main image

Getraunin

Sigurvegarar síðustu getraunar voru þau Kristjana og Snorri. Rétt svar var Akureyrarkirkja. Enn er hægt að spreyta sig á getrauninni sem birtist í blaði Grenndargralsins í 18. tölublaði af Akureyri vikublaði þann 15. maí sl. Spurt var:

Hvaða kennileiti úr heimabyggð er á þessari mynd?

Svör sendist til: grenndargral@gmail.com. Einn heppinn þátttakandi hlýtur örlítinn glaðning frá Grenndargralinu. Rétt svar og nafn sigurvegarans munu birtast á facebook-síðu Grenndargralsins í fyrstu viku júnímánaðar.

Ný rennibraut í Sundlaug Akureyrar

 

Nú er búið að ákveða að ný rennibraut verði reist við sundlaugina á Akureyri. Hún verður tekin í notkun vorið 2014 ef allt fer eftir áætlun. Rennibrautin sem nú stendur við laugina er frá árinu 1994 og er, að sögn Vikudags, orðin erfið í viðhaldi og jafnvel hættuleg. Einnig er rennibrautin sem nú stendur bara opin á sumrin en nýja brautin mun verða opin allan ársins hring.

Auðvitað eru bæði kostir og gallar við þessa framkvæmd. Sundkennari og þjálfari hefur gagnrýnt forgangsröðun þar sem að aðstaða fyrir sundkennslu og fyrir aldraða og fatlaða er einnig mjög ábótavant. Formaður íþróttaráðs, Tryggvi þór Gunnarsson, telur hins vegar að aðstaða fyrir sundkennslu og æfingar sé ekki svo slæm en hins vegar sé rennibrautin alveg úr sér gengin. Sundlaugin fékk tilboð í framkvæmd nýrrar rennibrautar sem átti að kosta allt frá 50 og uppí 100 milljónir íslenskra króna.

Mín skoðun á þessari framkvæmd er sú að auðvitað er þetta mikill peningur sem fer í þetta en vonandi koma þá líka fleiri sundlaugargestir svo að sundlaugin fái meiri pening. Ef það kæmu ekki nógu margir í sund væri líka erfitt að bæta aðstöðu fyrir kennslu, aldraða og fatlaða. Auðvitað hefði kannski verið hægt að byrja á hinu og fara svo að hugsa um nýja rennibraut en þar sem rennibrautin sem er núna er bæði orðin erfið í viðhaldi og hættuleg þá finnst mér mjög mikilvægt að gera eitthvað í því máli eins fljótt og unnt er. Þar sem langflestir sem renna sér í rennibrautinni eru börn er mjög mikilvægt að hún sé örugg fyrir þau. Ég vona líka að hægt verði að bæta aðstöðu sundkennslu og æfinga sem fyrst því auðvitað viljum við að íþróttafólkið okkar hafi sem besta aðstöðu til þess að stunda sína íþrótt. Sömuleiðis vona ég að aðgengi aldraðra og fatlaðra verði bætt þar sem það er mjög mikilvægt að allir hafi sömu möguleika á að fara í sund.

Mér finnst sem sagt mjög gott að verið sé að fara í framkvæmdir á nýrri rennibraut en vona jafnframt að eitthvað verði gert í öðru sem er ábótavant í sundlauginni sem fyrst.

Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir, 10.SKB Giljaskóla

Röng notkun á “kommentakerfum”

 

Ég ætla að skrifa um kommentakerfi á vefsíðum hér á landi. Kommentakerfi eru til notkunar á ýmsum frétta- og samskiptamiðlum, t.d. hjá DV, Vísi og Fótbolta.net. Síðurnar eiga að gegna þeim tilgangi að leyfa fólki að láta skoðun sína í ljós á einhverskonar fréttum, en sumir aðilar eiga það til ganga of langt og eru í raun bara með hreinræktaðan dónaskap. Fólk á Íslandi hefur nefnilega ofsalega gaman að því að sýna hvaða skoðun það hefur á hlutunum en stundum getur það verið öfgafullt þegar það segir hvað því finnst.

Langflestir sem eru komnir yfir ca.10 ára eru komnir á Facebook. Fyrirtækið er risastórt og veltir mörgum milljörðum árlega. Á Facebook er hægt að uppfæra stöðu sína á sjálfri síðunni og segja skoðun sína á þann hátt en einnig er hægt að gera athugasemd á öðrum vefsíðum í gegnum Facebook.

Kommentakerfi eru voðalega einföld fyrirbæri. Þau gera manni kleift að tjá skoðun sína á hlutunum á internetinu þannig að umheimurinn sjái hvað þér finnst. Þegar þetta er útskýrt á þennan hátt þá finnst manni þetta voðalega saklaust, en að mínu mati þá verða þessi kerfi til þess fólk verður sér ekki bara til háborinnar skammar þegar það tjáir skoðun sína á hlutunum, heldur særir það líka annað fólk. Ástæðan er sú að Íslendingar eru virkilega duglegir að birta það sem því finnst á veraldarvefnum og gera því athugasemdir við alls kyns fréttir án þess að spá í hvað áhrif það hefur.

Þegar hinn almenni borgari ákveður að kíkja inn á DV eða eitthvað álíka, er mjög líklegt að hann sjái einhverja áhugaverða frétt. Hann er tengdur gegnum Facebook og ákveður að gera athugasemd sem kannski er bara eitthvað jákvætt. Kannski er bara verið að hrósa þeim sem fréttin er um og það er náttúrulega bara frábært. Svo er annar maður sem tekur upp fartölvuna, spjaldtölvuna eða hvað sem er. Hann fer inn á DV, sér sömu fréttina og skoðar einnig kommentin á síðunni. Hann er ekki sammála þeim sem hrósaði þeim sem var í fréttinni, sem er svosem eðlilegt í daglegu lífi okkar Íslendinga. Af því að hann er ekki sammála þá tekur hann þá ákvörðun, að ekki bara vera ósammála heldur gera lítið úr þeim sem fannst ekki það sama og hann. Ef að manneskjan myndi segja skoðun sína í raunveruleikanum, en ekki bakvið einhvern tölvuskjá þá efast ég um að það yrði “drullað” yfir hann eins og á þessum síðum. Yfirleitt eru þeir sem gera slíka athugasemd og særa fólk sem tjáir skoðun sína, einungis fólk sem er lítið í sér og er vont við annað fólk í staðinn.

Ég er ekki að segja að það eigi að leggja þessi kerfi niður, vegna þess að þau geta verið góð á ýmsan hátt. Hins vegar væri hægt að taka harðar á þessu og mögulega banna fólki að gera athugasemdir á þessum síðum.

Þegar á heildina er litið, þá eru þessa kommentakerfi oft notuð í vitlausum tilgangi. Þau eru meira notuð til að gera lítið úr fólki heldur en að einungis láta skoðun sína í ljós sem er auðvitað réttur allra. Kannski þarf bara að láta fólk hætta þessu með einherjum hætti. Kannski er þetta bara rugl í mér en nú er ég bara að tjá skoðun mína. Vona þó að ekki verði “drullað” yfir mig 🙂

 Alex Daði Blöndal, 9. KJ Giljaskóla

Sigurvegarar í ljósmyndasamkeppni 10. JAB í Giljaskóla

Höfundar: Hafþór Freyr Sveinsson, Jóhannes Björn Gylfason og Sigurður Már Steinþórsson.