main image

Hálsmerki úr seinni heimsstyrjöldinni finnst á Akureyri

Varðveislumenn minjanna fundu merkilegan grip nú á dögunum. Bandarískt hálsmerki úr seinni heimsstyrjöldinni eða „Dog tag“ eins og gjarnan er talað um, leit dagsins ljós eftir 80 ára dvöl í jörðu á Akureyri. Óhætt er að segja að þessi fundur VM sé afar áhugaverður í ljósi þess að slíkir gripir finnast sjaldan hér á landi.

Hálsmerkið fannst á athafnasvæði bandaríska hernámsliðsins sem staðsett var rétt utan Akureyrar á stríðsárunum. Svæðið er innan bæjarmarkanna í dag. Eigandi hálsmerkisins var Harold G. Everett frá Massachusetts, fæddur árið 1919. Hann var skráður í bandaríska herinn í febrúar 1941 og dvaldist á Akureyri í hernámsárunum, óljóst hversu lengi. Hann starfaði við pípulagningar.

Meðal upplýsinga sem lesa má úr hálsmerki Harold G. Everett er númerið 31015175 sem hann bar sem óbreyttur dáti og að hann var í blóðflokki O. Harold var bólusettur fyrir stífkrampa og var mótmælandi (Protestant). Nánasti ættingi hans var Harold F. Powers til heimilist á 32 Forest Avenue í bænum Everett í Massachusetts.

Hægt er að fylgjast með verkefnum Varðveislumanna minjanna á fésbókarsíðu þeirra.