main image

Magni sigraði landslið og lokahönd lögð á nýjan Þórsvöll

Fyrir 40 árum, sunnudaginn 6. júlí árið 1980 fór fram knattspyrnuleikur milli karlaliðs Magna frá Grenivík og grænlenska landsliðsins. Grænlenska liðið var í heimsókn á Akureyri til að taka þátt í þriggja landa móti ásamt Íslandi og Færeyjum. Hér var um tímamót að ræða því leikur Íslands og Færeyja var fyrsti landsleikur í knattspyrnu karla sem háður var á Akureyri.

Dagurinn hófst á því að Magnamenn fóru með gestina frá Grænlandi í heimsókn á kjúklingabúið að Sveinbjarnargerði. Þaðan var haldið til sr. Bolla Gústavssonar í Laufási áður en boðið var til léttrar máltíðar fyrir leik.

Í frétt um leikinn í Degi segir að hann hafi verið vel leikinn af beggja hálfu og skemmtilegir taktar og gott samspil leikmanna hafi sést á köflum. Grenivíkingar höfðu betur með tveimur mörkum Jóns Lárussonar gegn einu marki Grænlendinga.

Um 350 manns horfðu á leikinn og að honum loknum buðu Grenvíkingar leikmönnum og starfsfólki grænlenska landsliðsins til veislu.

Sömu helgi og leikur Grenvíkinga og Grænlendinga fór fram, unnu 60-70 manns að því að leggja þökur á nýjan knattspyrnuvöll Þórs í Glerárhverfi. Í Degi segir að áætlað sé að leika vígsluleik á nýja vellinum um haustið og taka hann svo í notkun sumarið eftir.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra úr hópi þeirra sem unnu við þökulagninguna umrædda helgi. Myndin birtist í Degi 8. júlí 1980.