main image

Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt

Út er komin bókin Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt eftir Hildi Hauksdóttur. Hildur þreytir hér frumraun sína á ritvellinum.

Í bókinni er rakið lífshlaup Helgu Guðrúnar Sigurðardóttur. Hún fæddist í Teigi í Eyjafjarðarsveit árið 1927. Tvöfaldur móðurmissir, fósturvist og aðskilnaður frá fjölskyldu settu sitt mark á æsku Helgu Guðrúnar. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur.

Konur eru í aðalhlutverki frásagnarinnar sem spannar rétt um hundrað ár. Sagan hefst um aldamótin 1900 í torfbæ í Eyjafirði en lýkur á Akureyri árið 2009. Höfundur dregur upp svipmynd af tíðarandanum, bæjarbragnum á Akureyri og uppvaxtarskilyrðum alþýðunnar á millistríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun.

Hugmyndin að bókinni fæddist í upphafi ársins þegar Helga Guðrún vitjaði Hildar í draumi. Hálfum mánuði síðar hóf Hildur að taka viðtöl og viða að sér heimildum. Fyrir bókinni liggja þó fleiri ástæður en einungis draumurinn. Hildi langaði að spegla sig í lífi ömmu sinnar til að öðlast betri skilning á því hvar rætur hennar liggja. Hildur beið ekki boðanna heldur setti sér það markmið að gefa bókina út á hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni hlaut Hildur styrk frá Menningarsjóði Akureyrar.

Bókin kostar 3990 krónur í Eymundsson Akureyri og Eymundsson Austurstræti en 3500 krónur hjá útgefanda. Grenndargralið gefur bókina út.

Hildur Hauksdóttir hefur þetta um bókina að segja:

„Amma mín var af fyrstu kynslóð frjálsra kvenna í þeim skilningi að hún þekkti aldrei annað en réttinn til að kjósa til jafns við karla. Hún var alþýðustúlka á 20. öldinni. Upplifði móðurmissi, fóstur, hernám, lýðveldisstofnun, frið og loks þá mestu uppgangs- og velmegunartíma í sögu landsins. Amma tilheyrði þeim hópi íslenskra kvenna og karla sem komu fótunum undir þessa þjóð. Með þessu kveri vildi ég ljá ömmu rödd og þræða saman svipmyndir úr lífi hennar svo úr yrði einhvers konar heildstæð mynd.“

Sigurvegari í Leitinni að Grenndargralinu 2015

Leitinni að Grenndargralinu lauk föstudagskvöldið 13. nóvember. Það var Kristján Rúnar Kristjánsson úr 10. bekk í Síðuskóla sem fann Gralið þetta árið. Hann er því sigurvegari í Leitinni að Grenndargralinu árið 2015. Þetta er annað árið sem Síðuskóli hampar Gralinu. Guðrún og Lovísa sigruðu fyrir hönd skólans árið 2009.

 

Glæsilegur árangur hjá Kristjáni sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Þeir eru allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þeir öðrum mikil fyrirmynd. Formleg afhending Gralsins fór fram á fullveldisdaginn 1. desember. Við óskum Kristjáni, sem og Síðuskóla, til hamingju með sigurinn.