Úrslit í Grenndargrali fjölskyldunnar liggja fyrir. The Hólms fór með sigur af hólmi eftir harða baráttu við níu önnur lið. Liðsmenn The Hólms mega því fara að rýma til í stofuhillunni því gripurinn sem barist var um er nú kominn í hendur eigenda sinna.
Tíu lið, að mestu skipuð fjölskyldum, kláruðu þrautirnar þrjár og tryggðu sér þar með réttinn til að leita að gralinu. Leitin fór fram laugardaginn 25. ágúst .Hún hófst með því að forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Geir Kristinn Aðalsteinsson, afhenti fulltrúum liðanna umslag sem innihélt lokavísbendinguna sem vísaði á gralið. Afhendingin fór fram í Hofi klukkan 14:30. Nokkrum augnablikum síðar kom hópur fólks hlaupandi út úr Hofi með umslag í höndunum en fyrir utan biðu aðrir liðsmenn í bílum tilbúnir að rjúka af stað. Næstu mínútur fóru í að keyra milli staða í bænum til að sækja bókstafi og tölu til viðbótar við bókstafi sem voru í umslaginu. Þátttakendur þurftu að raða saman stöfunum og tölunni til að komast á slóðir gralsins. Innan við klukkustund eftir að lokavísbendingin var afhent í Hofi höfðu liðsmenn The Hólms áttað sig á hvert stefna skyldi. Liðið endaði á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð þar sem gralið beið þeirra. Aðeins örfáum mínútum síðar höfðu þrjú lið bæst í hópinn en þau gripu í tómt. Önnur lið ýmist komu á áfangastað seinna eða hættu leit þegar ljóst var orðið að gralið væri fundið. Á Hlíð var tekið á móti þátttakendum með kleinum og safa undir ljúfum harmonikkutónum svo allir færu nú glaðir heim, jafnt sigurvegarar sem aðrir.
Grenndargrali fjölskyldunnar lýkur föstudagskvöldið 31. ágúst þegar gralið verður afhent sigurvegurunum formlega í Lystigarðinum. Öll liðin tíu fá viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna.

The Hólms með gralið fyrir utan Hlíð. Á myndinni eru Heimir Kristinsson, Linda Björk Óladóttir, Ingibjörg Rannveig Rósenbergs, Kamilla Ósk Heimisdóttir og Karen Lind Helgadóttir. Myndina tók liðsmaður The Hólms, Helgi Rúnar Bragason.
Eftir æsispennandi lokasprett fannst gralið fyrir örfáum mínútum. The Hólms tókst ætlunarverk sitt á tæpum fjörtíu mínútum frá því að lokavísbending var afhent. Önnur lið voru á hælum sigurvegaranna þannig að þetta var spurning um mínútur, kannski sekúndur. Nánari upplýsingar síðar.
Kæru þátttakendur
Senn líður að lokum leitarinnar að Grenndargrali fjölskyldunnar. Þið hafið leyst þrautirnar þrjár á þann hátt sem ætlast var til og þannig unnið ykkur rétt til að leita að gralinu. Þið fáið umslag sem hefur að geyma eina lokavísbendingu sem vísar á gralið. Eftir að þið fáið umslagið í hendur snýst allt um að vera fljót að hugsa og framkvæma. Þið megið notast við öll möguleg hjálpargögn sem hugsanlega geta leitt ykkur áfram á slóðir gralsins.
Forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Geir Kristinn Aðalsteinsson, mun afhenda umslögin. Við viljum biðja liðin, eða fulltrúa þeirra, um að hitta Geir í Hofi laugardaginn 25. ágúst kl. 14:30 og gera grein fyrir sér (nafn liðs).
Við viljum jafnframt biðja ykkur sem finnið gralið um að hafa samband í kjölfarið við umsjónarmann Grenndagrals fjölskyldunnar og láta vita af fundi gralsins.
Þá megið þið gjarnan taka myndir af leiðangrinum og senda umsjónarmanni svo hægt verði að birta þær á heimasíðu og facebook-síðu gralsins.
Gangi ykkur vel!
Umsjónarmenn Grenndargrals fjölskyldunnar.
Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér rétt til að komast í hóp þeirra sem munu berjast um Grenndargral fjölskyldunnar. Þrautirnar þrjár sem þarf að leysa til að fá lokavísbendinguna sem vísar á gralið verða í boði fyrir áhugasama fram að föstudeginum 24. ágúst. Aðeins þeir sem skila inn réttum lausnum við þrautunum þremur fyrir föstudaginn 24. ágúst fá lokavísbendinguna sem vísar á gralið.
Síðustu daga hafa fjögur lið bæst í hóp þeirra sem fyrir voru. Það eru Grallararnir, Hrafnsungarnir, Stóri heili og Valdi magri. Níu lið berjast því þessa stundina um gripinn góða. Liðunum gæti enn átt eftir að fjölga þar sem ennþá er tími til að hefja leik.
Ingvar Engilbertsson sá um að hanna og smíða gralið. Til þess notaði hann stofn Randers-trésins frá síðustu jólum. Ákveðið var að nýta tréð, ekki síst vegna tengsla Akureyrar við danska kaupmenn og Danmörku fyrr á tímum. Stefanía Fjóla Elísdóttir sá um að klæða gralið í sparibúninginn með því að setja á það myndir og áletrun. Útkoman er einstaklega glæsilegur gripur. Hér er án efa á ferðinni einhver skemmtilegasti minnisvarði um 150 ára afmæli bæjarins enda er hann einstakur – í bókstaflegri merkingu 🙂
Grenndargral fjölskyldunnar verður til sýnis í Eymundsson frá og með þriðjudeginum 21. ágúst til og með föstudeginum 24. ágúst.

Þriðja og síðasta þraut er komin í loftið. Tuttugu duglegir leiðangursmenn í fimm liðum berjast þessa stundina um fjölskyldugralið. Liðin eru: Bergmann, Dýragarðurinn, Móaliðið, The Hólms og Vitringarnir þrír.
Lokavísbending sem vísar á gralið verður afhent laugardaginn 25. ágúst( nánar auglýst síðar). Vísbendingin verður aðeins veitt þeim þátttakendum sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við þrautunum þremur fyrir föstudaginn 24. ágúst. Við viljum biðja þátttakendur um að fylgjast vel með gangi mála á www.grenndargral.is dagana fram að afhendingu lokavísbendingar.
Enn er einfalt að hefja leik. Þrautirnar þrjár eru á sínum stað og verða fram að föstudeginum 24. ágúst. Allt sem þarf að gera er að smella á logo Grenndargrals fjölskyldunnar hér til vinstri og finna fyrstu þraut.
Eftirleikurinn er auðveldur – en jafnframt skemmtilegur 🙂
Umsjónarmenn Grenndargrals fjölskyldunnar.
Önnur vika í Grenndargrali fjölskyldunnar er hafin og lausnir eru byrjaðar að berast inn til umsjónarmanna. Í fyrstu þraut hafa þátttakendur m.a. farið á slóðir drauga og morðingja. Í annarri þraut kveður við annan tón. Þar segir frá tveimur drengjum sem bjuggu á Akureyri á 19. öld. Þeir þekktust á uppvaxtarárunum á Akureyri en leiðir skildu þegar þeir fluttu erlendis. Annar varð þekktur rithöfundur víða um heim. Hinn var ekki síður hæfileikaríkur á sínu sviði. Hver var hann og í hverju fólust hæfileikar hans? Nálgast má þrautirnar tvær með því að smella á logo Grenndargrals fjölskyldunnar hér til vinstri.
Ekki er of seint að taka þátt. Fyrsta þraut mun verða aðgengileg þar til yfir lýkur og sama má segja um þrautirnar sem fylgja í kjölfarið. Hægt er að hefja leik hvenær sem er á tímabilinu 1. – 24. ágúst.
Smellið á logo Grenndargrals fjölskyldunnar hér til vinstri til að sækja fyrstu þrautina…
