main image

Kristján Rúnar fann Karamellukrukkuna

Kristján Rúnar Kristjánsson, nemandi í Síðuskóla, er handhafi Karamellukrukkunnar árið 2013. Leitin fór fram föstudaginn 18. október en þátttakendur fengu afhent umslag kl. 16:00 sem innihélt stuttan texta og kort sem gaf vísbendingu um felustað Krukkunnar. Hún var í öruggri vörslu trékarlsins stóra í Kjarnaskógi (sjá mynd). Kristján fær að launum hamborgaraveislu fyrir tvo í boði Hamborgarafabrikkunnar. Til hamingju Kristján Rúnar!

Við spurðum Kristján hvernig leitin hefði gengið.

 

“Frænka mín (Sigrún María Engilbertsdóttir sem er dóttir systur minnar) var með mér í leitinni og hún er með mér á myndinni. Við föttuðum strax að orðið sem átti að finna var skógur svo við fórum strax í Kjarnaskóg. Fyrst fórum við að húsinu og vissum ekkert hvar við áttum að leita. Við vorum að hugsa um  að fara í Lystigarðinn en ákváðum að fara fyrst að sólúrinu. Þar sáum við annað lið vera að skoða kortið og svo hljóp það í burtu. Þá fórum við að skoða kortið og sáum fyrst ekkert út úr því en vorum samt að reyna að finna uppdráttinn sem var á miðanum og fundum hann eftir svolitla stund. Þá föttuðum við hvar ætti að leita og hlupum þangað en stoppuðum og biðum eftir að einn færi sem var að leita þar. Þegar hann var farinn hlupum við þangað og toguðum í grasið allt í kring þangað til við fundum krukkuna. Það var því eiginlega bara tilviljun að við fundum rétt svæði til að leita á.”

Kveðja: Kristján Rúnar.