main image

D´Eyncourt tók myndirnar í Lögmannshlíð í ágúst 1940

Walter Tennyson D´Eyncourt (1899-1994) var breskur kvikmyndatökumaður og ljósmyndari í seinni heimsstyrjöldinni. Auk þess að festa atburði styrjaldarinnar á filmu í heimalandinu, vann hann fyrir breska herinn í Frakklandi, Egyptalandi, Þýskalandi og á Íslandi á árunum 1939-1945.

Tennyson D´Eyncourt dvaldist á Íslandi um mánaðarskeið árið 1940 og tók þá mikið af myndum. Hann hafði bæði ljósmyndavél með sér hingað til lands sem og kvikmyndavél. Myndirnar sem sýna veru setuliðsins hér á landi er einhver besta heimild sem til er um stríðsárin á Íslandi og margar hverjar hafa birst á opinberum vettvangi við hin ýmsu tækifæri síðustu 80 árin.

Grenndargralið hefur upp á síðkastið fjallað um myndband og ljósmyndir sem breski herinn lét gera/taka sumarið eða haustið 1940 þar sem fjölskylda í Lögmannshlíð ofan Akureyrar kemur við sögu. Nú liggur fyrir að Walter Tennyson D´Eyncourt er maðurinn á bak við vélarnar í Lögmannshlíð og því jafnframt ljóst að myndirnar eru teknar í ágúst 1940.

Við frekari uppgröft á heimildum í tengslum við málið gróf Grenndargralið upp enn eina myndina úr myndaseríunni frá Lögmannshlíð. Á henni má, meðal annarra, sjá Torfa Guðmundsson með Málfríði dóttur sína í fanginu. Torfi lést þegar Málfríður var 10 ára, árið 1949. Samkvæmt heimildum Grenndargralsins er myndin ein sinnar tegundar þar sem Torfi heldur á dóttur sinni og mögulega sú eina sem til er af þeim feðginum saman.

Á bakhlið myndarinnar má lesa eftirfarandi texta: „Menn úr Lincoln-herdeildinni í veislu sem haldin var fyrir þá á sveitabæ á Akureyri. Tekin af kapt. Tennyson D´Eyncourt árið 1940.“

Í viðtali frá árinu 1978 segir Tennyson D´Eyncourt stuttlega frá veru sinni á Íslandi. Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir neðan. Frásögnin af Íslandsdvölinni byrjar á 15:38 og endar á 16:40.

Hver sendi Bruun póstkortið frá Akureyri?

 

„Segja má að Daniel Bruun hafi verið einn af brautryðjendum í rannsóknum menningarminja á Íslandi. Þessi afkastamikli áhugamaður vann Íslandi ómetanlegt gagn.“

Svo skrifar Þór Magnússon í formála bókarinnar Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár sem Bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út árið 1987.

Daniel Bruun (1856-1931) var liðsforingi í danska hernum og fornleifafræðingur. Hann kom margoft til Íslands um aldamótin 1900 til að rannsaka kuml. Hann tileinkaði sér vísindaleg vinnubrögð við rannsóknir sínar, gerði kort af kumlstöðunum, teiknaði þau upp til að sýna afstöðu beina og gripa og lét kyn- og aldursgreina mannabein sem fundust í kumlunum. Slík vinnubrögð voru ekki sjálfgefin á þessum tíma.

Daniel Bruun var afkastamikill þegar kom að rannsóknum á Íslandi. Sennilega hefur enginn safnað jafn miklum upplýsingum um íslenska þjóðmenningu og hann gerði á árunum 1896-1910. Hann dvaldist lengi á Dalvík við rannsóknir sem og á Gásum. Mikið ef rannsóknargögnum liggur eftir Daniel Bruun í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn, teikningar og ljósmyndir.

Margar af ljósmyndum þeim sem Daniel Bruun tók á Íslandi eru fyrir löngu orðnar sígildar, myndir sem hvert mannsbarn þekkir. Ein úr þeim hópi er myndin af Svanfríði Jónasdóttur, mjaltastúlku sem lengi var vinnukona á hinum ýmsu bæjum í Bárðardal. Myndina tók Bruun að bænum Lundarbrekku árið 1897 (sjá mynd).

Daniel Bruun kom í nokkrar heimsóknir til Akureyrar á meðan rannsóknum hans stóð, þá fyrstu árið 1896. Í áðurnefndu Þjóðminjasafni Dana er til póstkort sem sent var til Bruun í Danmörku, frá Akureyri. Kortið er dagsett 18. júlí 1912 og stimplað þremur dögum síðar.

Grenndargralið spyr hvað var skrifað á kortið og hver skrifaði textann?

Vissi Hergé af myndinni þegar hann skrifaði Dularfullu stjörnuna?

Knud Rasmussen fór fyrir rannsóknarleiðangri til Grænlands árið 1933. Leiðangurinn var sá sjöundi í röðinni og gekk hann undir nafninu Thule-leiðangurinn. Sá fyrsti var farinn árið 1912. Þessi sjöundi leiðangur Rasmussen hófst í Reykjavík þegar hann kom þar að landi á rannsóknarskipi sínu Nordstjernen. Nokkru fyrr hafði snekkja sem einnig tilheyrði leiðangrinum komið til hafnar í Reykjavík. Henni var ætlað að sigla í samfloti með rannsóknarskipinu til Grænlands. Rasmussen kom sér fyrir í snekkjunni. Ef marka má grein sem birtist í Fálkanum stuttu eftir að leiðangurinn lagði úr höfn í Reykjavík, var flugvél komið fyrir um borð í Nordstjernen á Íslandi áður en skipið hélt til Grænlands. Til er mynd á Þjóðminjasafninu í Kaupamannahöfn sem sýnir Nordstjernen við bryggju á Akureyri. Ef rýnt er í myndina má sjá flugvél af gerðinni Heinkel á skuti skipsins. Í lýsingu með myndinni segir að skipið tilheyri sjöunda Thule-leiðangri Knud Rasmussen (Skibet er sansynligvis et af fire, der deltog i den syvende Thuleekspedition ledet af Knud Rasmussen). Ekki fylgja með upplýsingar hvort myndin er tekin áður en lagt var af stað til Grænlands eða eftir Grænlandsförina.

Rannsóknarskipið Aurora kom við á Akureyri í vísindaleiðangri sem einnig var farinn á fyrri hluta 20. aldar. Ætlunin var að rannsaka loftstein sem lenti í Norður-Íshafi. Um borð í Auroru var ekki ómerkari maður en sjálfur Tinni, félagi hans Kolbeinn kafteinn og hundurinn Tobbi. Þeir félagar komu til Akureyrar til að ná í olíu. Á Akureyri hittu þeir Runólf, gamlan félaga Kolbeins en saman fóru þeir á ónefnt kaffihús í bænum og pöntuðu sér sódavatn og whiskí. Eftir stutta viðdvöl á Akureyri héldu þeir för sinni áfram. Heimsókn Tinna og félaga til Akureyrar birtist í tíundu Tinnabókinni Dularfulla stjarnan sem kom út árið 1942. Hún var jafnframt fyrsta Tinnabókin sem gefin var út í lit. Sagan hafði reyndar birst í víðlesnu barnablaði í Belgíu sem framhaldssaga árin 1941-1942. Teiknimyndapersónan Tinni var búin til af belgíska myndasöguhöfundinum Georges Prosper Remi, betur þekktur sem Hergé.

Gaman er að bera þessar tvær sögur saman. Ekki síst vegna þess að Akureyri er sögusvið þeirra beggja en önnur er byggð á sönnum atburðum á meðan hin er skáldskapur frá upphafi til enda. Eða…? Rannsóknarskip Rasmussen (Norðurstjarnan) sigldi til Grænlands árið 1933. Rannsóknarskip Tinna Aurora (Norðurljós) hélt af stað áleiðis til Grænlands í skrifum Hergé árið 1941. Bæði komu skipin til Akureyrar og um borð beggja skipanna voru sjóflugvélar. Um borð í Norðurstjörnunni var þýsk flugvél af gerðinni Heinkel. Um borð í Auroru var þýsk flugvél af gerðinni Arado Ar 196. Svo skemmtilega vill til að þessar tvær gerðir flugvéla eiga ýmislegt sameiginlegt. Sem dæmi voru þær báðar hugsaðar til flutninga með skipum eins og tilfelli Nordstjernen og Aurora sýna glöggt. Arado-vélin leysti Heinkel-vélina af sem aðal sjóvélin hjá þýska flotanum við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar um það leyti sem Hergé skrifaði Dularfullu stjörnuna.

 

Arado Ar 196. (2020). Wikipedia. Sótt 27. september 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Arado_Ar_196

Dr. Knud Rasmussen. (1933, 22. júlí). Fálkinn, bls. 3.

Heinkel He 60. (2020). Wikipedia. Sótt 27. september 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Heinkel_He_60

Knud Rasmussen. (1933, 8. júlí). Vísir, bls. bls. 3.

Knud Rasmussen. (2020). Wikipedia. Sótt 27. september 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Knud_Rasmussen

Nationalmuseet. (e.d.). Skib i havn på Island med luftfartøj(Heinkel). Sótt af https://samlinger.natmus.dk/THM/asset/15916

Átt þú skafinn kálfshaus í safninu þínu?

Haustið 1925 komu ný frímerki á markað hér á landi, alls 5 talsins. Frímerkin höfðu mismunandi verðgildi, myndefnið var fjölbreytt og litirnir einnig. Ekki voru allir á eitt sáttir með útkomuna. Pistlahöfundur Dags á Akureyri úthúðaði nýju frímerkjunum á forsíðu blaðsins þann 29. október, sagði þau vera „eins og meðalábreiður á stærð og ósmekkleg í alla staði. Ber þessi frímerkjagerð ekki vott um mikinn smekk hjá forráðamönnum og tekur lítið fram frímerkjagerðinni hér um árið þegar gefin var út mynd af Jóni Sigurðssyni.“

Hér vísar höfundur líklega í frímerki sem Friðrik VIII Danakonungur samþykkti árið 1910 að framleidd yrðu ári síðar í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli sjálfstæðishetjunnar. Merkið var skreytt prófílmynd af Jóni. Frímerkið, sem er merkilegt af þeirri ástæðu að það er hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem manneskjan á frímerkinu er hvorki þjóðhöfðingi né konungsborin, féll svo sannarlega ekki í kramið hjá pistlahöfundi blaðsins. Hann segir myndina af Jóni Sigurðssyni vera „miklu líkari því, að þar væri skafinn kálfshaus en mynd af manni.“

Eins og flestum er kunnugt ganga gömul frímerki kaupum og sölum þar sem háar fjárhæðir koma við sögu í sumum tilfellum. Gaman er að velta fyrir sér verðgildi „kálfshaussins“ í dag. Líklega nær það ekki sömu hæðum og yf­ir­stimplaða fimm aura frí­merkið íslenska frá ár­inu 1897 sem metið var á eina milljón króna þegar það var boðið upp í Bandaríkjunum árið 2008. Í frétt Morgunblaðsins á sínum tíma um uppboðið kom fram að umrætt eintak af frímerkinu væri hið eina sem eftir væri í heiminum sem vitað væri um. Í kjölfar fréttarinnar gaf maður í Eyjafirði sig fram sem taldi sig mögulega eiga eintak í safninu sínu.

Grenndargralinu ekki kunnugt um hvort Eyfirðingurinn datt í lukkupottinn árið 2008. Gaman væri að fá fréttir af því og eins því hvort einhverjir lumi á Jóni Sigurðssyni í líki kálfshöfuðs í frímerkjabókunum sínum.

„Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949 ljóslifandi á filmu“

Ég tók viðtal við Málfríði Torfadóttur og las ævisögu Dr. Kristins Guðmundssonar í sumar. Þetta gerði ég í tengslum við hlaðvarpsþættina Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fjalla um veru setuliðsins í fjallinu á stríðsárunum. Í báðum þessum tilvikum beindist athyglin að samskiptum Málfríðar, Kristins og fjölskyldu þeirra við setuliðið. Fyrir nokkrum dögum birtust þau mér á góðri stund með breskum hermönnum, í myndbandi sem breski herinn lét gera á stríðsárunum. Aukinheldur sjást aðrir fjölskyldumeðlimir í myndbandinu sem höfðu komið við sögu í spjalli okkar Málfríðar og í ævisögu Dr. Kristins.

Málfríður lýsti fyrir mér hversu Bretarnir hrifust af litlu stúlkunni með ljósu lokkana og hvernig þeir óskuðu eftir því að fá að halda á henni. „Við eigum nefnilega eina svona heima í Englandi“ sagði hún mér að þeir hefðu sagt við heimilisfólkið á bænum. Kristinn lýsir erfiðu hlutskipti foreldranna í ævisögu sinni þegar þeir þurftu að hlúa að köldum og hröktum setuliðsmönnum sem höfðu lent í hrakningum í Hlíðarfjalli. Að vera búinn að heyra og lesa þessar sögur og fleiri til sem gerðust fyrir 80 árum síðan og sjá svo litlu stúlkuna með ljósu lokkana, manninn sem vann náið með breska setuliðinu á Akureyri og gömlu hjónin sem hlúðu að hætt komnum setuliðsmönnum í Hlíðarfjalli – lifna við á tölvuskjánum – þótti mér alveg stórmerkilegt.

Ég hafði samband við Önnu Kristínu Arnarsdóttur. Hún er dóttir Málfríðar og hafði milligöngu um fund okkar Málfríðar í sumar. Ég vildi láta hana og fjölskyldu hennar vita af þessari skemmtilegu uppgötvun. Eftir að hafa horft á myndbandið fékk ég svar frá Önnu Kristínu.

Þúsund þakkir fyrir þetta Brynjar. Ég bara táraðist. Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949, ljóslifandi á filmu. Ég hef aldrei séð hann áður á kvikmynd. Bræður hans afa, Dr. Kristinn og Sigfreður eru þarna líka og ættin hennar mömmu eins og hún leggur sig. Konan sem stendur með arm hermanns um axlir heitir Sigþrúður. Mamma sagði mér að hann hefði verið svolítið skotinn í henni. Ég verð að skjótast í dag til mömmu og pabba og leyfa þeim að sjá.

Eftir að Anna Kristín hafði sýnt foreldrum sínum myndbandið seinna þennan sama dag og rætt við þau um fræga ljósmynd sem minnst var á í greininni á undan, fékk ég skilaboð frá henni.

Foreldrum mínum þótti virkilega gaman að sjá myndböndin í dag og ekki laust við að pabba vöknaði um augun að sjá mömmu trítla þarna. Honum fannst líkleg kenningin um að þetta hefði verið sett upp þ.e. af Kristni. Mamma sagði að amma hefði ekki viljað tala við Þór Whitehead um ljósmyndina á sínum tíma, þ.e. ekki gefa neitt upp…hún var mjög spes kona og átti erfiðar minningar vegna ótímabærs fráfalls afa míns. Mamma var spennt yfir myndbandinu en setti pínu hljóða. Kannski skrítið að sjá pabba sinn ljóslifandi og aðra nána ættingja. Hún man eftir pabba sínum en hún var 10 ára þegar hún missti hann. Mamma og pabbi voru mikið að velta fyrir sér hvers vegna hin amma hennar hefði verið í Lögmannshlíð (þessi með gleraugun). Kannski bara til að hitta mömmu og Daney ömmu mína. Þeim fannst það reyndar ekki ósennilegt að það hefði verið út af myndatökunum þar sem Torfi var tengdasonur hennar og túlkur hersins og þess vegna hefði fjölskyldunni verið hóað saman.

Sagan af áróðursmyndbandi breska hersins er dæmi um eina af mörgum spennandi hliðarsögum sem skutu upp kollinum við gerð fyrrnefndra hlaðvarpsþátta. Hliðarsögur sem mér finnst að eigi erindi. Margt áhugavert kemur í ljós í sögugrúskinu, nú síðast myndin í upphafi greinarinnar af setuliðsmönnunum á hertrukknum framan við Lögmannshlíðarkirkju. Hún er greinilega tekin við sama tækifæri og myndbandið. Það fer ekki framhjá neinum sem ber þetta tvennt saman. Myndina fann ég í netheimum klukkustund áður en ég kláraði þennan greinarstúf. Hana hef ég aldrei séð áður svo ég velti því fyrir mér hvort fleiri myndir frá samkomunni í Lögmannshlíð á stríðsárunum leynist á safni í London.

Sagan um myndbandið er líka gott dæmi um hvernig ólíkir sögulegir atburðir geta tengst -atburðir sem við fyrstu sýn virðast eiga lítið sameiginlegt. Frægur hershöfðingi sem stýrði atburðarásinni í Dunkirk í Frakklandi í maí og júní 1940. Hvaða erindi á hann til Akureyrar og í Hörgárdal í október sama ár? Er tilviljun að hann er sögumaður í myndbandi sem ætlað er að skapa jákvætt viðhorf gagnvart dvöl breska hersins á Íslandi? Myndbandi sem gefið er út tveimur mánuðum eftir veru hans hér á landi. Við nánari athugun kemur í ljós að fjölskylda í nágrenni Akureyrar spilar stóra rullu í myndbandinu án hennar vitundar þar til nú. Það eru stóru tíðindin í þessu öllu saman. Fólk og athafnir þeirra sem horfið var í gleymskunnar dá, lifnar við áratugum síðar. Sagan er ekki „history“, hún er hluti af samtímanum, hún skiptir fólk máli og hún er lifandi. Myndbandið af fjölskyldunni í Lögmannshlíð er skýrt dæmi um það.

Fjölskylda í Lögmannshlíð birtist í myndbandi breska hersins

Í lok september árið 1940 birtu staðarblöð á Akureyri tilkynningu þess efnis að breska setuliðið væri búið að opna skrifstofu á Ráðhústorgi 7. Skrifstofan bar heitið Hirings and Complaints Office – Northern Iceland. Þangað áttu þeir að leita sem vildu kvarta undan setuliðinu svo sem vegna skemmda á eigum, skaðabótakrafna og annars konar deilumála.

Þriggja manna nefnd var fengið að skera úr um mál sem skrifstofunni bárust. Í nefndinni sátu tveir yfirmenn í breska herliðinu og Dr. Kristinn Guðmundsson síðar utanríkisráðherra og ambassador. Gera má því skóna að Kristinn hafi þannig verið í aðstöðu til að eiga í nánari samskiptum við yfirmenn breska setuliðsins en tíðkaðist hjá hinum almenna bæjarbúa þess tíma.

Dr. Kristinn kom nokkuð við sögu í hlaðvarpsþáttunum Leyndardómar Hlíðarfjalls sem Sagnalist gaf út í sumar. Einn af viðmælendum í þáttunum er Málfríður Torfadóttir, fædd í apríl 1939. Og það er hérna sem málið tekur óvænta en afar skemmtilega stefnu.

Títtnefndur Kristinn var föðurbróðir Málfríðar. Stjórnanda hlaðvarpsþáttanna, þeim hinum sama og þessi orð ritar, var kunnugt um skyldleika þeirra á meðan vinnu við gerð þáttanna stóð vegna ljósmyndar sem tekin er í hlíðinni ofan Akureyrar og margir þekkja frá fyrri tíð. Myndin sýnir Málfríði í fangi móður sinnar þar sem þær eru umvafnar fjölskyldumeðlimum og tveimur setuliðsmönnum. Myndin hefur víða birst opinberlega í gegnum tíðina, bæði í bókum og blöðum. Kristinn er ekki á myndinni en hún varð engu að síður tilefni samtals okkar Málfríðar um hann þegar við hittumst vegna þáttagerðarinnar. Þannig fékk ég vitneskju um fjölskyldutengsl þeirra tveggja.

Fyrir tilviljun horfði ég núna um nýliðna helgi á gamalt áróðursmyndband á youtube sem breski herinn lét gera árið 1940 um veru setuliðsins hér á landi. Myndbandið sem um ræðir er hið sama og Grenndargralið hefur áður fjallað um í tengslum við heimsókn Gort lávarðar til Akureyrar. Ég kunni engin deili á fólkinu eða umhverfinu á meðan ég horfði á myndbandið en fannst þó sem ég kannaðist við eitthvað. Ég áttaði mig samt ekki á því hvað það var. Í myndbandinu má sjá setuliðsmenn blanda geði við íslenskt sveitafólk á öllum aldri á bæjarhlaði úti í sveit. En hvar? Og hvaða fólk var þetta?

Eitt augnablik fannst mér sem ákveðin líkindi væru með myndbandinu og ljósmyndinni án þess að átta mig á í hverju þau fælust. Ég sótti bók með myndinni í og bar saman til að taka af allan vafa. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Sama fólk var á myndinni og í myndbandinu sem tekið var í Lögmannshlíð ofan Akureyrar og sýnir heimilisfólkið á bænum. Greina má Lögmannshlíðarkirkju í bakgrunni. Meðal þeirra sem koma fram í myndbandinu eru Málfríður og Kristinn föðurbróðir hennar auk fleiri fjölskyldumeðlima. Kristinn átti Lögmannshlíð sem líklega skýrir staðsetninguna en bróðir hans Sigfreður rak búið. Foreldrar þeirra bræðra bjuggu hjá Sigfreði og eiginkonu hans Sigþrúði.

Stórfjölskyldan er meira og minna öll spígsporandi í myndbandinu, fáeinum metrum austan og ofan við kirkjuna og í sínu fínasta pússi. Ekki er óvarlegt að álykta sem svo að henni hafi þarna verið hóað saman vegna myndatökunnar. Kannski fyrir tilstuðlan Kristins vegna tengsla hans við breska setuliðið og/eða vegna Torfa, föður Málfríðar sem einnig bregður fyrir í myndbandinu og starfs hans sem túlkur hjá hernum. Ekki er þó hægt að fullyrða nokkuð um það. Gort lávarður og föruneyti hans var statt á Akureyri 21. október 1940, u.þ.b. mánuði eftir að Kristinn tók til starfa í nefndinni sem áður var nefnd.

Vegna þess að Málfríður birtist í myndbandinu er hægt með góðu móti að tímasetja það. Myndbandið er tekið sumarið eða haustið 1940 og því ekki útilokað að það hafi gerst á meðan Gort dvaldist á Akureyri. Ef ekki, þá er í það minnsta víst að það er tekið skömmu áður en hann kom til landsins og engum vafa undirorpið að það var notað í áróðursskyni. Vafalítið hefur það komið fyrir augu fjölmargra Breta á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Smelltu á myndina hér að neðan til að horfa á aðra útgáfuna af myndbandinu. Fjölskyldan í Lögmannshlíð birtist á 1:15.

Smelltu á myndina hér að neðan til að horfa á hina útgáfuna af myndbandinu. Fjölskyldan í Lögmannshlíð birtist á 0:24.

Ég hafði samband við dóttur Málfríðar til að láta hana og hennar fólk vita af tilvist myndbandsins. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Segir af því síðar.

 

Framhald…

 

 

Hvað var tígurinn í Dunkirk að gera á Akureyri?

Árið 1940 kom breskur herforingi í eftirlitsferð til Íslands. John Standish Surtees Prendergast Verekerv gekk jafnan undir nafninu Gort lávarður (Lord Gort), stundum kallaður „Tiger“ Gort af óbreyttum hermönnum. Hann varð æðsti maður breska heraflans í Evrópu í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar eftir að Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta skipaði hann til starfans.

Gort fór ásamt herliði sínu til Frakklands í september árið 1939 til stuðnings franska hernum ef til innrásar Þjóðverja kæmi sem svo varð raunin í maí 1940. Bretarnir áttu við ofurefli að etja í Frakklandi. Að ráði Gort dró breska herliðið sig til baka, til Dunkirk á norðurströnd Frakklands þaðan sem breskir hermenn voru fluttir á fjölmörgum smábátum og skipum til Englands.

Æ síðan hefur Gort lávarður ýmist verið gagnrýndur eða hylltur fyrir ákvörðun sína um að hörfa og koma mönnum sínum heim. Að öðrum kosti hefðu um 340 þúsund breskir hermenn líkast til verið stráfelldir af vígreifum nasistum.

 

Tæpum fimm mánuðum eftir atburðarásina í Dunkirk steig Gort á land í Reykjavík. Hann dvaldist hér á landi um tveggja vikna skeið í lok október og hafði aðsetur á Hótel Borg. Þó er vitað að hann ferðaðist út fyrir borgarmörkin á meðan dvöl hans stóð. Fréttatilkynningar í íslenskum blöðum voru á einn veg – ástæður heimsóknar hans til Íslands voru ókunnar.

Skjalfest er að Gort kom til Akureyrar mánudaginn 21. október. Í dagblaðinu Íslendingi sem kom út 25. október segir; Gort lávarður sem var yfirhershöfðingi Breta í Frakklandi s.l. vor, er kominn hingað til lands. Til Akureyrar kom hann á mánudaginn var, og hafði brezka setuliðið ýmsan viðbúnað til að gera móttökur hans sem virðulegastar.

Grenndargralið komst á snoðir um heimild í netheimum sem sýnir að Gort heimsótti herbúðir Breta í Hörgárdal. Í herdagbók Hallamshire-herdeildarinnar bresku sem staðsett var á Djúpárbakka segir;  General The Viscount Gort V.C. Inspector General of Training visits area (October 1940). Gort lauk Íslandsferð sinni þegar hann kom heim til Englands í byrjun nóvember.

Í desember 1940 kom út kynningar- og /eða áróðursmyndband á vegum breska hersins um Ísland og veru hersins hér á landi. Í upphafi myndbandsins situr sjálfur Gort lávarður við skrifborð og tilkynnir að hann sé nýkominn frá Íslandi. Í myndbandinu má sjá setuliðsmenn við leik og störf á Íslandi og samskipti þeirra við innfædda.

Gaman er að velta fyrir sér hvort föruneyti Gort hafi tekið kvikmyndavélar með sér til Íslands. Í það minnsta má greina myndbrot í myndbandinu sem tekið er í Hörgárdal. Hvort það er tekið upp á meðan heimsókn hans í búðunum í dalnum stóð skal ósagt látið. Hvað heimsókn hans til Akureyrar varðar, þá er ekki ósennilegt að hann hafi heilsað upp á setuliðsmenn í herbúðunum við Rangárvelli og/eða Lónsá í Kræklingahlíð. Svo skemmtilega vill til að Kræklingahlíð skartar sínu fegursta í umræddu myndbandi.

Kann að vera að tilgangur ferðalags Gort lávarðar hingað til lands hafi öðrum þræði verið að útbúa áróðursmyndband um dvöl breska hersins á Íslandi fyrir almenning í Bretlandi? Var ætlunin með myndatöku af íslenskri stórfjölskyldu í Kræklingahlíð í sparifötunum sú að sýna fram á góð samskipti Íslendinga við breska herinn? Erfitt er að segja til um það. Vísbendingar eru þó um að myndatakan í Kræklingahlíð gæti hafa farið fram á sama tíma og Gort lávarður var staddur á Akureyri.

Framhald…

Brennsluofnar setuliðsins fundnir í Hlíðarfjalli?

Síðasti leiðangur Varðveislumanna minjanna á þessu ári á slóðir setuliðsins í Hlíðarfjalli var farinn í dag. Á nokkrum stöðum í fjallinu má finna gjallklumpa og kolamola í hrúgum á yfirborði jarðar. Tilgáta hefur komið fram í kjölfar leiðangra Varðveislumanna minjanna þess efnis að setuliðsmenn sem voru við heræfingar í fjallinu hafi komið sér upp sérstökum brennsluofnum til að losa sig við ýmiskonar hergögn.

Grafin var tilraunauhola í dag á einum af þessum stöðum. Skemmst er frá því að segja að prufuuppgröfturinn skilaði ýmsu áhugaverðu upp á yfirborðið eftir 80 ára veru í jörðinni. Meðal þess sem leit dagsins ljós var postulínsbrot af diski sem og skósóli og aðrir hlutar af því sem ætla má að hafi verið hermannastígvél. Þá fundu Varðveislumenn tuttugu og eina byssukúlu í dag en svo margar kúlur hafa ekki áður fundist í einum og sama leiðangrinum.

Svo virðist sem umsvif hermanna í Hlíðarfjalli í seinni heimsstyrjöldinni hafi verið umtalsverð og margfalt meiri en áður var talið. Varðveislumenn minjanna munu halda áfram að freista þess að svipta hulunni af leyndardómum Hlíðarfjalls að ári liðnu. Allir áhugasamir eru boðnir velkomnir í hóp Varðveislumanna minjanna.

Bresk skothylki finnast í mýrarpolli

Hlíðarfjall heldur áfram að afhjúpa leyndardóma sína. Varðveislumenn minjanna fundu fjölmörg bresk skothylki í dag á kafi í mýrarpolli á sama stað og fjölmargir aðrir gripir úr fórum setuliðsins hafa fundist síðustu ár við rætur fjallsins. Ástand hylkjanna er misjafnt eftir að hafa legið í mýrinni í 80 ár eða frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Nokkuð ljóst þykir að setuliðsmenn sem voru við æfingar í fjallinu hafi safnað saman skothylkjum og komið þeim fyrir í mýrinni. Spurningin er hins vegar hver tilgangurinn með því var. Ef hann var þá einhver.

Byssurnar frá Hlíðarfjalli – Guns of mountain Hlidarfjall

Hér að neðan getur að líta myndir af skotfærum þeim sem fundist hafa í Hlíðarfjalli og vopnunum sem þau tilheyra og talið er að setuliðið hafi notað við æfingar þar.