main image

Lifandi bær Þorvaldar

 

Í sumarbyrjun árið 1981 birtist pistill í Degi undir heitinu Lifandi bær. Höfundurinn Þorvaldur Þorsteinsson kynnir þar hugmyndir sínar um hvernig glæða megi Akureyrarbæ meira lífi yfir sumartímann. Vissulega hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að pistillinn birtist lesendum Dags fyrir tæpum fjórum áratugum síðan. Mögulega hafa skrif Þorvaldar hreyft við einhverjum á sínum tíma, hver veit? Í það minnsta hefur mannlífið í bænum hin undanfarin sumur minnt á sviðsmyndina sem höfundur dregur upp. En betur má ef duga skal. Alltaf má bæta í þegar menning og mannlíf er annars vegar.

Orð Þorvaldar eiga ekki síður við í dag en árið 1981: „Allt of sjaldan erum við minnt á það að samfélagið hefur upp á annað að bjóða en slys, morð, stríð og slæmar fréttir. Því miður gerist það sjaldan að grímunni er svipt af andlitinu og því leyft að brosa framan í náungann.“

Við verðum líklega öll í þörfinni fyrir blómstrandi menningu og iðandi mannlíf næsta sumar. Grenndargralið skorar þess vegna á bæjaryfirvöld og bæjarbúa að verða við 40 ára áskorun Þorvaldar Þorsteinssonar og gera annars góðu mannlífi Akureyrarbæjar enn hærra undir höfði sumarið 2021.

Þorvaldur lést árið 2013.

 

Lifandi bær

Uppstigningardagur var góður dagur á Akureyri. Kom þar einkum tvennt til; veðrið var ágætt og mannlífið óvenju mannlegt. Zontakonur héldu útimarkað inni í fjöru og lúðrasveit gekk spilandi um götur bæjarins. Mátti víða sjá brosandi andlit i gluggum og sumir gerðu sér ferð út í dyr til að fylgjast með tónlistarmönnunum og njóta tilbreytingarinnar.

En þetta var aðeins einn dagur. Einn af allt of fáum líflegum dögum hér í bæ. Allt of sjaldan erum við minnt á það að samfélagið hefur upp á annað að bjóða en slys, morð, stríð og slæmar fréttir. Því miður gerist það sjaldan að grímunni er svipt af andlitinu og því leyft að brosa framan í náungann. Til þess gefst hvorki tími né tilefni, að því er virðist, — „jafnvel” ekki hér á Akureyri.

Ég legg til að í sumar verði þessu breytt. Í sumar ættum við að nota hvert tækifæri til að lífga upp á miðbæinn okkar og gefa grafalvarlegum vegfarendum tilefni til að afhjúpa jaxlana og tipla ögn léttar um torgið. M.ö.o. gera bæjarbraginn skemmtilegan. Möguleikarnir eru ótalmargir, — ég nefni nokkur dæmi:

Lítill útimarkaður við torgið gæfi miðbænum þekkilegan svip. Í fyrra minnir mig að vísir að útimarkaði hafi verið á torginu. Hann þarf að endurvekja og helst auka við.

Ísvagn á heitum dögum væri kærkominn. Mætti ganga þannig frá vörunni að engin óþrif hlytust af. Ekki ætti pylsuvagn að spilla fyrir stemmingunni. Þó er hann síðri vegna óþrifa sem væntanlega fylgja, því ekki kunnum við enn að ganga um bæinn að mennskum sið. (Nægir að minna á vanþekkingu varðandi notkun rusladalla og óvirðingu við blómaskreytingar á torginu í fyrra).

Hvetja þarf tónlistarfólk til dáða. Tónlistarmaður sem fitlar við hljóðfæri sitt í sólskininu gleður hjarta náungans og léttir honum sporin, Harmonikkuleikari, gítarleikari, flautuleikari eða fiðluleikari, — allt þetta lífgar upp á tilveruna. Er ekki kjörið fyrir nemendur í Tónlistarskólanum að spreyta sig á þennan hátt?

Leikflokkar gætu einnig reynt sig á torginu. Þyrfti lítinn, jafnvel engan viðbúnað svo gaman yrði að.

Og hvað með götumálara eða — teiknara?

Nú finnst einhverjum að draumórar einir séu á ferð. Að fæst af þessu sé framkvæmanlegt í okkar risjótta veðurfari. Þeirri svartsýni svara ég með því að benda á að allt það sem hér hefur verið nefnt er mjög einfalt og auðvelt í meðförum. Auðvelt er að koma því upp með litlum fyrirvara á góðviðrisdegi og hætta við ef syrtir í álinn.

Ég er sannfærður um að hægt er að gera miðbæinn lifandi á einfaldan máta. Ekki skortir möguleikana, aðeins framkvæmdina. Hér ættu einhverjir áhugasamir menn að ýta úr vör. Það þarf einhvern til að brjóta ísinn, — eftir það er leiðin greið. Drífum í þessu í sumar. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Góða skemmtun.

 

Heimildir:

Þorvaldur Þorsteinsson. (1981, 5. júní). Lifandi bær. Dagur, bls. 3.

Mynd af Þorvaldi: akureyri.is

„Afgreiðslufólkið stóð bak við búðarborð og sótti allt sem viðskiptavininn vantaði“

Sennilega muna flestir miðaldra og eldri Akureyringar sem og fólk úr nágrannabyggðarlögum eftir kjörbúð KEA í Hafnarstræti 20. Þá er verslunarfólkið Helga Hallgrímsdóttir og Baldvin Ólafsson eftirminnileg þeim sem gerðu matarinnkaup í Höepfner eins og verslunin var gjarnan kölluð. Baldvin starfaði í Höepfner í rúm 40 ár. Helga starfaði í tæp 50 ár hjá Kaupfélagi Eyfirðinga, lungann úr þeim tíma í Höepfner-versluninni.

Afgreiðslustörf – sambærileg þeim sem Helga og Baldvin sinntu í Höepfner og þóttu sjálfsögð á þeim tíma – fólust að einhverju leyti í meiri þjónustu og nánari samskiptum við viðskiptavini en tíðkast hefur hin seinni ár. Viðskiptavinurinn beið við búðarborðið meðan starfsmaður verslunarinnar sótti vörurnar sem óskað var eftir. Kannski á einhvern hátt sambærilegt við verslunarhegðun þá sem nú er farin að ryðja sér til rúms, ekki síst í covid-faraldrinum, þ.e. netverslun og akstur heim að dyrum.

Í ársbyrjun 1987 tók Helga Jóna Sveinsdóttir, þáverandi blaðamaður Dags, viðtal við Helgu sem þá var nýlega hætt störfum hjá KEA, 71 árs að aldri. Grenndargralið rifjar upp minningar Helgu af afgreiðslustarfinu á bak við búðarborðið í Höepfner og samskiptum hennar við viðskiptavini.

„Ég byrjaði í Höepfner 1942 og starfaði því þar í 45 ár, en tæp 5 ár starfaði ég við annað hjá kaupfélaginu. Ég sótti um vinnu hjá félaginu að sumri til. Það var enga vinnu að fá, en Halldór Vagnsson réð mig í lausavinnu. Hann var þá yfir verksmiðjunum. Hann sagði að það væri ekkert að gera en hann skyldi athuga málið með haustinu. Síðan var ég ráðin í Sjöfn, en var sífellt lánuð í hinar og þessar deildir og þar kom að ég var lánuð í Höepfner í 2 daga og síðan hef ég verið þar. Mér var ekkert skilað til baka aftur. Árið eftir byrjaði Baldvin Ólafsson og hann hætti núna um leið og ég.“

Helga segir að búðin hafi verið eins og heimili. „Við vorum afskaplega heppin með fólk, margt af því starfaði í 10-15 ár. Þetta er orðið allt öðruvísi núna, fólk er kannski í 2-3 mánuði og síðan er það farið í aðra vinnu.“

Hefurðu unnið alveg sleitulaust fullan vinnudag öll þessi 45 ár?

„Já og það má telja þau skipti sem ég hef orðið veik á fingrum annarrar handar. Stelpurnar sem ég vann með sögðu að ég ætti heimsmet í að verða ekki veik. Ég er svo heppin að ég er alveg stálhraust og ég held að ég kunni ekki almennilega að meta það. Ég átti að hætta þegar ég varð sjötug, en því var alltaf slegið á frest og svo hætti ég loks núna. Fólki er sagt upp þegar það er sjötugt, en svo stóð þannig á að það var enginn til að leysa af síðast liðið sumar svo ég var áfram og síðan dróst þetta fram að áramótum.“

Við hvað starfaðir þú í Höepfner?

„Bara við allt. Það er ekkert svo verkaskipt þarna, það vinna allir við allt. Ég held að ég fari rétt með að Höepfner hafi verið breytt í kjörbúð 1957, áður voru þetta tvær búðir. Öðrum megin var mjólkur- og brauðbúð og hinum megin önnur matvara, en síðan var þilið á milli tekið niður og þessar tvær búðir sameinaðar í eina.“

Hvernig finnst þér að vera hætt eftir öll þessi ár?

„Ég er ekki búin að átta mig á því, mér finnst ennþá eins og ég sé bara í nokkurra daga fríi. Ég held að það verði voðalega skrítið þegar frá líður af því ég er svo hraust og þó ég sé orðin ævagömul finnst mér ég ekki vera neitt gömul. Annars hef ég nóg að gera, ég á mikið af blómum sem ég get sinnt og ég hef alla ævi unnið mikla handavinnu og ég held því áfram, ég les líka mikið, þannig að ég kvíði ekkert aðgerðaleysinu.“

Helga er sennilega ein af örfáum Innbæingum sem þar eru fæddir og hafa aldrei átt annars staðar heima. „Ég fæddist í Lækjargötu 6 og er líklega bara nýfædd þegar foreldrar mínir flytja í þetta hús, Aðalstræti 44 og hér hef ég átt heima síðan. Núna bý ég hér ein, en áður var hér margt fólk, jafnvel nokkrar fjölskyldur, en núna er rétt pláss fyrir mig eina,“ segir Helga og hlær. „Stofan í þessu húsi þykir nú ekki stór, en í henni bjuggu eitt sinn hjón með 5 börn, þar fyrir utan var a.m.k. ein önnur fjölskylda í húsinu, ef ekki tvær.“

Þú hefur væntanlega upplifað gífurlegar breytingar í verslunarrekstri í bænum?

„Já, auðvitað hafa orðið miklar breytingar, en það er svo skrítið með það að mér finnst ég ekki hafa fundið svo mikið fyrir þeim. Þetta gerist hægt og sígandi og maður aðlagast nýjungunum og finnst þetta alltaf hafa verið svona. Jú, auðvitað er þetta allt öðruvísi en þegar ég byrjaði. Þá þurfti að afgreiða hverja manneskju með allt sem hún keypti. Afgreiðslufólkið stóð bak við búðarborð og sótti allt sem viðskiptavininn vantaði. Þá þurftum við að vigta alla hluti, hveiti, sykur, haframjöl og allt.“

En að lokum, Helga, þekkirðu ekki alla viðskiptavini í Höepfner?

„Jú, jú, ég þekki alla, kannski ekki með nafni, en það þekkja mig allir með nafni. Þetta er allt indælis fólk sem verslar í Höepfner, mikið sveitafólk og eldra fólk og ég held að við höfum verið alveg einstaklega heppin með viðskiptavini.“

 

Baldvin Ólafsson og Helga Hallgrímsdóttir létu af störfum fyrir aldurs sakir um áramótin 1986-87. Baldvin lést árið 2015. Helga lést árið 1988.

 

 

Heimild: Helga Jóna Sveinsdóttir. (1987, 14. janúar). Búðin var mitt annað heimili. Dagur, bls. 2.

Mynd af Helgu Hallgrímsdóttur og viðskiptavini: Minjasafnið á Akureyri. (2020). Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1526310

Mynd af Baldvini Ólafssyni: Mbl.is. (2015). Fengin af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1567830/

Mynd af Hafnarstræti 20: Grenndargralið (2006).

Jól á Akureyri í skugga mænuveiki 1948

Mænuveiki er smitsjúkdómur af völdum veirusýkingar. Á Vísindavefnum segir um sjúkdóminn að smit berist oftast manna á milli með saurgerlum sem komist í snertingu við munn og meltingarveg, til dæmis gegnum mengað vatn. Einkenni séu í sumum tilfellum væg en ef veiran berist í blóðrás verði einkennin alvarlegri. Berist veiran í miðtaugakerfið geti hún valdið lömun og jafnvel dauða. Bóluefni kom fram árið 1955 og í kjölfarið var veirunni nánast útrýmt í heiminum.

Mænuveiki herjaði á Akureyringa og aðra, seinni hluta árs 1948. Samkomubann var sett á í bænum og nágrannasveitarfélögum um haustið. Heilbrigðisyfirvöld báru von í brjósti um að faraldurinn yrði í rénun í aðdraganda jóla. Þeim varð ekki að ósk sinni svo ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir að skólafólk á Akureyri færi úr bænum í jólafríinu. Eftirfarandi frétt birtist í Degi þann 22. desember.

Því miður fer því fjarri, að hægt sé að segja, að mænuveikifaraldur sá, er þjáð hefir bæjarmenn hér að undanförnu, sé um garð genginn. Síðustu dagana hafa enn bætzt við allmörg ný tilfelli, en hitt er þó næstum ennþá kvíðvænlegra, að sóttin hefir elnað ýmsum þeim, er tekið höfðu hana fyrir alllöngu síðan, þannig, að sumir þeirra liggja nú fárveikir, en aðrir hafa hlotið alvarlegar lamanir. Er ástandið á ýmsum heimilum í bænum harla bágt af þessum sökum, og sums staðar jafnvel þannig, að full vandræði steðja að, þar sem þess munu dæmi, að allt fullorðið heimafólk er frá verkum af völdum veikinnar. Er hætt við, að jólin verði óvenju dapurleg að þessu sinni á þeim mörgu heimilum, sem erfiðleika hafa hlotið af völdum vágests þessa, og raunar fullvíst, að skuggi hans muni hvíla eins og mara á öllum jólafagnaði hér í bænum í þetta sinn.

Um síðustu helgi gerði héraðslæknir hér, í samráði við landlækni, ráðstafanir til þess að skólafólk utan af landi, sem dvelst hér við nám í bæjarskólum í vetur, fari ekki heim til sín í jólaleyfinu. Er það auðvitað aðeins sjálfsögð varúðarráðstöfun, þótt hins vegar séu — því miður — litlar líkur til þess, að hún komi að verulegu haldi að hefta útbreiðslu veikinnar, m. a. sökum þess, að aðrar samgöngur og mannaferðir eru óhindraðar, og auk þess mun mænuveikin þegar vera komin allvíða út um sveitirnar, svo sem í Reykjaskóla í Hrútafirði, í Skagafjörð og víðar. Samkomubann hefir þegar verið sett í Skagafjarðarsýslu vegna faraldurs þessa, en samgöngubanninu við Svarfdælalæknishérað hefir nú nýskeð verið aflétt.

Lasburða kýr innihélt 26 kg af baggaböndum

Vorið 1981 fundu starfsmenn Sláturhúss KEA stóran köggul í vömb lasburða kýr sem leidd var til slátrunar. Þegar betur var að gáð kom í ljós að baggabönd voru orsakavaldurinn og þau höfðu hlaðið utan á sig steinefnum svo köggullinn var harður sem grjót. Þegar ófögnuðurinn var veginn reyndist hann vera 26 kílógrömm að þyngd. Þar sem mikill vökvi hafði runnið úr honum var talið að hann hefði líklega vegið á þriðja tug þegar mest lét.

„Þetta er nú með því meira sem við höfum séð koma úr kýrvömb og manni verður nú á að hugsa, hvernig skepnunni hafi liðið með allt þetta innan í sér” sagði starfsmaður Sláturhússins í viðtali við Dag. Aðrir starfsmenn tóku undir þetta og sögðu ekki óalgengt að baggabönd væri að finna í vömbum kúa þar sem þær ættu það til að láta ýmsa óæskilega hluti ofan í sig. Nefndu þeir gúmmíslöngu, gúmmívettling og flösku í því sambandi.

Leitað var álits Ágústar Þorleifssonar dýralæknis á sínum tíma vegna málsins. Hann sagði kúna líklega hafa náð í baggaböndin í fóðurgöngunum. Að hans mati væru mál sem þessi ekki algeng því böndin væru að öllu jöfnu fjarlægð úr heyinu við fóðurgjöf. Í þessu tilfelli hefði umræddur köggull verið 2-3 ár að myndast og vegna stærðarinnar hefði starfsemi vambarinnar truflast. Smám saman mynduðust sár, kýrin hætti að nærast og veslaðist upp.

 

Heimild:

Hvorki meira né minna en 26 kg af baggaböndum fundust í kýrvömb! (1981, 9. apríl). Dagur, bls. 8.

Þjóðverjinn sem þjálfaði ÍBA og FC Schalke 04

Í blaðagrein sem birtist í Vísi árið 1964 segir að hann hafi tekið þátt í orrustunni í Argonne-skógi í fyrri heimsstyrjöldinni og verið sæmdur Járnkrossinum. Hann er kynntur sem fyrrverandi forstjóri Salamander, frægasta skófyrirtækis Þýskalands. Í viðtali við Dag sama ár segir hann frá því þegar hann dæmdi knattspyrnuleik á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1928. Harry Rosenthal flúði Þýskaland nasismans áður en seinni heimsstyrjöldin braust út. Hann settist að á Akureyri og tók sér upp nafnið Höskuldur Markússon. Tveimur áratugum eftir að hann kom í bæinn hafði hann milligöngu um ráðningu menntaðs knattspyrnuþjálfara til að þjálfa knattspyrnumenn á Akureyri en slíkt var nýlunda á þeim tíma. Nokkrum árum síðar átti umræddur þjálfari eftir að stýra liði Schalke í þýsku Bundesligunni.

Áhrifamaður í þýsku íþróttalífi sest að í bænum

Sem ungur drengur í Þýskalandi iðkaði Höskuldur knattspyrnu. Hann hafði dálæti á íþróttum og sat í íþróttaráði Berlínar til margra ára. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk náði hann sér í dómararéttindi. Auk þess að dæma á Ólympíuleikum, rifjar Höskuldur upp í fyrrnefndu viðtali þegar hann dæmdi úrslitaleik um þýska meistaratitilinn á þriðja áratugnum fyrir framan 86 þúsund manns.

Þegar Höskuldur kom til landsins frá Þýskalandi árið 1938 höfðu öldruð móðir hans, systir og mágur komist úr landi, til Íslands og sest að í Reykjavík. Ekki voru allir í stórfjölskyldunni eins lánsamir. Bróðir hans og fjölskylda enduðu ævina í útrýmingabúðum nasista. Höskuldur bjó hjá systur sinni og móður fyrsta árið, varð sér úti um jarðarskika og ræktaði grænmeti. Ári síðar flutti hann til Akureyrar ásamt unnustu sinni Hildegard Heller sem var þá nýkomin til landsins. Þau giftu sig og fengu íslenskan ríkisborgararétt. Hildegard tók upp nafnið Hildigerður. Fyrstu árin á Akureyri starfaði Höskuldur á saumastofu en árið 1946 réði hann sig í vinnu sem skrifstofustjóri hjá Skarphéðni Ásgrímssyni í Amaro. Þar starfaði hann til dauðadags.

Tímamót í knattspyrnuþjálfun á Akureyri

Í aprílbyrjun 1957 boðaði Knattspyrnuráð Akureyrar (KRA) til blaðamannafundar á Hótel KEA þar sem nýr þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍBA var kynntur. Höskuldur var kominn í stjórn KRA þegar kom að ráðningu hins nýja þjálfara. Formaður ÍBA, Ármann Dalmannsson skýrði blaðamönnum frá áformum um að hefja knattspyrnu í bænum á hærri stall. Þegar þarna var komið sögu hafði ÍBA ekki haft þjálfara til að halda uppi reglulegum æfingum fyrir knattspyrnumenn félagsins. Landsliðsþjálfarinn Karl Guðmundsson hafði reyndar komið í nokkrar ferðir norður á sumrin til að leiðabeina iðkendum, annað ekki. Nú skyldi láta sverfa til stáls með metnað að leiðarljósi og freista þess að ná árangri meðal bestu liða í efstu deild sumarið 1957.

Haraldur M. Sigurðsson, formaður Knattspyrnuráðs tók næstur til máls á fundinum. Hann sagði „nauðsynlegt að hafa kennara, sem gæti fylgst daglega með knattspyrnumönnunum og byggt starfsemina upp fyrir sumarið.“ Því næst var nýr þjálfari kynntur til sögunnar en sá hinn sami hafði dvalist hér í mánuð þegar kom að fundinum. Haraldur sagði félagið vera heppið að fá að njóta þjónustu hins þýska Heinz Marotzke  og þakkaði Höskuldi fyrir að hafa fengið hann til starfa. Marotzke var nýútskrifaður frá Íþróttaháskólanum í Köln þegar hann kom til Akureyrar. Þar hafði hann stundað nám í þrjú ár með knattspyrnu sem aðalnámsgrein með sjálfan Sepp Herberger sem aðalkennara. Herberger stýrði Þjóðverjum til sigurs á HM í Sviss árið 1954. Marotzke hafði einnig nokkra reynslu af knattspyrnuþjálfun eftir að hafa þjálfað lið í Köln með prýðilegum árangri.

„Ég nota sama kerfi og núverandi Evrópumeistarar nota“

Æfingar hjá ÍBA hófust vorið 1957 undir stjórn Heinz Marotzke. Fyrstu fjórar vikurnar fóru þær fram innanhúss en færðust með hækkandi sól út á mölina á gamla Þórsvellinum á Oddeyri. Blaðamaður Íslendings lagði nokkrar léttar spurningar fyrir  Marotzke í lok apríl um dvölina og æfingarnar þessar fyrstu vikur á Akureyri.

Hvernig er æfingum hagað?

Við æfum daglega, þó með nokkrum undantekningum. Við leggjum fyrst og fremst áherzlu á þjálfun undir Íslandsmótið í knattspyrnu, sem hefst 17. maí með leik Akureyringa við Hafnfirðinga, en tveim dögum síðar eiga Akureyringar að leika á móti Akranesliðinu.

Hvaða stíl eða kerfi notið þér við æfingar?

Ég nota sama kerfi og nú er notað í Englandi og Þýzkalandi og núverandi Evrópumeistarar í knattspyrnu nota. Það mætti kalla það WM-kerfi eftir uppstillingu liðsins á leikvelli. En þetta kerfi kemur því aðeins að fullu gagni, að leikmenn mæti stöðugt og reglulega á æfingum. Auk þess, sem ég þjálfa liðið undir Íslandsmótið er ég að byrja æfingar með unglingum, sem nú eru að hætta daglegri skólagöngu. Mig langar til að finna í hópi þessara ungu manna einhvern, er gæti gerst „undirþjálfari“ og tekið við af mér, þegar ráðningartíma mínum lýkur.

Hvað með áhugann?

Hann er mikill og kannski meiri nú, af því Íslandsmótið er svo skammt undan. En gallinn er sá, að margir piltanna eru í ýmsum öðrum félagsskap, svo sem karlakórum, bridgeklúbbum, skákfélögum eða þ. u. l. og allt krefst þetta síns tíma og dregur frá einbeitingu að knattspyrnunni. En hvað sem því líður, ég er enginn töframaður í þessari íþrótt, en mun gera allt, sem í mínu valdi stendur til þess að einhver árangur verði af dvöl minni hér, en til þess þurfa leikmennirnir að leggja fram sinn hlut á móti.

Og hvernig líkar yður lífið hér hjá okkur?

Prýðilega. Ég hef fengið hér ótrúlega góðar viðtökur, ekki aðeins hjá knattspyrnumönnunum, heldur öllum, sem ég hef hitt hér í bænum. Ég átti kost á því að fara til Eþíópíu sem knattspyrnuþjálfari, en mér er víst óhætt að fullyrða, að ég mun ekki sjá eftir að hafa valið Ísland.

Grenndargralið mun halda áfram umfjöllun um Heinz Marotzke.

 

 

Heimildir:

ÁE. (1964, 27. apríl). Frá Salamander til Amaro. Vísir, bls. 7.

Er enginn töframaður en reyni mitt bezta. (1957, 26. apríl). Íslendingur, bls. 1.

Erlingur Davíðsson. (1964, 19. febrúar). Ólympíudómarinn á Akureyri. Dagur, bls. 4-5.

Erlingur Davíðsson. (1968, 10. júlí). Höskuldur Markússon – nokkur minningarorð. Dagur, bls. 5.

Knattspyrnuráð Akureyrar hefir ráðið þýzkan knattspyrnuþjálfara til bæjarins. (1957, 9. apríl). Alþýðumaðurinn, bls. 1.

Viðburðaríkt sumar hjá Varðveislumönnum minjanna

Varðveislumenn minjanna hafa lokið störfum í Hlíðarfjalli þetta árið. Óhætt er að segja að sumarið 2020 hafi verið viðburðaríkt. Skemmtilegar gönguferðir á slóðir setuliðsmanna í og við Hlíðarfjall ofan Akureyrar og í Hörgárdal. Óvæntar uppgötvanir í fjallinu og fundur merkilegra stríðsminja. Hlaðvarpsþættir um vetrarhernað breskra, bandarískra og norskra hermanna í fjallinu á stríðsárunum. Spennandi sprengjuleiðangrar með Landhelgisgæslunni. En þó umfram allt skemmtilegt samfélag grúskara sem deilir áhuga á sögu, útiveru og varðveislu sögulegra minja. Enn er mörgum spurningum ósvarað. Varðveislumenn minjanna halda áfram að svipta hulunni af leyndardómum Hlíðarfjalls.

Nú í lok vertíðarinnar er við hæfi að setja saman nokkrar myndir úr ferðunum í fjallið. Tónlistina semur Akureyringurinn 603 Beats. Þannig hljómar Outside undir sem er einmitt aðalstef hlaðvarpsþáttanna Leyndardómar Hlíðarfjalls.

„Það var í þessari ferð sem ég orti ljóðið Svalbarðseyri“

Í lok október árið 1992 héldu átta námsmenn í Reykjavík af stað norður yfir heiðar. Sjö konur og einn karlmaður – nemendur við Háskóla Íslands – sameinuðust í bíla og brunuðu til Akureyrar. Ætlunin var að starfa í viku eða svo við dagblaðið Dag, fara á stúfana á Akureyri og í nágrannabyggðarlögum og afla efnis fyrir blaðið. Kannski njóta og hafa gaman í leiðinni. Ferðin var hugsuð sem hluti af starfsnámi nemenda í Hagnýtri fjölmiðlun við HÍ þar sem áhersla skyldi lögð á undirstöðuatriði í greina- og fréttaskrifum.

Kennari hópsins var Sigrún Stefánsdóttir. Hún fylgdi nemendunum átta norður og útvegaði þeim jafnframt dvalarstað, sumarhús á Svalbarðseyri. Í samtali við Dag í október 1992 sagði Sigrún að ferðin norður væri leið til að kynna fjölmiðlun á landsbyggðinni en jafnframt væri hún mikilvæg fyrir nemendur til að kynnast betur.

Gerður Kristný var í hópi áttmenninganna sem kom til starfa á Degi haustið 1992. Grenndargralið hafði samband við hana og spurði út í fréttaskrifin og dvölina í heimabyggð. Einhver tíðindi hafa nú líklega orðið í sumarhúsinu á Svalbarðseyri, eða hvað? Aðspurð man Gerður Kristný ekki hvað var efst á baugi í norðlenskum fréttum á þessum tíma. Hún minnist hins vegar heimsóknar sem hún fór í til eins færasta listamanns þjóðarinnar eins og hún orðar það sjálf, viðtals sem birtist í helgarblaði Dags. Þá orti hún ljóð í ferðinni sem rataði í fyrstu ljóðabók hennar sem kom út árið 1994.

Ég kom með bekkjarsystkinum mínum í Hagnýtri fjölmiðlun í Háskóla Íslands til Akureyrar í þeim tilgangi að fá starfsþjálfun á Degi. Mig langaði að taka viðtal við Margréti Jónsdóttur leirlistarkonu, einn færasta listamann þjóðarinnar. Ég hafði lengi dáðst að verkum hennar og geri enn. Áður en við komum norður hafði ég þegar haft samband við hana og falast eftir viðtali og við komið okkur saman um tíma.  Ég vatt mér því í heimsókn á fyrsta degi og spjallaði við Margréti sem var skemmtileg og fróð að venju. Mér fannst það hljóta að vera dásamlegt að geta helgað sig listinni eins og hún og gert leirmuni sem sameinuðu bæði fegurð og notagildi. Ég lauk við viðtalið daginn eftir og hafði því nægan tíma til að vafra um fallegu Akureyri það sem eftir var dvalarinnar. Þar hef ég nú oft dvalið við störf eftir að ég ákvað sjálf að starfa eingöngu að listinni. Vitaskuld heimsæki ég þá gallerýið hennar Margrétar, fæ að skoða dýrðina og jafnvel bæta við mig grip í safnið.

Það var í þessari ferð sem ég orti ljóðið Svalbarðseyri sem birtist í fyrstu bókinni minni, ljóðabókinni Ísfrétt.

 

Svalbarðseyri

 

Skýin stinga við árum

og morgunninn greiðir úr myrkrinu

 

viti án varðar

vísar inn á öruggar eyrar

næsta dags

 

frostið fylgir í spor mín

niður í fjöru

klæðir mig úr kalinni hendi

 

 héðan leggst ég til sunds

 

 

Hægt er að lesa viðtal sem Gerður Kristný tók við Margréti Jónsdóttur og birtist í Degi 31. október 1992 með því að smella á myndina hér að ofan.

Grenndargralið í samstarf við Heima er bezt

Brynjar Karl Óttarsson og Sigurjón M. Egilsson hafa komist að samkomulagi um samstarf milli Grenndargralsins og tímaritsins Heima er bezt. Krosseyri ehf. gefur tímaritið út.

Grenndargralið er í eigu Brynjars Karls. Ritstjóri Heima er bezt er Sigurjón Magnús Egilsson. Samstarfið felur í sér birtingu á efni Grenndargralsins í þremur tölublöðum sem gefin verða út fram að áramótum.

Október-útgáfa tímaritsins er í prentun. Hægt er að kaupa áskrift með því að fara inn á vefsíðu Heima er bezt. Eins er hægt að senda póst á sme@sme.is eða hringja í 823 2777.

„Jeg færi lesendum greinar þessarar ill tíðindi“

Guðmundur Magnússon læknaprófessor (1863-1924) skrifaði grein í Lögberg þann 13. júní árið 1895. Í greininni Um lungnatæringu á Íslandi upplýsir hann Íslendinga í Vesturheimi um sjúkdóm sem til langs tíma hafði sveipað fjarlæg lönd myrkri með miklu mannfalli – sjúkdóm sem var nú einnig farinn að ógna lýðheilsu fólks á norðlægari slóðum. Berklar voru farnir að hreiðra um sig í lungum landsmanna og tilfellum fjölgaði jafnt og þétt.

Jeg færi lesendum greinar þessarar ill tíðindi; jeg færi þeim þá frjett, að lungnatæring hefur mjög færst í vöxt á Íslandi á síðari árum […] Þar eð veikin veldur svo miklum manndauða, sem raun er á orðin erlendis, er það augljóst, að voði er á ferðum, ef hún heldur áfram jafnhröðum fetum. Hjer er sannarlega um alvarlegt mál að ræða. Vjer erum svo fámenn þjóð, að vjer megum ekki við því, að nýr sjúkdómur festist í landinu, sem leggur fjölda manna í gröfina á unga aldri. En það mun sannast, að svo verður, nema alþýða leggi sig sjálf alla fram til þess að sporna við því. Þetta er veiki, sem nú þegar er komin svo víða, að ekki er unnt að reisa skorður við henni með lögboðnum sóttvörnum. Það þarf sífellda aðgæzlu almennings til þess að verjast henni […] en veikin er svo hættuleg og torlæknuð, að mikið er leggjandi í sölurnar til þess að forðast hana. Það er mín skoðun, að með góðum vilja megi að minnsta kosti tefja fyrir og draga úr útbreiðslu veikinnar.

…það er ekkert efamál, að [veikin] getur læknast og horfið; og svo mundi vera miklu optar en nú er, ef sjúklingarnir sýndu meiri hirðusemi með að leita læknisráðs í tíma. Af því veikin er optast hægfara í fyrstu, hættir sjúklingnum til að fresta því. Þangað til veikin er orðin svo mögnuð, að það er um seinan.

Sé þessa gætt, er ekki mikil hætta á því, að veikin berist frá sjúklingunum til heilbrigðra, og það ætti að vera siðferðisleg skylda sjúklinganna að gera allt sitt til að komast hjá því, að svo verði. Það ætti að vera þeim ógurleg tilhugsun að valda með hirðuleysi sínu hættulegri veiki á öðrum, ef til vill þeim, sem næst þeim standa og eru þeim kærastir.

Magni sigraði landslið og lokahönd lögð á nýjan Þórsvöll

Fyrir 40 árum, sunnudaginn 6. júlí árið 1980 fór fram knattspyrnuleikur milli karlaliðs Magna frá Grenivík og grænlenska landsliðsins. Grænlenska liðið var í heimsókn á Akureyri til að taka þátt í þriggja landa móti ásamt Íslandi og Færeyjum. Hér var um tímamót að ræða því leikur Íslands og Færeyja var fyrsti landsleikur í knattspyrnu karla sem háður var á Akureyri.

Dagurinn hófst á því að Magnamenn fóru með gestina frá Grænlandi í heimsókn á kjúklingabúið að Sveinbjarnargerði. Þaðan var haldið til sr. Bolla Gústavssonar í Laufási áður en boðið var til léttrar máltíðar fyrir leik.

Í frétt um leikinn í Degi segir að hann hafi verið vel leikinn af beggja hálfu og skemmtilegir taktar og gott samspil leikmanna hafi sést á köflum. Grenivíkingar höfðu betur með tveimur mörkum Jóns Lárussonar gegn einu marki Grænlendinga.

Um 350 manns horfðu á leikinn og að honum loknum buðu Grenvíkingar leikmönnum og starfsfólki grænlenska landsliðsins til veislu.

Sömu helgi og leikur Grenvíkinga og Grænlendinga fór fram, unnu 60-70 manns að því að leggja þökur á nýjan knattspyrnuvöll Þórs í Glerárhverfi. Í Degi segir að áætlað sé að leika vígsluleik á nýja vellinum um haustið og taka hann svo í notkun sumarið eftir.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra úr hópi þeirra sem unnu við þökulagninguna umrædda helgi. Myndin birtist í Degi 8. júlí 1980.