Fullveldisdagurinn fyrir 100 árum
Grenndargralið sendir góðar kveðjur til lesenda í tilefni fullveldisdagsins. Eftirtaldar fréttir og tilkynningar birtust í Degi, fullveldisdaginn 1. desember árið 1920.
–
Fullveldisdagurinn er í dag. Búðum lokað og almennur frídagur. Hálsbrot eiga þeir í vændum, sem ganga um götur bæjarins. Í fyrrakvöld steyptust margir fram af bakkanum utan við gamla pósthúsið. Kona datt á brunahana og skaðaði sig. Myrkrið á götunum er háskalegt bænum og stjórn hans til skammar. Á ekki bærinn eða getur veitt sér ódýrar olíuluktir, sem hægt væri að hengja á staura, svo hægt væri að gizka á rétta stefnu á götunum í Höfuðstað Norðurlands?
Veikindi eru allmikil hér í bænum. Inflúenzan gengur um með sömu hægð og tekur einn og einn. Stefán skólameistari hefir legið mjög þungt haldinn, en er nú í afturbata. V. Steffensen læknir hefir sömuleiðis verið mjög veikur af völdum inflúenzu og fleiri eru veikir.
Þeir, sem hugsa sér að gefa kransa á kistu Matthíasar Jochumssonar, eru beðnir að gefa heldur minningargjafir í Matthíasarsjóðinn (til styrktar ungum skáldum og listamönnum) eða Heilsuhælissjóð Norðurlands. Upplýsingar á skrifstofu Ragnars Ólafssonar kaupm. og hjá Hallgr. Davíðssyni kaupm. Þetta hafa þeir, sem standa fyrir útförinni, beðið blaðið að birta.
Frá bæjarstjórnarfundi 23. f. m. Ágreiningur varð um það, hvort kirkjan væri eign bæjarins eða safnaðarins, og er óútkljáð. Tillaga kom fram, um að hækka sóknargjöld og er það sömuleiðis óútkljáð.
Gáta. Bændur kvarta um það, að háa kaupið lami landbúnaðinn stórlega. Sjávarútvegsmenn kvarta um það, að atvinnuvegur þeirra þoli ekki háa kaupið. Verkalýðurinn kvartar um það, að atvinna sé þrotin og sumarkaupið komist ekki í hálfkvisti við greipilega dýrtíð. Allir hafa satt að mæla. Hver er ráðningin? Sendið blaðinu ráðningar skýrar, en svo stuttar sem unt er.
Þjófnaði linnir ekki í Reykjavík. Nýlega var stolið frá manni fjárhæð nokkurri og hann gerði lögreglunni aðvart. Þjófurinn var gripinn og var það þá sonur mannsins. Sunnan blöð herma, að til og frá sé stolið um allan bæ ýmsu smávegis. Eru þetta ein af sporum dýrtíðarinnar og peningagræðginnar, sem hún hefir magnað. Guðm. Friðjónsson segir í »Austurlandi« að fólk streymi nú suður í menninguna þá, sem vanti einn lið á hálsinn, en hafi einni kjúku ofaukið í fingrunum, og er það vel sagt.
Heimild: Dagur, 32. tölublað, 1. desember 1920.