main image

Röng notkun á “kommentakerfum”

 

Ég ætla að skrifa um kommentakerfi á vefsíðum hér á landi. Kommentakerfi eru til notkunar á ýmsum frétta- og samskiptamiðlum, t.d. hjá DV, Vísi og Fótbolta.net. Síðurnar eiga að gegna þeim tilgangi að leyfa fólki að láta skoðun sína í ljós á einhverskonar fréttum, en sumir aðilar eiga það til ganga of langt og eru í raun bara með hreinræktaðan dónaskap. Fólk á Íslandi hefur nefnilega ofsalega gaman að því að sýna hvaða skoðun það hefur á hlutunum en stundum getur það verið öfgafullt þegar það segir hvað því finnst.

Langflestir sem eru komnir yfir ca.10 ára eru komnir á Facebook. Fyrirtækið er risastórt og veltir mörgum milljörðum árlega. Á Facebook er hægt að uppfæra stöðu sína á sjálfri síðunni og segja skoðun sína á þann hátt en einnig er hægt að gera athugasemd á öðrum vefsíðum í gegnum Facebook.

Kommentakerfi eru voðalega einföld fyrirbæri. Þau gera manni kleift að tjá skoðun sína á hlutunum á internetinu þannig að umheimurinn sjái hvað þér finnst. Þegar þetta er útskýrt á þennan hátt þá finnst manni þetta voðalega saklaust, en að mínu mati þá verða þessi kerfi til þess fólk verður sér ekki bara til háborinnar skammar þegar það tjáir skoðun sína á hlutunum, heldur særir það líka annað fólk. Ástæðan er sú að Íslendingar eru virkilega duglegir að birta það sem því finnst á veraldarvefnum og gera því athugasemdir við alls kyns fréttir án þess að spá í hvað áhrif það hefur.

Þegar hinn almenni borgari ákveður að kíkja inn á DV eða eitthvað álíka, er mjög líklegt að hann sjái einhverja áhugaverða frétt. Hann er tengdur gegnum Facebook og ákveður að gera athugasemd sem kannski er bara eitthvað jákvætt. Kannski er bara verið að hrósa þeim sem fréttin er um og það er náttúrulega bara frábært. Svo er annar maður sem tekur upp fartölvuna, spjaldtölvuna eða hvað sem er. Hann fer inn á DV, sér sömu fréttina og skoðar einnig kommentin á síðunni. Hann er ekki sammála þeim sem hrósaði þeim sem var í fréttinni, sem er svosem eðlilegt í daglegu lífi okkar Íslendinga. Af því að hann er ekki sammála þá tekur hann þá ákvörðun, að ekki bara vera ósammála heldur gera lítið úr þeim sem fannst ekki það sama og hann. Ef að manneskjan myndi segja skoðun sína í raunveruleikanum, en ekki bakvið einhvern tölvuskjá þá efast ég um að það yrði “drullað” yfir hann eins og á þessum síðum. Yfirleitt eru þeir sem gera slíka athugasemd og særa fólk sem tjáir skoðun sína, einungis fólk sem er lítið í sér og er vont við annað fólk í staðinn.

Ég er ekki að segja að það eigi að leggja þessi kerfi niður, vegna þess að þau geta verið góð á ýmsan hátt. Hins vegar væri hægt að taka harðar á þessu og mögulega banna fólki að gera athugasemdir á þessum síðum.

Þegar á heildina er litið, þá eru þessa kommentakerfi oft notuð í vitlausum tilgangi. Þau eru meira notuð til að gera lítið úr fólki heldur en að einungis láta skoðun sína í ljós sem er auðvitað réttur allra. Kannski þarf bara að láta fólk hætta þessu með einherjum hætti. Kannski er þetta bara rugl í mér en nú er ég bara að tjá skoðun mína. Vona þó að ekki verði “drullað” yfir mig 🙂

 Alex Daði Blöndal, 9. KJ Giljaskóla