Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt
Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt er ígrundun og tilraun til skilja betur ömmu höfundar, konurnar í lífi hennar og fólkið sem kom fótunum undir þjóðina á 20. öldinni. Helga Guðrún Sigurðardóttir fæddist í Eyjafirði árið 1927. Hún missti móður sína og seinna fósturmóður ung að árum og var sett í fóstur. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur. Helga Guðrún er rauði þráðurinn í þessari sögu og speglar hún tíðarandann, bæjarbraginn á Akureyri og ekki síst uppvaxtarskilyrði alþýðunnar á millistríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun. Sagan er skrifuð fyrir fjölskyldu Helgu Guðrúnar en líka aðra sem vilja setja sig inn í hugarheim þeirra sem fá sjaldan rödd í sögubókum. Síðast en ekki síst er sagan skrifuð af þakklæti og þrá til að skilja betur hvaðan við komum og hvað mótar okkur sem manneskjur. Höfundur er Hildur Hauksdóttir framhaldsskólakennari. Grenndargralið gefur út.
Bókin kemur út öðru hvoru megin við fullveldisdaginn 1. desember.