main image

Smágripirnir hluti af fallhlíf og fluggleraugum John Kassos

Grenndargralið greindi á dögunum frá tilgátu sem snéri að mögulegu notagildi tveggja smágripa sem fundust á Melgerðismelum. Þeir koma úr flugvél sem fórst á stríðsárunum (sjá Eru smellurnar hluti af sjúkrakassa flugvélarinnar?). P-39 Airacobra orrustuvél bandaríska flughersins brotlenti á Melunum með þeim afleiðingum að flugmaður vélarinnar, John Kassos lét lífið.

Stuttu eftir að tilgátan fór í loftið bárust Grenndargralinu nýjar upplýsingar í málinu. Þær sýna svo ekki verður um villst hvaða hlutverki gripirnir tveir þjónuðu í hinu örlagaríka eftirlitsflugi John Kassos þann 25. ágúst 1942. Og það hefur ekkert með sjúkrakassa vélarinnar að gera eins og tilgátan fól í sér. Upplýsingarnar varpa jafnframt ljósi á hlutverk annarra torkennilegra smágripa frá brotlendingarstaðnum sem hingað til hefur ekki tekist að bera kennsl á. Þar til nú.

Allir gripirnir sem um ræðir, utan einn, eru hluti af fallhlífarbúnaði John Kassos. Líklega er um sætisfallhlíf að ræða (seat parachute) þar sem flugmaðurinn hefur setið á einhvers konar bala fyrir hlífina. Af einhverjum ástæðum hafa þessir smáhlutir sem nú eru að finnast 80 árum síðar orðið eftir þar sem vélin skall niður. Umræddir gripir eru sylgjur, krækja, smellur, kósar og keilulaga smáhlutur með gati sem samkvæmt heimildum Grenndargralsins er fyrir svokallaðan „Rip cord“ streng. Einn hlutur passar ekki inn í „fallhlífarmyndina“ en það er smágerð sylgja. Leiða má líkum að því að hún hafi verið hluti af hlífðargleraugum flugmannsins (WW2 Aviator Goggles) n.t.t. teygjunni sem fer utan um höfuð hans.

Grenndargralið hefur áður greint frá persónulegum smámunum sem fundust á sama stað og þeir sem fyrr eru nefndir svo sem smámyntum, greiðu og lyklum. Allir gripirnir, jafnt fallhlífarbúnaður sem persónulegar eigur, fundust þar sem flugstjórnarklefi vélarinnar hefur líkast til endað för sína eftir brotlendinguna. Allir á sama blettinum. Þar með hafa allir þeir gripir sem fundust „í flugstjórnarklefa“ John George Kassos verið greindir.