Grenndargralið er fundið!

Það voru Mjölnismennirnir, þeir Aron Elvar og Baldvin Kári úr Glerárskóla sem fundu grenndargralið þetta árið. Þeir eru því sigurvegarar í Leitinni að grenndargralinu árið 2010.

Óhætt er að segja að mánudaginn 8. nóvember hafi ríkt mikil stemning á heimilum þátttakenda og umsjónarmanna Leitarinnar þegar síðasta þrautin fór í loftið. Þrautin birtist á heimasíðunni kl. 19:00 og þá fór allt af stað. Þáttakendur reyndu að finna rétt svör og gerðu það í kapphlaupi við tímann. Í einhverjum tilfellum nutu þeir aðstoðar fjölskyldunnar og jafnvel góðra manna út í bæ. Umsjónarmenn svöruðu í símann meira og minna allt kvöldið, ýmist þannig að það olli miklum vonbrigðum hinum megin símalínunnar eða vakti upp mikil gleðihróp. Já, tilfinningarnar voru miklar þessa kvöldstund. Leið drjúgur tími þar til fyrsta liðið hafði leyst þrautina. Í kjölfarið fengust tveir síðustu bókstafirnir og þá hófst vinna við að raða bókstöfunum ellefu saman og finna lykilorðið. Eftir að það var í höfn fengu liðin lokavísbendinguna sem vísaði á gralið. Einhverjir náðu þessu öllu áður en gengið var til náða og héldu út í náttmyrkrið með það að markmiði að finna gripinn. Meðal viðkomustaða voru kirkjugarðurinn og Lystigarðurinn. Gralið varð að bíða sigurvegaranna til næsta dags.

Sum liðin töldu að vísbendingin vísaði á menningarhúsið Hof og gerðu ráðstafanir í því skyni að komast þangað snemma morguninn eftir. Það gerðu Aron og Baldvin og þar veðjuðu þeir á réttan hest. Þeir voru mættir kl. 07:30 fyrstir allra. Þeir félagarnir höfðu upp á húsverðinum í Hofi sem aðstoðaði þá við að hafa upp á gralinu. Næstu þátttakendur sem mættu á staðinn horfðu á eftir sigurvegurunum ganga út með gralið undir höndunum í sigurvímu. Að sögn þeirra var erfitt að horfa upp á það eftir alla vinnuna sem þeir höfðu lagt í verkefnið síðustu tíu vikur eða svo. Síðustu liðin voru enn að leita síðdegis á þriðjudeginum en þá fór að spyrjast út meðal nemenda þátttökuskólanna að gralið væri fundið.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim Aroni og Baldvini sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Í vissum skilningi eru þessir krakkar allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þau öðrum mikil fyrirmynd.

Glerárskóli er þriðji skólinn á jafnmörgum árum til að hýsa grenndargralið. Víst er að það mun sóma sér vel þar næsta árið gestum og gangandi til yndis og ánægjuauka. Þá er gaman að geta þess að Aron og Baldvin eru fyrstu strákarnir til að sigra í Leitinni að grenndargralinu.

Við óskum Mjölnismönnum og Glerárskóla til hamingju með sigurinn.

Umsjónarmenn Leitarinnar að grenndargralinu 2010,

Brynjar, Helga og Sigrún.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd