main image

Grenndargralið er fundið!!!!!!!!

Leitinni að Grenndargralinu 2013 er lokið. Það voru þeir Bergvin Leif Garðarsson og Patrik Orri Jóhannsson úr 9. bekk í Giljaskóla sem fundu Gralið þetta árið. Þeir eru því sigurvegarar í Leitinni að Grenndargralinu árið 2013.

Síðasta þraut birtist á heimasíðunni kl. 15:30 og þá fór allt af stað. Þátttakendur reyndu að finna rétt svör og gerðu það í kapphlaupi við tímann. Bergvin og Patrik voru fyrstir til að fá lokavísbendinguna sem vísaði á Gralið. Þeir voru mættir á Bryggjuna rúmum þremur klukkustundum eftir að þrautin fór í loftið þar sem þeir tóku við Grenndargralinu. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim félögum sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Þeir eru allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þeir öðrum mikil fyrirmynd. Gralið verður geymt næsta árið í Giljaskóla en þetta er í annað skiptið á sex árum sem nemendur Giljaskóla vinna Leitina. Formleg afhending Gralsins fer fram mánudaginn 2. desember. Við óskum Bergvin og Patrik, sem og Giljaskóla, til hamingju með sigurinn.

Kapphlaupið um Grenndargralið er hafið!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Leitinni að Grenndargralinu 2013 að ljúka

Löng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa staðið sig með mikilli prýði. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á Gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar föstudaginn 15. nóvember kl. 15:30. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut nr. 10 er rétt fá þátttakendur síðasta bókstafinn frá umsjónarmanni. Eftir að hafa fundið út lykilorðið og komið því til umsjónarmanns fá þátttakendur lokavísbendingu sem vísar þeim á Gralið. Það lið sem finnur Gralið sigrar í Leitinni að Grenndargralinu 2013. Sigurvegararnir taka Gralið með sér en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu, fengið bókstafina sem þeim fylgja og fundið lykilorðið fá lokavísbendinguna sem vísar á Gralið.

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið.
Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa. Munið að góðir hlutir gerast hægt!

Gangi ykkur vel.

Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Leitarinnar.

Leví er í Leitinni til að hafa gaman af öllu saman!

Antilópurnar ætla sér sigur!

Níunda vika hafin – Ein vika eftir af Leitinni 2013!!!

Níunda og næstsíðasta þraut er komin í loftið. Í henni segir frá manni sem fæddist að bænum Laufási, gerðist bóndi á bænum Espihóli og bjó síðar á Laugalandi á meðan hann gegndi þingmennsku fyrir Eyfirðinga. Hann var bróðir hins kunna Gránufélagsmanns Tryggva Gunnarssonar en stóð í skugga bróður síns. Hann vildi sanna að hann væri ekki minni maður en Tryggvi en eitthvað mikið fór úrskeiðis. Hann átti erfitt með að standa við skuldbindingar sínar og greip til örþrifaráða.

Föstudaginn 15. nóvember fer tíunda og síðasta þraut í loftið. Þá hefst kapphlaupið um Grenndargralið…

Áttunda vika Leitarinnar farin af stað!

 

Mögnuð saga tveggja dularfullra manna í þraut vikunnar. Báðir bjuggu í Eyjafirði á sitthvoru tímabilinu. Þeir áttu ýmislegt sameiginlegt. Báðir nutu þeir mikillar virðingar og komu úr efstu stétt aðalsmanna. Annar var þingmaður og hinn heimsþekktur uppfinningamaður. Þeir voru þekktir fyrir góðmennsku og hjálpsemi og áttu auðvelt með að hrífa fólk með sér. Annar hóf lífsgöngu sína í Ameríku en hinn er talinn hafa endað sína þar. Báðir eru álitnir hafa lifað í vellystingum þann tíma sem þeir voru í Bandaríkjunum. Þá áttu þeir það sameiginlegt að enda ævina á nokkuð óhefðbundinn hátt. Báðir létu þeir sig hverfa, annar í sjóinn en óvíst er um afdrif hins.