main image

Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur

Aðventan er skollin á með tilheyrandi ys og þys. Desember er jafnan annasamur tími hjá fólki sem starfar við verslun. Þrátt fyrir Covid-ástand mun sjálfsagt nú sem fyrr mæða mikið á afgreiðslufólki verslana allt þar til hátíð ljóss og friðar gengur í garð.

Blaðamaður Íslendings leit inn í Blómabúðina Laufás í Hafnarstræti á aðventu 1974. Þar hitti hann fyrir afgreiðslustúlkuna Kolbrúnu Ingu Sæmundsdóttur sem svaraði spurningu hans um það hvernig hún færi að því að undirbúa jólin samhliða því að vinna fullan starfsdag.

Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur.

Minn jólaundirbúningur fer aðallega fram á síðkvöldum og nóttunni. Annars lofa ég sjálfri mér á hverju hausti, að í ár skuli ég undirbúa jólin í nóvember. Enn sem komið er hefur þetta aldrei orðið meira en svikið loforð. Ég baka að vísu snemma smákökur, steiki laufabrauð og geri jólasælgæti með börnunum. En ég tek það ekki nærri mér þó ekki sé skúrað út í hvert horn og börnin ekki klædd nýjum fötum innst sem yst. Ef ég ætlaði mér að baka, skúra, sauma og föndra fyrir jólin með allri vinnunni, er ég hrædd um að lítið væri eftir af mér um jól. Maður er nógu þreyttur samt, þegar blessuð jólin koma, sagði Kolbrún.

Aðspurð sagði hún, að sér þætti annars gaman að vinna í búð fyrir jólin. Það fylgdi því sérstök stemming og galsi þrátt fyrir þreytta og sára fætur.  

Það er Iíka einhvern veginn öðru vísi að afgreiða fólk, sem er að kaupa gjafir til jólanna. Sérstaklega er gaman að afgreiða lítil börn og gamalmenni. Börnin Ieita oft vandlega í búðinni hjá okkur, sérstaklega þau sem hafa takmörkuð peningaráð, og andlitin á þeim ljóma þegar þau detta loks niður á eitthvað sem þeim líkar, heldur Kolbrún áfram. En þrátt fyrir allt kvíði ég alltaf svolítið fyrir hverri jólatörn.

Síðan vék Kolbrún að því að afgreiðslufólkið í blómabúð yrði sérstaklega mikið vart við jólaverslunina. Þá þarf að búa til aðventukransa, pakka jólaskrauti í poka, skreyta greni og ótal margt annað. Hefst þessi undirbúningur gjarnan um miðjan nóvember. Jólaösinni lýkur síðan ekki fyrr en um kl. 3 á aðfangadag, en þá er verslunin búin að senda út síðustu pantanirnar.

Þegar ég kem heim á aðfangadag eru börnin mín búin að skreyta jólatréð og eina sem eftir er að gera er að elda matinn. Ég geri það alltaf sjálf, en að því loknu get ég loksins sest niður. Því miður eru jóladagarnir allt of fljótir að Iíða og þegar maður mætir til vinnu á þriðja í jólum get ég ekki komist hjá því að spyrja sjálfa mig, hvort öll þessi læti fyrir jólin séu virkilega þess virði að þau séu lögð á sig, sagði Kolbrún að lokum.

Heimildir:

Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur. (1974, 13, desember). Íslendingur, bls. 12.

Samsett mynd:

a) Gunnlaugur P. Kristinsson. (1964-1966). Blómabúðin Laufás. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Minjasafninu á Akureyri] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1530442

b) Sérstök stemming og galsi þrátt fyrir sára fætur. (1974, 13, desember). Íslendingur, bls 12. [Kolbrún Inga Sæmundsdóttir við afgreiðsluborðið í blómabúðinni Laufás]

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri

Myndbandstæki og VHS-spólur voru Netflix níunda áratugarins. Ánægjan sem fylgdi því að geta horft á bíómynd eða annað skemmtiefni um hábjartan dag þegar ekkert var sjónvarpið er mörgum eftirminnileg. Í byrjun áratugarins voru myndbandstæki munaðarvara fárra. Þá tóku gjarnan margir sig saman um kaup á einu tæki sem gekk á milli húsa. Einnig var útleiga á videotækjum og spólum mikil á tímabili hjá myndbandaleigum áður en tækjaeign varð almenn.

Vorið 1981 fjallaði Dagur um videoæðið sem þá hafði gripið landann í greininni Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri. Í greininni gefa þrír verslunarmenn álit sitt á sölu myndbandstækja í bænum. Það eru þeir Rafn Sveinsson hjá Hljómdeild KEA, Róbert Friðriksson hjá Akurvík og Stefán Hallgrímsson í Hljómveri.

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri

Myndsegulbönd ryðja sér æ meira til rúms hér á landi. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík er algengt að fjölskyldur í fjölbýlishúsum sameinist um kaup á einu tæki og að einn íbúðareigandinn sjái um að setja tækið af stað þegar dagskrá íslenska sjónvarpsins lýkur. Deilt hefur verið um gæði þess efnis sem fólki stendur til boða, en Ijóst er að mikið af því er í lélegum gæðaflokki. Má t.d. nefna að klámmyndir eru mikið framleiddar fyrir myndsegulbandstæki og hefur slíkt efni sjaldan verið talið menningaraukandi.

Nú eru í gangi þrjú mismunandi kerfi og ekki hægt að nota spólur sem framleiddar eru fyrir eitt kerfanna í annað. Hér á landi er hægt að fá nýjar kvikmyndir, sem ekki eru komnar í kvikmyndahús, og sem íslensk kvikmyndahús hafa fengið einkaumboð fyrir. Að vonum þykir forráðamönnum þeirra hart ef hundruð manna hafa séð myndina. Fyrir nokkru var ein slík mynd, með Robert Redford, sýnd á skemmtistað á Akureyri.

Rafn Sveinsson, hjá Hljómdeild KEA, sagði að sala á myndsegulböndum væri öll að lifna við og hann sagði að a.m.k. eigendur eins fjölbýlishúss hefðu sameinast um kaup á myndsegulbandi. Innan skamms verður lokið uppsetningu á búnaði í öðru fjölbýlishúsi. Hljómdeild KEA hefur í hyggju að gerast umboðsaðili fyrir áteknar myndsegulbandsspólur. Rafn sagði að lögð yrði áhersla á „orginala“ enda eru myndgæði þeirra mun meiri en þeirra mynda sem teknar eru upp úr sjónvarpi.

Myndsegulbandstæki eru einnig til sölu í Akurvík og sagði Róbert Friðriksson, verslunarstjóri, að það færðist í vöxt að einstaklingar fjárfestu í myndsegulbandstækjum, þrátt fyrir hátt verð, sem er frá ellefu og allt upp í 20 þúsund krónur. Akurvík hefur ekki hafið reglulega útleigu á áteknum spólum, en ætlar að gera svipaða hluti og Hljómdeild KEA. Róbert sagði að Akurvík gerði eigendum fjölbýlishúsa tilboð í uppsetningu á myndsegulbandskerfum.

Stefán Hallgrímsson, í Hljómveri, sagði að hans fyrirtæki hefði ekki haft myndsegulbandstæki á lager, en að sjálfsögðu væri hverjum sem hafa vildi útvegað slíkt tæki. Hann benti á að þróun í gerð myndsegulbandstækja væri ákaflega ör og erfitt að segja nokkuð til um hvaða kerfi sigraði að lokum. „Við höfum viljað bíða þar til við gætum boðið eitthvað sem yrði ekki úrelt innan skamms.“ Og Stefán sagði að svo undarlega vildi til að fólk leitaði heldur til Reykjavíkur og keypti sín tæki þar – hins vegar kæmu hinir sömu með tækin á viðgerðarstofuna á Akureyri þegar þau biluðu.

Á sömu síðu, undir liðnum Smátt og stórt segir:

Í frétt hér á síðunni er sagt frá myndsegulböndum sem eflaust eiga eftir að komast í almenningseign innan tíðar. Ýmsar vafasamar myndir er hægt að kaupa í þessi tæki og auðvelt að komast yfir þær eins og eftirfarandi saga, sem er sönn, sýnir Ijóslega. Akureyringur kom inn í verslun í Reykjavík og bað um spólu í myndsegulband. Afgreiðslumaðurinn leit á viðskiptavininn og sagði: „Sex“. Bláeygður Akureyringurinn hélt að afgreiðslumaðurinn ætti við heyrnarvandamál að stríða og svaraði: „Nei, ég ætla bara að fá eina spólu.“

Heimild: Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri. (1981, 21. maí). Dagur, bls. 8.

 

Þegar stórir siga litlum – saga af stríðni og illkvitni

Eftirfarandi grein birtist í Alþýðumanninum í mars 1935. Titill greinarinnar er Þegar stórir siga litlum. Höfundur er Sigurður Kristinn Harpan. Saga af stríðni og illkvitni fyrri tíma.

Þegar stórir siga litlum

Ég geng í hægðum mínum niður Kaupvangsstræti. Nokkur fótmál á undan mér trítla tvær smástelpur og leiðast. Þær eru að koma úr barnaskólanum og labba þarna áfram í sakleysi sínu, háttprúðar og kátar.

Ég hefi eigi lengi gengið, er ég tek eftir því, að nokkrir menn hafa numið staðar í skjóli við vagn, sem stendur á strætinu. Þeir eru eitthvað að pískra sín á milli og benda agnarlitlum strákhnokka, sem hjá þeim stendur. Hnokkinn snýr sér við og glápir heldur vígalegur á litlu telpurnar, sem nú eru að fara fram hjá vagninum. Þegar þær eru komnar spölkorn áfram, hleypur hann eins og kólfi væri skotið á eftir þeim, þrífur handfylli sína í hárið á annari þeirra og lumbrar á henni með kreftum hnefa, talsvert duglega. Því næst snýr hann skjótlega til baka, þangað sem mennirnir fela sig á bak við vagninn og hlægja. En telpurnar halda áfram, furðu hressar eftir árásina.

Ég nem staðar eigi mjög fjarri hinum lífsglöðu mönnum. Mig langar til að kynnast hátterni þeirra nokkru nánar. Það gefst líka tækifæri til þess. Þarna koma tvær ungar, fullvaxta stúlkur, niður strætið. Mennirnir bak við vagninn hlægja, og segja við snáðann: „Þarna koma stúlkur! Hlauptu nú!“ Drengur lætur ekki segja sér þetta tvisvar. Hann hleypur spölkorn á móti stúlkunum, grípur snjó og hnoðar kúlu, en bíður á meðan þær fara fram hjá. Svo sendir hann kúluna og hún kemur í bak annari stúlkunni. Þær snúa sér báðar við, rétt sem snöggvast, en taka svo á rás og hlaupa niður strætið. Mennirnir bak við vagninn hlægja og segja: „Hlauptu! Hlauptu!“ Og snáðinn er þegar rokinn af stað. Hann nær stúlkunum fljótlega, þrífur í kápulaf annarar og rassskellir hana af öllum mætti. Stúlkurnar herða hlaupin, en drengur snýr aftur.

Enn koma tvær ungar stúlkur niður strætið. „Hlauptu!“ segja mennirnir bak við vagninn. Drengur sendir snjókúlu en geigar, því hún flýgur yfir höfuð stúlkunum. Þær heyra hvininn og skima kringum sig nokkuð gustmiklar. Þá espast strákur, æðir á eftir þeim og nær í kápulaf, sem hann hangir hraustlega í, uns stúlkunum tekst að hrista hann af sér.

Mennirnir bak við vagninn ganga hlægjandi burtu, því skemtuninni er lokið. Ég geng líka burtu, og er óneitanlega miklu fróðari en áður, því að nú veit ég, fyrir eigin sjón, hvaða aðferðir þroskaðir drengskaparmenn beita, til að innræta bernskulýðnum mannlund og kurteisi!!

Sigurður Kristinn Harpan

Heimild:

Sigurður Kristinn Harpan. (1935, 26. mars). Þegar stórir siga litlum. Alþýðumaðurinn, bls. 2.

Getum við fengið rúllustigann aftur?

Margir muna eftir rúllustiganum sáluga í Vöruhúsi KEA. Þessum sem flutti viðskiptavinina á milli hæða án þess að þeir þyrftu að hreyfa legg eða lið. Rúllustiginn hvíldi lúin bein aldraðra, sparaði spor miðaldra og gladdi hjörtu ungra í rúma tvo áratugi. Í febrúar árið 1987 birtist skemmtilegur óður til rúllustigans í Helgar-Degi undir heitinu Vöruhús KEA: Margir sakna rúllustigans.

Vöruhús KEA: Margir sakna rúllustigans.

Ósköp hlýtur líf æskunnar að vera fábrotið í dag. Blátt áfram litlaust. Engin ólæti á kvöldin með vatnsbombuslag og dyrabjölluati, allt of langt að hjóla upp á öskuhauga og veiða rottur, engir eltingaleikir við lögguna og síðast en ekki síst; enginn rúllustigi! Þá held ég að æska mín hafi verið blómlegri. Nú sitja börnin heima á kvöldin, glápa á sjónvarp og myndbönd, spila „speisaða“ tölvuleiki og fari þau í Kaupfélagið þá þurfa þau að ganga upp á aðra hæð. Þar er nú kominn verklegur tréstigi með allt of mörgum tröppum sem hreyfast ekkert úr stað.

Rúllustiginn var tekinn í notkun í desember 1964 og hefur lifað mun lengur en dæmi eru til um stiga af þessu tagi. Þegar rúllustiginn bilaði í desember í fyrra þótti einsýnt að hann væri allur og var hann því fjarlægður. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um kaup á nýjum rúllustiga fyrir Vöruhús KEA en óneitanlega hafði sá gamli mikið aðdráttarafl og sakna hans margir, ungir sem aldnir. Ég hvet því hlutaðeigandi að róa að því öllum árum að útvega þessar 3 milljónir sem nýr rúllustigi kostar og setja hann í stað þessa vélarvana stiga sem nú brúar hæðir Vöruhússins. En góður orðstír deyr aldregi og rúllustiginn mun ávallt lifa í minningunni, hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér.

Stefán Þór Sæmundsson ritaði pistilinn fyrir tæpum 34 árum. Hann starfaði sem blaðamaður á Degi á árunum 1986 til 1994. Grenndargralið hafði samband við Stefán. Hann segist lengi hafa verið umsjónarmaður Helgar-Dags þar sem hann deildi alls kyns skoðunum og pistlum með lesendum blaðsins. Umfjöllunin um rúllustigann beri þess keim að hafa verið pistill í þeim anda frekar en frétt.

En skyldu undirtektir hafa verið góðar við ósk Stefáns á sínum tíma um að fjármagn yrði tryggt til kaupa á nýjum rúllustiga? Og aukinheldur, lifir rúllustiginn enn góðu lífi í minningunni?

Ég man ekki eftir að hafa fengið annað en góð viðbrögð – eða góðlátleg. Fólki þótti rúllustiginn alltaf hafa vissan sjarma en sjálfsagt var hann barn síns tíma og búið að skipuleggja annað í okkar ágæta Vöruhúsi. Þess vegna voru engar merkjanlegar undirtektir við fjársöfnun enda engin Facebook eða Karolina Fund eða annað slíkt.

Rúllustiginn lifir samt í minningunn og allt báknið sem KEA var. Amma mín, Hólmfríður Hólmgeirsdóttir, vann lengi í Vefnaðarvörudeild KEA á efri hæðinni og því fór maður alltaf upp í rúllustiganum til að heimsækja hana. Ég man að þetta var dálítið áfall að sjá á eftir flottu leiktæki sem einkenndi Vöruhúsið en líka var þetta þægileg leið til að komast á milli hæða. Fleiri af minni kynslóð voru á sömu skoðun, ákveðin eftirsjá.

Stefán segir að líta megi á rúllustigann sem tákn um blómaskeið Kaupfélags Eyfirðinga þegar myndarlegt vöruhús var rekið og fjölmargar hverfisverslanir, byggingavörudeild og fleira.

KEA átti líka drjúgan hlut í útgáfufélagi Dags og var nokkurs konar ríki í ríkinu, vinnuveitandi og vinur; margir sem minna máttu sín fengu vinnu hjá félaginu og margt gott mætti rifja upp þegar rúllustigans er minnst.

Víst er að margir sakna rúllustigans í Vöruhúsi KEA. Grenndargralið fær orð pistlahöfundar Helgar-Dags í febrúar 1987 að láni og hvetur hlutaðeigandi að róa að því öllum árum að útvega þær krónur sem nýr rúllustigi kostar og setja hann í stað þessa vélarvana stiga sem nú brúar hæðir Pennans Eymundssonar. Við höfum Facebook, við höfum Karolina Fund.

 

Heimildir:

Stefán Þór Sæmundsson. (1987, 6. febrúar). Vöruhús KEA: Margir sakna rúllustigans. Dagur, bls. 2.

Mynd: Minjasafnið á Akureyri. (2020). [Ljósmyndari/Höf. Gunnlaugur P. Kristinsson] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1520701

Safn tímanna í bókinni hennar ömmu

Getur verið að Matthías Jochumsson hafi skrifað til ömmu Rósu (f. 1904) í litlu stílabókina hennar? Í bókina safnaði amma ljóðum og heilræðum frá samferðafólki á fyrstu árum 20. aldarinnar. Bókin er þannig nokkurs konar safn tímanna sem hún lifði á sem ung stúlka. Í dag, 18. nóvember, eru 100 ár liðin frá því að Matthías kvaddi. Sagan um stílabókina hennar ömmu sem hefur að geyma ljóð þjóðskáldsins kemur því upp í hugann.  

Sagan hefst á Kolgrímastöðum í Eyjafirði 1884. Hjónin á bænum, þau Valdimar Árnason og Guðrún Þorkelsdóttir eignuðust þá dótturina Jónínu Valdimarsdóttur Schiöth. Jónína dvaldi í foreldrahúsum fram á unglingsár. Þá réðist hún í vist að Hrafnagili hjá Jónasi Rafnar og síðar hjá Steingrími Matthíassyni yfirlækni á Akureyri. Síðar kynntist hún Karli Friðriki Schiöth kaupmanni á Akureyri. Jónína og Karl giftust árið 1914. Hjónin bjuggu á Akureyri á árunum 1914-1927 er þau fluttu til Hríseyjar.  

Árið 1918 fæddist þeim dóttirin Helga Guðrún og tveimur árum síðar kom Hinrik í heiminn. Hann lést af slysförum árið 1942. Helga dó árið 2012. Þá tóku þau og systurdóttur og nöfnu Jónínu í fóstur á þessum árum. Fyrir átti Karl þrjú börn af fyrra hjónabandi og því verkin ærin á stóru heimili. Um það leyti sem Karl dó árið 1928 tók Jónína að sér annað fósturbarn, Sigurð Jóhannsson sem síðar varð skipstjóri á Akureyri. Árið 1959 flutti Jónína með fjölskylduna í Kópavog. Frá 1965 til dánardags 1. desember 1985 bjó Jónína á Hrafnistu. Hún dó á 102. aldursári.  

Jónína var á sama aldri og Sigrún langamma Jónsdóttir sem bjó á bæ í grennd við Kolgrímastaði. Auk þess voru þær Rósa amma og Jónína tengdar ættarböndum. Því er ekki ósennilegt að samgangur hafi verið milli fjölskyldnanna tveggja meðan amma var að alast upp. Í það minnsta urðu amma og Jónína góðar vinkonur þrátt fyrir 20 ára aldursmun og hélst sá vinskapur svo lengi sem amma lifði. Eftir að amma Rósa hóf búskap kom Jónína reglulega í heimsókn til hennar á meðan hún bjó í Hrísey og dvaldi þá jafnvel yfir nótt.

Fyrir liggur að Jónína og Karl fengu ömmu til starfa á heimili sínu þegar hún var ung stúlka. Þau voru broddborgarar á Akureyri og viðbúið að þau hafi umgengist helstu persónur og leikendur í menningarlífi bæjarins og þannig mögulega amma einnig um tíma. Amma var feimin og þótti henni viðbrigðin mikil að fara úr rólegu sveitaumhverfinu í ys og þys þéttbýlisins. Þá kom leiðsögn Jónínu í góðar þarfir en hún reyndist ömmu afar vel á meðan á vistinni stóð. Hvenær amma bjó hjá Jónínu og Karli á árunum 1914-1927 og hversu lengi er hins vegar stóra spurningin.

Getur verið að amma Rósa hafi hitt Steingrím Matthíasson eða Halldóru Bjarnadóttur á meðan hún var í vist hjá Jónínu og Karli? Leit aldraður Matthías Jochumsson í kaffisopa og hripaði ljóðlínur í litlu ljóðabók ungu þjónustustúlkunnar? Kannski langsótt. Engu að síður skemmtileg tilgáta. Líklega verður að teljast sennilegt að Ó-l-a-f-u-r hafi skrifað ljóð Matthíasar og heilræðin til ömmu, hver svo sem þessi Ólafur var með bandstrikin milli bókstafanna.

Hugsanlega er tilgátan ekki eins langsótt og hún virðist við fyrstu sýn. Fyrir það fyrsta er alls ekki útilokað að leiðir þeirra ömmu og Matthíasar hafi legið saman vegna stöðunnar sem hún gegndi á heimili Jónínu og Karls. Þá eru óneitanlega líkindi með skrift þjóðskáldsins og þeirri sem stílabók ömmu Rósu geymir.

Amma Rósa lést í nóvember 1967. Hvort sem það var Matthías sem skrifaði í grænu stílabókina hennar eða Ólafur, skiptir ekki öllu máli. Mér þykir jafn vænt um bókina hvort heldur sem er. Fyrir mér er hún sem þúsund metsölubækur.

Akureyri, 18. nóvember 2020

Brynjar Karl Óttarsson

 

 

 

 

Grenndargralið fær myndir úr einkasafni í London

Eins og fram hefur komið hefur Grenndargralið verið í sambandi við Tim nokkurn Crook undanfarin misseri í tengslum við hlaðvarpsþættina Leyndardómar Hlíðarfjalls. Faðir hans John Crook dvaldist ásamt herdeild sinni í Kræklingahlíð og Hörgárdal um tveggja ára skeið m.a. við æfingar í vetrarhernaði í Hlíðarfjalli.

John Crook kemur töluvert við sögu í þáttunum. Kveikjan þar að baki var óskýr mynd sem tekin var af honum árið 1941 fyrir framan herbragga við Djúpárbakka í Hörgárdal og höfundur þáttanna rakst á fyrir tilviljun við gerð þeirra.

Sjá Hlaðvarpið leysti gátuna um myndina – þakklátir afkomendur í Englandi.

Fyrr í mánuðinum bárust skilaboð frá Tim. Hann vildi deila nokkrum ljósmyndum úr eigu föður síns heitins með Grenndargralinu – myndum sem teknar eru á Íslandi. Myndirnar sýna John Crook í hópi hermanna en auk þeirra eru nokkrar myndir úr fórum Leslie Londsdale-Cooper. Hann var í sömu herdeild og John Crook á meðan þeir gegndu herþjónustu í Eyjafirði.

Ánægjulegast er þó að sjá skannaða útgáfu af fyrrnefndri mynd í mun betri gæðum af John Crook á Djúpárbakka árið 1941.

 

I have several images I’ve found of my father in Iceland two with other officers, and including a better copy of the original ‘Somewhere in Iceland.’

A fellow officer in the same Hallamshires battalion, York and Lancaster Regiment, Leslie Londsdale-Cooper also took some photographs (two rather blurred).

My family is very grateful for your research and information. Today is remembrance Sunday in Britain and we are remembering the sacrifice the Second World War generation made to fight for democracy and freedom all those years ago.

Tim Crook.

Undrabarnið sem spilaði í Nýja Bíói 1961

Að kvöldi föstudagsins 15. september árið 1961 steig 25 ára gamall bandarískur fiðluleikari að nafni Michael Rabin á svið í Nýja Bíói á Akureyri. Rabin var enginn venjulegur hljóðfæraleikari. Hann var fiðlusnillingur af Guðs náð. Líklega má segja að Akureyringar hafi sjaldan eða aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð hæfileikaríkari listamann stíga á stokk í bænum. Tónlistarfélag Akureyrar efndi til tónleikanna.

Dagur birti frétt um Michael Rabin og tónleika hans í Nýja Bíói í aðdraganda tónleikanna.

„Það er mikill og góður viðburður í tónlistarlífi bæjarins, að tekizt hefur að fá hingað frægan fiðluleikara, bandarískan. Tónleikarnir verða í Nýja bíói föstud. n.k., 15. sept., kl. 9 e. h.

Bandaríski fiðluleikarinn, Michael Rabin, er aðeins 25 ára gamall, fæddur í New York-borg 2. maí árið 1936. Eigi að síður telst hann nú meðal hinna beztu og kunnustu fiðlusnillinga vestan hafs. Hann byrjar tónlistarnám sitt 5 ára gamall og leggur þá fyrst stund á píanóleik, en 7 ára að aldri skiptir hann um hljóðfæri og tekur til að leika á fiðlu.

Hann lærði hjá Ivan Galamian, sem er mjög kunnur fiðlukennari í Ameríku og starfar bæði hjá Julliard og Curtis tónlistarskólunum. Árangurinn hefur verið hinn stórkostlegi ferill Rabins.

Aðeins 13 ára að aldri kom Rabin fyrst fram sem einleikari með hljómsveit. Hann hefur fyrir löngu síðan hlotið fullkomna viðurkenningu, sem fullþroskaður og sjálfstæður listamaður og telst meðal snillinganna á sviði fiðluleiks, sem nýtur frægðar bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra, því fáir eða engir tónlistarmenn á hans aldri hafa ferðast jafn mikið um Bandaríkin og utan þeirra.

Miðar verða EKKI sendir heim, og eru styrktarfélagar Tónlistarfélagsins beðnir að gjöra svo vel og vitja miða sinna í dag og á morgun í Bók búð Rikku og greiða um leið gjald fyrir, sem er nokkuð hærra en venjulega, þar sem tónleikar þessir eru í sérflokki hvað kostnað snertir. Nokkrir aukamiðar verða til sölu á sama stað og við innganginn. (Frá Tónlistarfélaginu.).“

Stutt ævi Michael Rabin var stormasöm. Hann var á hátindi ferilsins þegar kom að tónleikunum á Akureyri. Um það leyti fór þó að halla undan fæti þegar í ljós kom að Rabin þjáðist af ofsahræðslu sem einkum beindist að ótta hans við að detta á sviðinu fyrir framan fullan sal af fólki. Lyfjanotkun þessu samfara hafði áhrif á frammistöðu hans á tónleikum. Rabin náði vopnum sínum í lok sjöunda áratugarins og virtist vera að ná fyrri getu þegar áfallið reið yfir.

Michael Rabin lést árið 1972 eftir höfuðhögg sem hann fékk þegar hann rann á gólfinu heima hjá sér. Hann var 35 ára gamall.

 

Smelltu á myndina til að sjá ótrúlegan flutning Michael Rabin á Caprice No. 5 eftir Niccolò Paganini í Carnegie Hall árið 1953.

Smelltu á myndina til að hlusta á athyglisverðan útvarpsþátt frá BBC um líf og feril Michael Rabin. Í þættinum er m.a. rætt við góðan vin og unnustu Michael Rabin.

Smelltu hér til að sjá brot úr Hollywood-kvikmyndinni Rhapsody frá árinu 1954 með Elizabeth Taylor í aðalhlutverki. Michael Rabin sá um tónlistarflutning í kvikmyndinni. Í myndbrotinu má heyra kunnuglegt stef.

 

Heimildir:

Bandarískur snillingur leikur hér. (1961, 13. september). Dagur, bls. 2.

Bruce Eder. (e.d.). Michael Rabin – Biography by Bruce Eder. Sótt af https://www.allmusic.com/artist/michael-rabin-mn0001203069/biography

Elizabeth Taylor in Rhapsody [myndskeið]. (2007, 19. desember). Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=5THOTNtMuqs

Fiðlusnillingur leikur hér í kvöld. (1961, 15. september). Íslendingur, bls. 5.

Internet Movie Database. (e.d.). Michael Rabin. Sótt af https://www.imdb.com/name/nm0704904/?ref_=nv_sr_srsg_0

Jonathan Coffey (daksrárgerðarmaður). (2012, 11. desember). Twenty Minutes: The Life and Genius of Michael Rabin [útvarpsþáttur]. BBC.

 Michael Rabin – Paganini: Caprice No. 5 – Carnegie Hall (1953) [myndskeið]. (2020, 28. október). Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=ZjOmk4iEDVo

Mynd af Nýja Bíói: Þjóðminjasafn Íslands. (2020). [Ljósmyndari/Höf. Þorsteinn Jósepsson] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2048814

Þegar boðflennur birtust á símalínunni

Hver man ekki eftir að hafa fengið óvænta boðflennu á línuna í símtali á tímum snúrusímanna? Eða ratað óvart inn í símtal sem þriðji aðili og hlustað á samtalið án þess að láta vita af sér? Línum sló gjarnan saman hér áður fyrr og var það kjörinn vettvangur fyrir kjaftasögur. Með tilkomu þráðlausra síma og síðar snjallsíma hefur sögum af þriggja manna samtölum í gegnum síma snarfækkað. Hið sama verður ekki sagt um kjaftasögurnar. Þær finna sér nýjan farveg.

 

Árið 1974 kom upp alvarlegur tæknigalli í símkerfinu á Akureyri. Dagur flutti fréttir af málinu.

„Að undanförnu hafa margir Akureyringar óvart orðið áheyrendur að samtölum samborgara sinna, þegar þeir hafa ætlað að nota síma til innanbæjarsamtala. Bregst fólk eðlilega misjafnlega vel við þessum truflunum, þar sem menn eru því vanastir að aðeins tveir ræði saman í einu í gegnum síma.

Af þessu tilefni hafði blaðið samband við Maríus Helgason, umdæmisstjóra Landssímans og sagði hann að mikil brögð hefðu verið að því undanfarið að línur slægjust saman. Gerist þetta vegna flókins tæknigalla í kerfinu. Er verið að leita að biluninni en verkið gengur seint, bæði vegna erfiðra vinnuskilyrða og mannfæðar.

Sagði Maríus að samskonar bilun hefði orðið á símakerfinu á Akureyri í vetur. Þá tókst 3 starfsmönnum Landssímans að finna bilunina eftir að vera búnir að hringja 6000 símtöl á einni nóttu. Sagði hann að auðveldara væri að finna tæknigallann að degi til þegar símalínurnar væru í notkun. Hvetur hann því fólk til að taka vel símaviðgerðarmönnum, sem kunna að rjúfa samtöl fólks.“

 

Heimild:

Þriðji maður á línunni. (1974, 8. ágúst). Dagur, bls. 8.

Lifandi bær Þorvaldar

 

Í sumarbyrjun árið 1981 birtist pistill í Degi undir heitinu Lifandi bær. Höfundurinn Þorvaldur Þorsteinsson kynnir þar hugmyndir sínar um hvernig glæða megi Akureyrarbæ meira lífi yfir sumartímann. Vissulega hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að pistillinn birtist lesendum Dags fyrir tæpum fjórum áratugum síðan. Mögulega hafa skrif Þorvaldar hreyft við einhverjum á sínum tíma, hver veit? Í það minnsta hefur mannlífið í bænum hin undanfarin sumur minnt á sviðsmyndina sem höfundur dregur upp. En betur má ef duga skal. Alltaf má bæta í þegar menning og mannlíf er annars vegar.

Orð Þorvaldar eiga ekki síður við í dag en árið 1981: „Allt of sjaldan erum við minnt á það að samfélagið hefur upp á annað að bjóða en slys, morð, stríð og slæmar fréttir. Því miður gerist það sjaldan að grímunni er svipt af andlitinu og því leyft að brosa framan í náungann.“

Við verðum líklega öll í þörfinni fyrir blómstrandi menningu og iðandi mannlíf næsta sumar. Grenndargralið skorar þess vegna á bæjaryfirvöld og bæjarbúa að verða við 40 ára áskorun Þorvaldar Þorsteinssonar og gera annars góðu mannlífi Akureyrarbæjar enn hærra undir höfði sumarið 2021.

Þorvaldur lést árið 2013.

 

Lifandi bær

Uppstigningardagur var góður dagur á Akureyri. Kom þar einkum tvennt til; veðrið var ágætt og mannlífið óvenju mannlegt. Zontakonur héldu útimarkað inni í fjöru og lúðrasveit gekk spilandi um götur bæjarins. Mátti víða sjá brosandi andlit i gluggum og sumir gerðu sér ferð út í dyr til að fylgjast með tónlistarmönnunum og njóta tilbreytingarinnar.

En þetta var aðeins einn dagur. Einn af allt of fáum líflegum dögum hér í bæ. Allt of sjaldan erum við minnt á það að samfélagið hefur upp á annað að bjóða en slys, morð, stríð og slæmar fréttir. Því miður gerist það sjaldan að grímunni er svipt af andlitinu og því leyft að brosa framan í náungann. Til þess gefst hvorki tími né tilefni, að því er virðist, — „jafnvel” ekki hér á Akureyri.

Ég legg til að í sumar verði þessu breytt. Í sumar ættum við að nota hvert tækifæri til að lífga upp á miðbæinn okkar og gefa grafalvarlegum vegfarendum tilefni til að afhjúpa jaxlana og tipla ögn léttar um torgið. M.ö.o. gera bæjarbraginn skemmtilegan. Möguleikarnir eru ótalmargir, — ég nefni nokkur dæmi:

Lítill útimarkaður við torgið gæfi miðbænum þekkilegan svip. Í fyrra minnir mig að vísir að útimarkaði hafi verið á torginu. Hann þarf að endurvekja og helst auka við.

Ísvagn á heitum dögum væri kærkominn. Mætti ganga þannig frá vörunni að engin óþrif hlytust af. Ekki ætti pylsuvagn að spilla fyrir stemmingunni. Þó er hann síðri vegna óþrifa sem væntanlega fylgja, því ekki kunnum við enn að ganga um bæinn að mennskum sið. (Nægir að minna á vanþekkingu varðandi notkun rusladalla og óvirðingu við blómaskreytingar á torginu í fyrra).

Hvetja þarf tónlistarfólk til dáða. Tónlistarmaður sem fitlar við hljóðfæri sitt í sólskininu gleður hjarta náungans og léttir honum sporin, Harmonikkuleikari, gítarleikari, flautuleikari eða fiðluleikari, — allt þetta lífgar upp á tilveruna. Er ekki kjörið fyrir nemendur í Tónlistarskólanum að spreyta sig á þennan hátt?

Leikflokkar gætu einnig reynt sig á torginu. Þyrfti lítinn, jafnvel engan viðbúnað svo gaman yrði að.

Og hvað með götumálara eða — teiknara?

Nú finnst einhverjum að draumórar einir séu á ferð. Að fæst af þessu sé framkvæmanlegt í okkar risjótta veðurfari. Þeirri svartsýni svara ég með því að benda á að allt það sem hér hefur verið nefnt er mjög einfalt og auðvelt í meðförum. Auðvelt er að koma því upp með litlum fyrirvara á góðviðrisdegi og hætta við ef syrtir í álinn.

Ég er sannfærður um að hægt er að gera miðbæinn lifandi á einfaldan máta. Ekki skortir möguleikana, aðeins framkvæmdina. Hér ættu einhverjir áhugasamir menn að ýta úr vör. Það þarf einhvern til að brjóta ísinn, — eftir það er leiðin greið. Drífum í þessu í sumar. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Góða skemmtun.

 

Heimildir:

Þorvaldur Þorsteinsson. (1981, 5. júní). Lifandi bær. Dagur, bls. 3.

Mynd af Þorvaldi: akureyri.is

„Afgreiðslufólkið stóð bak við búðarborð og sótti allt sem viðskiptavininn vantaði“

Sennilega muna flestir miðaldra og eldri Akureyringar sem og fólk úr nágrannabyggðarlögum eftir kjörbúð KEA í Hafnarstræti 20. Þá er verslunarfólkið Helga Hallgrímsdóttir og Baldvin Ólafsson eftirminnileg þeim sem gerðu matarinnkaup í Höepfner eins og verslunin var gjarnan kölluð. Baldvin starfaði í Höepfner í rúm 40 ár. Helga starfaði í tæp 50 ár hjá Kaupfélagi Eyfirðinga, lungann úr þeim tíma í Höepfner-versluninni.

Afgreiðslustörf – sambærileg þeim sem Helga og Baldvin sinntu í Höepfner og þóttu sjálfsögð á þeim tíma – fólust að einhverju leyti í meiri þjónustu og nánari samskiptum við viðskiptavini en tíðkast hefur hin seinni ár. Viðskiptavinurinn beið við búðarborðið meðan starfsmaður verslunarinnar sótti vörurnar sem óskað var eftir. Kannski á einhvern hátt sambærilegt við verslunarhegðun þá sem nú er farin að ryðja sér til rúms, ekki síst í covid-faraldrinum, þ.e. netverslun og akstur heim að dyrum.

Í ársbyrjun 1987 tók Helga Jóna Sveinsdóttir, þáverandi blaðamaður Dags, viðtal við Helgu sem þá var nýlega hætt störfum hjá KEA, 71 árs að aldri. Grenndargralið rifjar upp minningar Helgu af afgreiðslustarfinu á bak við búðarborðið í Höepfner og samskiptum hennar við viðskiptavini.

„Ég byrjaði í Höepfner 1942 og starfaði því þar í 45 ár, en tæp 5 ár starfaði ég við annað hjá kaupfélaginu. Ég sótti um vinnu hjá félaginu að sumri til. Það var enga vinnu að fá, en Halldór Vagnsson réð mig í lausavinnu. Hann var þá yfir verksmiðjunum. Hann sagði að það væri ekkert að gera en hann skyldi athuga málið með haustinu. Síðan var ég ráðin í Sjöfn, en var sífellt lánuð í hinar og þessar deildir og þar kom að ég var lánuð í Höepfner í 2 daga og síðan hef ég verið þar. Mér var ekkert skilað til baka aftur. Árið eftir byrjaði Baldvin Ólafsson og hann hætti núna um leið og ég.“

Helga segir að búðin hafi verið eins og heimili. „Við vorum afskaplega heppin með fólk, margt af því starfaði í 10-15 ár. Þetta er orðið allt öðruvísi núna, fólk er kannski í 2-3 mánuði og síðan er það farið í aðra vinnu.“

Hefurðu unnið alveg sleitulaust fullan vinnudag öll þessi 45 ár?

„Já og það má telja þau skipti sem ég hef orðið veik á fingrum annarrar handar. Stelpurnar sem ég vann með sögðu að ég ætti heimsmet í að verða ekki veik. Ég er svo heppin að ég er alveg stálhraust og ég held að ég kunni ekki almennilega að meta það. Ég átti að hætta þegar ég varð sjötug, en því var alltaf slegið á frest og svo hætti ég loks núna. Fólki er sagt upp þegar það er sjötugt, en svo stóð þannig á að það var enginn til að leysa af síðast liðið sumar svo ég var áfram og síðan dróst þetta fram að áramótum.“

Við hvað starfaðir þú í Höepfner?

„Bara við allt. Það er ekkert svo verkaskipt þarna, það vinna allir við allt. Ég held að ég fari rétt með að Höepfner hafi verið breytt í kjörbúð 1957, áður voru þetta tvær búðir. Öðrum megin var mjólkur- og brauðbúð og hinum megin önnur matvara, en síðan var þilið á milli tekið niður og þessar tvær búðir sameinaðar í eina.“

Hvernig finnst þér að vera hætt eftir öll þessi ár?

„Ég er ekki búin að átta mig á því, mér finnst ennþá eins og ég sé bara í nokkurra daga fríi. Ég held að það verði voðalega skrítið þegar frá líður af því ég er svo hraust og þó ég sé orðin ævagömul finnst mér ég ekki vera neitt gömul. Annars hef ég nóg að gera, ég á mikið af blómum sem ég get sinnt og ég hef alla ævi unnið mikla handavinnu og ég held því áfram, ég les líka mikið, þannig að ég kvíði ekkert aðgerðaleysinu.“

Helga er sennilega ein af örfáum Innbæingum sem þar eru fæddir og hafa aldrei átt annars staðar heima. „Ég fæddist í Lækjargötu 6 og er líklega bara nýfædd þegar foreldrar mínir flytja í þetta hús, Aðalstræti 44 og hér hef ég átt heima síðan. Núna bý ég hér ein, en áður var hér margt fólk, jafnvel nokkrar fjölskyldur, en núna er rétt pláss fyrir mig eina,“ segir Helga og hlær. „Stofan í þessu húsi þykir nú ekki stór, en í henni bjuggu eitt sinn hjón með 5 börn, þar fyrir utan var a.m.k. ein önnur fjölskylda í húsinu, ef ekki tvær.“

Þú hefur væntanlega upplifað gífurlegar breytingar í verslunarrekstri í bænum?

„Já, auðvitað hafa orðið miklar breytingar, en það er svo skrítið með það að mér finnst ég ekki hafa fundið svo mikið fyrir þeim. Þetta gerist hægt og sígandi og maður aðlagast nýjungunum og finnst þetta alltaf hafa verið svona. Jú, auðvitað er þetta allt öðruvísi en þegar ég byrjaði. Þá þurfti að afgreiða hverja manneskju með allt sem hún keypti. Afgreiðslufólkið stóð bak við búðarborð og sótti allt sem viðskiptavininn vantaði. Þá þurftum við að vigta alla hluti, hveiti, sykur, haframjöl og allt.“

En að lokum, Helga, þekkirðu ekki alla viðskiptavini í Höepfner?

„Jú, jú, ég þekki alla, kannski ekki með nafni, en það þekkja mig allir með nafni. Þetta er allt indælis fólk sem verslar í Höepfner, mikið sveitafólk og eldra fólk og ég held að við höfum verið alveg einstaklega heppin með viðskiptavini.“

 

Baldvin Ólafsson og Helga Hallgrímsdóttir létu af störfum fyrir aldurs sakir um áramótin 1986-87. Baldvin lést árið 2015. Helga lést árið 1988.

 

 

Heimild: Helga Jóna Sveinsdóttir. (1987, 14. janúar). Búðin var mitt annað heimili. Dagur, bls. 2.

Mynd af Helgu Hallgrímsdóttur og viðskiptavini: Minjasafnið á Akureyri. (2020). Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1526310

Mynd af Baldvini Ólafssyni: Mbl.is. (2015). Fengin af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1567830/

Mynd af Hafnarstræti 20: Grenndargralið (2006).