main image

Vinir berast burt á tímans straumi

Hinn sænski Ivar Vennerström (f:1881) kom nokkuð reglulega til Íslands á fyrri hluta 20. aldar með eiginkonu sinni Ólafíu Valgerði Guðmundsdóttur (f:1889) frá Nesi á Seltjarnarnesi. Ivar og Ólafía giftu sig árið 1909 í Reykjavík en bjuggu alla sína hjúskapartíð í Svíþjóð. Þau eignuðust þrjú börn.

Frumburður þeirra hjóna, Gudmund Wennerström, kom í heiminn í mars 1912 um það leyti sem smíði hins goðsagnakennda skips Titanic var að ljúka í Belfast á Norður-Írlandi. Rúmum mánuði síðar, um miðjan apríl var Ivar á hressingargöngu nálægt heimili sínu þegar hann ákvað að staldra við og kaupa sér eintak af Dagens Nyheter. Honum brá heldur betur í brún þegar hann sá eftirnafn sitt skráð á farþegalista hins nýja og glæsilega skemmtiferðaskips sem birtur var í blaðinu. Þegar Ivar tók sér dagblaðið í hönd á götu í miðborg Stokkhólms hafði Titanic nýlega lagt úr höfn frá Southampton í jómfrúarferð sína með stefnu á New York. Hann hjó eftir því á farþegalistanum að í nafnið var skráð með „W“ en ekki „V“. Hann áttaði sig fljótt hvernig í pottinn var búið þegar hann rak augun í fornafnið August.

August Edvard Anderson var blaðamaður frá Malmö (f:1884). Nokkrum mánuðum áður en Titanic mætti örlögum sínum á Atlantshafinu 15. apríl 1912 lenti honum saman við vin sinn Ivar Vennerström. Þeir Ivar og August höfðu starfað saman við blaðaútgáfu. August hafði málað sig út í horn með pólitískar skoðanir sínar, svo mjög að hann sá sér þann kost vænstan að forða sér úr landi. Í Kaupmannahöfn datt honum í hug að kaupa sér miða um borð í Titanic, koma sér til Southampton og sigla til Ameríku. Hann óttaðist að sænsk og/eða amerísk yfirvöld myndu stöðva förina vegna skoðana hans og ákvað því að villa á sér heimildir, taka sér upp nafn vinar síns en breyta þó upphafsstafnum. Miðann keypti hann, kom sér til Englands og gekk um borð á hinu ósökkvandi skipi undir nafni vinar síns og samstarfsfélaga. Rúmum áratug eftir feigðarför Titanic, sumarið 1923, kom gufuskipið Botnía til Akureyrar með varning og farþega. Á farþegalista Botníu í þessari siglingu til Akureyrar var nafnið Vennerström. Og sannarlega bar straumurinn hinn sænska Ivar Vennerström á norðlægar slóðir, til Akureyrar. Í þetta skiptið hafði hann dvalist í Reykjavík í nokkra daga en staldraði við á Akureyri áður en skipið sigldi sína leið áfram til Skandinavíu.

Ivar Vennerström var kosinn á þing í Svíþjóð árið 1914 og sat hann á þingi í rúma tvo áratugi. Hann tók við embætti hermálaráðherra árið 1932 og gegndi því til ársins 1936 þegar hann varð landshöfðingi í Vermalandi. Ivar lést árið 1945.

Ólafía Valgerður Guðmundsdóttir, Lóa frá Nesi, bjó um skeið í Karlstad eftir að Ivar lést. Árið 1952 flutti hún á jörðina Glenni sem þau hjónin höfðu eignast árið 1940. Bjó hún þar til dauðdags. Síðasta heimsókn Ólafíu til Íslands var árið 1972.

August „Wennerström“ var um borð á þriðja farrými þegar Titanic hóf sína örlagaríka siglingu frá Southampton 10. apríl 1912. Straumurinn bar August á ísjaka og í jökulkalt hafið. Hann lifði hildarleikinn af, komst til Bandaríkjanna þar sem hann giftist og eignaðist sjö börn. August kom aldrei til Akureyrar svo vitað sé. Hann lést árið 1950.

Grenndargralinu er ekki kunnugt um hvort straumurinn bar vinina saman eftir Titanic, þá Ivar Vennerström og August Wennerström.

 

Heimildir:

Dagur (23.08. 1923) bls. 132

Geni. (2018, 24. maí). Olavia Valgerdur Vennerström. Sótt af https://www.geni.com/people/Olavia-Vennerstr%C3%B6m/6000000000033203670

Lars Engwall. (e.d.). Om Titanicöverlvaren August Edvard Wennerström. Sótt af http://www.titanicnorden.com/fakta/gulafaran.html

Lesbók Morgunblaðsins (18:01. 1986) bls. 4-5