main image

Hrollvekja Lagerlöf heillaði ritstjóra á Akureyri

Í janúar árið 1924 var sænska kvikmyndin Körkarlen, Ökusveinninn upp á ástkæra ylhýra (ensk þýð. The Phantom Carriage), sýnd í nýju bíóhúsi við Hafnarstræti 73 á Akureyri. Kvikmyndin var gerð eftir sögu Nóbelskáldsins Selmu Lagerlöf (1858-1940) og leikstýrð af Victor Sjöström (1879-1960). Myndin var frumsýnd í Svíþjóð árið 1922. Fjórum árum áður var önnur mynd í leikstjórn Sjöström frumsýnd í sænskum kvikmyndahúsum. Hún var byggð á leikriti eftir íslenskt leikritaskáld. Ári síðar heimsótti skáldið Akureyri og hafði jafnvel uppi áform um að setjast þar að!

Árið 1912 skrifaði Selma Lagerlöf sögu um framliðinn ökusvein sérstaks dauðavagns. Hann ekur um á vagninum og hirðir upp sálir þeirra sem eru um það bil að hverfa á vit feðra sinna. Hér er byggt á þekktu minni úr evrópskum þjóðsögum þar sem sá eða sú sem síðast lætur lífið áður en nýtt ár gengur í garð skal aka dauðavagninum í eitt ár. Sagan segir frá óþokkanum David Holm sem hlýtur það vafasama hlutverk að aka vagninum þegar hann deyr seint á gamlárskvöld. Á meðan akstrinum stendur gefst honum tækifæri til að gera upp lífshlaupið og horfast í augu við allar syndirnar í lifanda lífi. Ástæðuna fyrir því að Lagerlöf skrifaði söguna má rekja til þess að hún var ráðin af sænskum samtökum til að uppfræða almenning um berkla, smitleiðir og varnir gegn þeim. Hún hafði sjálf reynslu af sjúkdómnum því systir hennar og aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu smitast af hvíta dauða. Þar sem henni þótti auðveldara að koma boðskapnum á framfæri í gegnum skáldskap frekar en að setja saman fræðilegan texta um sjúkdóminn, skrifaði hún skáldsögu sem fékk heitið Körkarlen (ensk þýð. Thy Soul Shall Bear Witness!) rétt eins og kvikmyndin.

Victor Sjöström leikstýrði myndinni, skrifaði handritið ásamt Selmu Lagerlöf og lék aðalhlutverkið. Myndin varð alþjóðlegur smellur, ekki síst vakti hún athygli fyrir framúrstefnulegar tæknibrellur. Hún tryggði honum samning við kvikmyndarisann Metro-Goldwyn-Meyer í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði við kvikmyndagerð næstu árin áður en hann snéri aftur til Svíþjóðar. Sjöström er án nokkurs vafa einn áhrifamesti leikstjóri sænskrar kvikmyndasögu. Leikstjórar eins og Ingmar Bergmann og Stanley Kubrick hafa vísað í verk hans í myndum sínum. Áður en frægðarsól hans skein sem hæst hafði hann leikstýrt myndum í tugatali í heimalandinu. Ein þeirra var gerð eftir leikriti Jóhanns Sigurjónssonar frá árinu 1911; Fjalla-Eyvindur.

Á fullveldisárinu 1918 var myndin Berg-Ejvind och hans hustfru frumsýnd í Svíþjóð (ensk þýð. The Outlaw and His Wife). Sem fyrr leikstýrði Sjöström, skrifaði handritið ásamt Jóhanni og lék aðalhlutverkið. Myndin var tekin upp vorið og sumarið 1917 í Lapplandi þar sem reynt var að líkja eftir hálendi Íslands. Skáldinu Jóhanni og leikstjóranum Sjöström var vel til vina og gladdi það Íslendinginn þegar sá sænski lýsti yfir áhuga á að færa leikritið yfir á hvíta tjaldið. Til stóð að taka myndina upp á Íslandi en vegna heimsstyrjaldarinnar var það ekki mögulegt. Jóhann var staddur á Akureyri um það leyti sem myndin var frumsýnd á Íslandi vorið 1919. Gengu þær sögur fjöllunum hærra að hann ætlaði sér að flytja til Akureyrar og að búferlaflutningarnir tengdust atvinnustarfsemi í sjávarútvegi. Heilsu hans hafði hrakað á meðan Íslandsdvölinni stóð. Ekkert varð af flutningunum til Akureyrar og í júní var hann kominn heim til Danmerkur. Var hann þá orðinn fárveikur, svo mjög að hann var lagður inn á sjúkrahús um leið og hann steig á danska grund. Jóhann náði sér aldrei eftir þetta. Hann lést að heimili sínu í Kaupmannahöfn 31. ágúst 1919 í faðmi eiginkonu sinnar Ingeborg. Minni úr evrópskum þjóðsögum komu ekki við sögu á dánarbeði Jóhanns svo vitað sé, engir ökusveinar eða vagnar, aðeins gömul íslensk þjóðtrú. Inbegorg lýsir síðustu andartökum skáldsins svo í endurminningum sínum:

Svo var það einu sinni með morgunsárinu að Jóhann bað mig að opna alla glugga að gömlum íslenskum sið svo að sálin gæti flogið leiðar sinnar. Við höfðum horft ástaraugum hvort á annað og talað saman í hálfum hljóðum alla nóttina. Svo kom dauðinn í allri sinni óbilgirni en Jóhanni mínum þó svo líknsamur að ekkert þjáningarkast var honum samfara. Ég bað mennina tvo, sem kistulögðu Jóhann, um að mega hafa hann hjá mér nóttina eftir. Alla þá nótt sat ég við kistuna og horfði á undurfagra andlitið hans þar sem sérhver þjáningarhrukka var nú horfin. Það var svo ótal margt sem ég þurfti að segja við Jóhann þessar síðustu klukkustundir áður en þeir komu að sækja ástvin minn.

Kvikmyndahúsið í Hafnarstræti 73 var tekið í notkun hálfu ári fyrir sýningu Körkarlen. Þótti mörgum mikið til hússins koma vegna stærðar þess og útlits. Bíógestir á Akureyri hafa því sjálfsagt notið þess að horfa á sænsku hrollvekjuna á stóru tjaldi í glæsilegum húsakynnum þess tíma fyrir hartnær öld síðan. Í dag er myndin löngu orðin klassísk og af mörgum talin eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Jónas Þorbergsson ritstjóri Dags hélt ekki vatni yfir myndinni eins og lesa mátti um í Degi í janúar 1924. Hver veit nema boðskapur Selmu hafi snert ritstjórann? Hann var á þessum tíma einn helsti talsmaður þess að heilsuhæli fyrir berklasjúklinga yrði reist á Norðurlandi.

Hér má sjá stiklu (trailer) úr Körkarlen. Kemur þú auga á atriði sem veitti leikstjóranum Stanley Kubrick innblástur við gerð kvikmyndarinnar The Shining árið 1980?

 

Þegar Laddi spilaði fótbolta í rigningunni á Melgerðismelum

Fjörutíu ár eru liðin frá því að Laddi spilaði fótbolta á Melgerðismelum. Reyndar var tilefnið annað og meira. Stór fjölskylduhátíð sem Ungmennasamband Eyjafjarðar stóð fyrir í Saurbæjarhreppi í samstarfi við ungmennafélög í hreppnum. Hátíðin bar heitið Ein með öllu og stóð yfir helgina 30. – 2. júlí. Aðstandendur hátíðarinnar gerðu sér vonir um að hún gæti orðið fjölmennasta útisamkoma sem haldin hefði verið Norðanlands. Reiknað var með allt að 5000 gestum með möguleika á að hýsa mun fleiri ef til þess kæmi. Þó höfðað væri til fjölskyldufólks og vínbann auglýst var samkoman ekki kynnt sem bindindismót. Gerðu menn því ráð fyrir að áfengi yrði haft um hönd í einhverjum mæli en Lögreglan fékk það hlutverk að vega og meta hvort eftirlit yrði haft með vínflutningum gesta inn á svæðið. Vegna þessa var erfitt að segja fyrir um aldursskiptingu og hversu mikil eða lítil ölvun yrði meðal samkomugesta. Mikil vinna var lögð í undirbúning og allt lagt í sölurnar til að gera samkomuna að áhugaverðum valkosti fyrir Íslendinga á faraldsfæti sumarið 1978. Tveir dansleikjapallar voru reistir. Auglýsingar og fréttatilkynningar um hátíðina birtust í öllum helstu dagblöðum dagana og vikurnar fyrir setningu hennar föstudaginn 30. júní.

Meðal þess sem var auglýst var veitingasala á svæðinu, næg tjaldstæði, góð aðstaða fyrir hjólhýsi og fyrirmyndar hreinlætisaðstaða. Læknir var sagður á svæðinu sem og slysavakt allan sólarhringinn í umsjá Hjálparsveitar skáta, svo ekki sé minnst á Lögregluna sem hafði töluverðan viðbúnað. Til að tryggja þeim sem vildu rólegheit umfram hávaða og læti voru útbúnar sérstakar „fjölskyldubúðir“ á afmörkuðu svæði á Melunum með leiktækjum fyrir börnin. Reglulegar sætaferðir voru í boði til og frá Akureyri alla þrjá dagana. Auglýstir voru dansleikir öll þrjú kvöldin og diskótek alla dagana frá morgni til kvölds. Ýmis konar skemmtiatriði voru í boði allan daginn, bæði laugardag og sunnudag og voru þau ekki af verri endanum. Meðal skemmtikrafta má nefna Halla og Ladda, Ruth Reginalds, Baldur Brjánsson, Bjarka Tryggvason og Jörund Guðmundsson. Eflaust hafa margir verið spenntir fyrir norðlenskum harmonikkuleikurum og aðrir fyrir módelflugi yfir Melunum sem og varðeldi sem ætlað var að kveikja upp að loknum dansleikjum. Íþróttir skipuðu einnig nokkurn sess. Ný bílaíþrótt, svokallað Bílaskrallý, reiptog yfir Eyjafjarðará milli Eyfirðinga og Þingeyinga og knattspyrnuleikur milli skemmtikrafta og úrvalsliðs Baldurs Brjánssonar töframanns. Kynnir hátíðarinnar var Magnús Kjartansson Brunaliðsstjóri.

Hljómsveitirnar þrjár sem auglýstar voru, Brunaliðið, Mannakorn og Akureyrarsveitin Hver voru stærstu númerin á hátíðinni. Brunaliðið var nýstofnað, „funheitt“ band sem hafði í maí gefið út plötuna Úr öskunni í eldinn. Platan innihélt m.a. smellina Sandalar, Einskonar ást og eitt vinsælasta dægurlag síðari tíma, Ég er á leiðinni. Hljómsveitin var því stór á þessum tíma og í raun sama hvernig á það var litið. Meðlimir hennar óskuðu eftir 120 fermetra stóru sviði á Melunum til að spila á sem og þeir fengu.

Hljómsveitin Mannakorn hafði örlítið meiri reynslu en Brunaliðið en hún var stofnuð þremur árum áður. Hún var þó ekki reynslumeiri en svo að í kynningum um sveitina í aðdraganda hátíðarinnar var flutningur hennar á Melgerðismelum sagður verða frumraun hljómsveitarinnar á opinberum vettvangi.

Hljómsveitin Hver var á allra vörum sumarið 1978 eftir að hafa komið fram í sjónvarpsþættinum Menntaskólarnir mætast. Flutningur hljómsveitarinnar í þættinum var með slíkum glæsibrag að hann var nefndur í sömu andrá og flutningur Hljóma í Háskólabíói á Bítlaárunum þegar sú ágæta sveit sló rækilega í gegn. Auk hljóðfæraleikara skipuðu hljómsveitina þrjár ungar stúlkur sem voru þá nemendur við Menntaskólann á Akureyri. Þær áttu síðar eftir að geta sér gott orð sem flytjendur undir nafninu Erna, Eva og Erna.

Allt var til reiðu fyrir einhverja metnaðarfyllstu útisamkomu í sögu heimabyggðar og þótt víðar væri leitað. Aðeins veðrið gat mögulega sett strik í reikninginn. „Við kvíðum veðrinu ekkert“ sögðu aðstandendur samkomunnar við blaðamenn á meðan undirbúningi stóð. „Við fögnum nú hverjum rigningardeginum fyrir norðan því að dæmin sanna að á eftir mikilli rigningartíð kemur langur þurrkakafli.“ Takmarkaðar áhyggjur aðstandenda hátíðarinnar breyttu ekki því að veðrið varð sá örlagavaldur sem oft vill verða á útisamkomum á Íslandi. Rok, rigning og kuldi setti sitt mark á hátíðina alla þrjá dagana. Aðsóknin varð minni af þeim sökum en gert hafði verið ráð fyrir og meira af unglingum á kostnað fjölskyldufólks sem sennilega hefur kosið að halda sér heima vegna tíðarfarsins.

Lögreglan hafði í nógu að snúast. Þónokkuð var um slys og óhöpp í umdæmi hennar þessa helgi, óhöpp sem sum hver mátti rekja til hátíðarinnar á Melgerðismelum. Talsvert áfengi var gert upptækt sem kom þó ekki í veg fyrir ölvun hjá hluta hátíðargesta.

Leitað var í bílum sem komu á svæðið og fundust t.a.m. 12 vínflöskur í einum og sama bílnum. Gestir fundu þó ýmsar leiðir til að koma áfengi inn á svæðið. Sögur þess efnis að einhverjir hefðu grafið vínflöskur í jörðu á Melunum áður en hátíðin hófst gengu milli manna og þá reyndi einn hátíðargestanna að synda með flösku í beltinu yfir Eyjafjarðarána. Hann missti flöskuna og komst við illan leik yfir ána. Þá þurftu laganna verðir einnig að hlúa að nokkrum köldum og blautum unglingum sem hafði láðst að klæðast eftir veðri.

Leiðinlegt veður kom ekki í veg fyrir að rúmlega 2000 hátíðargestir borguðu sig inn á svæðið og voru þeir mættir til að skemmta sér. Þrátt fyrir veðrið og einhver óhöpp bar mönnum almennt saman um að samkomuhald hefði tekist með miklum ágætum, þökk sé góðum undirbúningi og skipulagi stjórnenda og rúmlega hundrað manna starfsliði hátíðarinnar.

Fjölskylduhátíðin sumarið 1978 var fyrsta og eina sinnar tegundar á vegum Ungmennasambands Eyjafjarðar sem haldin var á Melgerðismelum. Aðstandendur hennar voru fullir bjartsýni um að leikurinn yrði endurtekinn að ári. Af því varð ekki. Hins vegar markaði hátíðin upphafið að samstarfi þriggja menntaskólastúlkna á Akureyri annars vegar og einnar vinsælustu dægurlagahljómsveitar landsins hins vegar. Erna Gunnarsdóttir, Eva Albertsdóttir og Erna Þórarinsdóttir gengu til liðs við Brunaliðið eftir samkomuna á Melunum. Komu þær m.a. við sögu á plötu sveitarinnar Útkall sem kom út árið 1979.