main image

Minnisblaðið

Í síðasta hlaðvarpsþætti af Sagnalist með Adda & Binna var minnisblað úr Hvíta húsinu til umfjöllunar. Minnisblaðið er dagsett 23. maí 1961, á tímum Kúbudeilu og geimkapphlaups í miðju köldu stríði. Innihald og titill blaðsins er heimsókn forseta Íslands til Bandaríkjanna (Visit of Icelandic President to U.S.). Í minnisblaðinu er reifuð sú hugmynd að Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands verði boðið í heimsókn til Washington til fundar við John F. Kennedy í kjölfar opinberrar heimsóknar Ásgeirs til Kanada í september sama ár. Síðar í minnisblaðinu kemur þó fram að af heimsókninni geti ekki orðið vegna mikilla anna hjá forseta Bandaríkjanna og raunar forseta Íslands einnig. Í minnisblaðinu er mælst til þess að nýráðinn sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, herra Penfield (James Kedzie Penfield), komi þeim skilaboðum áleiðis til forseta Íslands frá forseta Bandaríkjanna að hann hlakki til að hitta íslenska forsetann. Af því geti þó ekki orðið á yfirstandandi ári. Bláar undirstrikanir eru til marks um áhersluna sem lögð eru á skilaboð forsetans.

Pappírinn sem ritað er á kemur úr bréfsefni utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Neðst á minnisblaðinu er vélrituð undirskrift aðalritara ráðuneytisins, L. D. Battle (Lucius Durham Battle). Ofan við nafn aðalritarans hefur M. L. Manfull (Melvin Lawrence Manfull) ritað nafn sitt með bláum penna. Manfull stýrði á þessum tíma teymi innan utanríkisráðuneytisins sem hafði með notkun á kjarnorku að gera í þágu friðar. Skilja má handskrifaða undirskrift Manfull sem svo að það sé hann sem sendi minnisblaðið til Hvíta hússins en að hann geri það jafnframt í umboði L. D. Battle.

En hverjum innan Hvíta hússins var minnisblaðið frá utanríkisráðuneytinu ætlað? Upphafsorð blaðsins eru „Minnisblað handa herra McGeorge Bundy í Hvíta húsinu“ (Memorandum for Mr. McGeorge Bundy, The White House). McGeorge Bundy var þjóðaröryggisráðgjafi John F. Kennedy í forsetatíð hans 1961 – 1963 og einn nánasti samstarfsmaður forsetans í Kúbudeilunni 1962. Bundy var t.a.m. sá sem upplýsti Kennedy um frægar ljósmyndir sem teknar voru úr U2-njósnaflugvél þann 14. október 1962 og staðfestu grun um staðsetningu sovéskra kjarnorkuvopna á Kúbu. Í nýútkominni bók um Kúbudeiluna eftir Max Hastings, í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, segir frá því þegar Bundy gekk inn í svefnherbergi Kennedy að morgni 16. október til að færa honum tíðindin. Fyrstu viðbrögð forsetans þar sem hann stóð í náttfötunum voru heldur nöturleg þegar hann mælti: „Við neyðumst sennilega til að sprengja þá“.

Minnisblaðið ber vitni um áætlun Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að koma á fundi milli Kennedy og Ásgeirs. Ef marka má orð ritara ráðuneytisins virðist sem Kennedy sjálfur hafi lýst yfir áhuga á að hitta Ásgeir. Að sama skapi verður ekki annað séð en að allar slíkar fyrirætlanir hafi þó verið háðar samþykki McGeorge Bundy. Hvað sem öllum slíkum vangaveltum líður stendur minnisblaðið óhaggað og það sem á því stendur, rúmum 60 árum eftir að það var skrifað og sent. Og svo mun verða um ókomna tíð. Eftir standa áleitnar spurningar. Samþykkti Bundy fund Ásgeirs og Kennedy? Kom hápunktur Kúbudeilunnar árið 1962 í veg fyrir að forsetarnir tveir hittust? Hvað lá að baki áhuga utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og John F. Kennedy að hitta forseta íslenska lýðveldisins? Hvaða spurningar, fyrirmæli eða óskir hefði Kennedy borið á borð Ásgeirs á tímum Kúbudeilu og geimkapphlaups í miðju köldu stríði? Líklega fáum við aldrei svör við því.