main image

Stjörnufans í Laugarborg 1962

Á gullaldarárum félagsheimilanna stigu menningarstjörnur gjarnan á stokk í heimabyggð. Sjálfstæðismenn í Eyjafirði og Akureyri efndu til eftirminnilegrar samkomu í félagsheimilinu Laugarborg árið 1962. Landsþekktir listamenn og pólitíkusar komu fram og trekktu að þar sem færri komust að en vildu. Samkoman var sannkölluð stjörnumessa. Hún var haldin 26. ágúst, þremur dögum áður en Akureyri fagnaði því að 100 ár voru liðin frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi.

Gísli Jónsson menntaskólakennari á Akureyri setti samkomuna og stjórnaði. Guðmundur Jónsson óperusöngvari söng við undirleik Fritz Weisshappel píanóleikara. Magnús Jónsson alþingismaður talaði við samkomugesti og Sigurveig Hjaltested óperusöngkona söng einsöng. Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra flutti ræðu og fluttur var gamanleikurinn „Heimilisfriður“ eftir Georges Courteline. Með hlutverkin í leiknum fóru leikararnir Rúrik Haraldsson og Guðrún Ásmundsdóttir. Eftir að sýningu lauk sungu Guðmundur og  Sigurveig tvísöng. Fritz Weisshappel spilaði undir. Að lokinni dagskrá var stiginn dans fram á nótt.

Laugarborg var byggð sem félagsheimili fyrir Hrafnagilshrepp árið 1959. Rúmum þremur áratugum síðar, árið 1992, fékk Laugarborg hlutverk tónlistarhúss þar sem ungir tónlistarmenn Tónlistarskóla Eyjafjarðar fá nú m.a. að njóta sín á sviðinu. Þá eimir eftir af upphaflegu hugmyndinni um íverustað fyrir samveru og félagsskap á góðri stundu. Þannig þjónar Laugarborg sínu upphaflega hlutverki eins og hún gerði árið 1962, sem félagsheimili og vettvangur fyrir stjörnur til að skína.

 

Heimildir:

Eyjafjarðarsveit. (2019, 21. ágúst). Laugarborg. https://www.esveit.is/is/mannlif/felagsheimilin/laugarborg

Fjölmennt héraðsmót að Laugaborg. (1962, 29. ágúst). Morgunblaðið, bls. 2.

 

Foreldrar reistu skóla í Þorpinu

Í Sandgerðisbót stendur lítið hús með stóra sögu. Húsið var byggt í upphafi 20. aldar á meðan Glerárþorp var enn hluti af Glæsibæjarhreppi. Þorpið sameinaðist Akureyri árið 1955. Árið 1902 voru 93 íbúar skráðir með búsetu í Glerárþorpi og fór þeim fjölgandi. Stækkandi hópur barna og lög um barnafræðslu sem samþykkt voru á Alþingi árið 1907 knúði á framkvæmdir við byggingu skóla. Árið 1908 var svo komið að krakkar á aldrinum 10-14 ára voru orðnir 18 talsins og 40 börn yngri en 10 ára svo hjá því varð ekki komist að reisa barnaskóla í sveitarfélaginu.

Í upphafi árs 1908 ákváðu 16 íbúar í Þorpinu að taka sig saman um að byggja skóla fyrir eigið fé. Þeir stofnuðu Skólahúsfélag Glerárþorps til að halda utan um framkvæmdirnar sem hófust í febrúar. „Skólinn í Sandgerðisbót“ tók til starfa 1. nóvember sama ár. Þegar upp var staðið höfðu foreldrar og forráðamenn barnanna sem sækja áttu skólann, greitt 83% af kostnaði við bygginguna. Sautján prósenta mótframlag ríkissjóðs bliknar þannig í samanburði við framlag foreldra og lítur meira út á pappír eins og viðurkenning fyrir vel unnin störf. Mikilvægt framlag engu að síður hjá ríkinu. Börn í Glerárþorpi stunduðu nám í skólanum allt þar til Glerárskóli var reistur á Melgerðisási og vígður í janúar 1938.

Þegar gengið er um svæðið og framhjá gamla skólanum í Bótinni er fátt sem minnir á upphaflegt hlutverk byggingarinnar. Svona hús hefur nú alveg unnið sér inn umbun, þó ekki væri nema lítill skjöldur sem minnti vegfarendur á merkilegu sögu um dugnað og elju. Eins konar viðurkenningarvottur til genginna kynslóða í Þorpinu.

Heimild:

Barnafræðsla í Glerárþorpi 80 ára. (1988, 24. mars). Dagur, bls. 7-8.

Lesendahornið logaði vegna tónleika rokkgoðs í Sjallanum

Mikil eftirvænting ríkti norðan heiða í ársbyrjun 1987 vegna fyrirhugaðrar heimsóknar Fats Domino til Akureyrar. Óhætt er að segja að píanósnillingurinn frá New Orleans hafi verið mikill hvalreki fyrir áhugafólk um klassíska rokktónlist. Hann var einn af frumkvöðlum rokksins í Bandaríkjunum á sjötta áratug 20. aldar og var þar í hópi með mönnum eins og Chuck Berry, Bill Haley, Little Richard og Elvis Presley.

Fats Domino seldi heilu bílfarmana af plötum á ferli sínum sem spannaði áratugi. Til marks um afköst og vinsældir hans sem tónlistarmanns má nefna á fjórða tug platna á topp 40 á bandaríska Billboard listanum og á annan tug laga á topp 10 listanum þar í landi á árunum 1955-60. Meðal þekktra laga hans eru Ain´t That A Shame, Blueberry Hill og I´m Walkin.

Spennan var því mikil þegar fyrstu fregnir bárust af komu Fats til bæjarins. Loksins gafst Akureyringum og nærsveitungum tækifæri til að fara á tónleika með heimsfrægum tónlistarmanni í heimabyggð og losna jafnframt við ferðalag suður yfir heiðar. Eitthvað virðast þó dagsetningar á þrennum tónleikum Domino í Sjallanum 2. – 4. febrúar hafa farið illa í suma. Lesendahorn Dags logaði fyrir og eftir tónleikana.

„Nú er ég svo sár og reið að ég verð bara að fá útrás! Ég tilheyri þeim hópi Norðlendinga sem glöddust ákaflega þegar fréttir bárust af því að Fats Domino væri á leið til landsins öðru sinni og myndi halda þrenna tónleika í Sjallanum á Akureyri. Ég hugsaði með mér: „Loksins, loksins. Þar kom að því. Nú þarf maður ekki lengur að fara í helgarpakka til Reykjavíkur til að sjá þessa gömlu garpa, sem alltaf eru að heimsækja landann. Þökk sé Ólafi Laufdal!“ Á fimmtudaginn hringdi ég svo í Sjallann, ég ætlaði nefnilega að tryggja mér miða í tíma. En ég varð fyrir miklum og sárum vonbrigðum. Mér var nefnilega tjáð að Fats Domino kæmi til með að halda 9 tónleika á landinu að þessu sinni – og haldið ykkur nú: Gamli garpurinn spilar í Broadway á föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöldi; í Sjallanum á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldi og síðan aftur í Broadway á fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöldi. Já takk, kærlega. Það á sem sagt að bjóða Akureyringum og nágrönnum upp á tónleika á virkum kvöldum en Reykvíkingar sitja einir að helgartónleikunum. Ég lýsi hér með vanþóknun minni á þessu fyrirkomulagi. Svo mikið er víst að ég læt ekki bjóða mér þetta og hef ákveðið að sitja heima. Það er vinnudagur daginn eftir alla tónleikana hér hjá þorra fólks og auk þess skilst mér að aðgöngumiðinn sé jafndýr á tónleikana í Sjallanum og Broadway. Ég ætla bara að vona að fleiri fylgi fordæmi mínu og láti ekki bjóða sér þetta.“

„Hér er heimsfrægur maður á ferð og fólki gefst einstakt tækifæri til að sjá hann á tónleikum hér á Akureyri. Ólafur Laufdal eigandi Sjallans hefur sýnt fram á að líklega verði tap á þessum tónleikum, en sig hafi engu að síður langað til að bjóða Akureyringum upp á þessa skemmtun. Mér verður hugsað til þess núna, að í fyrra, þegar Fats Domino var með tónleika í Broadway, fór fjöldi manns héðan suður, sérstaklega til að sjá kappann skemmta. Samt kostaði það talsverða peninga, flugfarið, gistingin o.fl. Svo eru menn að setja það fyrir sig hversu „dýrt“ sé inn á tónleikana hér. Miðað við það að hér er heimsfrægur skemmtikraftur á ferðinni, finnst mér aðgöngumiðaverðið bara alls ekkert hátt. Og eitt enn. Margir setja það fyrir sig að tónleikarnir eru allir á virkum kvöldum, þ.e. að vinnudagur er daginn eftir. þeir sem það gera, hljóta að rugla tveimur óskyldum hlutum saman: Tónleikum með Fats Domino annars vegar og fylleríi um helgar hins vegar. Ég sé ekki að menn þurfi að vera undir áhrifum áfengis til að njóta þessarar skemmtunar. Fyrir skömmu hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika á Akureyri á fimmtudagskvöldi. Ég man ekki til þess að nokkur maður hafi kvartað, þótt vinnudagur væri daginn eftir. Þótt Fats Domino spili allt annars lags tónlist en Sinfóníuhljómsveitin finnst mér þetta alveg sambærilegt. Ég skora því á alla þá sem unna tónlist Fats Domino að láta nú sjá sig og tryggja þannig að Akureyringar verði áfram inni í myndinni þegar stórstjörnur utan úr heimi heimsækja landið og halda tónleika.“

Á meðan ólík sjónarmið tókust á í dagblöðunum kepptust skipuleggjendur við að undirbúa komu rokkstjörnunnar goðsagnakenndu og tónleikana í Sjallanum. Forsala miða gekk ekki nægilega vel, hverju sem sætti. „Því miður verð ég að segja að aðsóknin mætti vera meiri“ sagði Inga Hafsteinsdóttir í samtali við Dag þann 29. janúar, aðeins fjórum dögum fyrir fyrstu tónleikana. Staðan var litlu betri þegar Domino steig út úr flugvél sinni á snævi þöktum Akureyrarflugvelli þann 2. febrúar. Með í för var Björgvin Halldórsson.

Fats Domino (í hvítum frakka með kúrekahatt) með samferðamönnum við komuna til Akureyrar þann 2. febrúar 1987

 

„Fine, fine“ svaraði Domino sígildri spurningu blaðamanns um álit rokkarans á landi og þjóð og lýsti yfir ánægju með snjóinn. Hann kvaðst aldrei hafa spilað og skemmt fólki á jafn norðlægum slóðum. Með því sama settist hann inn í Benz glæsibifreið og hvarf af vettvangi. Nokkrum klukkustundum síðar var hann mættur ásamt hljómsveit sinni í Sjallann, í fyrsta gigg af þremur.

Blaðamaður Dags var á staðnum og hélt ekki vatni yfir sýningunni sem Domino bauð upp á. „Það er erfitt að finna hin réttu lýsingarorð sem ná yfir þá gríðarlegu stemmningu sem ríkti í Sjallanum á mánudagskvöldið er hinn heimsfrægi Fats Domino hélt þar sína fyrstu tónleika ásamt hinni stórkostlegu hljómsveit sinni. Þessir kappar heilluðu gesti hússins gjörsamlega upp úr skónum og þegar blásarahópurinn hélt í gönguferð út í salinn í lok tónleikanna og blés í leiðinni kröftuglega hið þekkta „When The Saints…“ ætlaði þakið bókstaflega að rifna af húsinu. Þakið hélt þó að þessu sinni enda ýmsu vant, en aldrei hefur önnur eins sveifla dunað í Sjallanum.“

Grenndargralið hafði samband við Björgvin Halldórsson og spurði hann út í heimsókn Domino til Akureyrar og hvernig það kom til að hann sjálfur var með í för.

„Það eru margar sögurnar með Fats. Ég sá um komu hans til landsins sem og komu Jerry Lee Lewis. Það eru fleiri sögur af Fats þegar hann var í Reykjavík. Ég man bara eftir því þegar hann var á Akureyri, þá sagði hann mér persónulega að hann hefði alltaf haldið að Iceland væri í Nova Scotia. Hann stoppaði stutt á Akureyri. Ég var með einu einkaþotuna sem til var á landinu svo þetta var bara „in and out“ ferð.“

Áfram héldu lesendur Dags að láta í sér heyra á síðum blaðsins löngu eftir að Fats Domino kvaddi Akureyri. Viku eftir þriðju og síðustu tónleikana birtust eftirfarandi skilaboð frá manni sem hafði samband við lesendahorn blaðsins.

„Grátkerlingarnar sem vældu sem mest í þessum lesendadálki ykkar vegna þess að tónleikar Fats Domino í Sjallanum voru á virkum dögum en ekki um helgi eru nú þagnaðar og er það vel. Það er líka vonandi að þær haldi sig á mottunni næst þegar boðið verður upp á heimsfræga skemmtikrafta á Akureyri, þótt það verði í miðri viku. Þessi grátkonukór hafði hátt og ein kerlingin hvatti meira að segja fólk til að sitja heima, það væri ekki hægt að bjóða upp á þessa skemmtun þegar vinnudagur væri daginn eftir. Það var ekki þessi tónninn í Akureyringum þegar Ólafur Laufdal opnaði Sjallann með viðhöfn fyrir áramótin og bauð Akureyringum í hundraðatali til veislu. Þá gátu Akureyringar mætt þótt á fimmtudegi væri og annar hver maður var „på skallinn“. Nei þá var ekki vælt, en nú var sveitapólitíkin höfð uppivið. Það eina góða við þetta var það að grátkerlingarnar misstu af þessari frábæru skemmtun, það var gott á þær. Ég vil bara ráðleggja Akureyringum að hugsa málið næst.“

Antoine Dominique “Fats” Domino Jr. lést árið 2017. Hann var 89 ára gamall.

 

Heimildir:

Fats Domino. (2021, 4. janúar). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Fats_Domino

Fyllerí og Fats Domino. [Lesendahornið – Alfreð hringdi] (1987, 2. febrúar). Dagur, bls. 5.

„Grátkórinn“ er þagnaður. [Lesendahornið – Gummi hringdi] (1987, 11. febrúar). Dagur, bls. 5.

Gylfi Kristjánsson. (1987, 29. janúar). „Aðsókn mætti vera meiri“. Dagur, bls. 12.

Stefán Sæmundsson. (1987, 3. febrúar). Fats Domino heilsaði með breiðu brosi. Dagur, bls. 1.

„Þetta læt ég ekki bjóða mér“. [Lesendahornið – Sjallagestur skrifar] (1987, 20. janúar). Dagur, bls. 5.

Mynd af Fats Domino: https://www.nepm.org/post/fats-domino-rip-1928-2017#stream/0

Mynd af Sjallanum: https://restaurantguru.com/Sjallinn-Akureyri

Mynd af Fats Domino og samferðamönnum á Akureyrarflugvelli: http://samflug.com/Flug/Icejet.jpg

Leynist Adam í skápnum þínum?

Um miðja 20. öldina stöðvaði Dómsmálaráðuneyti Íslands sölu á tímariti sem gefið var út á Akureyri. Tímaritið, sem sumir litu á sem saklaust myndablað með gamansömu ívafi, hét Adam. Aðrir töldu Adam fara út fyrir öll velsæmismörk með sínum klámfengna og ósiðlega boðskap. Efni tímaritsins svipaði til danska ritsins Hudibras sem einhverjir kannast ef til vill við. Vafasamar sögur af ólifnaði sjómanna í erlendum hafnarborgum og sögur af arabískum gleðihúsum – svo eitthvað sé nefnt – fóru fyrir brjóstið á þungaviktarmönnum í andlegum málefnum. Ábyrgðarmaður og útgefandi tímaritsins var Páll Guðmundsson.

Fór svo að Lögreglunni var fyrirskipað að fara í bókaverslanir til að gera upplag tímaritsins upptækt sem og hún gerði þann 17. mars á því herrans ári 1952. Vegna íhlutunar ráðuneytisins og aðgerða Lögreglunnar kom aðeins út þetta eina tölublað. Eðli málsins samkvæmt náði það aldrei útbreiðslu. Talið er að eintökin sem Lögreglan tók í sína vörslu hafi endað í ruslinu. Hér er því um afar fágætan grip að ræða og verðmætan eftir því.

Á vefnum Bokin.is – netbókabúð er eintak af þessu merkilega tímariti til sölu. Ástand eintaksins er sagt vera gott og tekið er fram að þarna sé um „mikið fágæti“ að ræða. Fyrir áhugasama skal þess getið að eintakið af Adam er falt fyrir 19.500 krónur.

 

Heimildir:

„Adam“ gerður upptækur! (1952, 19. mars). Dagur, bls. 12.

Bókin ehf. (e.d.) Adam. Mynda- og gamanblað # 20880. Bokin.is. http://www.bokin.is/product_info.php?cPath=732&products_id=20812

Mynd af Lögreglumanni:

Ljósmyndari óþekktur. (1956). Lögregla, umferð. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Þjóðminjasafni Íslands] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=722423

Safnið – Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna

Giljaskóla barst styrkur frá foreldrafélagi skólans í desember síðastliðnum svo fjárfesta mætti í tækjum og tólum fyrir hlaðvarpsþáttagerð í þágu nemenda og starfsfólks. Styrkurinn hefur nú þegar verið nýttur til að koma upp sérstöku hlaðvarpsherbergi í skólanum með tilheyrandi búnaði. Á heimasíðu Giljaskóla segir að „Bæði kennarar og nemendur hafa verið duglegir að nýta sér aðstöðuna til að taka upp hlaðvörp til að nýta í kennslu og til að skila verkefnum.“ Grenndargralinu er ekki kunnugt um hvernig málum er háttað í öðrum grunnskólum bæjarins en telja verður líklegt að aðstaða til upptöku og úrvinnslu á hljóðskrám og myndefni hafi batnað hin síðustu ár með bættri tækni og auknu aðgengi. Kannski er þetta upphafið að fjölmiðlasamsteypu grunnskólanna á Akureyri – hugmynd sem Grenndargralið deildi með lesendum sínum fyrir rétt tæpum sjö árum síðan. Þá má velta fyrir sér hvort hugmyndin eða einhverjir angar hennar eigi erindi inn í umræðu sem reglulega skýtur upp kollinum og er einmitt í brennidepli þessa dagana þ.e. um stöðu drengja í skólakerfinu. Grenndargralið rótar í safninu og glæðir gamla kreppuhugmynd lífi á Covid-tímum. 

Af hverju setjum við ekki á fót fjölmiðlasamsteypu sem borin verður uppi af duglegum og skapandi grunnskólanemum á Akureyri? Kennarar og aðrir sem starfa með börnum eru sífellt að leita leiða við að láta dvölina í skólanum endurspegla sem mest hið daglega líf utan veggja skólans. Raunveruleg og áhugaverð viðfangsefni eins og blaðaútgáfa, útvarpsrekstur, netmiðlar og sjónvarpsþáttagerð gætu skilað þeim árangri sem við erum að stefna að.

En er pláss á fjölmiðlamarkaðnum? Við vitum það ekki fyrr en við látum á það reyna. Ekki eru fordæmi fyrir uppátæki sem þessu á Íslandi og þótt víðar væri leitað og því erfitt að sjá samkeppni sem rök fyrir því að leggja ekki af stað. Er áhugi á því sem grunnskólanemendur hafa fram að færa? Með jafn stóru verkefni og hér um ræðir, með tilheyrandi metnaði og vinnuframlagi barnanna okkar, má alveg reikna með góðum undirtektum í heimabyggð. Hér yrði um ákveðna frumkvöðlastarfsemi að ræða af hálfu skólayfirvalda í bænum. Tækifæri þeirra til að glæða lífi í fögur orð á pappír. Tækifæri til að vera leiðandi í innleiðingu á nýjum og breyttum vinnubrögðum í skólunum og vera þannig í fararbroddi bæjarfélaga sem kenna sig við öflugt skólaþróunarstarf.

Hvað erum við að tala um? Hér er tvennt sem liggur til grundvallar. Annars vegar nám og kennsla, hins vegar skemmtun og afþreying. Eru þessir þættir ekki allir til staðar nú þegar í skólunum? Jú, svo sannarlega eru grunnskólarnir að vinna frábært starf hvern einasta dag. Fjölmargir starfsmenn skólanna reyna eftir bestu getu að stuðla að skapandi starfi og merkingarbæru námi. En betur má ef duga skal. Jafnvel fyrir hugmyndaríka, duglega og framkvæmdaglaða kennara er erfitt að berjast gegn kerfinu, rammanum, íhaldsseminni, peningaskortinum, þægindarammanum, launakjörunum og öllu hinu sem mögulega kemur í veg fyrir að framúrstefnulegar hugmyndir komist í framkvæmd. „Þetta er gömul og ný saga.“ „Þetta hefur alltaf verið svona.“ „Þetta er náttúrulögmál.“

Eigum við ekki bara að spara okkur ómakið, hætta þessari útópíuhugsun og halda okkur við bækurnar, 40 mínútna kennslustundirnar og töflukennslu? Eða eigum við að hætta að tala um skólabæinn Akureyri á tyllidögum og stuðla að raunverulega merkingarbæru námi? Láta verkin tala? Framkvæma? Þorum við að taka næsta skref sem við munum óhjákvæmilega þurfa að taka einhvern tímann á nýrri öld? Vissulega má færa rök fyrir því að núverandi skólaumhverfi mæti þessum þörfum að einhverju leyti. Sagan mun þó kveða upp sinn dóm hvað sem tautar og raular og hvort sem menn telja vel að verki staðið í dag eða ekki. Hvort komandi kynslóðir muni þá taka undir með þeim sem telja grunnskólana halda í við eðlilega þróun skal ósagt látið. En hvernig á fjölmiðlasamsteypa á vegum grunnskólanna að leysa vandann? Hún leysir auðvitað ekki vandann frekar en önnur einstök viðfangsefni. Hún getur þó hugsanlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar.

Skoðum hugmyndina hráa og án allrar fitu og aukaefna. Skólayfirvöld á Akureyri útvega fjármagn til að hefja rekstur á fjölmiðlasamsteypu sem grunnskólarnir hafa veg og vanda að. Allir grunnskólar á Akureyri eiga aðild að rekstrinum og þannig dreifist vinnuframlagið. Margar hendur vinna létt verk! Skólayfirvöld leggja til húsnæði og tæki sem skólarnir nýta í sameiningu utan þess sem nemendur vinna hver í sínu lagi í sínum skóla með þeim búnaði og aðstöðu sem þar er fyrir. Nemendur hvers skóla vinna saman og með nemendum annarra skóla að vissum verkefnum og nýta þá reynslu og kunnáttu sem byggst hefur upp á síðustu árum með tölvuvæðingu skólanna.

Jæja, við skulum staldra aðeins við hér. Hver er svo ávinningurinn því ljóst er að tilkostnaðurinn er ærinn? Skoðum nokkur dæmi um lykilatriði í menntun á 21. öldinni: Lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sköpun, tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun, stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi. Áfram með upptalninguna: Sjálfstæð vinnubrögð, ritun, framsögn, ábyrgð, samskipti,vandvirkni og gagnrýnin hugsun. Allt eru þetta hlutir sem kennarar reyna daglega að kenna, kynna, segja frá og draga fram í fari nemenda með misjöfnum árangri. Heppileg leið fyrir kennara að innræta börnum öll þessi góðu gildi er í gegnum raunveruleg viðfangsefni sem hafa tilgang í þeirra augum – verkefni sem nemendur sjá hag sinn í að leysa af metnaði. Nemendur þurfa að sjá raunverulegan tilgang með því sem þeir eru látnir gera. Þannig læra þeir, þannig efla þeir með sér löngun til að taka framförum, þannig sjá þeir tilganginn í því sem þeir eru að gera. Þetta sést best í skólunum þá daga sem eitthvað stendur til og hefðbundið skólastarf er brotið upp. Allir vinna saman að sameiginlegu markmiði þar sem samkomulag ríkir um að gera hlutina eins vel og mögulegt er.

Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna á Akureyri mun ýta undir vönduð vinnubrögð hvort sem um er að ræða textagerð, framsögn eða meðferð heimilda. Hún mun vekja upp hugleiðingar um sjálfsögð mannréttindi svo sem tjáningarfrelsi og lýðræði. Hún mun stuðla að skapandi og sjálfstæðum vinnubrögðum auk þess sem hún mun auka ábyrgðarkennd og gagnrýna hugsun. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Mynd: Shutterstock

Safnið – Ylströnd við Glerá

Fréttir af fyrirhuguðum baðstað í landi Ytri-Varðgjár – Ætla að byggja baðstað og nýta heitt vatn úr Vaðlaheiðargöngunum – vöktu hugrenningatengsl við gamla grein úr ranni Grenndargralsins. Á erfiðum tímum í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 varð að hugsa út fyrir rammann. Grenndargralið viðraði á sínum tíma hugmyndir um viðbrögð við ástandinu. Hugmyndirnar voru þá meira hugsaðar sem afþreying frekar en raunhæfar tillögur en þó að einhverju leyti vettvangur til að sá mögulegum fræjum á krepputímum. Grenndargralið rótar í safninu og glæðir gamla hugmynd lífi á Covid-tímum. Hugmyndin um suðræna ylströnd við Glerá spratt fram á köldum vordögum árið 2013.

Af hverju segjum við ekki kuldatíðinni stríð á hendur og útbúum okkar eigin mini-útgáfu af Benidorm við Glerá á Akureyri? Af hverju ekki? Ég meina, hvað er málið með þetta tíðarfar? Við fáum 1-2 daga inn á milli þar sem sést til sólar en annars blæs bara kaldur vindur. Snjóhvítar Súlurnar blasa við manni öllum stundum svona til að koma endanlega í veg fyrir að maður komist í sumargírinn.

Sumarþyrstir Akureyringar gera þó sitt til að skapa sumarstemningu. Löngunin eftir hlýindum er slík að þegar hitastigið nær 7-8 gráðum rýkur íssala upp úr öllu valdi, fólk sest niður fyrir utan kaffihúsin með sólgleraugu og á stuttermabolum með svalandi drykk í hendi og ungir ökumenn þeysast um götur bæjarins með blæjuna niðri. Í versta falli leggjum við öll plön tímabundið til hliðar á meðan við fjármögnum sólarlandaferð til þess eins að fylla forðabúrið af D-vítamíni því óvíst er hvort íslenska sumarið nái að fylla á tankinn. Við erum stöðugt minnt á hversu dynttóttir veðurguðirnir eru og þar sem okkur þyrstir svo mjög  í raunverulega suðræna upplifun hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við ættum ekki hreinlega að búa til heita ylströnd í heimabyggð.

Er það hægt? Af hverju ekki? Hugmyndin er svo sem ekki ný af nálinni þar sem bent hefur verið á pollinn milli Drottningarbrautar og Aðalstrætis. Hér skal nefndur annar kostur til sögunnar. Lónið fyrir ofan Glerárvirkjun gæti orðið vinsælasti staðurinn á Akureyri yfir sumartímann. Til að byrja með er staðurinn að mörgu leyti heillandi í þeirri mynd sem hann er núna. Skemmtilegur pollur með fallegri göngubrú og vísi að klettum í suðri en aflíðandi graslendi og vísi að sandströnd í norðri. Og þetta er nú þegar allt til staðar, samspil náttúru og manna. Engu að síður þarf að taka verulega til hendinni á svæðinu ef hugmyndin um suðræna ylströnd á að komast á koppinn.

Hvað þurfum við að gera? Við búum til stórt og öflugt  glervirki sem virkar eins og skjöldur gagnvart köldum vindi en hleypir sólinni í gegn. Aflangur glerkúpull sem staðsettur verður norðan lónsins, þeim megin sem sandströndin er. Já ég veit, slíkt mannvirki tekur á sig mikinn vind og snjó og jarijarija. Ég minni einfaldlega á hugvit og tækniþekkingu mannsins en umfram allt viljann til að vinna framsæknum hugmyndum brautargengi. Glervirkið þarf vissulega að þola íslenska veðráttu. Færir verkfræðingar ráða fram úr því. Sunnanáttin er okkur að mestu hliðholl auk þess sem hækkandi landslag veitir skjól. Lónið er hins vegar berskjaldað gagnvart norðanáttinni og því kæmi glervirkið að góðum notum þar. Kúpullinn er aðeins opinn í suður þ.e. í átt að volgu lóninu. Já, við getum ekki boðið fólki að upplifa alvöru strandarstemningu ef vatnið er jökulkalt. Við dælum því heitu vatni í lónið og jöfnum út hitastigið þannig að hægt verði að taka sér sundsprett án þess að krókna úr kulda.

Nú þegar búið er að tryggja notalegt hitaastig í lofti, láði og legi er hægt að klára það sem upp á vantar til að gera ströndina okkar samkeppnisfæra við Spánarstrendur. Fólk getur valið um að liggja á sólbekkjum inni í glerhýsinu eða á sandinum við lónið ef hitinn verður óbærilegur innandyra. Sandurinn er enn eitt lykilatriðið í að skapa rétta stemningu. Með því að lengja sandströndina og gera hana snyrtilega má laða fólk að. Á graslendinu ofan við sandströndina má reisa smáhýsi þar sem boðið verður upp á þjónustu af ýmsu tagi. Ís til sölu, svalandi drykkir, léttir réttir, sólarvörn, sundkútar, leiga á ýmiskonar varningi svo sem smábátum og sæsleðum. Ekki má nú gleyma salernisaðstöðunni fyrir þambandi gesti í spreng. Setja mætti upp aðstöðu fyrir fólk til að grilla pylsur og sykurpúða. Ekki er lengi verið að útbúa strandblakvöll.

Jafnvel mætti koma fyrir hljóðkerfi  á svæðinu og annarri aðstöðu fyrir tónlistarmenn til að troða upp. Hver vill ekki upplifa 30 gráðu hita við Glerána á sundfötunum einum með svífandi sæsleða fyrir framan sig og lifandi tónlist sumarhljómsveita á borð við Síðan skein sól, Á móti sól og Sóldögg í eyrunum? Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?  

 

Sá hluti myndarinnar sem sýnir meðlimi hljómsveitarinnar SS Sól er fengin af mbl.is. Myndina tók Jón Svavarsson árið 1999.

Tónlist Bigga Hilmars úr Tæringu er komin út

Biggi Hilmars hefur getið sér gott orð sem tónskáld síðasta einn og hálfan áratug eða svo. Hann hefur m.a. samið tónlist fyrir sjónvarpsþætti og heimildarmyndir sem hlotið hafa alþjóðleg verðlaun, gefið út hljómplötur og samið tónlist fyrir leikhús. Biggi gaf á dögunum út nýjustu afurð sína. Um er að ræða plötu með tónlistinni úr sviðslistaverkinu Tæringu sem sýnt var á Kristnesi á nýliðnu ári við góðar undirtektir. Tónskáldið segir svo frá á facebook:

Ég var að gefa út tónlistina úr leikverkinu ‘Tæring’, sem tekur á sögu berklasjúklinga á síðustu öld, en verkið var sýnt sl. haust í Hælinu rétt fyrir utan Akureyri, við góðar undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda og verður líklega endurflutt nk. vor, ef guð lofar ?

Það voru mikil forréttindi að fá að hitta fólk og vinna með því í viku, í algerlega óviðjafnanlegu umhverfi, með yfirsýn yfir Eyjafjörðinn. Ekki síst að vera á þessum sögufræga stað, þar sem margir hafa glímt við mikil veikindi í gegnum tíðina. Það er einhver dulúðleg orka yfir staðnum og umhverfinu og ég held að við sem höfum komið þangað og dvalið, getum verið sammála um það. Ég vann músíkina með sellóleikaranum Grétu Rún Snorradóttur, en við eigum það sameiginlegt að hafa átt langömmur sem glímdu við berkla á Hælinu á síðustu öld, sem er alveg magnað og sýnir okkur hvað við erum tengd og hversu þetta er lítill og brigðull heimur.

Þessi tónlist er ekkert léttmeti, en mig langar samt að deila henni með ykkur, því þetta er ólíkt flestu því sem ég hef gert áður. Þarna settum við okkur í beint samband við öndunarfærin og táknuðum með hjálp sellósins, hörpu og fleiri hljóðfæra þennan ótta, óstöðugleika, þrár og vonir, sem við öll höfum líklega upplifað á sl. misserum.

Njótið vel elsku vinir, með von um að þið tengið!

Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar tónsmíðar Bigga Hilmars skal bent á heimasíðu hans biggihilmars.com.

Hér er hægt að hlusta á tónlistina úr Tæringu.