main image

Fyrir 100 árum síðan

Fyrr á tímum var algengt að dagblöðin fylgdust með hvaða gestir dvöldust í bænum og birtu tilkynningar þess efnis. Í Norðurlandi birtist tilkynning þann 31. janúar árið 1914 undir heitinu Aðkomumenn.  

 „Guðm. Davíðsson hreppstjóri og óðalsbóndi á Hraunum í Fljótum, Ólöf frú hans og Einar Baldvin stúdent sonur þeirra komu til bæjarins á fimtudaginn og höfðu farið fótgangandi alla leið og á skíðum yfir Reykjaheiði. Rösklega af sér vikið.

Norðurland 14. árg. 1914, 5. tölublað (31.01.1914), blaðsíða 15

 

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Hríseyjarskóli sem í vetur hefur tekið þátt í verkefni Landsbyggðarvina. Á dögunum hlaut skólinn önnur verðlaun fyrir ritgerðir sem fjórir nemendur á unglingastigi skólans skrifuðu um kosti byggðarlagsins  og eins hvað betur mætti fara í heimabyggð. Á heimasíðu Hríseyjarskóla segir; „Landsbyggðarvinir er  félag sem  býður nokkurm skólum ár hvert upp á verkefni þar sem unnin er  hugmyndavinna  til  að styrkja heimabyggð þeirra skóla  sem valdir eru hvert sinn. Yfirskrift verkefnisins er:  Sköpunargleði – Heimabyggðin mín, Nýsköpun, Heilbrigði og Forvarnir.“ Verðlaunaafhending fór fram í Háskólanum í Reykjavík. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra afhenti verðlaunin.

Það voru þau Einar Örn Gíslason, Jara Sól Ingimarsdóttir, Mónika Sól Jóhannsdóttir og Rúnar Freyr Júlíusson sem skrifuðu ritgerðirnar sem hlutu náð fyrir augum dómnefndarinnar. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim. Til hamingju Hríseyjarskóli.