið

Hvað er Grenndargralið? Annars vegar vísar heitið í þann fjársjóð sem leynist í heimabyggð í formi ævintýraríkrar sögu og fjölbreyttrar menningar. Hins vegar er um bikar að ræða sem þátttakendur Leitarinnar að Grenndargralinu keppast við að finna en hann er staðsettur á Akureyri.

Orðið er samsett, sett saman úr orðunum grennd og gral. Grennd er kvenkynsorð og hefur sömu merkingu og orðin nágrenni og/eða umhverfi. Orðið gral er ýmist notað í karlkyni eða hvorugkyni. Upphaf þess má rekja til notkunar á enska orðinu grail sem þýðir kaleikur og/eða heilagur bikar.

Grenndargralið dregur fram í sviðsljósið leyndar gersemar í sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt. Markmið þeirra sem taka þátt í Leitinni að Grenndargralinu er að finna Gralið. Þátttakendur þurfa að leysa hin og þessi verkefni, ráðgátur og þrautir. Með því öðlast þeir rétt til að leita að Gralinu sem er falið innan bæjarmarkanna. Verkefnið og nafn bikarsins eru tilvísun í hina klassísku goðsögu um hið heilaga gral Krists. Segir sagan að Jesús hafi drukkið af gralinu þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum.

Öldum saman hafa menn leitað gralsins. Ýmsar áhugaverðar kenningar um dvalarstað þess hafa verið settar fram t.d. í bókum og kvikmyndum. Þrátt fyrir mikla leit ævintýramanna víða um heim gegnum aldirnar hefur hvorki tekist að draga gralið fram í dagsljósið né sanna tilvist þess. Er sagan um hið heilaga gral uppspuni frá rótum eða leynist það einhversstaðar og bíður þess að líta dagsins ljós? Erfitt er um slíkt að spá. Grenndargralið er hins vegar enginn lygasaga. Það leynist á vísum stað í heimabyggð og bíður þess að ungir ævintýrarmenn leiti það uppi.