main image

Kopargripurinn verður varðveittur á Þjóðminjasafninu

Haustið 2021 sögðum við frá fundi kopargrips á Melgerðismelum í Eyjafirði. Frumrannsókn benti til að um handsmíðaðan eyrnaádrátt væri að ræða. Eftir vettvangsferð starfsmanns Minjastofnunar og Varðveislumanna minjanna á Melana þá um haustið var tekin ákvörðun um að senda gripinn til Reykjavíkur til að fá álit málsmetandi fólks á mögulegum aldri hans.  

Sérfræðingur í fornminjum á Þjóðminjasafninu hefur nú lokið athugun á gripnum. Í stuttu máli er niðurstaða hans sú að erfitt sé að aldursgreina grip sem þennan, fornfræðilegt samhengi hans geri greininguna erfiða þar sem um lausafund hafi verið að ræða. Því sé einungis við svokallaða gerðfræði að styðjast sem sé öflugt tæki til aldursgreiningar en þá frekar á hlutum sem sýna mikinn gerðfræðilegan breytileika yfir tíma. Látlausir hlutir sem breytast minna yfir tíma verði alltaf erfiðara að greina.

Í ljósi þess sem að ofan greinir er mat sérfræðingsins að rétt sé að láta gripinn á Melunum njóta vafans. Reikna skuli með að hann sé eldri en 100 ára og teljist hann því forngripur í lagalegum skilningi. Á þeim grundvelli óskar Þjóðminjasafnið eftir því að taka eyrnaádráttinn á Melgerðismelum inn í Safnið í samræmi við lög um menningarminjar.

Hálsmerki úr seinni heimsstyrjöldinni finnst á Akureyri

Varðveislumenn minjanna fundu merkilegan grip nú á dögunum. Bandarískt hálsmerki úr seinni heimsstyrjöldinni eða „Dog tag“ eins og gjarnan er talað um, leit dagsins ljós eftir 80 ára dvöl í jörðu á Akureyri. Óhætt er að segja að þessi fundur VM sé afar áhugaverður í ljósi þess að slíkir gripir finnast sjaldan hér á landi.

Hálsmerkið fannst á athafnasvæði bandaríska hernámsliðsins sem staðsett var rétt utan Akureyrar á stríðsárunum. Svæðið er innan bæjarmarkanna í dag. Eigandi hálsmerkisins var Harold G. Everett frá Massachusetts, fæddur árið 1919. Hann var skráður í bandaríska herinn í febrúar 1941 og dvaldist á Akureyri í hernámsárunum, óljóst hversu lengi. Hann starfaði við pípulagningar.

Meðal upplýsinga sem lesa má úr hálsmerki Harold G. Everett er númerið 31015175 sem hann bar sem óbreyttur dáti og að hann var í blóðflokki O. Harold var bólusettur fyrir stífkrampa og var mótmælandi (Protestant). Nánasti ættingi hans var Harold F. Powers til heimilist á 32 Forest Avenue í bænum Everett í Massachusetts.

Hægt er að fylgjast með verkefnum Varðveislumanna minjanna á fésbókarsíðu þeirra.

Glerárfoss fyrirmynd að atriði úr frægri kvikmynd

Í nýjasta hlaðvarpsþætti í þáttaröðinni Sagnalist með Adda og Binna ræða þeir félagar Arnar Birgir og Brynjar Karl um leikritaskáldið Jóhann Sigurjónsson og tengsl hans við Akureyri. Þekktasta leikverk skáldsins er án efa Fjalla-Eyvindur – leikrit í fjórum þáttum sem hann gaf út árið 1911. Leikritið vakti strax mikla athygli og var sett á fjalirnar víða um heim á næstu árum og áratugum. Nafn skáldsins var á allra vörum og stjarna Jóhanns skein skært. Ekki dró úr vinsældum þeirra Jóhanns, Fjalla-Eyvindar og Höllu nokkrum árum seinna þegar sænski leikstjórinn Victor Sjöström gerði kvikmynd eftir leikritinu og lék sjálfur aðalhlutverkið. Kvikmyndin Berg-Ejvind och hans hustru er flokki tímamótaverka í kvikmyndasögunni.

Í þættinum Upp til fjalla um sumarbjarta nótt rekja Arnar og Brynjar hvernig  Jóhann háttaði undirbúningi sínum fyrir leikritaskrifin sumarið 1908 á meðan hann bjó hjá foreldrum sínum á Akureyri. Þeir félagar feta í fótspor skáldsins á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit þar sem hugmyndir kviknuðu hjá skáldinu sem svo áttu eftir að rata í leikritið um Fjalla-Eyvind og Höllu.

Eitt eftirminnilega atriði leikritsins er þegar Halla syngur Tótu, þriggja ára stúlkubarn þeirra skötuhjúa, í svefn. Um það leyti sem leitarflokkur nálgast útilegufólkið á hálendinu, kastar Halla barninu í foss frekar en að missa það í hendur yfirvalda. Ljóðið sem Halla syngur fyrir Tótu er hin kunna vögguvísa „Sofðu unga ástin mín.“ Atriðið í kvikmynd Sjöström er ekki síður eftirminnilegt þar sem finnska leikkonan Edith Erastoff er í hlutverki Höllu.

Á meðan Jóhann dvaldist á Akureyri sumarið 1908, fór hann reglulega í gönguferðir að á sem rann utan við bæinn. Þar kom hann auga á foss sem átti eftir að reynast örlagaríkur við leikritagerðina. Gönguferðir skáldsins að fossinum í Glerá þetta sumar urðu fjölmargar en tilgangur þeirra var öðru fremur að fá innblástur að fossaatriðinu í Fjalla-Eyvindi. Jóhann hafði fastmótaða hugmynd um hvernig atriðið ætti að líta út á sviði. Í því sambandi sá hann fyrir sér dæmigerðan íslenskan smáfoss eins og þann sem hann vitjaði reglulega í Glerá.

Glerárfoss er þannig fyrirmynd að frægu fossatriði í sígildu leikriti og kvikmynd sem fóru sigurför um heiminn á fyrri hluta 20. aldar.

Hægt er að hlusta á þáttinn – Upp til fjalla um sumarbjarta nótt – á Spotify-síðu Sagnalistar með því að smella á slóðina hér að neðan.

https://open.spotify.com/episode/4lvPBoLyDuUQTOzweyJdDz?si=0e9206155e9040b7