main image

Stríðsminjar fluttar á Flugsafn Íslands

Varðveislumenn minjanna hafa staðið í ströngu í dag við að yfirfara, flokka og pakka stríðsminjum í kassa. Um var að ræða gripi af vettvangi flugslyss sem varð á Melgerðismelum í ágúst 1942 þar sem flugvél af gerðinni P-39 Airacobra fórst ásamt flugmanni vélarinnar John George Kassos. Nokkrir úr hópi VM hafa rannsakað vettvanginn í sumar í tengslum við hlaðvarpsþætti sem voru í vinnslu um flugmanninn og slysið. Brot úr vélinni, skotfæri og nokkrir persónulegir munir John Kassos fundust á staðnum. Varðveislumenn og Flugsafn Íslands hafa komið sér saman um að safnið varðveiti gripina svo safngestir geti skoðað þá og kynnt sér söguna um John Kassos og vél hans P-39. Gripirnir verða afhentir safninu fyrir helgi.

Fjölskylda John Kassos er þessa dagana á ferðalagi um Ísland. Megin markmið ferðalagsins er að koma norður til að heimsækja Melgerðismela þar sem frændi þeirra lét lífið fyrir 80 árum síðan. Von er á ferðalöngunum frá Arkansas til Akureyrar á laugardaginn. Eftir skoðunarferð á Melunum mun hópurinn heimsækja Flugsafnið, þiggja léttar veitingar og skoða það sem safnið hefur upp á að bjóða. Flugáhugi er ekki bundinn við John heitinn Kassos innan Kassos-fjölskyldunnar. Fleiri fjölskyldumeðlimir eru lærðir flugmenn m.a. Laura Villegas bróðurdóttir John en Laura fer fyrir hópnum sem von er á til Akureyrar nú um helgina. Fjölskyldan ætlar sér að dvelja á Akureyri í nokkra daga. Ýmsilegt annað verður á döfinni en flugslysið á Melgerðismelum. Hópurinn hefur í hyggju að heimsækja Skógarböðin og fara á knattspyrnuleik svo eitthvað sé nefnt.

Amerískur ævintýramaður á Akureyri

Í tveimur nýjum þáttum af Sagnalist með Adda & Binna taka Addi og Binni fyrir ferðasögu amerísks ævintýramanns sem kom til Akureyrar árið 1922. James bjó á hóteli, kynntist heimamönnum og varð vitni að sögulegum atburðum í bænum og nágrenni hans. Hann skráði niður það sem fyrir augu bar í því skyni að gefa út bók um Ísland – bók sem aldrei kom út.

Félagarnir Arnar og Brynjar eru sannkallaðir sögunördar. Þeir fara þeir um víðan völl í spjalli sínu um sögu og menningu. Sagðar verða sögur, gátur ráðnar og steinum velt við yfir kaffibolla í Stúdíó Sagnalist. Fólk og atburðir, bækur og listaverk, sorg og gleði. Allt er undir og ekkert er félögunum óviðkomandi þegar kemur að gersemum fortíðar.

https://open.spotify.com/episode/2uwqsG38N6Q4svhF1OVwBi?si=e97264274ba644ab

https://open.spotify.com/episode/27qBFdx2fT0r1nzfQdwM3w?si=787da3ac02b94d3f

100 ára gömul frásögn ferðamanns af rafvæðingu Akureyrar

Öld er nú liðin frá dvöl amerísks ævintýramanns á Akureyri. Maðurinn hét James Norman Hall. Hann kom til bæjarins í september árið 1922 og hugðist skrifa bók um Ísland. James dvaldi í bænum um nokkurra mánaða skeið, blandaði geði við innfædda og upplifði merkilega atburði í bænum og nágrenni hans. Bókin kom aldrei út en skrif hans á meðan hann dvaldist í bænum hafa varðveist.

Meðal þess sem James varð vitni að og skráði í bækur sínar var þegar Akureyringar fengu rafmagn laugardaginn 30. september. Þannig eru 100 ár liðin frá þessum merkilega viðburði í sögu bæjarins og upplifun aðkomumannsins af honum. Norðurorka fagnaði upphafi rafmagnsframleiðslu og dreifingu fyrr í mánuðinum með sérstakri afmælisdagskrá í Hofi.

Sjálfsagt eru ekki margar samtímaheimildir til sem fanga augnablikið þegar Akureyringar upplifðu dásemdir birtunnar sem ljósaperan veitti þeim síðla dags í lok september 1922. Hvað þá séð með augum aðkomumanns sem þekkti vel til ljósadýrðar í Ameríku. Frásögn eins og sú sem James Norman Hall færði til bókar er því ómetanleg. Hér verður drepið niður í skrifum James Norman Hall. Íslensk þýðing er í höndum Sigurður Þórarinssonar en hún er frá árinu 1976.

„Þegar ég sneri aftur heim til Akureyrar þetta kvöld, hafði himinninn hulizt hálfgagnsæjum skýjafellingum, sem virtust verða til úr engu. Fyrstu stjörnurnar lýstu gegnum þær, en áður en ég var kominn hálfa leið í bæinn, var farið að snjóa, fyrsta snjó haustsins á láglendi, stórum flygsum, og enn var enginn andvari, er bærði þær. Þeim fjölgaði æ hraðar, jörðin huldist hvítu lagi eins til tveggja þumlunga þykku. Síðast svifu niður gagnsæjar, flipóttar flögur. Það var dásamlegt að sjá fjallatindana koma fram, er élinu létti, skýrt teiknaða og ennþá sveipaða daufri aftanglóð.

Ég hélt niður móana og niður á veginn, er lá til bæjarins. Rökkrið var orðið að myrkri, áður en ég komst niður á hjallann upp af bænum. Þaðan sá ég, að merkileg breyting hafði á orðið. Öll hús í bænum voru uppljómuð innan frá og ekki til sá gluggi, að ekki varpaði hann mynd sinni á snjóinn. Það rifjaðist þá upp fyrir mér, að það átti að ræsa vatnsrafstöðina þetta kvöld. Það var búið að tala um þetta í marga daga. Hótelstýran mín, rakarinn, bóksalinn, póstmeistarinn, allir höfðu í hverju samtali komið inn á þetta: ,,En þegar við fáum nýju raflýsinguna . . .“ Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, hversu mikils virði þetta var fólki svo nærri heimskautsbaug. Hingað til hafði verið mjög dimmt í bænum um nætur. Steinolía er dýr hér, því að hún er langt að flutt og olíulampaljós varð að spara. Nú gátu allir notið ljóssins, náðargjafar vatns, er féll af fjöllum ofan.

Ég leit inn í tóbaksbúðina, sem var böðuð í ljósi. Gamla sölukonan var ekki langt frá því að verða málug í gleði sinni. „Að hugsa sér,“ sagði hún, „að við skulum hafa lifað í myrkri allar þessar löngu vetrarnætur. Sjáðu, það þarf aðeins að hreyfa þennan hnapp,“ og hún sýndi mér, hvernig þetta gekk til. Öll börn í bænum höfðu safnazt saman fyrir framan járnvöruverzlun, þar sem mörgum gerðum af ljósakrónum, sem kveikt hafði verið á, var stillt út til sölu. Feður og mæður gengu fram og til baka framan við hús sín og virtust vart trúa því, að þetta væru þeirra eigin hús. Í stað daufa olíulampans, sem verið hafði í bókabúðarglugganum, var nú komið rafljós, svo að auðvelt var að lesa bókatitlana.“

Sagnalist segir sögu John G. Kassos

 

Sagnalist – skráning og miðlun hefur lokið við gerð tveggja nýrra þátta í hlaðvarpsþáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls. Í þáttaröðinni er fylgst með rannsóknum Varðveislumanna minjanna á dvöl setuliðsins í Eyjafirði á stríðsárunum. Í nýju þáttunum tveimur segir frá John G. Kassos, bandarískum flugmanni sem dvaldist á Melgerðismelum sumarið 1942 og orrustuvélinni hans sem var af gerðinni P-39 Airacobra. Í dag, þann 25. ágúst, eru 80 ár liðin frá því að Kassos fórst með vélinni á Melunum.

Sagan um flugslysið hörmulega í Eyjafirði í ágúst 1942 hefur alla tíð verið sveipuð mikilli leynd. Smám saman gleymist sagan og sífellt færri kannast við John Kassos og flugslysið. Sagnalist, í samstarfi við Grenndargralið,hefur rannsakað málið um nokkurt skeið. Þættirnir eru að miklu leyti byggðir á áður óbirtum heimildum. Rannsóknir Varðveislumanna á Melgerðismelum varpa þannig nýju ljósi á málið auk þess sem Sagnalist styðst við heimildir frá fjölskyldu John Kassos í Bandaríkjunum.

Hægt er að hlusta á afraksturinn í Leyndardómum Hlíðarfjalls – Kassos með því að smella hér að neðan.

Kassos Theme.

Leyndardómar Hlíðarfjalls – Kassos. Fyrri þáttur.

Leyndardómar Hlíðarfjalls – Kassos. Seinni þáttur.

Varðveislumenn komnir á slóð skíðaherdeildar

Ljósmyndir og kvikmynd sem sýnir norska skíðaherdeild við æfingar í vetrarhernaði í Lögmannshlíð og við rætur Hlíðarfjalls í seinni heimsstyrjöldinni, varð tilefni leiðangurs árið 2018. Ætlunin var að gera tilraun til að rekja slóð norsku hermannanna út frá myndunum. Það reyndist þrautinni þyngri. Erfitt er að átta sig á kennileitum á myndunum þar sem hermennirnir ferðast um í snævi þöktum hlíðunum, svæðið er gríðarlega víðfeðmt og mörgum stöðum í hlíðinni svipar til hvers annars. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 2018 og leiðangrarnir skipta tugum. Fjölmargir gripir hafa komið í ljós og æfingabúðir setuliðsins efst í hlíðinni – við rætur Hlíðarfjalls – eru þekkt stærð í hópi Varðveislumanna minjanna, hópi áhugafólks um sögu, útivist og varðveislu minja.

Slóð norsku skíðaherdeildarinnar, frá bækistöðvum hennar nálægt Lónsbakka og upp í æfingabúðirnar í Hlíðarfjalli, hefur hins vegar verið ísköld þar til nú. Ýmsar tilgátur hafa sprottið fram um hvar nákvæmlega myndirnar eru teknar í Lögmannshlíð, hvar þeir ferðuðust um á skíðunum sínum, með hestana og hundana, berandi útvistarbúnað, tjöld, skotfæri, vélbyssur og riffla, matvæli, bjór og fleira. Leiðangrar VM hafa skilað sér í aukinni þekkingu á staðháttum og þannig hefur leitarsvæðið smám saman þrengst. Samanburður á gömlum og nýjum myndum varð til þess að von vaknaði um að lausn ráðgátunnar væri innan seilingar sem svo var staðfest í leiðangri nú í vikunni.

Hin nýja þekking leiðir eitt og annað áhugavert í ljós. Þannig virðist sem setuliðsmenn sem voru við æfingar í Hlíðarfjalli hafi sett upp tjaldbúðir víðar í hlíðunum ofan Akureyrar en áður var talið. Mögulega einhvers konar grunnbúðir þar sem nokkrir úr hópnum urðu eftir til að gæta hesta og hunda á meðan hinir fóru lengra upp eftir á skíðum, klæddir hvítum felubúningum og vopnaðir vélbyssum og handsprengjum. Myndirnar leiða enn fremur í ljós fleiri staði en vitað var um þar sem skotæfingar fóru fram. Þá fannst eldstæði ekki svo langt frá sem líklega má rekja til setuliðsmannanna. Varðveislumenn minjanna áætla að rannsaka staðina í sumar til að kanna hvort finna megi ummerki um tjaldbúðir og skotæfingar norsku hermannanna í Hlíðarfjalli og mögulega fleiri eldstæði.

Meðfylgjandi svarthvítar myndir eru fengnar af:

https://foto.digitalarkivet.no/fotoweb/archives/5001-Historiske-foto/?101=Island&fbclid=IwAR0IZLnh9nz6ZAoxIxCEUk-ffmC_zPu68yubJX8HIACYP7mfKm99stQXmzs

Koparlykillinn í Öxnadal – þjóðsaga eða sönn saga?

Á heimasíðu Minjastofnunar má nálgast lista af fornleifaskráningarskýrslum úr gagnagrunni stofnunarinnar. Í skýrslunum má finna upplýsingar um skráðar fornleifar (mannvistarleifar) í ólíkum sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Skýrslurnar sem unnar eru af fornleifafræðingum og spanna tæplega 40 ára tímabil geyma mikið magn upplýsinga um hvar forfeður okkar stigu niður fæti áður en við komum til sögunnar. Forngripir (lausamunir) koma einnig töluvert við sögu. Ýmist eru frásagnir af gripum sem hafa fundist á umræddum stöðum og eru nú í öruggri vörslu minjayfirvalda eða sögusagnir um meinta dýrgripi sem ekki hafa fengist staðfestar. Varðveislumenn minjanna hafa um nokkurt skeið skoðað fornleifaskráningarskýrslur úr heimabyggð.

Í Fornleifaskráningu í Öxnadals- og Skriðuhreppi frá árinu 2008 (bls. 81) er vísað í áhugaverða þjóðsögu þar sem sögusviðið eru tvær hólaþyrpingar í Dalnum, svokallaðir Víghólar og Vaskárhólar.

Um Víghóla segir í skýrslu Minjastofnunar að á dögum Víga-Glúms hafi menn borist þar á banaspjótum og að fallnar hetjur úr bardaganum séu heygðar á staðnum. Við látum sannleiksgildi sögunnar liggja milli hluta. Nema hvað. Ef marka má fornleifaskráningarskýrsluna, fannst stórt og fúið mannsbein í hólunum, uppblásið úr jörðu löngu eftir meintan bardaga. Í annarri fornminjaskýrslu frá 19. öld segir frá mörgum haugum við bæinn Gloppu sem taldir eru vera grafir. Tryggvi Emilsson nefnir haugana í bók sinni Fátækt fólk: „…var mér sagt að það væru fornmannahaugar. Á þessum stað hefðu mæst skagfirskir menn og eyfirskir að jafna smáágreining og kom til vopnaviðskipta, féllu þar nokkrir ómerkir menn í valinn og voru heygðir í nesinu.“ Sögur herma að ferðalangar hafi séð afturgöngur stríðsmanna á sveimi í hólunum allt fram á 20. öld.

Vaskárhólar eru í nágrenni Víghóla. Í gömlum Sýslu- og sóknarlýsingum segir frá unglingi sem á að hafa fundið þar hring og lykil úr kopar. Þegar meintur fundur gripanna tveggja var skráður í fyrrnefnda Sýslu- og sóknarlýsingu var „mannsaldur“ liðinn frá fundinum, eins og það er orðað í lýsingunni, og sá sem fann gripina var þá nýlátinn. Sá er færir frásögnina til bókar tekur fram að hann þori ekki að ábyrgjast sannleiksgildi hennar en getur þess jafnframt að bæði hringurinn og lykillinn hafi gengið í erfðir innan fjölskyldu þess er fann gripina.

Eftir stutta frásögn af þjóðsögunni um lykilinn og hringinn í Vaskárhólum á fésbókarsíðu Grenndargralsins, hafði ónefnd kona af Suðurlandi samband við Varðveislumenn minjanna (munnl. heimild 10. apríl 2022). Konan hafði séð umfjöllun Grenndargralsins og vildi láta vita af því að hún geymdi fornan lykil sem allt benti til að væri sami lykill og sagan segir að fundist hafi í Vaskárhólum. Konan skrifar: „Lykill einn talinn úr fornmannagulli er í mínum fórum ásamt gjafbréfi fyrri eiganda.“ Áfram skrifar konan og vísar í texta gjafabréfsins: „Finnandi um 1770 var Jón Ólafsson Gloppu í Yxnadal. Gefandinn er Þorbjörg Jónsdóttir Bakka 1/8 1908.“

Myndir af gjafbréfinu og lyklinum, og Grenndargralið hefur undir höndum, varpa sannarlega ljósi á málið. Lykillinn lætur ekki mikið yfir sér. Hann er fallega skreyttur og koparlitaður, mögulega forn kirkjulykill. Í bréfinu segir (efnislega) að Jón Ólafsson hafi fundið lykilinn í Vaskárhólum, gefið syni sínum hann sem hafi aftur látið hann ganga til sonar síns Jóns. Sá var faðir Þorbjargar þeirrar sem skrifar undir bréfið árið 1908. Þorbjörg lýkur bréfinu á að tilkynna að hún láti lykilinn ganga áfram til dótturdóttur sinnar Guðnýjar. Frekari upplýsingar um „eignarhald“ lykilsins eftir 1908 koma einnig fram í bréfinu.

Ekki fylgdi sögunni hvernig varðveislukona lykilsins á Suðurlandi fékk hann í hendur. Enda er það kannski aukaatriði sögunnar. Stóru tíðindin er þau að „ný“ gögn í málinu gefa ástæðu til að ætla að frásögn af fundi forngripa í Öxnadal sem segir frá í fornleifaskráningarskýrslu sé mögulega annað og meira en þjóðsaga. Getum við staðfest að sagan um koparlykilinn í Vaskárhólum sé á rökum reist út frá málsgögnum? Dæmi hver fyrir sig.

Koparlykillinn og gjafabréfið

 

Heimild:

Elín Ósk Hreiðarsdóttir (ritstjóri), Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Stefán Ólafsson, Sædís Gunnarsdóttir og Uggi Ævarsson. (2008). Fornleifaskráning í Öxnadals- og Skriðuhreppi. https://skyrslur.minjastofnun.is/

Varðveislumenn bjarga stríðsminjum á Lónsbakka

Þéttbýliskjarninn við Lónsbakka í Hörgársveit, norðan Akureyrar, stækkar ört þessa dagana. Nýjar íbúðir rísa þar sem áður stóðu braggar breskra setuliðsmanna á hernámsárunum. Yfirmaður framkvæmda á svæðinu gaf Varðveislumönnum minjanna leyfi til þess að gera könnun á litlum hluta byggingarsvæðisins eftir að hlutir komu upp úr jörðinni – hlutir sem grunur lék á að væru frá stríðsárunum. Varðveislumenn höfðu hraðar hendur því stuttu síðar var bletturinn sem kannaður var kominn undir steypu.

Eitt og annað áhugavert kom í ljós við rannsóknir Varðveislumanna á umræddum bletti t.d. blekbyttan á myndinni hér að ofan. Enginn vafi leikur á því að þarna er um gripi að ræða frá breskum hermönnum í seinni heimsstyrjöldinni. Hér að neðan má sjá myndir af hluta þeirra gripa sem Varðveislumenn minjanna fundu á Lónsbakka. Sjón er sögu ríkari.

Tvær heilar 45 calibera byssukúlur fyrir skammbyssur.

 

Krukka fyrir brilljantín.

 

Greiður og hárkambar.

 

Lyklakippa (key tag).

 

Fingurbjörg.

 

Umbúðir af Capstan sígarettum.

 

Kjötkraftur.

 

Lyfjaflaska.

 

Tala.

 

Rakbursti.

 

Spilapeningur.

 

Hermannastígvél.

 

Tannbursti.

 

Samskeyti af beisli fyrir Bren-vélbyssu eða Lee Enfield riffil.

Tíminn máir minjarnar út

Samkvæmt lögum um menningarminjar frá árinu 2012 má skipta fornminjum í tvo flokka. Til einföldunar má segja að lausamunir teljist til forngripa á meðan mannvistarleifar flokkist sem fornleifar (Lög um menningarminjar nr. 80/2012). Í báðum tilfellum gildir hin svokallaða hundrað ára regla þ.e. hlutir og mannvirki njóta aðeins verndar þegar þeir hafa náð 100 ára aldri. Heimilt er þó að friðlýsa minjar sem ekki hafa náð hundrað ára markinu.

Eins og flestum er kunnugt var flugvöllurinn á Melgerðismelum í Eyjafirði sögusvið stríðsáranna. Herinn var með mikil umsvif á Melunum en auk flugvallarins reis þar allstórt braggahverfi. Nú 80 árum síðar blasa veðraðir grunnar bragganna við þeim sem eiga leið hjá sem og stór vatnstankur sem stendur enn í hlíðinni fyrir ofan braggagrunnana. Á víð og dreif liggja tölur úr flíkum, smápeningar, bjórdósir og aðrir smámunir úr fórum setuliðsmanna. Flugbrautin sem sjálfur Winston Churchill gerði að umtalsefni í heimsókn sinni til Íslands árið 1941 er á sínum stað. Flugskýli sem margir muna eftir með áletruninni NO SMOKING WITHIN 50 FT stendur enn við veginn þegar keyrt er framhjá flugvallarsvæðinu.

Þegar setuliðsmennirnir á Melgerðismelum hurfu á braut í stríðslok tóku bændur hluta af herbúnaðinum í sína vörslu. Annað var fjarlægt eða eyðilagt. Í seinni tíð hafa bústaðir risið á grunnum bragganna og enn aðrir horfið undir græna torfu. Þannig sjást sífellt minni ummerki um veru setuliðsins á Melunum eftir því sem árin líða. Annað dæmi um þetta er Hrafnagil, ekki svo ýkja langt frá Melgerðismelum. Þar eru líklega síðustu grunnar spítalabragganna sem þar stóðu að hverfa undir nýbyggingar. Ennþá eru tæpir tveir áratugir í að lausamunir og mannvistarleifar setuliðsins á Melgerðismelum – sem þó er enn að finna þar – flokkist sem forngripir og fornleifar. Því er nægur tími til að nýta, fjarlægja eða eyðileggja áður en 100 ára reglan „tryggir“ varðveislu.

Varðveislumenn minjanna fóru í nokkrar vettvangsferðir á Melana á síðasta ári. Meðal þess sem leiðangursmenn fýsti að vita var fjöldi braggagrunna á staðnum. Loftmynd frá stríðsárunum sýnir svo ekki verður um villst að fjöldi bragga á svæðinu var umtalsvert meiri en sýnileg ummerki í dag segja til um. Myndin, sem tekin er í maí árið 1942, er til marks um það hvernig tíminn máir minjarnar út.

Vegna vinnu við aðalskipulagsgerð á Melgerðismelum á tíunda áratug síðustu aldar var ákveðið að skrá fornleifar á svæðinu. Afrakstur þeirrar vinnu birtist í skýrslu sumarið 1995 en um var að ræða samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands, Minjasafnsins á Akureyri, Héraðsnefndar Eyjafjarðar og Eyjafjarðarsveitar. Um skráningu sáu þeir Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson. Í skýrslunni tala þeir Adolf og Orri um nauðsyn þess að leggja mat á menningarsögulegt gildi stríðsminja á Melgerðismelum þrátt fyrir að ekki sé unnt að styðjast við neina stefnu í þeirri vinnu. Stefnan sé einfaldlega ekki til. Fornleifaskráningin árið 1995 fól ekki í sér ítarlega úttekt á stríðsminjum á Melunum. Skýrsluhöfundar segja það þó verðugt verkefni þar sem slíkt mat hefði ekki farið fram. Ekki þurfi að efast um sögulegt gildi staðarins.

Á Melgerðismelum hefur nýlega verið hannað sumarbústaðaland á stríðsminjasvæðinu. Þar er fyrirhugað að leggja vegi og reisa allnokkra sumarbústaði þar sem nú eru gömul braggastæði og fleiri stríðsminjar. Nú þegar hefur verið reistur einn bústaður samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti, sem samþykktur var 1987 af skipulagsstjórn, hreppsnefnd Saurbæjarhrepps og staðfestur af Félagsmálaráðuneyti. Verði framkvæmdum haldið áfram samkvæmt þeirri áætlun munu minjarnar verða að víkja. Verður þá ekki aftur snúið. Markverðum heimildum um hlut Íslands í heimsstyrjöldinni síðari verður eytt og tæpast verður unnt að gera svæðið aðlaðandi eða spennandi fyrir ferðamenn. Á það má minna að jafnvel þó að setuliðið hafi haft mikil umsvif í Eyjafjarðarsveit eru ummerki um veru þess óðum að hverfa og hefur t.a.m. nýlega verið rutt burt öllum ummerkjum um bragga og spítala á Hrafnagili. Minjunum á Melgerðismelum hefur enn ekki verið spillt að neinu ráði og er enn svigrúm til að bjarga þeim frá eyðileggingu og varðveita þannig þessar einstöku heimildir um sögu lands og héraðs. Með hliðsjón af menningarsögulegu gildi minjasvæðisins og mögulega hagnýtu gildi þess einnig, er hér með lagt til að Eyjafjarðarsveit komi því í kring að ekki verði af frekari framkvæmdum eða raski um sinn. Þó skammt sé um liðið frá staðfestingu þessa uppdráttar, þá hefur löggjöf um fornleifavernd, skipulagsgerð og umhverfisvernd tekið stakkaskiptum. Æskilegt væri að við nýframkvæmdir í Eyjafjarðarsveit verið unnið í anda hinna nýju laga og þeirra almennu viðhorfa sem nú gilda um verndun minja og náttúru. Hér er einnig lagt til að Eyjafjarðarsveit láti gera sérstaka skráningu á minjasvæðinu, þ.e. deiliskráningu og á grundvelli hennar verði teknar ákvarðanir um framtíðarráðstöfun þess. Með því móti gefst ráðrúm til að leggja fram vandlega rökstudda greinargerð um verndun svæðisins að hluta eða í heild, um hugsanlega kynningu á svæðinu fyrir ferðamenn og leita samkomulags við hagsmunaaðila. (Orri Vésteinsson og Adolf Friðriksson, 1995, bls. 16)

 

Heimildir:

Lög um menningarminjar nr. 80/2012

Orri Vésteinsson og Adolf Friðriksson. (1995). Fornleifaskráning í Eyjafirði III: Melgerðismelar. https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_1405.pdf

Bréf konungs í kassa á Akureyri

Grenndargralið þekkir mann í heimabyggð sem lumar á merkilegu skjali. Það er að segja ef fullyrðing hans um að skjalið sé ósvikið er á rökum reist. Grenndargralið dregur það ekki í efa. Gralið mælti sér mót við manninn á heimili hans ekki alls fyrir löngu. „Ég skal sýna ykkur konungsbréfið mitt“ segir hann og birtist með pappakassa í fanginu. Upp úr kassanum dregur hann samanbrotið bréf, gulleitt og snjáð. Í ljós kemur torskilinn texti, ritaður með fallegri rithönd og prýddur skrautstöfum.

Konungsbréfið er undirritað af Friðriki IV Danakonungi. Hann fæddist árið 1671 og ríkti sem konungur Danmerkur frá árinu 1699 til dauðadags 1730. Bréfið er ritað 7. september á því herrans ári 1705. Hér er því um tæplega 317 ára gamalt bréf að ræða, sent í nafni konungs og undirritað af honum sjálfum. Bréfið er tuttugusta og annað í röð konungsbréfa sem ritað var í nafni Friðriks IV. Erfitt er að rýna í innihald konungsbréfs nr. 22. Bent hefur verið á þýska fyrirsögn í upphafi þess; Friedrich der vierte von Gottes Gnaden sem mætti þýða sem Friðrik IV af guðs náð. Friðrik hvílir í Dómkirkjunni í Hróarskeldu.

Eitt af fyrstu konungsbréfunum sem sent var í nafni Friðriks, eftir að hann tók við völdum, er bréf sem hann sendi Íslendingum og er dagsett 10. nóvember árið 1700. Merkilegt skjal þar á ferðinni en þess er víða getið í íslenskum annálum. Í bréfinu tilkynnir hann þegnunum á Íslandi um tímamótaákvörðun sína að taka í notkun gregorískt tímatal.

Talandi um tíma. Hér er skemmtileg tenging. Friðrik IV var langafi Kristjáns VII, konungsins ráðvillta í bókinni Sigurverkið eftir Arnald Indriðason sem kom út fyrir jólin. Í bók Arnaldar segir frá Jóni Sívertsen, íslenskum úrsmið í Kaupmannahöfn sem lagfærir forna klukku í höll konungs. Konungur situr álengdar á meðan Jón tjaslar saman klukkunni og hlustar á hann rekja sorgleg örlög föður síns og fóstru á Íslandi sem faðir konungsins hafði látið taka af lífi í embættistíð hans. Sá hét Friðrik V. Hann var afabarn Friðriks IV sem sendi bréfið sem nú er geymt í pappakassa á Akureyri.

 

Heimild: Tímarit Máls og menningar, 25. árgangur, 1. tbl.

„Hlíðarfjallsmynt“ undir grænni torfu í New York

Sumarið 2019 fannst íslenskur bronspeningur í heimabyggð, n.t.t. í Hlíðarfjalli. Vegna oxunar hefur hann tekið á sig fallega grænan blæ eftir áratugadvöl í fjallinu. Myntin vegur þrjú grömm. Hún er slegin árið 1940, í tíð Kristjáns 10. konungs, skreytt kórónu og rómverska tölustafnum X. Myntin fannst á stað í fjallinu þar sem norskir, breskir og bandarískir setuliðsmenn settu upp æfingabúðir á árum seinni heimsstyrjaldar. Við fund sem þennan vakna ýmsar spennandi spurningar t.a.m. hvernig peningurinn lenti þarna, hver eigandinn var o.s.frv. Líklega hefur dáti misst peninginn úr vasanum á meðan hann dvaldist í fjallinu við æfingar í vetrarhernaði. En íslenska tvíeyringa frá hernámsárinu 1940 er að finna víðar en í fjallshlíðinni ofan Akureyrar – og jafnvel á furðulegri stöðum.

Feðgin frá Bandaríkjunum hafa um nokkurra ára skeið leitað sér til gamans að smágripum sem leynast undir grænni torfu á heimaslóðum, vopnuð málmleitartæki. Þau Mike og Emma kalla sig Diggin´Duo. Þau halda úti youtube-síðu þar sem hægt er að fylgjast með þeim að störfum. Í leiðöngrum sínum hafa þau fundið mikið magn smápeninga, suma hverja mjög gamla, og aðra forvitnilega málmgripi af ýmsu tagi. Fyrir jólin fundu Mike og Emma íslenskan tvíeyring, sömu tegundar og fannst í Hlíðarfjalli, undir grænni torfu á tilteknum stað í New York borg. Gaman er að fylgjast með því þegar feðginin finna íslenska peninginn sem eðlilega er þeim framandi og ekki síður táknin og orðin sem á honum standa. Hér að neðan má sjá myndskeið af því þegar þau finna íslenska tvíeyringinn.

Ósjálfrátt veltir maður fyrir sér hver saga tvíeyringsins í New York er. Hvernig lenti peningurinn þarna. Hver var eigandinn? Við fáum líklega engin svör.