Grenndargralið og Vikudagur í samstarf
Eins og glöggum lesendum þessarar síðu er kunnugt hefur Grenndargralið undanfarin misseri birt greinaflokk um listakonuna May Morris og tengsl hennar við Akureyri. Brynjar Karl Óttarsson hjá Grenndargralinu og ritstjóri Vikudags, Þröstur Ernir Viðarsson, hafa komist að samkomulagi um samstarf er snýr að birtingu á greinaflokknum á síðum blaðsins.
Saga May Morris mun birtast í nokkrum hlutum í Vikudegi á fimmtudögum næstu vikurnar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Grenndargralið birtir greinar og pistla í samstarfi við fjölmiðil í heimabyggð. Áður hefur Gralið unnið með dagblöðunum Akureyri vikublað og Norðurland og vefmiðlinum Kaffið.is.
Að sögn Brynjars Karls er ánægja innan Grenndargralsins með samstarfið. Hann segir síðu Gralsins vera lítinn vettvang fyrir stóra sögu og því ánægjulegt að geta náð til stærri lesendahóps á síðum Vikudags. Inngangur að sögu May Morris – konunnar sem skuggi föðurins faldi birtist í næsta tölublaði Vikudags, fimmtudaginn 23. janúar. Fyrsti hluti sögunnar birtist viku síðar.