Nú verða sagðar fréttir!

Grenndargral.is bætist nú í hóp fjölmiðla sem segja fréttir úr heimabyggð og það með hjálp grunnskólanemenda. Nemendum í 8. – 10. bekk allra grunnskóla á Akureyri gefst nú tækifæri til að setja sig í spor fréttamanna. Þeir fara á stúfana og leita uppi athyglisverða viðmælendur og skemmtilegar uppákomur.

Þátttökuskólarnir tíu eru: Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Grímseyjarskóli, Hríseyjarskóli, Hlíðaskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli, Síðuskóli og Naustaskóli.

Á heimasíðum skólanna má finna fjölmargar skemmtilegar fréttir úr skólalífinu. Þær fjalla um nemendur og störf þeirra í skólunum. Oftar en ekki eru fréttirnar skrifaðar af starfsmönnum skólanna en ekki af nemendum sjálfum. Kominn er tími á að nemendur miðli sjálfir fréttum um skólalífið og atburði nærsamfélagsins til samnemenda og annarra sem áhuga hafa á.

Möguleikarnir eru óteljandi þegar kemur að því að búa til frétt. Hún getur t.d. fjallað um skemmtilegan atburð úr fortíðinni, spennandi viðfangsefni úr samtímanum eða viðtal við áhugaverða manneskju. Góður fréttamaður segir frá einhverju sem ekki hefur verið sagt frá áður eða finnur nýjan flöt á eldri frétt. Eina skilyrðið er að fréttin hafi tengsl við sögu og/eða menningu heimabyggðar. Þannig fellur hún undir meginþema heimasíðunnar sem fréttin birtist á.

Fréttin skal vera 200-600 orð og skráð á tölvutæku formi. Með fréttinni skal fylgja fyrirsögn og 1-2 myndir. Þá skulu nöfn höfunda koma fram og úr hvaða skóla þeir koma. Höfundar mega að hámarki vera fjórir saman með hverja frétt. Senda skal fréttina og myndirnar á póstfangið brynjar@akmennt.is. Huga skal að málfari og stafsetningu en umsjónarmenn heimasíðunnar áskilja sér rétt til að gera viðeigandi breytingar þar að lútandi. Þá gildir hið fornkveðna við gerð fréttar að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Í hverjum mánuði verður áhugaverðasta fréttin valin og hljóta höfundar hennar viðurkenningu auk veglegra verðlauna. Úrslit verða birt á www.grenndargral.is um hver mánaðamót ásamt mynd af verðlaunahöfum.

Vertu með í að búa til fréttasíðu unga fólksins heima í héraði. Farðu af stað, finndu spennandi viðfangsefni og leyfðu öðrum að lesa sér til gagns og gamans.

Hér koma nokkrar hugmyndir að fréttum:

  • segja frá daglegu lífi í skólanum, verkefnavinnu eða uppbroti í skólastarfi
  • taka stutt viðtal við ömmu og afa og spyrja þau um lífið í gamla daga
  • fjalla um/gagnrýna menningarviðburði sem höfða til unglinga svo sem leiksýningar, tónleika og nýjustu myndirnar í bíóhúsunum
  • rifja upp sögulega atburði sem áttu sér stað í heimabyggð fyrir 10, 20, 30 árum o.s.frv.
  • segja fréttir úr nánasta umhverfi grunnskólanna. Af hverju eru stórar vinnuvélar ofan við Síðuskóla? Hver er reynslan af nýja íþróttahúsinu við Giljaskóla?
  • fjalla um aðstöðu/aðstöðuleysi unglinga í skólum bæjarins í frímínútum. Hvernig fara nemendur í Oddeyrarskóla að því að safna sér fyrir poolborði?
  • Hvaða þýðingu hafa Glerárvision fyrir Glerárskóla og Brekkuvision fyrir Brekkuskóla?
  • Hvað eru Fjölgreindaleikar í Lundarskóla og N-faktor í Naustaskóla?
  • Hver er sagan á bak við manninn sem keyrir skólabíl Hlíðarskóla?
  • Hvað er að frétta úr Hríseyjar- og Grímseyjarskóla?

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd