main image

Konan sem skuggi föðurins faldi – fimmti hluti

May kemur út úr skugganum

May kom til Akureyrar árið 1931. Sem fyrr var Vivian Lobb með í för sem og tvær hefðarkonur frá Ameríku. Allar líkur eru á að þar sé um systurnar Mary og Margaret Pierce að ræða en May kynntist þeim þegar hún hafði áður ferðast um Norður-Ameríku. Að þessu sinni kom May sem handhafi hinnar íslensku fálkaorðu. Hún var sæmd orðunni árið 1930 vegna starfa og vinarþels í þágu íslensku þjóðarinnar. Þegar May kom í bæinn að morgni 4. júlí voru hjónin Sigurjón og Guðrún á Ásláksstöðum flutt í nýbyggt húsnæði í Munkaþverárstræti. Þau fóru niður að höfn til að taka á móti vinkonum sínum sem höfðu ekkert sofið þá nóttina. Þær vildu ekki missa af neinu meðan skipið sigldi meðfram Íslandsströndum á leið sinni til Akureyrar í fallegri birtu sumarnæturinnar. Birtan yfir bænum þennan sólríka sumarmorgun lýsti upp andlit May þegar hún steig frá borði á Lagarfossi. Akureyri var áfangastaður hennar enn eitt skiptið n.t.t. Munkaþverárstræti 3. Þar dvöldust May og Lobb í góðu yfirlæti hluta úr sumrinu.

Vitað er að í a.m.k. einni af ferðum May til Íslands kom hún til Húsavíkur og heimsótti sýslubókasafn bæjarins. Ekki er ólíklegt að hún hafi heimsótt safnið í ferð sinni um landið sumarið 1931. Á safninu sá hún bækur eftir William Morris. Þótti henni mikið til þess koma að finna bækur frá föður sínum á bókasafni á hjara veraldar. Ekki varð hún minna hissa þegar kom í ljós á spjalli við starfsmann bókasafnsins, Benedikt Jónsson, að hann hafði hitt William Morris þegar hann gisti á heimili foreldra Benedikts að Þverá í Laxárdal sumarið 1873. Svo mikið þótti henni til þessara tíðinda koma að hún færði safninu veglega gjöf nokkrum árum síðar. Hún hafði þó ekki tök á því að afhenda gjöfina í eigin persónu en sendi hana þess í stað með skipi frá Englandi. Ferðalagið sumarið 1931 var þannig að öllum líkindum hennar síðasta til Íslands. Áfram hélt hún tengslum við vini sína á Akureyri.

Næstu árin héldu Sigurjón og Guðrún í Munkaþverárstræti og May Morris og Vivian Lobb á Kelmscott-setrinu góðu sambandi. Þau skrifuðust á og virðist sem bréfasendingar hafi verið nokkuð reglulegar. May og Lobb voru duglegar að hvetja hjónin til að heimsækja þær á Kelmscott-setrið. Í einu bréfinu skrifuðu þær; „Nú eruð þið laus við búskapinn og frjáls eins og fuglar himinsins.“ Ekkert varð af heimsókn hjónanna til May. Smám saman fór heilsu hennar hrakandi. Hún var komin á áttræðisaldur og hafði dregið verulega úr ferðalögum. Hugur hennar var þó áfram hjá vinum hennar og kunningjum á Norðurlandi. Sumarið 1936 barst Bókasafni Þingeyinga á Húsavík gjöf frá May, yfir 400 bækur enskra höfunda og skálda, fræðibækur og listabækur. Þá sendi hún Sigurjóni og Guðrúnu einnig bækur og myndir að gjöf.

May Morris lést 17. október 1938 á heimili sínu. Sigurjón og Guðrún fengu tilkynningu þess efnis frá Vivian Lobb. May var jarðsett á heimaslóðum hennar í Oxfordskíri. Auk May hvíla William, Jane og Jenny Morris í fjölskyldugrafreitnum í Kelmscott. Eftir fráfall May fengu vinirnir á Akureyri, Sigurjón og Guðrún, sendingu frá Kelmscott-setrinu. Þau fengu stóra kassa fulla af bókum sem flestar lentu síðar á Amtsbókasafninu á Akureyri. Aðeins fimm mánuðum eftir dauða May var Lobb öll.

Þann 14. apríl 1939 birtist greinarkorn í dagblaðinu Íslendingi undir heitinu Gjöf til Amtsbókasafnsins. Greinina skrifar Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, þá bókavörður á Amtsbókasafninu. Hann rekur í stuttu máli samskipti Sigurjóns og Guðrúnar við May og Lobb liðin ár og hvernig vinátta þeirra skýri öðru fremur gjöf sem safninu hefði nýlega borist frá Vivian Lobb. Gjöfin var í formi 400 bóka, sumar hverjar afar merkilegar bækur og vandaðar. Í niðurlagi greinarinnar flytur Davíð frú Lobb „innilegustu þakkir fyrir hina fögru og höfðinglegu gjöf.“ Það sem Davíð var ekki kunnugt um var að Lobb var látin þegar bækurnar frá henni bárust Amtsbókasafninu. Lobb lést á Kelmscott-setrinu þann 27. mars 1939.

Ljóst er að May ánafnaði Lobb stóran hluta eigna sinna. Þá liggur einnig fyrir að Lobb sendi hluti úr eigu May til hinna ýmsu aðila þá fimm mánuði sem hún lifði eftir andlát hennar. Þannig sendi Lobb m.a. skartgripi á safn í Wales og muni sem tengjast Íslandi á safn í Exeter. Eftir að hafa erft May voru eignir Lobb metnar á 12.000 pund á þávirði. Í erfðaskrá hennar frá 19. mars 1939, átta dögum fyrir andlát hennar, er virði eigna hennar hins vegar ekki metið á nema 3.910 pund. Þetta er umtalsverð rýrnun á ekki lengri tíma sem gæti skýrst af gjafasendingum vítt og breitt um Bretlandseyjar og út fyrir landsteinana. Og svo virðist sem ein síðasta gjöfin frá Lobb, úr fórum May Morris, hafi verið bækurnar 400 sem hún sendi til Akureyrar.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi hafði ekki heyrt um örlög Lobb þegar bækurnar frá henni bárust honum á Amtsbókasafnið. Sigurjón Sumarliðason og Guðrún Jóhannsdóttir frá Ásláksstöðum höfðu hins vegar frétt af andláti hennar. Viku eftir að grein Davíðs birtist í Íslendingi kom tilkynning í sama dagblaði frá Guðrúnu þar sem hún benti Davíð og lesendum blaðsins á hvernig í pottinn var búið. Við fráfall þeirra [May og Lobb] hefir komið skarð í vinahóp okkar hjóna, sem ekki verður fyllt. Bjart er um minningu þeirra í hugum allra, sem áttu því mikla láni að fagna að kynnast þeim. Og með þeim eru til moldar gengnir sannir vinir íslands og aðdáendur.

May Morris var 76 ára þegar hún lést. Stóran hluta ævinnar helgaði hún sig listum og ferðalögum. Ung að árum fetaði hún sömu slóð og faðir hennar við listsköpun. Síðar fór hún í fótspor hans vítt og breitt um Ísland og var nafn hennar vel þekkt hér á landi sem og víðar. Svo lengi sem hún lifði var May konan sem skuggi föðurins faldi. Eftir dauða May Morris fennti jafnt og þétt yfir nafn hennar, svo mjög að hún er mörgum gleymd sem nú yrkja jörðina. Seinni tíma uppgötvanir hafa dregið hana fram í dagsljósið sem listakonu í fremstu röð og hefur hún jafnt og þétt verið að öðlast þá viðurkenningu sem henni ber, óháð afrekum föðurins. May sjálf vissi hvers hún var megnug. Árið 1936 skrifaði hún í bréfi til George Bernard Shaw; „I’m a remarkable woman – always was, though none of you seemed to think so.“ May var þúsundþjalasmiður eins og William Morris á sviði listsköpunar og hönnunar. Mikið liggur eftir hana svo sem teikningar, útsaumur og skartgripir svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa leitt í ljós að sum af vinsælum veggfóðursmynstrum sem talin voru hönnuð af William Morris, eru í raun sköpunarverk May. Nú, 80 árum eftir að hún kvaddi þessa jarðvist er sem May sé að koma út úr skugganum. Grenndargralið leggur sitt lóð á vogarskálarnar með því að heiðra minningu „Akureyrarvinarins“ May Morris – konunnar sem birta bæjarins lýsti.

 

Heimildir:

Curran, S. (2017. 6. nóvember). May Morris: Art & Life (& Lesbian Erasure…. again). Sótt af https://towardsqueer.blogspot.com/2017/11/may-morris-art-life-lesbian-erasure.html?fbclid=IwAR0wntXzzWbyqdxGXqePkBaDyYA6ZBrmwnabnSkw1dBC5E4pzywi4cu3CAk

Dagur (16.07. 1931) bls. 140

Gudrún Jónsdottir. (e.d.). May Morris and Miss Lobb in Iceland. Sótt af http://www.morrissociety.org/JWMS/07.1Autumn1986/AU86.7.1.Jonsdottir.pdf

Íslendingur (16.07. 1926) bls. 3

Jan Marsh. (2017, 20. september). Feminist, socialist, embroiderer: the untold story of May Morris. Sótt af https://www.royalacademy.org.uk/article/may-morris-art-and-life-william-morris-gallery

Jón Guðnason tók saman. (1976). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965. Reykjavík: Hið ízlenska bókmenntafélag.

Lesbók Morgunblaðsins (23.12. 1968) bls. 52-53

Nikola Davison. (2017, 20. nóvember). May Morris, the overlooked star of Arts and Crafts movement. Sótt af https://www.ft.com/content/344542be-be33-11e7-823b-ed31693349d3

Simon Evans. (e.d.) The Eclectic Collection Of Miss M.F.V. Lobb. Sótt af https://www.yumpu.com/en/document/read/56900023/the-eclectic-collection-of-miss-mfv-lobb

Vísir (28.08. 1924) bls. 3

Vísir (03.09. 1924) bls.3

Vísir (12.12. 1925) bls. 3

Vísir (07.06. 1926) bls. 3

Vísir (18.08. 1926) bls. 3

Vísir (25.08. 1926) bls. 3

Vísir (29.07. 1936) bls. 4

Örn Gíslason. (e.d.). With May Morris in Iceland. Sótt af http://morrisedition.lib.uiowa.edu/icelandicdiariesgislason.html

Mynd: © William Morris Gallery, London Borough of Waltham Forest