main image

GRALIÐ ER FUNDIÐ!

Leitinni að grenndagralinu 2011 lauk mánudagskvöldið 7. nóvember. Það voru þeir Arnar Logi Kristjánsson og Hermann Biering Ottósson úr Glerárskóla sem fundu gralið. Þeir eru í 8. bekk.

Tíunda og síðasta þrautin fór í loftið kl. 17:00. Um var að ræða sex ljósmyndir af þekktum Eyfirðingum, lífs eða liðnum. Búið var að afmynda myndirnar svo erfiðara reyndist að glöggva sig á andlitunum. Myndirnar má sjá hér á síðunni undir liðnum Þraut vikunnar. Þátttakendur áttu að hringja í umsjónarmann Leitarinnar þegar þeir töldu sig hafa nöfnin og fá í kjölfarið þrjá síðustu bókstafina. Liðin voru misjafnlega lengi að átta sig á myndunum þrátt fyrir góðan stuðning fjölskyldumeðlima. Víða höfðu þeir safnast saman til að hjálpa þátttakendum á lokametrunum. Allt var lagt í sölurnar til að nálgast gralið. Hringt var í vini, vandamenn og jafnvel fræðimenn á hinum ýmsu sviðum.

Sumar myndirnar vöfðust nokkuð fyrir krökkunum og aðstoðarmönnum þeirra. Ein reyndist þeim þó sérstaklega erfið en allt hafðist þetta á endanum. Eftir að hafa fengið þrjá síðustu bókstafina tók næsta verkefni við. Nú þurfti að raða saman bókstöfunum og finna lykilorðið. Lykilorðið í ár var Hrappsstaðaá. Þegar það var í höfn fengu þátttakendur lokavísbendingu og þar með var vinnu umsjónarmanns lokið og þátttakendur á eigin vegum. Vopnaðir upphafslínum tveggja ljóða lögðu þeir af stað í mikla leit að tengingu við dvalarstað grenndargralsins. Þeir þátttakendur sem áttuðu sig á að ljóðin tvö báru sama heiti sáu fljótt á að þar hlaut vísbendingin að liggja. Ljóðin heita Heimkoman rétt eins og bók sem Björn Þorláksson, ritstjóri með meiru, gaf út árið 2009. Þeir félagar Arnar Logi og Hermann voru fljótastir allra að yfirstíga hindranir kvöldsins og átta sig á tengingu ljóðanna við Björn og voru mættir að heimili hans um kl. 19:00. Björn tók vel á móti stoltum sigurvegurunum og afhenti þeim gralið.

Tveir höfðu lokið leik meðan hópur duglegra krakka barðist áfram við þrautir og vísbendingar, ýmist heima fyrir framan tölvuna eða úti í hlýju sunnanrokinu. Liðið sem varð í öðru sæti fórnaði höndum af vonbrigðum og skal engan undra. Eftir allt erfiðið er sárt að sjá á eftir því sem allt snýst um. Síðustu gestir að heimili Björns Þorlákssonar þetta kvöld komu um kl. 21:30. Enn voru þátttakendur að hringja í umsjónarmenn þegar aðeins um ein klukkustund lifði af deginum. Áður en nóttin skall á höfðu sumir gert áætlanir um að halda áfram leit morguninn eftir. Þegar þriðjudagurinn 9. nóvember rann upp höfðu fæstir frétt af fundi gralsins. Það var svo loksins staðfest kl. 8:40 að gralið væri fundið og nokkru síðar kom tilkynning þess efnis hér á heimasíðu Leitarinnar.

Umsjónarmenn Leitarinnar óska sigurvegurunum og öllum þeim sem fóru alla leið og kláruðu þrautirnar tíu til hamingju með árangurinn. Þið stóðuð ykkur vel og megið vera stolt af frammistöðu ykkar. Með henni hafið þverið öðrum góð fyrirmynd og sýnt að með þrautseigju og áræðni er hægt að ná langt.

 

Lokaspretturinn er hafinn…

Leitinni lýkur senn!

Mánudaginn 7. nóvember hefst tíunda og jafnframt síðasta vika Leitarinnar að grenndargralinu 2011. Löng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa lagt mikið á sig við lausn þrautanna. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar mánudaginn 7. nóvember kl. 17:00. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur geta skilað henni af sér á skólatíma eins og tíðkast hefur fram að þessu. Þar sem tíminn skiptir öllu máli nú má koma lausninni áleiðis með öðrum hætti svo sem með tölvupósti eða símtali. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut 10 er rétt fá þátttakendur lokavísbendingu frá umsjónarmanni. Hún vísar þátttakendum á gralið. Það lið sem finnur gralið sigrar í Leitinni að grenndargralinu 2011. Sigurvegararnir taka gralið með sér ef þeir hafa tök á því en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu og fengið bókstafina sem þeim fylgja geta fengið lokavísbendinguna sem vísar á gralið.

 

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið. Aðeins tvö verkefni sem þarf að leysa áður en það kemst í ykkar hendur.

Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Vera kann að síðustu tvö verkefnin reyni á þolrifin hjá einhverjum. Hafið það hugfast að þið eruð búin að sýna margoft að þið getið leyst verkefni sem við fyrstu sýn virðast óleysanleg. Með þolinmæði og elju er allt hægt. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa. Munið að góðir hlutir gerast hægt!

Gangi ykkur vel.

Umsjónarmenn Leitarinnar að grenndargralinu.